Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

1044/2011

Reglugerð um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið og yfirstjórn.

Reglugerðin gildir um eftirlit með innflutningi dýraafurða sem koma til landsins frá þriðja ríki.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerðin tekur til. Matvælastofnun annast eftirlit og framkvæmd reglugerðarinnar.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð gilda skilgreiningar í 2. gr. reglugerðar nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurðum í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess telst samkvæmt reglugerð þessari:

Afurðir: Afurðir úr dýraríkinu sem um getur í viðauka F.

Sannprófun skjala: Sannprófun dýraheilbrigðisvottorðs eða -vottorða, dýraheilbrigðis­skjals eða annarra skjala sem fylgja sendingu, sbr. viðauka A.

Sannprófun auðkenna: Sannprófun, sem fer fram með sjónrænni skoðun, á því að dýraheilbrigðisvottorð, dýraheilbrigðisskjal eða önnur skjöl sem kveðið er á um í dýraheilbrigðislöggjöf samsvari viðkomandi afurðum, sbr. viðauka A.

Eftirlit með heilnæmi (physical check): Eftirlit með sjálfri afurðinni, t.a.m. með því að athuga umbúðir og kanna hitastig, einnig með sýnatöku og prófun á rannsóknarstofu, sbr. viðauka B og viðauka C.

Sending: Magn afurða af sömu tegund, sem eru á sama dýraheilbrigðisvottorði eða öðrum skjölum, sem fluttar eru með sama flutningstækinu og koma frá einu og sama ríki eða hluta þess.

Landamærastöð: Eftirlitsstöð á landamærum EES, tilnefnd og samþykkt til að þar megi fara fram heilbrigðiseftirlit með afurðum frá þriðja ríki, sbr. viðauka D.

Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir komu sendingar til landsins.

Innflutningur: Sú aðgerð eða sú ætlun að koma vörum í frjálst flæði á EES.

Innflutningsskilyrði: Heilbrigðiskröfur samkvæmt gildandi lögum og reglum sem afurðir verða að uppfylla til að þær megi flytja inn á EES.

EES: Evrópska efnahagssvæðið.

Eftirlitsaðili: Matvælastofnun eða annar eftirlitsaðili sem á vegum hennar er falið eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

Eftirlitsmaður: Opinber eftirlitsmaður sem á vegum Matvælastofnunar annast eftirlit á landamærastöð og starfar í umboði og á ábyrgð yfirmanns landamærastöðvar.

Vinnsluskip: Skip þar sem sjávarafli er unninn um borð, honum pakkað og hann hefur verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður, frystur eða verkaður á annan hátt. Fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting um borð á heilum eða hausskornum fiski, heilfrysting rækju eða suða á rækju og skelfiski teljast ekki vinnsluskip.

Vinnsluleyfishafi: Aðili sem fengið hefur tölusett leyfi frá lögbæru yfirvaldi til vinnslu, meðferðar, pökkunar eða geymslu sjávarafurða til staðfestingar því að settum skilyrðum laga og reglugerða sé fullnægt.

Þriðja ríki: Ríki sem er utan EES.

Samræmda dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorðið (CVED): Vottorð til staðfestingar heilbrigðiseftirliti með vörum sem fluttar eru inn á EES frá þriðja ríki, sbr. reglugerð nr. 489/2010.

TRACES: samræmt tölvukerfi til notkunar á EES.

3. gr.

Innflutningur frá þriðja ríki.

Matvælastofnun skal sjá til þess að engin sending frá þriðja ríki sé flutt inn á EES-svæðið nema að loknu heilbrigðiseftirliti samkvæmt þessari reglugerð. Sendingar frá þriðja ríki skulu fluttar inn á yfirráðasvæði EES um landamærastöðvar.

Heimilt er að landa ferskum afla fiskiskipa utan landamærastöðva og skal skoða hann á sama hátt og afla íslenskra skipa.

Skylt er að tilkynna Matvælastofnun og viðkomandi landamærastöð með 24 klst. fyrirvara um komu sendingar til landsins. Tilkynningin skal send í formi samræmda dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorðsins (CVED) sbr. reglugerð nr. 489/2010. Skjalið skal vera í fjórum eintökum, eitt frumrit og þrjú afrit og skal innflytjandi eða fulltrúi hans fylla út 1. lið á öllum fjórum eintökum. Hann skal undirrita öll eintökin og senda til Matvælastofnunar. Matvælastofnun er heimilt að skoða farmskrár skipa og flugvéla og ganga úr skugga um að þær samsvari innflutningsskjölum. Ef afferma á afurðir á einhvern hátt skal það tilkynnt Matvælastofnun. Öllum sendingum skal fylgja frumrit heilbrigðisvottorðs og annarra skjala sem krafist er.

Matvælastofnun heldur skrá yfir ríki, svæði og starfsstöðvar sem innflutningur er heimill frá og birtir á heimasíðu sinni.

4. gr.

Framkvæmd eftirlits.

Sending frá þriðja ríki heyrir undir heilbrigðiseftirlit Matvælastofnunar á landamærastöð sem opinber dýralæknir ber ábyrgð á. Opinberi dýralæknirinn skal á grundvelli upp­lýsinga í innflutningsskjölum fletta upp hverri sendingu í TRACES. Opinberi dýra­læknir­inn skal sjá til þess að allar nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að uppfæra TRACES.

Sannprófa skal skjöl hverrar sendingar, óháð tollafgreiðslu, meðhöndlun eða notkun, svo að unnt sé að staðfesta:

a)

að upplýsingarnar á vottorðum eða í skjölum, sem um getur í 1. mgr. 7. gr., svari til upplýsinganna sem sendar eru fyrirfram í samræmi við 4. mgr. 3. gr.;

b)

við innflutning að einstök atriði á vottorðum eða skjölum sem vísað er til í 3. gr. veiti nægjanlegar upplýsingar til staðfestingar á heilbrigði.



Fyrir utan sérstök tilvik sem tilgreind eru í 9. til 14. gr. skal opinberi dýralæknirinn annast eftirfarandi:

a)  

eftirlit með sannprófun auðkenna hverrar sendingar til að ganga úr skugga um að afurðirnar samsvari upplýsingum á meðfylgjandi vottorðum eða skjölum, sbr. viðauka A. Sé ekki um að ræða vörusendingar í lausri vigt á eftirfarandi við:

i.

berist afurðir úr dýraríkinu í gámum skal sannprófa að innsigli sem opinberi dýralæknirinn hefur komið fyrir, og krafist er samkvæmt löggjöf sem gildir á EES, hafi ekki verið rofið og að upplýsingarnar á því samsvari upplýsingum á meðfylgjandi skjali eða vottorði;

ii.

í öðrum tilvikum:

i.

á öllum tegundum afurða skal ganga úr skugga um að stimplar, opinber merki og heilbrigðismerki sem gefa til kynna upprunaland og uppruna­fyrirtæki séu fyrir hendi og í samræmi við upplýsingarnar á vottorðinu eða skjalinu,

ii.

ef afurðunum er pakkað inn skal einnig athuga sérmerkingar sem kveðið er á um samkvæmt viðkomandi dýraheilbrigðislöggjöf;

b)

eftirlit með heilnæmi hverrar sendingar til að ganga úr skugga um að afurðirnar standist kröfur samkvæmt löggjöf sem gildir á EES og séu hæfar til þeirrar notkunar sem tilgreind er á meðfylgjandi vottorði eða skjali. Þetta eftirlit skal fara fram í samræmi við viðmiðanir í viðauka C.



Frekari reglur um eftirlit skv. 4. gr. eru í viðauka A, B og C við reglugerð þessa.

5. gr.

Samræmd dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð.

Að loknu tilskildu heilbrigðiseftirliti skal opinberi dýralæknirinn gefa út vottorð vegna viðkomandi afurðarsendingar sem staðfestir að niðurstöður eftirlitsins séu í samræmi við reglugerð nr. 489/2010 um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 136/2004 um reglur um heilbrigðiseftirlit dýralæknis á landamærastöðvum með afurðum sem eru fluttar inn frá þriðju löndum.

Vottorðið sem um getur í 1. mgr. skal fylgja sendingunni:

a)

Á meðan hún er undir tollaeftirliti, og í því tilviki skal skjalið vísa til tollskjalsins,

b)

við innflutning, á fyrstu starfsstöðina eða á fyrstu miðstöð eða fyrirtæki á viðtökustað, sbr. reglugerð nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurðum í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ef sendingunni er skipt skal 1. og 2. mgr. gilda um hvern hluta.

6. gr.

Landamærastöðvar.

Landamærastöðvar skulu uppfylla þau skilyrði er fram koma í viðauka D við reglugerð þessa. Matvælastofnun samþykkir landamærastöðvar og skal birta lista um samþykktar landamærastöðvar á heimasíðu stofnunarinnar.

Heimilt er að setja upp útibú frá landamærastöðvum, þ.e. skoðunarstöðvar, er heyri undir tiltekna landamærastöð, sbr. 2. tl. 3. mgr. viðauka D og skulu þær uppfylla þau skilyrði er þar koma fram.

Landamærastöðvar skulu staðsettar í tollhöfn, sbr. tollalög nr. 88/2005 með síðari breytingum.

Matvælastofnun skal stöðva starfsemi og afturkalla samþykki þeirra landamærastöðva sem ekki uppfylla skilyrði sem fram koma í viðauka D við reglugerð þessa og í þeim tilvikum þar sem starfsemi þeirra gæti valdið alvarlegu heilsutjóni á heilbrigði manna og dýra.

Sé starfsemi landamærastöðva stöðvuð eða um sé að ræða nýja landamærastöð skal hún ekki taka til starfa fyrr en Matvælastofnun hefur staðreynt að skilyrði þau sem fram koma í viðauka D við reglugerð þessa séu uppfyllt.

7. gr.

Notkun og geymsla vottorða.

Frumeintak heilbrigðisvottorða, dýraheilbrigðisskjala eða annarra skjala sem krafist er samkvæmt viðkomandi dýraheilbrigðislöggjöf skal fylgja hverri sendingu sem ætluð er til innflutnings á EES. Frumeintök vottorðanna eða skjalanna skulu geymd á landamæra­stöð.

Með fyrirvara um 10. gr. skal hver sending afurða frá þriðja ríki sem ætluð er til inn­flutnings á EES gangast undir sannprófun auðkenna og eftirlit með heilnæmi í sam­ræmi við 4. og 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Tollayfirvöld skulu ekki leyfa innflutning á sendingum afurða nema sýnt hafi verið fram á að niðurstöður heilbrigðiseftirlits hafi verið fullnægjandi og að tilskilið vottorð hafi verið gefið út, sbr. 1. mgr. 5. gr.

Ef sendingin uppfyllir innflutningsskilyrðin skal opinberi dýralæknirinn láta hlutaðeigandi í té staðfest afrit af frumeintaki vottorðanna eða skjalanna, og í samræmi við 1. mgr. 5. gr., og gefa út vottorð um að sendingin uppfylli þessi skilyrði á grundvelli eftirlitsins sem fram fer á landamærastöðinni.

8. gr.

Sérstakar kröfur.

Ef afurðirnar eiga að fara til EES-ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur eru í gildi samkvæmt löggjöf EES, eða ef tekin hafa verið sýni en niðurstöður liggja ekki fyrir þegar flutningstækið fer frá viðkomandi landamærastöð eða innflutningur hefur verið leyfður í sérstökum tilgangi, í tilvikum sem kveðið er á um samkvæmt löggjöf EES, ber að senda viðbótarupplýsingar í gegnum TRACES til lögbærra yfirvalda á ákvörðunarstað.

Ef senda á afurðir sem um getur í 1. mgr. til annars EES-ríkis skal fara fram sannprófun skjala, sannprófun auðkenna og eftirlit með heilnæmi, sem mælt er fyrir um í 4. og 5. mgr. 4. gr. og skal eftirlit þetta fara fram á landamærastöð á yfirráðasvæði þess EES-ríkis sem afurðirnar eru fluttar til, einkum til að sannprófa að afurðirnar samsvari reglum viðtökustaðar.

Niðurstöður eftirlitsins eru sendar dýraheilbrigðisyfirvaldi sem ber ábyrgð á landamæra­stöðinni sem afurðirnar voru fluttar til.

Þegar afurðir sem um getur í 1. mgr. eru fluttar til annars EES-ríkis en viðtökuríkisins skulu EES-ríkin sjá til þess að allar ráðstafanir séu gerðar til þess að viðkomandi sending komist til fyrirhugaðs viðtökuríkis.

Afurðir sem eiga að vera undir eftirliti frá landamærastöð á komustað til starfsstöðvar á viðtökustað skal senda áfram með eftirfarandi skilyrðum:

a)

sendingarnar skal flytja undir eftirliti Matvælastofnunar frá viðkomandi landamærastöð á komustað til starfsstöðvar á viðtökustað í þéttum ökutækjum eða gámum sem Matvælastofnun hefur innsiglað. Afurðirnar sem um getur í 1. mgr. skulu vera áfram undir tollaeftirliti þar til þær koma á viðtökustað ásamt vottorðinu sem kveðið er á um í 1. mgr. 5. gr. þar sem tilgreind er heimiluð notkun og ef við á, fyrirhuguð vinnsluaðferð;

b)

opinberi dýralæknirinn á viðkomandi landamærastöð skal tilkynna dýraheilbrigðisyfirvöldum starfsstöðvar á viðtökustað sendingar um uppruna- og viðtökustað afurðarinnar í gegnum TRACES;

c)

opinberi dýralæknirinn á viðtökustað skal innan 15 daga senda tilkynningu um komu afurða til opinbera dýralæknisins á þeirri landamærastöð sem tilkynnti honum um sendinguna. Hann skal annast reglubundið eftirlit til að fullvissa sig um að afurðirnar séu komnar í viðkomandi starfsstöð á viðtökustað, einkum með því að athuga innflutningsskýrslur.



Ef sýnt þykir, með fyrirvara um ákvæði 18. gr., að afurðir sem fluttar voru inn og senda átti til viðurkenndrar starfsstöðvar hafi ekki borist á viðtökustað skal Matvælastofnun beita þvingunarúrræðum samkvæmt þessari reglugerð gagnvart þeim aðila sem er ábyrgur fyrir farminum.

Innflutningur frá ríkjum utan EES er aðeins heimill frá þeim framleiðendum og vinnsluskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með vörum uppfylli kröfur sem gilda á EES.

9. gr.

Sendingar berast á ranga landamærastöð.

Berist sending á ranga landamærastöð skal sannprófun auðkenna og eftirlit með heilnæmi fara fram á þeirri landamærastöð sem fyrirhugað var að senda sendinguna til að því gefnu að endurflutningar fari fram með sjó- eða loftflutningum. Eftirfarandi reglum skal fylgt á þeirri landamærastöð sem sendingin berst upphaflega til:

a)

sé sendingunni umskipað úr einu flutningatæki yfir í annað á tollsvæði sömu hafnar eða flughafnar, annaðhvort beint eða eftir affermingu á hafnarbakka eða flugbraut, til skemmri tíma en 12 klukkustunda á flugvöllum og 7 daga á öðrum landamærastöðvum, skal einstaklingurinn sem ábyrgur er fyrir farminum tilkynna það til Matvælastofnunar. Ekki er þörf á reglubundnu eftirliti með hlutaðeigandi sendingu en í undantekningartilvikum, ef heilbrigði dýra eða manna er í hættu, er heimilt að sannprófa skjöl á grundvelli upprunavottorðs eða upprunaskjals eða annars frumeintaks af skjali er fylgir sendingunni eða staðfestu afriti þess;

b)

sé sendingin affermd og geymd umfram 12 klukkustundir á flugvöllum og allt að 48 klukkustundum, eða umfram 7 daga og allt að 20 dögum á öðrum landamærastöðvum, skal geyma hana undir eftirliti Matvælastofnunar á tollsvæði hafnarinnar eða flughafnarinnar uns hún er flutt á aðra landamærastöð. Sannprófa skal skjöl á grundvelli upprunavottorðs eða upprunaskjals eða annars frumeintaks af skjali er fylgir sendingunni eða staðfestu afriti þess ef heilsa manna eða dýra kann að vera í hættu skal jafnframt sannprófa auðkenni og heilnæmi.



10. gr.

Tíðni eftirlits.

Um tíðni eftirlits fer samkvæmt viðauka F.

11. gr.

Umflutningur milli tveggja þriðju ríkja.

Komi sending frá þriðja ríki og áfangastaður hennar er annað þriðja ríki, skal Matvæla­stofnun heimila slíkan flutning að því tilskildu að afurðirnar komi ekki frá þriðja ríki sem innflutningur hefur verið bannaður frá.

Víkja má frá skilyrði 1. mgr. ef um er að ræða flutning samkvæmt a-lið 1. mgr. 9. gr. úr einu flutningstæki í annað í þeim tilgangi að senda þær áfram án frekari viðkomu á EES.

Flutningur skv. 1. mgr. skal hafa verið heimilaður fyrirfram af Matvælastofnun. Innflytjandi skal skuldbinda sig fyrirfram til þess að taka afurðirnar aftur ef þeim er hafnað og ráðstafa þeim í samræmi við 17. gr.

Heimildin í 1. mgr. skal veitt með þeim skilyrðum að:

a)

skjölin sem um getur í 1. mgr. 7. gr. skulu fylgja með sendingum á landamæra­stöð til að sannprófun skjala og sannprófun auðkenna geti farið fram. Löggildar þýðingar slíkra skjala skulu fylgja með sendingunni ef nauðsyn krefur;

b)

veita má undanþágu frá sannprófun skjala og auðkenna vegna sjó- og loft­flutninga ef afferming á sér ekki stað eða ef umskipun sendingar á sér stað úr einu loftfari í annað eða úr einu skipi í annað á tollsvæði sömu hafnar eða flugvallar, sbr. a-lið 1. mgr. 9. gr.



Ef heilbrigði manna og dýra kann að vera í hættu eða grunur vaknar um vanrækslu skal frekara eftirlit með heilnæmi fara fram.

Matvælastofnun skal senda tilkynningu um flutninginn í gegnum TRACES auk þess að votta á samræmda dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorðinu að afurðirnar hafi yfirgefið EES og skal hann senda afrit af skjalinu með viðeigandi hætti.

Allur kostnaður sem til fellur við beitingu þessarar greinar hvílir á þeim sem er ábyrgur fyrir farminum.

12. gr.

Tollfrjáls svæði, vöruhús og tollvörugeymslur.

Matvælastofnun má því aðeins heimila viðtöku sendingar frá þriðja ríki sem á að fara á tollfrjálst svæði, í tollfrjálst vöruhús eða tollvörugeymslu að sá sem ábyrgur er fyrir farminum hafi áður gefið yfirlýsingu um að hve miklu leyti viðkomandi afurðir eru ætlaðar til frjálsrar dreifingar á EES, eða annarrar endanlegrar notkunar og hvort afurðirnar uppfylli innflutningsskilyrði eða ekki.

Liggi ekki ljóst fyrir um hvernig eigi að nota afurðirnar skal litið svo á sem þær séu ætlaðar til frjálsrar dreifingar á EES og skal eftirlit á landamærastöð þá vera í samræmi við reglugerð þessa.

Um eftirlit fer samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar en þó er ekki nauðsynlegt að framfylgja eftirliti með heilnæmi nema heilbrigði dýra eða manna geti verið í hættu eða sannprófun skjala leiðir í ljós að sendingin stenst ekki reglugerð þessa.

Sendingunni skulu fylgja þau skjöl sem getið er um í 7. gr. og löggiltar þýðingar ef nauðsyn krefur.

Ef í ljós kemur, að loknu eftirlitinu, að kröfum reglugerðarinnar sé fullnægt skal opinberi dýralæknirinn á landamærastöðinni gefa út vottorð sem um getur í 1. mgr. 5. gr. með hliðsjón af tollaskjölum og heimila flutning í vöruhús á tollfrjálsu svæði, tollfrjálst vöruhús eða tollvörugeymslu og lýsa slíkar afurðir hæfar til frjálsrar dreifingar.

13. gr.

Innflutningsskilyrði ekki uppfyllt.

Leiði eftirlit í ljós að afurðir uppfylla ekki innflutningsskilyrði, má aðeins flytja þær til vörugeymslu farmflytjanda, almennrar tollvörugeymslu eða frísvæðis að uppfylltum skilyrðum þessarar greinar:

a)  

Innflutningur má ekki hafa verið bannaður frá viðkomandi ríki.

b)

Viðkomandi geymsla skal hafa verið viðurkennd af Matvælastofnun. Geymslan skal uppfylla eftirfarandi kröfur:

i.

vera lokað rými með inn- og útgönguleiðum undir stöðugu eftirliti forstöðumanna vörugeymslunnar. Sé vörugeymslan á tollfrjálsu svæði verður allt svæðið að vera lokað svæði undir stöðugu tolleftirliti,

ii.

uppfylla skilyrði fyrir viðurkenningu sem mælt er fyrir um í lögum,

iii.

allar sendingar sem eru fluttar í eða úr vörugeymslunni skulu skráðar daglega, ásamt upplýsingum um tegund og magn afurða í hverri sendingu og nafn og póstfang viðtakanda. Skrárnar ber að varðveita í minnst þrjú ár,

iv.

hafa aðskilið geymslurými og/eða kælirými undir afurðir sem standast ekki kröfur viðkomandi dýraheilbrigðislöggjafar. Matvælastofnun má þó, þegar um er að ræða vörugeymslur sem fyrir eru, leyfa aðskilda geymslu slíkra afurða í sömu húsakynnum, að því tilskildu að afurðir sem uppfylla ekki kröfur sem í gildi eru á EES séu hafðar í læsanlegum klefum,

v.

hafa tiltækt frátekið svæði fyrir starfsmennina sem annast heilbrigðiseftirlitið.



Leiði eftirlit í ljós að innflytjandi hafi gefið rangar upplýsingar um vöru eða ákvörð­unar­stað hennar skal honum gert að farga vörunum í samræmi við 17. gr.

Afurðir skal flytja í vatnsþéttu, innsigluðu flutningstæki undir eftirliti eftirlitsaðila. Óheimilt er að flytja afurðirnar úr einu flutningstæki í annað eða að flytja þær milli geymslna.

Matvælastofnun hefur eftirlit með og tryggir eftirfarandi:

a)

að skilyrðin fyrir viðurkenningu vöruhúsa séu haldin,

b)

að koma í veg fyrir að afurðir sem standast ekki kröfur sem í gildi eru á EES séu geymdar í sama rými eða sömu klefum og þær sem standast kröfurnar,

c)

að fylgst sé nákvæmlega með flutningi í og úr vöruhúsinu og að dýraheilbrigðisyfirvöld geti sinnt eftirliti sínu á afgreiðslutíma. Einkum skulu þau sjá til þess að afurðir sem standast ekki kröfur sem í gildi eru á EES séu ekki fluttar úr rými eða einingum þar sem þær eru geymdar nema með samþykki Matvælastofnunar,

d)

að framfylgja öllu nauðsynlegu eftirliti til að koma í veg fyrir að afurðirnar í vöruhúsinu skemmist, aðrar séu settar í þeirra stað eða að umbúðum þeirra, pökkun eða vinnslu sé breytt.



Matvælastofnun er heimilt, með tilliti til heilbrigðis dýra eða manna, að neita að afurðir séu fluttar í tollvörugeymslur, tollfrjáls vöruhús eða á tollfrjáls svæði ef þær uppfylla ekki þau skilyrði sem mælt er fyrir um í lögum.

Ekki má flytja sendingar inn á tollfrjálst svæði, í tollfrjálsa vörugeymslu eða tollvöru­geymslu nema á þeim sé tollinnsigli.

Sendingar, sem um getur í 1. mgr., má því aðeins flytja frá tollfrjálsu svæði, úr tollfrjálsri vörugeymslu eða tollvörugeymslu til flutnings til þriðja lands eða í vöruhús sem um getur í 14. gr. eða til förgunar að:

a)

flutningur til þriðja lands sé í samræmi við kröfur 11. gr.,

b)

flutningur í vörugeymslu sem um getur í 14. gr. fari fram á grundvelli heimildar frá tollayfirvöldum,

c)

flutningur á förgunarstað eigi sér stað eftir að viðkomandi afurðir hafa verið gerðar óneysluhæfar.



Sendingarnar skulu síðan fluttar áfram þannig að tryggt sé, án þess að umhleðsla eigi sér stað, að þær séu undir eftirliti Matvælastofnunar og skulu þær vera í þéttum ökutækjum eða gámum sem Matvælastofnun hefur innsiglað.

Sendingar sem um getur í þessari grein er ekki heimilt að flytja milli vörugeymsla.

Allur kostnaður í tengslum við beitingu þessarar greinar, að meðtöldum kostnaði við skoðanir og eftirlit samkvæmt þessari grein, hvílir á þeim einstaklingi sem er ábyrgur fyrir farminum eða fulltrúa hans.

Matvælastofnun skal senda ESA skrá um:

a)

tollfrjáls svæði, tollfrjálsar vörugeymslur og tollvörugeymslur sem um getur í 1. mgr.;

b)

rekstraraðila sem um getur í 14. gr.

Ef skilyrðin sem sett eru í 12. og 13. gr. eru ekki uppfyllt, að því leyti sem þessi skilyrði eiga við um vörugeymsluna, skal Matvælastofnun fella niður eða afturkalla viðurkenningu sína sem um getur í b-lið 1. mgr. Tilkynna skal ESA um slíka afturköllun.

14. gr.

Birgðir fyrir farartæki í millilandaflutningum.

Birgðahaldarar sem geyma afurðir í tollfrjálsum forðageymslum og ætlaðar eru til neyslu fyrir áhöfn og farþega um borð í farartækjum í millilandaflutningum skulu hafa fengið sérstakt leyfi Matvælastofnunar.

Slíkar afurðir má ekki nýta til vinnslu nema þær séu í samræmi við heilbrigðiskröfur er gilda á EES. Afurðirnar mega ekki koma frá ríkjum sem innflutningur hefur verið bannaður frá. Birgðahaldari er ábyrgur fyrir því að afurðirnar fari ekki til neyslu á EES.

Þar til afurðirnar eru fluttar um borð í viðkomandi farartæki skulu þær geymdar í lokuðum forðageymslum sem uppfylla kröfur til slíks húsnæðis og vera undir stöðugu eftirliti. Afurðir sem ekki uppfylla heilbrigðiskröfur skal vera hægt að geyma aðskildar frá öðrum vörum. Matvælastofnun skal þegar í stað tilkynnt um komu sendingar til birgðageymslu. Birgðahaldari skal halda skrá yfir komu og brottför vörusendinga í a.m.k. 3 ár þannig að hægt sé að fylgjast með þeim vörum sem eru í forðageymslu hverju sinni.

Matvælastofnun skal tilkynnt fyrirfram um flutning vöru úr forðageymslu ásamt upplýsingum um endanlegan ákvörðunarstað. Afurðirnar skulu fluttar beint frá landamærastöð um borð í viðkomandi farartæki eða í sérstaklega samþykkta forðageymslu á hafnar- eða flugvallarsvæði. Tryggt skal að afurðirnar geti ekki farið af svæðinu á annan áfangastað en þeim er ætlaður. Birgðahaldari skal færa fram sönnur á að afurðirnar hafi náð endanlegum ákvörðunarstað.

Matvælastofnun skal tilkynna lögbærum yfirvöldum þess EES-ríkis, sem varan á að fara um, um flutninginn og ákvörðunarstað vörunnar í gegnum TRACES.

Brjóti birgðahaldari gegn ákvæði þessu skal Matvælastofnun fella leyfi hans úr gildi og tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum yfirvöldum annarra ríkja á EES.

15. gr.

Endursendingar frá þriðju ríkjum.

Afurðir sem upprunnar eru í einhverju af EES-ríkjunum og hafnað er af þriðja ríki er heimilt að flytja inn til landsins að því tilskildu að þeim fylgi upprunalegt heilbrigðisvottorð eða afrit staðfest af eftirlitsaðila sem skoðað hefur vottorðið. Þar skal koma fram ástæða höfnunarinnar og að ábyrgst sé að skilyrði við geymslu og flutning hafi verið fullnægjandi og að afurðirnar hafi ekki verið meðhöndlaðar. Ef um innsiglaða gáma er að ræða skal fylgja vottorð flutningsaðila um að innihaldið hafi ekki verið affermt eða meðhöndlað á nokkurn hátt.

Matvælastofnun skal sannprófa skjöl og auðkenni og, í tilvikum sem kveðið er á um í 18. gr., hafa eftirlit með heilnæmi sendingarinnar.

Matvælastofnun getur ekki hafnað endurinnflutningi í slíkum tilvikum ef lögbært yfirvald í upprunaríki hefur samþykkt að taka afurðirnar til baka og að uppfylltum skilyrðum 1. mgr.

Afurðirnar skulu fluttar í vatnsþéttum flutningstækjum, auðkenndum og innsigluðum af eftirlitsaðila.

Matvælastofnun skal gera lögbæru yfirvaldi þess ríkis sem afurðirnar eiga að fara til viðvart í gegnum TRACES.

16. gr.

Takmörkun gildissviðs.

Ákvæði þessarar reglugerðar gilda ekki um afurðir:

a)

Sem eru hluti af persónulegum farangri ferðamanna og ætlaðar til einkaneyslu þeirra, að því tilskildu að magnið sé innan leyfilegra marka og að afurðirnar komi frá þriðja ríki eða svæði sem er að finna á skrá Matvælastofnunar, sbr. 7. mgr. 3. gr., og að innflutningur sé ekki bannaður frá viðkomandi ríki eða svæði.

b)

Sem eru sendar til einstaklinga, að því tilskildu að innflutningur þessara vara sé ekki viðskiptalegs eðlis, að magnið sé innan leyfilegra marka skv. lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum, að afurðirnar komi frá þriðja ríki eða svæði sem er að finna á skrá Matvælastofnunar, sbr. 4. mgr. 3. gr. og að innflutningur frá viðkomandi ríki eða svæði sé ekki bannaður.

c)

Sem eru ætlaðar áhöfn og farþegum til neyslu um borð í flutningatækjum í millilandaflutningum utan EES. Slíkum vörum eða matarúrgangi skal fargað þar sem afferming fer fram. Ekki er þó nauðsynlegt að farga vörum ef þær eru fluttar beint og undir tolleftirliti úr einu flutningstæki í annað innan tollsvæðis.

d)

Sem hafa fengið hitameðhöndlun í loftþéttum ílátum með Fo-gildi 3,00 eða meira, ef magnið er innan leyfilegra marka og eru hluti af persónulegum farangri ferðamanna og ætlaðar til einkaneyslu þeirra eða eru sendar í litlum pakkningum til einstaklinga, að því tilskildu að innflutningur þessara vara sé ekki viðskiptalegs eðlis.

e)

Sem eru sendar sem sýnishorn vöru eða eru ætlaðar til sýningar, að því tilskildu að þær séu ekki ætlaðar til markaðssetningar og innflutningur hafi verið leyfður í þessum tilgangi af eftirlitsaðila.

f)

Sem ætlaðar eru til ákveðinna rannsókna eða efnagreininga.



Undantekningar þær sem kveðið er á um í e- og f-lið eiga við að því leyti sem mögulegt er að ákvarða út frá eftirliti að slíkar afurðir séu ekki ætlaðar til manneldis.

Í þeim tilvikum sem um ræðir í e- og f-lið þessarar greinar skal tryggt að þær afurðir sem um ræðir geti ekki verið notaðar í öðrum tilgangi en innflutningur þeirra er leyfður fyrir. Að lokinni notkun skal þessum vörum eytt eða þær endursendar með þeim skilyrðum er eftirlitsaðili setur.

17. gr.

Innflutningur án eftirlits eða kröfur ekki uppfylltar.

Leiði eftirlit samkvæmt þessari reglugerð í ljós að afurðir uppfylla ekki kröfur sem settar eru í lögum eða reglum eða að slíkt eftirlit leiði í ljós vanrækslu skal Matvælastofnun, að undangengnum andmælarétti innflytjanda, fyrirskipa endursendingu vörunnar til ákvörðunarstaðar utan EES sem samþykktur er af innflytjanda, með sama flutningsmáta, innan 60 daga, komi niðurstöður úr eftirliti eða heilbrigðiskröfur ekki í veg fyrir slíkt. Eftirlitsmaður skal gera heilbrigðisvottorðið er fylgdi vörunum ógilt með viðeigandi hætti svo ekki sé mögulegt að flytja sömu afurðir inn í gegnum aðra landamærastöð.

Sé endursending óframkvæmanleg, 60 daga tímamarkið liðið eða innflytjandi samþykkir að slíkt sé framkvæmt þegar í stað, skal farga vörunni. Ef ákveðið er að farga vörum skal eftirlitsaðili gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að afurðirnar og förgun á þeim sé undir stöðugu opinberu eftirliti. Förgun skal fara fram á landamærastöð eða á viðeigandi stað eins nálægt viðkomandi landamærastöð og kostur er.

Komi afurðir til landsins án þess að hafa fyrst sætt eftirliti á landamærastöð skal Matvælastofnun ákvarða hvort þær skuli endursendar í samræmi við 2. mgr. eða þeim fargað í samræmi við 3. mgr.

Unnt er að veita undanþágu frá ákvæðum 2. og 3. mgr., meðal annars til þess að heimila að afurðir séu notaðar í öðrum tilgangi en til manneldis.

Heimili Matvælastofnun að afurðir séu notaðar í öðrum tilgangi en til manneldis skal eftirlitsaðili fylgjast með meðhöndlun og flutningi þeirra.

Matvælastofnun skal skrá upplýsingar um framangreindar aðgerðir í TRACES.

Þar til endursending fer fram, förgun eða staðfesting fæst á ástæðum höfnunar skulu viðkomandi afurðir geymdar undir eftirliti Matvælastofnunar á kostnað innflytjanda.

Innflytjandi er ábyrgur fyrir öllum kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða farga henni.

18. gr.

Eftirlit vegna gruns um vanrækslu eða brot.

Leiki grunur á að ekki hafi verið farið eftir heilbrigðislöggjöf eða vafi leikur á um auðkenningu vöru, endanlegan ákvörðunarstað hennar, hvort varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar í lögum og reglum, eða að hún sé í samræmi við þær heilbrigðiskröfur sem gilda á EES skal Matvælastofnun framkvæma það eftirlit sem talið er nauðsynlegt til að staðfesta eða afsanna slíkan grun. Afurðirnar skulu vera undir eftirliti Matvælastofnunar þar til niðurstöður eftirlits liggja fyrir. Reynist slíkur grunur á rökum reistur skal fara fram aukið eftirlit á vörum af sama uppruna.

II. KAFLI

Veiði- og vinnsluvottorð.

19. gr.

Veiðivottorð.

Innflytjandi skal tryggja að öllum sjávarafurðum sem fluttar eru til Íslands og afla allra erlendra skipa sem landað er á Íslandi fylgi veiðivottorð fánaríkis, í samræmi við kröfur Evrópusambandsins, ef fyrirhugað er að flytja aflann áfram inn á markað þess. Í veiðivottorði, sem staðfest er af lögbærum yfirvöldum fánaríkis veiðiskips, skal koma fram að afli skipsins hafi verið veiddur í samræmi við lög og reglur viðkomandi ríkis og í samræmi við alþjóðasamninga.

Innfluttum afurðum og afla skal ávallt haldið aðskildum frá afurðum og afla íslenskra skipa hvort sem er við flutning, geymslu, vinnslu eða útflutning.

20. gr.

Vinnsluvottorð.

Þegar innfluttar sjávarafurðir eru unnar á Íslandi skal útflytjandi við endurútflutning þeirra inn á markað Evrópusambandsins gæta þess að þeim fylgi veiðivottorð staðfest af fánaríki sbr. 19. gr., eða afrit þess ef einungis er um að ræða hluta aflans sem getið er á veiðivottorðinu. Þá skal vinnsluleyfishafi gefa út yfirlýsingu, sbr. viðauka G við reglugerð þessa, þar sem fram kemur lýsing á vörunni, og staðfesting þess að viðkomandi afurð sé unnin úr afla samkvæmt meðfylgjandi veiðivottorði.

Fiskistofa staðfestir yfirlýsingu vinnsluleyfishafa, að höfðu samráði við Matvælastofnun. Til þess að staðreyna að upplýsingar í vottorði skv. viðauka G séu réttar skal Matvælastofnun hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum hjá vinnsluleyfishafa.

21. gr.

Endurútflutningur.

Ef innfluttar sjávarafurðir eru ekki unnar á Íslandi, heldur einungis geymdar í tollvörugeymslu, er nægjanlegt við endurútflutning þeirra inn á markað Evrópu­sambandsins að þeim fylgi veiðivottorð staðfest af fánaríki, sbr. 19. gr. þessarar reglu­gerðar auk skjalfestrar staðfestingar á því að afurðin hafi ekki hlotið neina meðferð á Íslandi aðra en löndun, umskipun eða hverja þá meðferð sem nauðsynleg má teljast til að varðveita vöruna.

III. KAFLI

Öryggisákvæði.

22. gr.

Öryggisákvæði.

Í þeim tilfellum sem sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði manna og dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna eða dýra réttlætir slíkt getur sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðuneytið, án fyrirvara, stöðvað innflutning frá viðkom­andi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.

Leiði eftirlit í ljós að vörusending sé líkleg til að stofna heilbrigði manna eða dýra í hættu skal Matvælastofnun sjá til þess að vörunum verði eytt eins fljótt og kostur er. Matvælastofnun skal upplýsa aðrar landamærastöðvar og Eftirlitsstofnun EFTA um fundinn og uppruna varanna í gegnum viðeigandi tölvukerfi samkvæmt kröfum sem gilda á EES.

IV. KAFLI

Skoðun og eftirlit.

23. gr.

Eftirlitsstofnun EFTA.

ESA er heimilt í samvinnu við Matvælastofnun að sannprófa að farið sé að þeim kröfum sem fram koma í þessari reglugerð og að annast eftirlit á staðnum til að sannprófa að eftirlit fari fram í samræmi við reglugerð þessa. Matvælastofnun skal aðstoða ESA eins og unnt er við þá skoðun.

24. gr.

Grunur um brot.

Ef Matvælastofnun telur, á grundvelli eftirlits á vörum sem markaðssettar skulu hér á landi, að brotið sé í bága við ákvæði þessarar reglugerðar í öðru EES-ríki skal Matvælastofnun þegar í stað gera lögbærum yfirvöldum þess ríkis viðvart. Ef Matvælastofnun telur skýringar eða ráðstafanir ófullnægjandi skal hún ásamt lögbæru yfirvaldi hlutaðeigandi ríkis leita leiða til að bæta ástandið.

Leiði eftirlit sem um getur í 1. mgr. í ljós ítrekað brot á ákvæðum þessarar reglugerðar skal Matvælastofnun tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA. Þar til tilkynning berst frá Eftirlitsstofnun EFTA um aðgerðir sem grípa á til er Matvælastofnun heimilt að efla eftirlit með vörum sem koma frá viðkomandi eftirlitsstað.

Matvælastofnun skal tilkynna hlutaðeigandi aðilum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þessarar reglugerðar og um rökstuðning fyrir þeim.

Óski viðkomandi aðili þess, skulu upplýsingar skv. 1. mgr. afhentar honum skriflega, ásamt upplýsingum um þau réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, málsmeðferðarreglur og tímafresti.

25. gr.

Ítrekað eða alvarlegt brot.

Ef Matvælastofnun telur, á grundvelli eftirlits á vörum sem markaðssettar skulu hér á landi, að brotið sé ítrekað eða alvarlega í bága við ákvæði þessarar reglugerðar skal stofnunin grípa til eftirfarandi úrræða:

a)

Upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um uppruna vörunnar og eðli brotsins.

b)

Auka eftirlit með sendingum af sama uppruna einkum næstu 10 sendingar, þ.m.t. eftirlit í samræmi við viðauka B og C. Upplýsa skal Eftirlitsstofnun EFTA um útkomu slíks eftirlits. Matvælastofnun er heimilt að krefjast tryggingar fyrir kostnaði vegna sýnatöku og rannsókna samkvæmt þessari grein.



V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

26. gr.

Gjaldskrá.

Um gjaldtöku vegna eftirlits fer samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli.

27. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

28. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 með síðari breytingum, lögum nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum og lögum nr. 55/1998 um sjávarafurðir.

Við gerð þessarar reglugerðar var höfð hliðsjón af tilskipun ráðsins nr. 97/78 eins og henni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 882/2004 og tilskipun ráðsins nr. 2006/104. Einnig var höfð hliðsjón af ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 92/438, 93/14, 93/352 og 94/360 eins og henni var breytt með ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 94/658, 95/54, 95/270, 96/104, 97/139, 1999/302, 1999/518, 1999/609, 2000/583, 2002/237, 2006/590. Þá var höfð hliðsjón af ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2000/571 og ákvörðun ráðsins nr. 2000/25.

29. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 849/1999 ásamt síðari breytingum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 7. nóvember 2011.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica