1. gr.
Samkvæmt reglum þessum er heimilt að nota hér á landi erlent ökutæki, þ.e. ökutæki í eigu aðila sem á heimili erlendis og ekki er skráð hér á landi, enda hafi tollyfirvald heimilað innflutning þess samkvæmt reglum um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla, sbr. nú reglugerð nr. 160 30. mars 1990.
2. gr.
Ökutækið skal vera skráð í heimalandi sínu, annað hvort til almennrar notkunar eða til tímabundinnar notkunar í erlendu ríki. Ökutækið skal bera skráningarmerki og því skal fylgja gilt skráningarskírteini. Ökutækið skal og að aftan bera þjóðernismerki skráningarlands.
Ökutæki sem er skráningarskylt samkvæmt umferðarlögum en er ekki skráningarskylt samkvæmt reglum heimalands má nota samkvæmt reglum þessum enda haldi tollyfirvald sérstaka skrá yfir slík ökutæki. Þetta gildir þó ekki um bifreiðir, bifhjól, önnur en létt bifhjól, eða eftirvagna bifreiða sem gerðir eru fyrir a.m.k. 750 kg heildarþyngd.
3. gr.
Ökutæki skal uppfylla þau ákvæði um gerð og búnað og skoðun, sem gilda í því ríki sem það er skráð í, sem ekki skulu vera vægari en ákveðið er í viðauka 6 við alþjóðasamning um umferð á vegum frá 19. september 1949, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 9/1983. Ökutækið skal búið aðalljósum fyrir hægri umferð. Ástand ökutækis skal vera viðhlítandi.
Ef vafi leikur á því hvort ökutæki uppfylli skilyrði um búnað má krefjast þess að það verði fært til skoðunar.
Ákvæði reglna um stærð og þyngd ökutækja gilda einnig um erlend ökutæki.
4. gr.
Ökutæki skal vátryggt ábyrgðartryggingu samkvæmt ákvæðum umferðarlaga.
Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. ábyrgjast að ökutæki sem skráð er erlendis en hér er notað um stundarsakir sé vátryggt lögmæltri ábyrgðartryggingu ef önnur vátrygging er ekki fyrir hendi enda hafi ökumaður (umráðamaður) ökutækisins við innflutning þess lagt fram alþjóðlegt vátryggingarkort fyrir ökutæki ("grænt kort") sem út er gefið í samræmi við reglur þær um alþjóðlegar bifreiðatryggingar sem undirnefnd um vegflutninga í innanlandsflutninganefnd efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu hefur mælt með.
Þó skal litið svo á að vátryggingarskyldunni hafi verið fullnægt að því er varðar ökutæki sem skráð eru í ríkjum sem aðild eiga að marghliða ábyrgðarsamningi milli landsskrifstofa vátryggingarfélaga að því er varðar ábyrgðartryggingu ökutækja er fara landa í milli, sjá nánar viðauka I, og skulu þau undanþegin eftirliti í því efni við komu til landsins. Þetta á þó ekki við um ökutæki, sem nefnd eru í viðauka II, og er ökumönnum (umráðamönnum) þeirra skylt að framvísa "grænu korti" eða annarri staðfestingu á því að gild ábyrgðartrygging hafi verið keypt fyrir ökutækið til notkunar hér á landi.
5. gr.
Notkun ökutækis er aðeins heimil þann tíma og með þeim skilyrðum sem tollyfirvald setur. Notkun ökutækisins er eigi heimil eftir að ökutækið hefur verið endanlega tollafgreitt og ekki lengur en í eitt ár frá því ökutækið kom til landsins.
6. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 66. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1. júlí 1993.
Þorsteinn Pálsson.
Ólafur W. Stefánsson.
Viðauki I
Ökutæki frá eftirtöldum ríkjum teljast hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu við komu til landsins, og þarf ekki að framvísa grænu korti því til staðfestingar, sbr. þó undantekingar í viðauka II.
Austurríki
Belgía
Danmörk (ásamt Færeyjum)
Finnland
Grikkland
Holland
Írland
Ítalía (ásamt San Marínó og Páfagarði)
Lúxemborg
Noregur
Sviss (ásamt Liechtenstein)
Stóra-Bretland og Norður-Írland (ásamt Ermasundseyjum, Mön og Gíbraltar)
Svíþjóð
Tékkóslóvakía (frá 1. janúar 1994 Tékkland og Slóvakía)
Ungverjaland
Þýskaland
Viðauki II
Eftirtalin ökutæki frá ríkjum sem tilgreind eru í viðauka I eru háð eftirliti með því hvort vátryggingarskyldu sé fullnægt, þó að önnur ökutæki frá þeim ríkjum séu undanþegin slíku eftirliti:
Belgía
Ökutæki með tímabundna skráningu (tollnúmer).
Frakkland (ásamt Mónakó)
Herflutningatæki sem falla undir skilmála alþjóðasamninga.
Grikkland
1. Ökutæki sem tilheyra milliríkjastofnunum (græn skráningarmerki með bókstöfunum
"CD" og "D S " og skráningarnúmeri á eftir).
2. Ökutæki sem tilheyra herafla NATO eða hermönnum og borgaralegu starfsliði NATO (gul skráningarmerki með bókstöfunum "X A" og skráningarnúmeri á eftir).
3. Ökutæki sem tilheyra gríska hernum (skráningarmerki með bókstöfunum "ES ").
4. Ökutæki sem tilheyra "Sameinuðum herafla" í Grikklandi (skráningarmerki með bókstöfunum "AFG").
5. Ökutæki sem búin eru tímabundnum skráningarmerkjum (tollnúmerum) (hvít skráningarmerki með bókstöfunum "D IIIEA" og "EY" og skráningarnúmeri á eftir).
6. Ökutæki með reynslumerki (hvít skráningarmerki með bókstöfunum "D OKIMH" og skráningarnúmeri á eftir).
Holland
1. Ökutæki með tímabundna skráningu (tollnúmer).
2. Einkaökutæki hollenskra hermanna og fjölskyldna þeirra sem aðsetur hafa í Þýskalandi.
3. Ökutæki sem tilheyra þýskum hermönnum sem aðsetur hafa í Hollandi.
4. Ökutæki sem tilheyra einstaklingum sem tengjast aðalstöðvum "Sameinaðs herafla í MiðEvrópu" .
5. Þjónustuökutæki herafla NATO.
Írland
Ökutæki með tímabundna skráningu (tollnúmer).
Ítalía (ásamt San Marínó og Páfagarði)
1. Ökutæki með tímabundna skráningu.
2. Ökutæki sem tilheyra herafla og öðru herliði og borgaralegu liði sem alþjóðasamningar gilda um (t.d. "AFI" merki og alþjóðastofnanir eins og NATO).
3. Ökutæki sem ekki eru búin skráningarmerki (einkum reiðhjól með hjálparvél).
4. Landbúnaðarvélar (svo sem landbúnaðardráttarvélar, eftirvagnar þeirra og öll önnur ökutæki sem hönnuð eru sérstaklega til nota við landbúnaðarstörf).
Lúxemborg
Ökutæki með tímabundna skráningu, eftir að sá tími er liðinn sem tilgreindur er á skráningarmerkinu.
Portúgal
1. Landbúnaðarvélar og önnur vélknúin tæki sem samkvæmt portúgölskum lögum þurfa ekki að bera skráningarmerki.
2. Ökutæki sem tilheyra erlendum ríkjum og alþjóðasamtökum sem Portúgal á aðild að (hvít skráningarmerki með rauðum tölustöfum og bókstöfunum "CD" eða "FM" á undan).
3. Ökutæki sem tilheyra portúgalska ríkinu (svört skráningarmerki með hvítum tölustöfum
og bókstöfunum "AM", "AP", "EP", "ME", "MG" eða "MX" á undan, eftir því hvaða ríkisstofnun á í hlut).
Stóra-Bretland og Norður-Írland (ásamt Ermasundseyjunum, Gíbraltar og Mön)
1. Ökutæki NATO sem falla undir ákvæði Lundúnasamingsins frá 19. júní 1951 og Parísarbókunarinnar frá 28. ágúst 1952.
2. Ökutæki með tímabundna skráningu í Gíbraltar (tölustafir með bókstöfunum "GG" á undan).
Sviss og Liechtenstein
1. Handstýrð ökutæki með vél og vélar til nota við landbúnaðarstörf sem eru með einum ási og einungis er stjórnað af einum gangandi manni, og ekki eru notaðar til að draga eftirvagn, þegar fimm mánuðir eru liðnir frá því límmiðinn féll úr gildi.
2. Reiðhjól með hjálparvél og hjólastólar fyrir fatlaða þar sem sprengirými vélar fer ekki yfir 50 rúmsentimetra og hraðinn við venjulegar aðstæður getur ekki farið yfir 30 km á klst., þegar fimm mánuðir eru liðnir frá því skráningarmerkið féll úr gildi.
3. Ökutæki með tímabundna skráningu (tollnúmer), eftir að sá tími er liðinn sem tilgreindur er á skráningarmerkinu.
Ungverjaland
1. Vélknúin ökutæki með skráningarmerki sem á er letrað "DT" og "CK".
2. Vélknúin ökutæki án skráningarmerkja.
Þýskaland
1. Ökutæki sem ekki eru hönnuð til að ná meiri hraða en 6 km á klst.
2. Vélknúin tæki sem ná ekki meiri hraða en 20 km á klst.
3. Ökutæki og eftirvagnar með tímabundna skráningu (tollnúmer).
4. Ökutæki og eftirvagnar sem tilheyra erlendum herafla sem hefur aðsetur á þýsku yfirráðasvæði, borgaralegu hjálparliði þess og fjölskyldum þeirra, þegar slík ökutæki eru skráð af þar til bærum heryfirvöldum.
5. Ökutæki og eftirvagnar sem tilheyra höfuðstöðvum alþjóðahers þess sem hefur aðsetur í Þýskalandi vegna Norður-Atlantshafssamningsins (NATO).