I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri skv. 8. og 9. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.
2. gr.
Umsóknir og afgreiðsla þeirra.
Sækja skal um uppbætur samkvæmt reglugerð þessari hjá Tryggingastofnun ríkisins og skulu umsóknir vera á eyðublöðum stofnunarinnar eða rafrænum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.
Um umsóknir og framkvæmd að öðru leyti fer skv. V. og VI. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð.
3. gr.
Grundvöllur bóta.
Heimilt að greiða uppbætur samkvæmt reglugerð þessari til þeirra lífeyrisþega sem eiga lögheimili hér á landi enda uppfylli þeir önnur skilyrði fyrir greiðslum. Um almenn skilyrði og útreikning uppbóta fer samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og reglugerð þessari.
4. gr.
Endurreikningur og uppgjör bóta.
Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna fjárhæðir uppbóta samkvæmt reglugerð þessari á grundvelli þeirra upplýsinga, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar.
5. gr.
Tekjur.
Við útreikning heimilisuppbótar skv. II. kafla reglugerðar þessarar skal fara skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. einnig 16. gr. laga um almannatryggingar.
Við útreikning uppbóta skv. III. og IV. kafla reglugerðar þessarar teljast til tekna allar skattskyldar tekjur, þar á meðal erlendar tekjur, bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sbr. þó 3. mgr.
Við útreikning uppbóta skv. III. og IV. kafla reglugerðar þessarar skal ekki taka tillit til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og orlofs- og desemberuppbóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá skal við útreikning uppbótar skv. III. kafla hvorki taka tillit til aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar né sérstakrar uppbótar til framfærslu skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.
II. KAFLI
Heimilisuppbót.
6. gr.
Skilyrði bóta og fjárhæðir.
Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð.
Full heimilisuppbót til ellilífeyrisþega skal vera 752.340 kr. á ári. Uppbótin skal lækka um 11,9% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar, uns hún fellur niður. Um útreikning heimilisuppbótar vegna búsetu fer skv. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar og um frítekjumörk vegna tekna fer samkvæmt 1. mgr. 23. gr. sömu laga.
Full heimilisuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skal vera 603.744 kr. á ári. Uppbótin skal lækka eftir sömu reglum og tekjutrygging samkvæmt lögum um almannatryggingar.
7. gr.
Fjárhagslegt hagræði.
Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:
Ef heimilismaður er á aldrinum 18-20 ára og í fullu námi skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann. Þá skal einstaklingur sem er á aldrinum 20-25 ára og stundar nám fjarri lögheimili sínu ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við aðra einstaklinga á skráðu lögheimili sínu og öfugt ef hann hefur sannarlega tímabundið aðsetur annars staðar.
8. gr.
Makar heimilismanna.
Nú dvelst maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili og er þá heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu bóta samkvæmt reglugerð þessari.
III. KAFLI
Uppbót á lífeyri.
9. gr.
Skilyrði bóta.
Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.
Uppbót á lífeyri er einkum heimilt að greiða vegna:
10. gr.
Hámark uppbóta.
Hámark uppbótar skal vera sem hér segir:
Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að greiða einhleypum lífeyrisþega, sem nýtur umönnunar og getur sýnt fram á verulegan kostnað skv. 9. gr. reglugerðar þessarar, allt að 140% uppbót á lífeyri sinn.
Heimilt er að greiða lífeyrisþega, sem nýtur uppbótar skv. 2. og 3. tl. 9. gr. reglugerðar þessarar, allt að 50% uppbót á lífeyri sinn.
Með lífeyri í 1.-3. mgr. er átt við óskerta fjárhæð örorkulífeyris skv. 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, eins og hún er ákveðin á hverjum tíma.
11. gr.
Tekju- og eignamörk.
Uppbætur á lífeyri skulu aldrei greiddar til lífeyrisþega sem á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hefur heildartekjur yfir 2.929.579 kr. á ári.
12. gr.
Endurskoðun réttinda.
Ákvarðanir um greiðslu uppbóta á lífeyri skulu að jafnaði vera tímabundnar. Tryggingastofnun ríkisins skal endurskoða reglulega hvort skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt og fjárhæðir greiðslna. Séu gögn ekki tiltæk er heimilt að fara þess á leit við bótaþega að hann skili gögnum til staðfestingar því að skilyrði til áframhaldandi greiðslu uppbótar séu fyrir hendi.
IV. KAFLI
Sérstök uppbót til framfærslu.
13. gr.
Skilyrði bóta.
Heimilt er að greiða þeim sem fær greiddan örorku- eða endurhæfingarlífeyri sérstaka uppbót vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.
Við mat á því hvort örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur, sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar, séu undir 310.800 kr. á mánuði. Við mat á því hvort örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur, sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar, séu undir 247.183 kr. á mánuði.
14. gr.
Útreikningur bóta.
Fjárhæð sérstakrar uppbótar skal nema mismun fjárhæða skv. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar þessarar og heildartekna eins og þær eru skilgreindar í 5. gr. reglugerðar þessarar. Reynist heildartekjur jafnháar eða hærri en fjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar greiðist ekki sérstök uppbót.
Til grundvallar útreikningi á fjárhæð sérstakrar uppbótar hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum heildartekjum almanaksárs. Þegar heimild til greiðslu uppbótar nær aðeins til hluta úr ári skal þó miða útreikning hennar við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að heimild til greiðslu myndaðist.
Fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.
V. KAFLI
Gildistaka.
15. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, og 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2019. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og frekari uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum.
Velferðaráðuneytinu, 17. desember 2018.
Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.