Innanríkisráðuneyti

180/2014

Reglugerð um áhöfn í almenningsflugi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða áhöfn í almenningsflugi.

Kröfur reglugerðar (ESB) nr. 1178/2011, sem innleidd er með reglugerð þessari, skulu gilda eftir því sem við á um þjálfun og skírteini flugliða á loftförum sem tilgreind eru í a-d-lið og h-lið II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 216/2008, sem innleidd er með reglugerð nr. 812/2012, og falla utan gildissviðs reglugerðar (ESB) nr. 1178/2011, og um þjálfun og skírteini flugliða sem taka þátt í starfrækslu loftfara sem skráð eru á Íslandi og sinna lög- og tollgæslu, leit og björgun, slökkvistarfi, landhelgisgæslu eða sambærilegum verk­efnum.

2. gr.

Lögbært yfirvald og framkvæmd.

Samgöngustofa telst lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari og sér um fram­kvæmd hennar.

II. KAFLI

Efnisákvæði.

3. gr.

Flugliði sem tekur þátt í starfrækslu loftfars sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. skal hafa gilt skírteini og heilbrigðisvottorð skv. reglugerð (ESB) nr. 1178/2011.

4. gr.

Þjálfun og próf fyrir flugliða sem taka þátt í starfrækslu loftfars sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. skulu uppfylla kröfur skv. reglugerð (ESB) nr. 1178/2011.

5. gr.

Til að viðhalda réttindum til að starfrækja loftfar sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. skal flug­liði uppfylla kröfur reglugerðar (ESB) nr. 1178/2011 um framlengingu og endurnýjun.

6. gr.

Fartími og hæfni-/færnipróf á loftfar sem fellur undir gildissvið reglugerðar (ESB) nr. 1178/2011 er viðurkennt til framlengingar eða endurnýjunar réttinda fyrir samsvarandi loftfar og fellur undir 2. mgr. 1. gr.

7. gr.

Fartíma á loftfar sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. skal telja í samræmi við kröfur skv. reglu­gerð (ESB) nr. 1178/2011. Fartíma skal færa í flugdagbók sem uppfyllir kröfur reglu­gerðar (ESB) nr. 1178/2011.

8. gr.

Flugliði á loftfari sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. skal uppfylla skilyrði reglugerðar (ESB) nr. 1178/2011, til þess að fljúga með farþega.

9. gr.

Tegundaráritun á loftfar sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. skal skrá á sérstakt fylgiskjal með flugliðaskírteini skv. reglugerð (ESB) nr. 1178/2011.

10. gr.

Varðandi þjálfun og skírteini flugliða á loftfari sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. er Sam­göngu­stofu heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum reglugerðarinnar um próf og þjálfun, t.d. er varðar próf í flughermi. Skal slík undanþága einungis veitt sé það að mati Sam­göngu­stofu sérstökum vandkvæðum bundið að fullnægja viðeigandi kröfum, af ástæðum sem rekja má beint til eiginleika loftfarsins. Ekki skal veita undanþágu nema full­nægjandi öryggi sé tryggt að mati Samgöngustofu.

III. KAFLI

Lokaákvæði.

11. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1178/2011 frá 3. nóvember 2011 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða áhöfn í almenningsflugi sam­kvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, sbr. ákvörðun sam­eiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2013 frá 16. júlí 2013, er birt í EES-við­bæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 56 frá 10. október 2013, bls. 175.
  2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 290/2012 frá 30. mars 2012 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 um tæknilegar kröfur og stjórn­sýslu­meðferð vegna flugverja í almenningsflugi samkvæmt reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 146/2013 frá 16. júlí 2013, er birt í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 56 frá 10. október 2013, bls. 669.

12. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. og 73. gr., sbr. 145. gr. laga um loft­ferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglu­gerðir nr. 401/2008, 402/2008 og 403/2008.

Innanríkisráðuneytinu, 5. febrúar 2014.

Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica