Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

8/2007

Reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um einkennisbúninga og merkingar lögreglunnar. Óheimilt er að nota einkenni, merki og/eða einkennisbúning lögreglu opinberlega eða í ólögmætum tilgangi, eða einkenni/merki eða búning sem er svo áþekkur þeim er lögregla notar, að hætta er á að á verði villst. Brot á þessum reglum getur varðað refsingu sbr. 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Allir þeir sem taldir eru upp í 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skulu fá úthlutað einkennis­fatnaði samkvæmt þessari reglugerð. Við afgreiðslu einkennisfatnaðar lögreglu skal taka fullt tillit til þess að fatnaður henti báðum kynjum.

Öllum lögreglumönnum sem skipaðir eru til starfa samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er skylt að eiga tiltækan einkennisfatnað.

Lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og löglærðir fulltrúar sem eru staðgenglar lögreglustjóra skulu fá einkennisfatnað samkvæmt reglu­gerð þessari, eftir því sem þurfa þykir, eftir ákvörðun ríkislögreglustjóra.

2. gr.

Skýringar.

Með lögreglumerki í reglugerð þessari er átt við íslenska lögreglumerkið sem er gyllt stjarna með sex jöfnum örmum, merkinguna "LÖGREGLAN", armmerki lögreglu, svart/hvíta endurskinsmerkingu og merki Lögregluskóla ríkisins.

Með einkennisfatnaði lögreglu er átt við þann einkennda lögreglufatnað sem ríkis­lögreglu­stjórinn hefur samþykkt til notkunar hjá lögreglu.

II. KAFLI

Lögreglumerki.

3. gr.

Íslenska lögreglumerkið.

Íslenska lögreglumerkið skal vera gyllt stjarna með sex jöfnum örmum 58 mm í þver­mál. Í miðri stjörnunni skal vera skjöldur með tveimur krosslögðum sverðum að baki skjaldar­ins, þannig að aðeins sjáist hjöltun ásamt efsta og neðsta hluta blaðanna.

Umhverfis skjöldinn skal vera áletrunin: "MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA", með letur­gerðinni New Century Schoolbook, Trademark, Normal. Áletrunin skal vera afmörkuð með tveimur upphleyptum hringjum með 5 mm millibili. Frá ytri hringnum sem skal vera 31 mm í þvermál, liggja 54 teinar með jöfnu millibili út að jaðri stjörnunnar. Neðst á milli hringjanna skal vera upphleypt 5 arma stjarna, 2 mm í þvermál.

Ef stjarnan er prentuð í lit skal hún vera svört á gulum grunni, sjá mynd.

Litir; svartur, gulur Pantone 109U.

4. gr.

Merkingin "LÖGREGLAN".

Merkingin "LÖGREGLAN" ofan við hægri brjóstvasa og á bakhlið einkennisfatnaðar telst til lögreglumerkja. Sama á við um merkinguna "POLICE" þar sem það er notað. Merkingar ofan við brjóstvasa skal sauma á svartan borða, 3 sm á hæð og 10 sm á breidd, þar sem stendur ísaumað með gylltum þræði "LÖGREGLAN", stafagerð Arial, hæð leturs 11 mm.

5. gr.

Endurskinseinkenni.

Almennur lögreglufatnaður skal auðkenndur með sérstakri svart/hvítri endur­skins­merkingu neðst á yfirhöfnum og neðst á ermum. Endurskins­borðinn telst til lögreglu­merkinga.

6. gr.

Einkennishnappar.

Einkennishnappar lögreglunnar skulu vera hringlaga, gylltir með upphleyptri mynd af merkinu "hönd og auga". Hnapparnir skulu vera í tveimur stærðum. Minni gerðin skal vera 15-16 mm, en hin stærri 22 mm, í þvermál. Festing hnappanna skal vera með tvennum hætti, annars vegar saumaðir og hins vegar pressaðir (smella). Hnappa í einkennishúfu 1 og 2 skal festa með spennum, sem sveigðar eru til hliðanna, innan í húfunum. Hnapparnir skulu vera tvenns konar, þ.e. fingur skulu ýmist vísa lárétt til hægri eða vinstri, með þumalfingur efstan. Hnapparnir skulu festir á einkennisfatnað, horft framan frá, sem hér segir:

Í einfaldri hnapparöð skulu fingur vísa til hægri, þumalfingur efstur.

Á ermum, brjóstvösum og húfu skulu fingur vísa að miðju, þumalfingur efstur.

Í tvöfaldri hnapparöð skulu fingur vísa að miðju, þumalfingur efstur.

7. gr.

Armmerki.

Armmerki skal vera hringlaga úr svörtu klæði, 8,2 sm í þvermál. Lögreglumerkið sam­kvæmt lýsingu í 3. gr. skal ísaumað í miðju merkisins með gylltum þræði. Yst á arm­merkinu, allan hringinn, skal vera ísaumuð gyllt rönd 2 mm á breidd og önnur eins rönd, 1 sm innar, utan við horn lögreglumerkis. Efst á merkinu, á milli hringjanna, skal vera ísaumað með gylltum þræði "LÖGREGLAN", leturgerð Arial, eða sambærilegt, stafa­hæð 8 mm. Neðst á merkinu, á milli hringjanna, skal vera ísaumað með gylltum þræði "POLICE" með sömu leturgerð.

8. gr.

Merki Lögregluskóla ríkisins.

Merki Lögregluskóla ríkisins skal vera eins og armmerkið sbr. 7. gr. að lögun og gerð en í staðinn fyrir "POLICE" til viðbótar að neðan, milli hringjanna, skal vera ísaumað með gylltum þræði "Lögregluskólinn" í sömu leturgerð og stærð.

Lögreglumenn sem starfa við Lögregluskóla ríkisins og lögreglunemar í starfsþjálfun og á síðari önn skólans skulu bera einkenni eins og aðrir lögreglumenn í lögreglu ríkisins samkvæmt þessari reglugerð. Armmerki Lögregluskóla ríkisins verður ekki notað á einkennisfatnaði þeirra. Ef þeir fá annan fatnað getur hann haft merki skólans eftir ákvörðun skólastjóra.

9. gr.

Merki Sameinuðu þjóðanna.

Íslenskum lögreglumönnum sem starfa í alþjóðlegum lögreglusveitum Sameinuðu þjóðanna er heimilt að nota við slík störf einkennisbúninga íslensku lögreglunnar. Heimilt er að merkja slíka einkennisbúninga með merkjum Sameinuðu þjóðanna. Ríkis­lögreglu­stjóri getur sett nánari reglur um þessar merkingar.

10. gr.

Lögreglunúmer.

Allir lögreglumenn, sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins, svo og lögreglunemar, skulu fá úthlutað fjögurra stafa lögreglunúmeri. Ríkislögreglustjóri annast úthlutun lögreglunúmera og haldast þau óbreytt meðan lögreglumenn eru í starfi.

Fyrstu tveir stafir númersins ráðast af byrjunarári í lögreglu en tveir þeir síðari segja til um röðun þeirra sem ráðnir eru á sama ári. Ef tveir eða fleiri byrja á sama tíma skal sá sem eldri er fá lægra númer.

Númerin skulu vera ísaumuð gylltum þræði í svartan efnisbút, sem er 25 x 47 mm í þver­mál. Númerin eru 12 mm á hæð og 37 mm á lengd (4 tölustafir). Letrið skal vera gyllt blokkskrift. Lögreglunúmer skal festa á smeyga lögreglumanna. Lögreglunúmer er ekki notað á jakka 1.

Afleysingamenn og héraðslögreglumenn fá úthlutað svokölluðu "H-númeri", sem er númer sem byrjar á bókstafnum H og hlaupandi númeraröð (H001-H9999), sem raðað er eftir skráðum byrjunardegi. Þegar tveir eða fleiri eru ráðnir á sama tíma gildir sama regla og um fastráðna lögreglumenn. Afleysingamenn, sem ekki hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, svo og héraðslögreglumenn, bera ekki lögreglunúmer á einkennisfatnaði sínum.

Aldrei má úthluta lögreglunúmeri sem annar maður hefur borið. Á þetta jafnt við um alla lögreglumenn hvernig sem ráðningarform hefur verið. Ríkislögreglustjóri getur sett nánari reglur um lögreglunúmer.

III. KAFLI

Einkennisfatnaður lögreglu.

11. gr.

Hátíðarbúningur.

Hátíðarbúningurinn er svartur síður jakki og svartar buxur, hvít skyrta, svart bindi, svartir sokkar, svartir lágir skór, hvítir hanskar. Einkennishúfa með hvítum kolli og merki lögreglunnar úr málmi og svartur einhnepptur regnfrakki með einkennistölum.

12. gr.

Almennur lögreglufatnaður.

Almennur lögreglufatnaður er svartur mittisjakki, síður jakki, samfestingur, peysa, svört skyrta, regnjakki og bolur. Fatnaðurinn er með axlarsprotum sem á eru dregnir smeygar með viðeigandi stöðueinkennum. Lögreglumerki eru á báðum ermum. Á baki og hægra megin á brjósti er orðið "Lögreglan" en vinstra megin á brjósti orðið "Police". Ríkislögreglustjóra er heimilt í sérstökum tilvikum að merkja einnig með orðinu "Police" á baki. Tilheyrandi eru svartar buxur, svart bindi, svartir skór, svartur strokkur, svartir hanskar. Svört einkennishúfa með merki lögreglunnar og svart/hvítum endurskinsborða lögreglu.

13. gr.

Sérstakur lögreglufatnaður.

Sérstakur lögreglufatnaður er svo sem einkennisbúningur bifhjólamanna og öryggis­fatnaður sérsveitar ríkislögreglustjóra.

14. gr.

Sérstakur lögreglustjórafatnaður.

Svartur jakki og svartar buxur, hvít skyrta og svart bindi.

15. gr.

Útvegun einkennisfatnaðar o.fl.

Lögreglustjórar skulu útvega einkennisfatnað og annan búnað fyrir lögreglumenn. Þeim ber að halda skrá yfir afhentan einkennisfatnað, tækjabelti og annan tilheyrandi búnað.

Lögreglustjórum ber að haga viðskiptum með einkennisfatnað og annan búnað sam­kvæmt þessari reglugerð í samræmi við fyrirmæli ríkislögreglustjóra.

Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar skulu lögreglustjórar og lögreglumenn greiða sjálfir. Þeir skulu þó fá greitt fyrir tvær fatahreinsanir á ári, svo og aðrar hreinsanir á fötum sem talin er þörf á. Meiriháttar tjón á einkennisfatnaði, sem rekja má til starfsins skal bætt með nýjum einkennisfatnaði.

16. gr.

Eignarheimild og skil á einkennisfatnaði.

Einkennisfatnaður, sem fastráðinn lögreglumaður hefur fengið afhentan samkvæmt reglugerð og notað lengur en tvö ár, skal teljast hans eign. Tilheyrandi einkennum og búnaði ber honum þó að skila til viðkomandi lögreglustjóra við starfslok.

Lögreglumönnum, sem láta af störfum á reynslutíma, hafa starfað skemur en tvö ár og hafa ekki útskrifast úr Lögregluskóla ríkisins, ber að skila öllum einkennisfatnaði, búnaði og einkennum, sem þeir hafa fengið afhentan vegna skólagöngu eða lögreglustarfs.

17. gr.

Notkun einkennisfatnaðar utan lögreglustarfs.

Lögreglumönnum er óheimilt að nota einkennisfatnaðinn utan lögreglustarfs, nema með heimild lögreglustjóra. Ef um er að ræða notkun erlendis skal óska heimildar ríkis­lögreglu­stjóra.

Ekki er heimilt að afhenda einkennisfatnað eða lögreglubúnað utanaðkomandi aðila nema með sérstakri heimild lögreglustjóra.

18. gr.

Lán eða leiga lögreglufatnaðar og búnaðar.

Lögreglustjórum er heimilt við sérstök undantekningartilvik að lána einkennisbúninga og lögreglubúnað.

Um útlán eða leigu einkennisbúninga gilda eftirfarandi reglur:

  1. Lögreglustjórum er heimilt að samþykkja útleigu á lögreglubúningum til kvikmynda­fyrirtækja vegna notkunar við gerð kvikmynda. Heimild til útláns skal stíluð á framleiðanda fatnaðar sem verði heimilað að leigja út fatnaðinn samkvæmt sérstökum leigusamningi sem lögreglustjóri skal staðfesta.
  2. Notkun lögreglubúninga skal takmörkuð við viðkomandi kvikmynd og á meðan tökur standa. Óheimilt er að nota lögreglubúninginn við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir lögreglustarfið.
  3. Tilkynna skal hlutaðeigandi lögreglustjóra um allar kvikmyndatökur utandyra með hæfilegum fyrirvara.
  4. Óheimilt er að samþykkja lán eða leigu á lögreglubúningum vegna auglýsinga nema um sé að ræða sérstakar forvarnarauglýsingar svo sem varðandi umferðar­öryggi.
  5. Ökutæki lögreglu skulu ekki lánuð eða leigð en lögreglustjórum er heimilt að leggja til ökutæki með áhöfn vegna kvikmyndagerðar, ef þeir svo kjósa.
  6. Lán eða leiga lögregluökutækja vegna auglýsingagerðar er óheimil.
  7. Óheimilt er að lána eða leigja annan lögreglubúnað hvort heldur er vegna kvikmyndagerðar, auglýsingagerðar eða annarra tilfella.

IV. KAFLI

Einkennisfatnaður í Lögregluskólanum.

19. gr.

Lögregluskólanemar.

Fatnaður lögreglunema á fyrri önn grunnnáms skal vera einkennisskyrta svart bindi, svartir sokkar, einkennisbuxur og skór samkvæmt ákvörðun skólastjóra.

Lögregluskóli ríkisins ber kostnað af fatnaði lögreglunema á fyrri önn grunnnáms sem þeim er úthlutað samkvæmt reglugerð þessari.

Fatnaður lögreglunema í starfsþjálfun og á síðari önn grunnnáms skal vera almennur einkennisfatnaður lögreglumanna.

Skólastjóra er heimilt að ákveða að við störf í skólanum noti lögreglunemar annan nauðsynlegan fatnað. Þessi fatnaður má vera merktur skólanum.

20. gr.

Úthlutun og skil.

Lögreglunemum er einungis heimilt að nota fatnað þann og búnað sem þeir hafa fengið úthlutað samkvæmt reglugerð þessari við nám í Lögregluskóla ríkisins og við lög­reglu­störf ef því er að skipta.

Ef lögreglunemi hættir námi eða nær ekki tilskildum árangri í prófum námsannar, ber honum að skila þeim fatnaði og búnaði sem hann hefur fengið úthlutað samkvæmt reglugerð þessari.

Lögregluskóli ríkisins ber kostnað af einkennisfatnaði og búnaði embættismanna sem reglugerð þessi tekur til og starfa í fullu starfi við skólann, í réttu hlutfalli við starfstíma þeirra.

V. KAFLI

Nánari útfærsla.

21. gr.

Nafnmerki.

Lögreglustjórar geta ákveðið að lögreglumenn skuli bera nafnmerki í skyrtu og peysu innandyra. Ríkislögreglustjóri getur sett samræmdar reglur um nafnmerki og notkun þeirra, bæði innan- og utanhúss.

22. gr.

Verklagsreglur.

Ríkislögreglustjóri getur sett nánari fyrirmæli um notkun einkennisklæðnaðar lögreglu­manna, lögreglustjóra og skólastjóra Lögregluskólans.

Ríkislögreglustjóri skal að höfðu samráði við lögreglustjórana og Landssamband lög­reglu­manna setja verklagsreglur um útfærslu einkennisfatnaðar, stöðueinkenni, klæða­burð lögreglumanna, úthlutun einkennisfatnaðar og búnaðar.

Heimilt er að úthluta lögreglustjórum fatabeiðnum í stað reglubundinnar úthlutunar einkennisfatnaðar og einnig lögreglumönnum sem starfa sinna vegna þurfa að vinna óeinkennisklæddir. Ríkislögreglustjóri ákveður fjárhæð slíkrar úthlutunar.

23. gr.

Ágreiningsmál.

Dómsmálaráðherra sker úr ágreiningi sem rísa kann vegna túlkunar á reglugerð þessari.

VI. KAFLI

Gildistaka.

24. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 40. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað lögreglu­manna nr. 527 frá 18. ágúst 1997, sbr. reglugerðir um breyting á þeirri reglugerð nr. 716 23. desember 1991, nr. 603 23. september 1998, nr. 467 28. júní 1999 og reglugerð nr. 663 25. ágúst 2003.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 3. janúar 2007.

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica