Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

391/2003

Reglugerð um breytingu á reglugerð um notkun erlendra ökutækja, nr. 267 1. júlí 1993.

1. gr.

4. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 96 31. janúar 1996, orðast svo:
Ökutækið skal vátryggt ábyrgðartryggingu samkvæmt ákvæðum umferðarlaga.

Litið skal svo á að vátryggingarskyldu sé fullnægt að því er varðar ökutæki sem skráð eru í ríkjum sem talin eru upp í viðauka I. Þetta á þó ekki við um ökutæki, sem nefnd eru í viðauka II.

Vegna annarra ökutækja en nefnd eru í 1. málslið 2. mgr. skal ökumaður (umráðamaður) hafa undir höndum alþjóðlegt vátryggingarkort fyrir ökutæki ("grænt kort") eða staðfestingu vátryggingafélags með starfsleyfi hér á landi. Skulu þessi gögn bera með sér, að lögboðin ábyrgðartrygging sé í gildi, og skal vátryggingin gilda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA).

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. ábyrgjast að ökutæki sem skráð er erlendis en hér er notað um stundarsakir sé vátryggt lögmæltri ábyrgðartryggingu ef önnur vátrygging er ekki fyrir hendi enda hafi ökumaður (umráðamaður) ökutækisins við innflutning þess lagt fram alþjóðlegt vátryggingarkort fyrir ökutæki ("grænt kort") sem út er gefið í samræmi við reglur þær um alþjóðlegar bifreiðatryggingar sem undirnefnd um vegflutninga í innanlandsflutninganefnd efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu hefur mælt með.

Eftirlit með því að erlent ökutæki, sem ekið er hér á landi, uppfylli kröfur reglugerðar þessarar, þ.m.t. hvort í gildi sé ábyrgðartrygging vegna þess, skal fyrst og fremst byggjast á úrtakseftirliti. Skal slíkt eftirlit fara fram bæði við innflutning ökutækisins og eftir að notkun þess er hafin. Ökutæki, sem skráð eru í ríkjum er nefnd eru í viðauka I, eru þó við komu til landsins undanþegin eftirliti með vátryggingarskyldu.


2. gr.

Viðauki I, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 555 29. desember 1993 og 2. gr. reglugerðar nr. 313 3. maí 1999, orðist svo:


VIÐAUKI I

Ökutæki frá eftirtöldum ríkjum (þjóðernismerki þeirra eru tilgreind í sviga) teljast hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu við komu til landsins og þarf ekki að framvísa grænu korti því til staðfestingar, sbr. þó undantekningar í viðauka II.
Austurríki (A)
Belgía (B)
Danmörk (DK) ásamt Færeyjum (FR)
Finnland (FIN)
Frakkland (F) ásamt Mónakó (MC)
Grikkland (GR)
Holland (NL)
Írland (IRL)
Ítalía (I) ásamt Páfagarði og San Marínó (RSM)
Lúxemborg (L)
Króatía (HR)
Kýpur (CY)
Noregur (N)
Portúgal (P)
Slóvakía (SK)
Slóvenía (SLO)
Spánn (E)
Sviss (CH) ásamt Liechtenstein (FL)
Stóra-Bretland og Norður Írland (GB) ásamt Alderney (GBA), Guernsey (GBG), Jersey (GBJ), Mön (GBM) og Gíbraltar (GBZ)
Svíþjóð (S)
Tékkland (CZ)
Ungverjaland (H)
Þýskaland (D)


Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 66. gr. og 1. mgr. 94. gr. umferðarlaga nr. 50 30. mars 1987, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. maí 2003.

Björn Bjarnason.
Björn Friðfinnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica