Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

528/1997

Reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað lögreglumanna. - Brottfallin

1. Einkennisfatnaður almennra lögreglumanna.

1.1          Einkennishúfa 1 skal vera með 5 sm breiðri uppistandandi gjörð allan hringinn og reisn, 5 sm að framan og 4 sm að aftan, kringlóttum, hvítum kolli, svörtu gljáleðursskyggni og hökuól, sem fest sé á gjörðina með tveimur litlum einkennishnöppum. Utan á gjörðina skal koma svartur borði með íofnu munstri.

                Framan á reisninni skal vera gyllt lögreglumerki úr málmi, 58 mm í þvermál. Undir merkinu skal vera jafnstór hringur úr mjúku svörtu plastefni.

 

1.2          Einkennishúfa 2 skal vera úr svörtu sterku efni með hörðu deri klætt sama efni. Hún skal fóðruð með hentugu efni. Framstykki húfunnar skal vera stíft og þar skal vera ísaumað merki lögreglunnar fyrir miðju. Til endanna skal vera minni gerð einkennishnappa sem tengdir eru með einfaldri ól ofan á deri sbr. húfu 1. Innan í húfunni skulu vera eyrnahlífar sem hægt er að taka niður. Þær skulu vera úr mjúku hlýju efni, sem er bryddað með teygju þannig að þær falli vel yfir eyrun.

 

1.3          Einkennishúfa 3 (kuldahúfa) skal vera úr svörtu vönduðu efni. Gyllt lögreglumerki úr málmi, 58 mm í þvermál, skal vera framan á húfunni.

 

1.4          Jakki 1 skal vera úr svörtu terlin efni. Jakkinn skal vera með útáliggjandi hornum og kraga, einhnepptur, með fjórum einkennishnöppum af stærri gerð og axlarsprotum úr mjúku plastefni. Lengd sprotanna er 14-15 sm, breidd við ermasaum 5 sm en 4 sm við kraga. Sá endi sprotans sem er nær kraga er sniðinn í odd.

                Sprotarnir skulu klæddir sama efni og er í jakkanum og eru að ofan með gylltum borðum, 10 mm breiðum, á jöðrunum báðum megin. Þeir skulu festir við axlarbrún með stórum einkennishnappi en litlum einkennishnappi nær kraga. Sprotar á jakka allra lögreglustjóra, skólastjóra Lögregluskóla ríkisins og varalögreglustjóra, skulu klæddir gylltu efni.

                Á hvorri ermi skulu vera 3 einkennishnappar af minni gerð, fremst meðfram ermasaum.

                Á jakkanum skulu vera tveir brjóstvasar með loki og hneppist hvort vasalok með litlum einkennishnappi. Jakkinn skal vera með tveimur innri vösum.

                Jakkalöf skulu fest með þversaum að framan og á hliðum, en bakstykki heil niður, með tveimur fellingum og klauf.

                Um mitti skal vera svart leðurbelti, 4 sm breitt, spennt með koparsylgju (lögreglusylgju) að framan og fest upp á hliðum með koparkrókum.

                Inni í jakkanum skal vera merkimiði með upplýsingum um efni, meðhöndlun og stærðarnúmer.

 

1.5          Buxur 1 skulu vera úr sama efni og jakki 1, þær skulu vera síðar, án uppábrota, með fjórum vösum og vasa fyrir kylfu innan á hliðarvasa öðru hvoru megin. Við buxur 1 skal nota svart leðurbelti með einfaldri venjulegri sylgju, eða lögreglusylgju. Heimilt skal að nota axlabönd ef þau eru svört eða sem líkust skyrtulit.

 

1.6          Skyrta skal vera úr lipru slitsterku efni sem er auðvelt í umhirðu og lætur ekki lit. Hún skal vera með venjulegum kraga, hálf- eða heilerma, eftir óskum notanda.

                Skyrta við annan einkennisfatnað en jakka 1 skal vera fölblá. Hvít skyrta skal ætíð notuð með jakka 1.

                Á báðum öxlum skulu vera samlitir axlasprotar, 4,5 sm breiðir og 14 - 15 sm langir, í odd við kraga, hnepptir upp á öxl með venjulegum tölum. Smeygar með tilheyrandi merkingum skulu dregnir upp á sprotana. Á skyrtu skulu vera tveir brjóstvasar með loki sem hneppist með litlum einkennishnappi.

                Armmerki skulu vera á báðum ermum, 7 sm neðan við axlarsaum.

                Ofan við hægri skyrtuvasa, og fyrir miðju hans, skal sauma svartan borða, 3 sm á hæð og 10 sm á breidd, þar sem á stendur ísaumað með gylltum þræði LÖGREGLAN, stafagerð Arial, hæð leturs 11 mm.

 

LÖGREGLAN

 

1.7          Flísfatnaður skal vera úr svörtu flísefni, polartec 200 eða sambærilegt, peysa með tveimur hliðarvösum og rennilás að framan, sem lokast upp í háls. Buxur skulu vera úr sama efni. Utandyra skal þessi fatnaður einungis borinn undir jakka 2 og 3 og buxum.

 

1.8          Jakki 2 skal vera úr svörtu efni af vandaðri gerð og skal hann ná vel niður fyrir mitti. Hann lokast að framan með sterkum rennilás. Stykki fellur yfir rennilásinn og hneppist með 4 stórum einkennishnöppum.

                Jakkinn skal vera með kraga. Utan á jakkanum skulu vera tveir brjóstvasar með loki sem hneppast með litlum einkennishnappi. Jakkinn skal vera með tveimur innri vösum.

                Vinstra megin, ofan við brjóstvasa, skal vera vasi fyrir handtalstöð. Hann skal vera innanliggjandi og opnast út og lokast bæði með riflás í opi og undir loki. Jakkinn skal vera fóðraður með stroff í ermum. Leðurbryddingar eru fremst á ermum.

                Á báðum öxlum skulu vera axlasprotar, klæddir sama efni og er í jakkanum, 4 sm breiðir og 14 - 15 sm langir í odd, smelltir upp á öxl, með 15 - 16 mm einkennissmellum. Smeygar með tilheyrandi merkingum skulu dregnir upp á sprotana.

                Á miðjum streng skal vera endurskinsborði, 5 sm breiður og 30 - 35 sm langur að aftan og 5 sm breiður og 20 - 24 sm langur hvorum megin að framan, og ermar með 5 sm breiðan endurskinsborða allan hringinn ofan við leðurbryddingar. Endurskinsborðum á ermum skal sleppa þegar gylltir borðar koma á ermar sem stöðueinkenni.

                Yfir brjóstvösunum skulu vera endurskinsborðar, 3ja sm breiðir. Á endurskinsborða yfir hægri brjóstvasa skal standa LÖGREGLAN með svörtu letri

                Á baki jakkans skal standa orðið LÖGREGLAN, stafagerð Arial, eða sambærilegt, 5 sm á hæð, gerðir úr endurskini. Armmerki skulu vera á báðum ermum.

 

1.9          Buxur 2 skulu vera úr svörtu, slitsterku, eldtefjandi efni, þær eru síðar, án uppbrota, með fjórum vösum og vasa fyrir kylfu innan á hliðarvasa öðru hvoru megin. Við buxur 2 skal nota svart leðurbelti með einfaldri venjulegri sylgju, eða lögreglusylgju. Heimilt er að nota axlabönd ef þau eru svört eða sem líkust skyrtulit.

 

1.10        Jakki 3 skal vera úr svörtu vönduðu texefni, sem er bæði vatns- og vindhelt, þannig að það hleypi litlu sem engu vatni inn í sig utan frá en vatn geti gufað í gegn um það innan frá.

                Jakkinn skal vera aðeins síðari en einkennisjakki 1 og lokast að framan með sterkum tveggja sleða rennilás. Tvöföld vindhlíf skal vera utan við rennilás sem lokast með 5 einkennissmellum. Kortavasi er inn í jakkanum með opi fyrir utan rennilás en innan við vindhlíf. Teygjusnúra skal vera í mitti. Á jakkanum skal vera fóðruð hetta sem hægt er að brjóta inn í kragann. Hann skal fóðraður með hentugu efni og hafa talstöðvarvasa í fóðri, vinstra megin, í brjósthæð.

                Utan á jakkanum skulu vera brjóstvasar með föllum sem lokast með riflás og einkennissmellum. Tveir stærri vasar eru neðan mittis sem lokast á sama hátt. Yfir öllum vösunum skulu vera endurskinsborðar, 3ja sm breiðir. Á endurskinsborða yfir hægri brjóstvasa skal standa LÖGREGLAN með svörtu letri.

                Ermar skulu dregnar saman neðst með teygju og riflás og þar fyrir ofan skal vera 5 sm breiður endurskinsborði. Endurskinsborðum á ermum skal sleppa þegar gylltir borðar koma á ermar sem stöðueinkenni. Axlarsprotar skulu saumaðir við axlarbrún og festir upp á öxl með lítilli einkennissmellu. Jakkinn skal opnast á báðum hliðum upp að mitti og lokast með rennilás og riflás. 5 sm breiður endurskinsborði skal vera neðst á bakstykki. Á baki jakkans skal standa orðið LÖGREGLAN, stafagerð Arial, eða sambærilegt, 5 sm á hæð, gerðir úr endurskini.

 

1.11        Buxur 3 skulu vera úr sama efni og jakki 3 og ná vel upp fyrir mitti að framan og hafa teygju í mitti að aftan. Þær skulu lokast að framan með tveggja sleða rennilás. Buxurnar skulu opnanlegar alla leið á hliðum og lokast með tveggja sleða rennilás og vindhlíf sem aftur lokast með riflás og svörtum smellum neðst á skálmum. 5 sm breiður endurskinsborði skal vera á vindhlíf og ná upp fyrir neðri brún á jakka 3.

                Buxurnar skulu hafa axlabönd þar sem báðir endar festast á framstykki þannig að afturstykkið sé laust. Inn í skálmum skulu vera snjóhlífar. Utan á skálmum, neðarlega, skulu vera 2 endurskinsborðar, 5 sm breiðir og eru 5 sm á milli þeirra. Styrktarefni skal vera yfir hnjám og innanfótar á skálmum. Hægra megin aftan á buxunum skal vera vasi fyrir kylfu.

 

1.12        Regnfrakki skal vera úr vatnsvörðu svörtu efni, polyester, heilfóðraður með léttu fóðri. Saumar skulu límdir að innan. Brjóstvasi skal vera vinstra megin í fóðri.

                Frakkinn skal vera einhnepptur að framan upp í háls með 5 stórum einkennishnöppum, eða smellum, og hafa einfaldan kraga. Frakkinn skal hafa tvo innanliggjandi vasa með vasalokum sem sitja þvert í mjaðmarhæð. Ermar skulu vera tvísaumsermar. Frakkinn skal hafa klauf að aftan sem lokast með feluhnappi í miðju.

                Á öxlum skulu vera sprotar, 4,5 sm breiðir og 14 - 15 sm á lengd, klæddir sama efni og er í frakkanum, saumaðir við axlarbrún og festir niður með einkennishnappi eða smellu nær kraga. Smeygar með tilheyrandi merkingum skulu dregnir upp á sprotana. Frakkinn skal eingöngu notaður utanhúss yfir jakka 1.

 

2. Einkennisfatnaður lögreglumanna á bifhjólum lögreglu.

2.1          Einkennisjakki skal vera svartur mittisjakki úr leðri, sem lokast með rennilás að framan. Á jakkanum skulu vera tveir brjóstvasar með smelltum lokum og tveir innri vasar. Ermar skulu vera þröngar að framan með rennilás. Við jakkann skal borin gyllt flauta í festi á sama hátt og við jakka 1. Á öxlum skulu vera sprotar, sams konar og á jakka 1. Þeir skulu vera úr svörtu gúmmíefni eða mjúku plastefni.

 

2.2          Buxur skulu vera úr sama efni og jakkinn, mittis- eða smekkbuxur eftir vali viðkomandi lögreglumanns.

 

2.3          Öryggishjálmur skal vera úr hvítu trefjaplasti og smelltur undir höku með hálshlíf að aftan úr mjúku leðri. Hjálmurinn skal vera af vandaðri gerð og gætt fyllsta öryggis varðandi endingartíma. Framan á hjálminn skal líma lögreglumerki, 58 mm í þvermál.

 

2.4          Hanskar skulu vera úr leðri, svartir að lit. Þeir skulu fóðraðir og með hvítum uppslögum. Endurskinsborðar, 5 sm breiðir, skulu vera á uppslögum og ná allan hringinn.

 

2.5          Leðurstígvél skulu vera svört með reiðstígvélasniði.

 

2.6          Hvítt belti skal vera úr leðri, 5 sm breitt með axlaról 3 sm yfir hægri öxl. Hanki skal vera vinstra megin á belti fyrir hvíta umferðarstjórnarkylfu eða ljós. Hulstur fyrir handjárn skal vera á beltinu. Endurskinsborðar skulu vera á belti og axlaról.

 

3. Einkennisfatnaður sérsveitar lögreglu.

3.1          Einkennishúfa skal vera svört alpahúfa með lögreglumerki, eða einkennishúfa 2, sbr. gr. 1.2.

 

3.2          Samfestingur skal vera úr sterku, dökku (svörtu eða dökkbláu) eldtefjandi efni. Axlarsprotar úr sama efni skulu vera saumaðir við axlarbrún og festir nær hálsmáli meðriflás.Annar fatnaður skal vera svört eða dökkblá rúllukragapeysa og dökkar (svartar eða dökkbláar) slitsterkar vinnubuxur.

 

3.3          Skjólklæðnaður skal vera svartur jakki og buxur úr öndunarefni, svartir leðurhanskar og lambhúshetta.

 

3.4          Skófatnaður skal vera svartur, uppháir, reimaðir leðurklossar og svartir sterkir aðgerðaskór, reimaðir upp á ökkla.

 

3.5          Belti skal vera 4 sm breitt úr svörtu leðri, með venjulegri sylgju, eða lögreglusylgju.

 

3.6          Regnfatnaður skal vera úr svörtu efni.

 

3.7          Klæðnaður sérsveitar skal vera merktur með armmerki á báðum ermum, 7 sm neðan við axlarsaum, og viðeigandi merkingum á axlarsprotum og smeygum. Heimilt er að festa merkin með riflás eða á annan hátt þannig að auðvelt sé að koma þeim fyrir og fjarlægja eftir ástæðum.

 

4. Einkennisfatnaður í Lögregluskóla ríkisins.

4.1          Lögregluskólinn ber kostnað af einkennisfatnaði fastra starfsmanna skólans.

 

4.2          Fatnaður skólanema á fyrri önn grunnnáms skal vera fölblá einkennisskyrta án einkenna, svart bindi, svartar taubuxur, svartir sokkar og svartir lágir skór.

 

4.3          Lögregluskóli ríkisins skal greiða fyrir klæðnað skólanema á fyrri önn grunnnáms.

 

4.4          Fatnaður skólanema á síðari önn grunnnáms skal vera almennur einkennisklæðnaður lögreglumanns.

 

4.5          Skólastjóra er heimilt að ákveða að nota og lána til afnota annan nauðsynlegan fatnað, svo sem svartan eða dökkbláan samfesting með merki skólans á ermum, svartan strokk og derhúfu með merki skólans. Endurskinsborðar skulu vera á ermum og skálmum.

 

4.6          Hætti nemandi námi, eða nái ekki tilskildum árangri, ber honum að skila þeim fatnaði sem hann hefur fengið úthlutað.

 

4.7          Nemendum er óheimilt að nota fatnað þann sem upp hefur verið talinn hér að framan til annarra nota en við nám og störf í Lögregluskóla ríkisins.

 

5. Annar einkennisfatnaður og búnaður lögreglumanna.

5.1          Hálsbindi skal ætíð borið með einkennisfatnaði. Það skal vera úr svörtu taui með föstum hnút og fest með teygju eða klemmu.

 

5.2          Strokkur skal vera úr hlýju slitsterku svörtu bandi, polartec 200 eða sambærilegu flísefni. Hann má bera innan klæða með öðrum fatnaði en jakka 1.

 

5.3          Hanskar skulu vera vandaðir og slitsterkir úr svörtu mjúku leðri, fóðraðir með lipru prjónuðu fóðri og ná vel upp á úlnlið.

 

5.4          Hvítir hanskar skulu vera nælon eða bómullarhanskar, sem auðvelt er að hirða og skulu notaðir með jakka 1 og regnfrakka og skulu þeir ná vel upp á úlnlið.

 

5.5          Belti vegna umferðarstjórnar skal vera hið sama og belti lögreglumanna á bifhjólum sbr. tölulið 2.6.

 

5.6          Endurskinsvesti skal vera úr Polyester teygjuefni. Efnið skal vera neongult með svörtum bryddingum sem eru úr samsvarandi efni. Framan á vestið, vinstra megin, skal vera áprentað með svörtu letri LÖGREGLAN, stafagerð Arial eða sambærilegt, hæð leturs 2,5 sm. Á baki fyrir miðju skal einnig vera áprentað LÖGREGLAN, með sömu leturgerð, hæð 5 sm og fyrir neðan á ensku, POLICE, hæð leturs 4 sm.

                Endurskinsborðar, 5 sm breiðir, skulu vera allan hringinn neðan við handveg og jafnbreiðir borðar yfir báðar axlir, sem ná niður að þverborða bæði að aftan og framan. Riflásar skulu vera samlitir vestinu. Vestið skal að jafnaði nota úti við þegar skuggsýnt er og slæmt skyggni.

 

5.7          Sokkar skulu vera úr lipru slitsterku svörtu bandi.

 

5.8          Skór skulu vera lágir, svartir leðurskór, reimaðir að framan. Þeir skulu vera með meðal grófmynstruðum sóla úr slitsterku efni og með púðum og styrkingum til mikillar notkunar. Þeir skulu vera fóðraðir að innan með leðri. Allur frágangur skal vera vandaður.

 

5.9          Kuldaskór skulu vera reimaðir að framan og ná upp fyrir ökkla. Þeir skulu vera með grófmynstruðum sóla úr slitsterku efni. Þeir skulu vera úr svörtu vatnsheldu efni og fóðraðir með mjúku slitsterku fóðri. Allur frágangur skal vera vandaður og saumar vatnsheldir.

 

5.10        Annar fatnaður. Til afnota fyrir lögreglumenn skal lögreglustjóri láta þeim í té eftir þörfum; öryggishjálma, sloppa, samfestinga, vettlinga og gúmmístígvél.

 

5.11        Flauta. Lögreglumenn í einkennisjakka 1 og jakka bifhjólamanna, skulu bera gyllta flautu sem hneppist í vinstri brjóstvasa. Gyllt festi, um 40 sm að lengd, skal tengjast flautunni og fest í ytri hnapp undir vinstri axlarsprota. Bugðan á flautunni skal snúa fram.

 

5.12        Kylfa. Allir lögreglumenn, sem til þess hafa hlotið þjálfun, skulu að jafnaði bera á sér kylfu við störf sín.

 

5.13        Kylfur af annarri gerð en ríkislögreglustjóri hefur samþykkt, er óheimilt að nota.

 

5.14        Tækjabelti og tilheyrandi hulstur skulu vera úr svörtu vönduðu leðri.

Eftirtalinn tækjabúnað er heimilt að hafa á beltinu:

                Einnota hanska og sáraböggul, saman í hulstri

                Fjölnota hníf í hulstri

                Handjárn í hulstri

                Hring fyrir stórt vasaljós

                Mace úðabrúsa í hulstri

                Maglite handljós, minni gerð, í hulstri

                Lyklahring eða lyklaveski

                Talstöð ef henni er ekki ætlaður sérstakur staður í fatnaði.

Ríkislögreglustjóri getur sett nánari reglur um þennan búnað.

 

5.15        Lögreglumaður skal að jafnaði bera á sér handjárn og kylfu, þegar hann er í lögreglustarfi.

 

5.16        Öllum búnaði samkvæmt töluliðum 5.12 til 5.14 skal lögreglumaður skila til viðkomandi lögreglustjóra við starfslok.

 

6. Klæðaburður lögreglumanna.

6.1          Klæðnaður almennt. Lögreglumenn skulu ganga í einkennisfatnaði við störf sín samkvæmt þessari reglugerð. Lögreglumönnum er heimilt að vera án einkennisjakka og húfu við störf innan lögreglustöðvar og við akstur lögreglubifreiða. Jafnframt er lögreglumönnum heimilt að vera án einkennisjakka við störf utandyra á góðviðrisdögum. Lögreglustjóri getur sett nánari reglur um notkun á jakka 1, 2 og 3.

                Þegar lögreglumenn sinna sérstökum skammtímaverkefnum, mega þeir, í samráði við lögreglustjóra, vera óeinkennisklæddir.

 

6.2          Snyrtimennska í klæðaburði. Lögreglumenn og lögreglunemar skulu ætíð vera snyrtilegir til fara við störf sín. Fatnaði og skóm ber þeim að halda vel við og sjá um að hann sé hreinn og snyrtilegur. Lögreglustjóri, skólastjóri lögregluskólans og aðrir yfirmenn lögregluliðs, skulu fylgjast með klæðaburði lögreglumanna og sjá um að klæðnaður sé í samræmi við gildandi reglur. Þess skal jafnan gætt að samræmi sé í klæðaburði þegar tveir eða fleiri eru saman að störfum.

 

6.3          Einkennishúfur. Einkennisklæddur lögreglumaður skal ganga með einkennishúfu á almannafæri. Einkennishúfa 1 skal aðeins borin með jakka 1 og regnfrakka. Einkennishúfur 2 eða 3 skulu bornar með öðrum einkennisfatnaði.

 

6.4          Klæðaburður lögreglustjóra og skólastjóra lögregluskólans.

                Lögreglustjórum, skólastjóra Lögregluskóla ríkisins og varalögreglustjórum er ekki skylt að klæðast einkennisbúningi við dagleg störf en þeir skulu að jafnaði klæðast einkennisbúningi við opinber eða hátíðleg tækifæri, sérstakar móttökur o.þ.h.

 

6.5          Óeinkennisklæddir lögreglumenn. Rannsóknarlögreglumönnum er að jafnaði ekki gert skylt að ganga í einkennisfatnaði við störf sín. Yfirlögregluþjónum og aðstoðaryfirlögregluþjónum er heimilt að vera óeinkennisklæddir við störf sín, með samþykki lögreglustjóra.

                Lögreglustjóri getur, í samráði við ríkislögreglustjóra, heimilað öðrum lögreglumönnum að vera óeinkennisklæddir við störf, enda sinni þeir þannig verkefnum, að ekki sé talin nauðsyn á því að þeir klæðist einkennisfatnaði að jafnaði.

                Öllum lögreglumönnum er þó skylt að eiga einkennisfatnað samkvæmt þessari reglugerð og koma einkennisklæddir til starfa þegar lögreglustjóri óskar þess.

                Þegar lögreglumenn ganga óeinkennisklæddir er þeim heimilt, við sérstakar lögregluaðgerðir, að einkenna sig með því að klæðast húfu 2 og/eða endurskinsvesti.

 

6.6          Klæðaburður kennara við lögregluskólann. Lögreglumenn, sem eru fastráðnir kennarar við Lögregluskóla ríkisins, skulu að jafnaði vera einkennisklæddir við kennslu og bera einkenni samkvæmt starfsheiti sínu. Hið sama á við um lögreglumenn sem annast stundakennslu við skólann. Frávik eru aðeins heimil í samráði við skólastjóra.

 

6.7          Klæðaburður lögreglumanna í heiðursverði. Í heiðursverði skulu lögreglumenn klæðast einkennisfatnaði, jakka 1, buxum 1 og húfu 1, hvítri skyrtu, hvítum hönskum og svörtum einkennisskóm. Heimilt er að klæðast regnfrakkanum sem yfirhöfn. Ef um er að ræða 8 manna heiðursvörð eða fleiri er heimilt að nota hátíðasnúru og hvítt belti með axlaról sbr. 2. mgr. gr. 4.1 í handbók um lögreglusiði, útg. í apríl 1996.

 

7. Snyrtilegt útlit lögreglumanna, hársídd, skartgripir o.fl.

7.1          Almennt. Öllum lögreglumönnum ber að vera snyrtilegir í útliti við lögreglustörf.

                Þeir skulu sýna sjálfum sér, einkennisfatnaði sínum og starfinu tilhlýðilega virðingu.

 

7.2          Hár, skegg og neglur.

                Hár skal vera hreint, vel klippt og snyrtilegt. Óheimilt er að lita það óvenjulegum eða skærum litum. Hár karla má ekki ná yfir skyrtukraga. Hár síðhærðra kvenna skal við störf vera tekið upp í hnút eða í eina fasta fléttu eða tagl í hnakka. Hár stuttklipptra kvenna má ekki ná yfir skyrtukraga.

                Skegg skal vera vel snyrt. Af öryggisástæðum má það ekki vera sítt. Óheimilt er að lita það í óvenjulegum eða skærum litum.

                Neglur á fingrum skulu vera stuttklipptar. Konur mega ekki við störf bera naglalakk í áberandi eða skærum litum.

 

7.3          Skartgripir.

                Hringir skulu af öryggisástæðum vera látlausir. Þeir mega ekki vera útstæðir, með hvössum hornum eða brúnum sem geta skaðað fólk eða fest í fatnaði eða öðru og valdið tjóni. Lögreglumenn mega ekki við lögreglustörf bera fleiri en tvo hringa að meðtöldum giftingar- eða trúlofunarhring.

                Eyrnalokkar. Karlar mega ekki bera eyrnalokka við lögreglustörf. Konur mega bera látlausa eyrnalokka við lögreglustörf s.s. litlar perlur eða kúlur. Opnir eða lokaðir hringir og hangandi lokkar í eyrum eru af öryggisástæðum bannaðir. Konur mega aðeins bera einn lokk í hvorum eyrnasnepli.

                Aðrir skartgripir. Lögreglumenn í starfi mega ekki bera skartgripi í andliti, s.s. í nefi, vörum eða augabrún.

 

7.4          Eftirlit. Lögreglustjórar fylgjast með því að farið sé að fyrirmælum um snyrtilegt útlit o.fl. Ef upp kemur ágreiningur varðandi slík mál skal því vísað til úrskurðar ríkislögreglustjóra.

 

8. Lögreglumerki o.fl.

 

 

8.1          Íslenska lögreglumerkið skal vera gyllt stjarna með sex jöfnum örmum 58 mm í þvermál. Í miðri stjörnunni skal vera skjöldur með tveimur krosslögðum sverðum að baki skjaldarins, þannig að aðeins sjáist hjöltun ásamt efsta og neðsta hluta blaðanna.

                Umhverfis skjöldinn skal vera áletrunin: MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA, með leturgerðinni New Century Schoolbook, Trademark, Normal. Áletrunin skal vera afmörkuð með tveimur upphleyptum hringjum með 5 mm millibili. Frá ytri hringnum sem skal vera 31 mm í þvermál, liggja 54 teinar með jöfnu millibili út að jaðri stjörnunnar. Neðst á milli hringjanna skal vera upphleypt 5 arma stjarna, 2 mm í þvermál.

                Ef stjarnan er prentuð í lit skal hún vera svört á gulum grunni, sjá mynd.

                Litir; svartur, gulur Pantone 109U.

 

8.2          Lögreglumerki Alþjóðasamtaka sakamálalögreglu, INTERPOL, er blátt á hvítum grunni, sporöskjulagað hnattlíkan með lárviðarsveig til hliðanna, með áletruninni: OIPC og ICPO ofan á hnattlíkaninu, en INTERPOL undir því.

                                Þá er sverð lóðrétt að baki líkaninu og sjást hjöltu þess og efsti og neðsti hluti blaðsins. Tvær vogarskálar eru fyrir neðan hnattlíkanið.

 

8.3          Lögregluskilríki. Allir starfsmenn í lögreglu ríkisins, sem eru handhafar lögregluvalds, skulu bera sérstök lögregluskilríki við skyldustörf, samkvæmt ákvæðum lögreglulaga. Dómsmálaráðherra setur reglugerð um lögregluskilríki.

 

8.4          Nafnmerki. Lögreglustjórar geta ákveðið að lögreglumenn skuli bera nafnmerki í skyrtu og peysu innandyra. Ríkislögreglustjóri getur sett samræmdar reglur um nafnmerki og notkun þeirra, bæði innan- og utanhúss.

 

8.5          Einkennishnappar lögreglunnar skulu vera hringlaga, gylltir með upphleyptri mynd af merkinu "hönd og auga". Hnapparnir skulu vera í tveimur stærðum. Minni gerðin skal vera 15-16 mm, en hin stærri 22 mm, í þvermál. Festing hnappanna skal vera með tvennum hætti, annars vegar saumaðir og hins vegar pressaðir (smella). Hnappa í einkennishúfu 1 og 2 skal festa með spennum, sem sveigðar eru til hliðanna, innan í húfunum. Hnapparnir skulu vera tvenns konar, þ.e. fingur skulu ýmist vísa lárétt til hægri eða vinstri, með þumalfingur efstan. Hnapparnir skulu festir á einkennisfatnað, horft framan frá, sem hér segir:

                Í einfaldri hnapparöð skulu fingur vísa til hægri, þumalfingur efstur.

                Á ermum, brjóstvösum og húfu skulu fingur vísa að miðju, þumalfingur efstur.

                Í tvöfaldri hnapparöð skulu fingur vísa að miðju, þumalfingur efstur.

 

8.6          Armmerkið skal vera hringlaga úr svörtu klæðisefni, 8,2 sm í þvermál. Lögreglumerkið skal vera ísaumað í miðju merkisins með gylltum þræði. Yst á armmerkinu, allan hringinn, skal vera ísaumuð gyllt rönd 2 mm á breidd og önnur eins rönd, einum sm innar, utan við horn lögreglustjörnunnar. Efst á merkinu, á milli hringjanna, skal vera ísaumað með gylltum þræði LÖGREGLAN, leturgerð Arial, eða sambærilegt, stafahæð 8 mm.

 

8.7          Merki Lögregluskóla ríkisins skal vera eins og armmerkið að lögun og gerð, en til viðbótar að neðan, á milli hringjanna, skal vera ísaumað með gylltum þræði LÖGREGLUSKÓLINN, sama leturgerð og stærð. Merkið skal notað á einkennisfatnað kennara og nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólastjóra, að undanskildum jakka 1 og regnfrakka.

 

9. Lögreglunúmer.

9.1          Lögreglunúmer. Allir lögreglumenn skulu bera fjögurra stafa númer í einkennisbúningi sínum sem helst óbreytt á meðan þeir eru í starfi. Ríkislögreglustjóri annast úthlutun númeranna og gefur árlega út skrá um lögreglumenn.

                Fyrstu tveir stafir númersins ráðast af byrjunarári í lögreglu en tveir þeir síðari segja til um röðun þeirra sem ráðnir eru á sama ári. Ef tveir eða fleiri byrja á sama tíma skal sá sem eldri er fá lægra númer.

                Númerin skulu vera ísaumuð gylltum þræði í svartan efnisbút, sem er 25 x 47 mm í þvermál. Númerin eru 12 mm á hæð og 37 mm á lengd (4 tölustafir). Letrið skal vera gyllt blokkskrift. Lögreglunúmerið skal vera staðsett, hornrétt, efst í vinstra horni, framan á vinstra vasaloki, á brjóstvasa á skyrtum, jakka 1, jakka 2 og jakka 3.

 

9.2          Lögreglumenn 4 og héraðslögreglumenn skulu bera númer með stórum bókstaf, H, og hlaupandi þriggja stafa númeraröð (H001 - H999), sem raðað er eftir skráðum byrjunardegi. Þegar tveir eða fleiri eru ráðnir á sama tíma gildir sama regla og um fastráðna lögreglumenn.

 

9.3          Úthlutun lögreglunúmers. Aldrei má úthluta lögreglunúmeri sem annar maður hefur borið. Á þetta jafnt við um alla lögreglumenn hvernig sem ráðningarform hefur verið. Ríkislögreglustjóri getur sett nánari reglur um lögreglunúmer.

 

10. Merkingar á axlarsprotum, smeygum, kraga, ermum o.fl.

10.1        Axlarsprotar. Stöðueinkenni úr málmi skulu fest beint á axlarsprota á jakka 1 og jakka bifhjólamanna og skulu staðsett á milli 10 mm breiðra gylltra borða sem eru á jöðrum þeirra. Sprotarnir skulu festir til endanna með lögregluhnöppum, nær axlarbrún skal vera hnappur af stærri gerð en nær kraga hnappur af minni gerð.

                Axlarsprotar lögreglustjóra, skólastjóra lögregluskólans og varalögreglustjóra skulu klæddir gylltu efni.

 

10.2        Axlarsmeygar. Á öðrum fatnaði lögreglumanna skulu smeygar með einkennum vera dregnir upp á axlarsprotana. Einkennin skulu vera gylltir borðar og önnur tilheyrandi einkenni, ísaumuð með gylltum þræði ofan á smeygana. Gylltu borðarnir skulu ýmist vera 6 eða 3 mm breiðir með 3 mm millibili.

                Axlarsmeygar lögreglustjóra, skólastjóra lögregluskólans og varalögreglustjóra skulu klæddir gylltu efni að ofan.

 

10.3        Stöðueinkenni á sprotum og smeygum.

                Stöðueinkenni á sprotum og smeygum skulu vera eftirfarandi:

                Íslenska lögreglumerkið, 22 mm í þvermál, gyllt að lit.

                Fimmarma stjarna, 18 mm í þvermál, gyllt að lit.

                Plata, 24 ´ 10 mm að stærð, gyllt að lit.

 

10.4        Merkingar á kraga. Á jakka 1 skal merking á hvoru kragahorni vera gyllt lögreglumerki, 22 mm, eða gyllt skjaldarmerki íslenska lýðveldisins, 30 ´ 28 mm að stærð.

 

10.5        Merkingar á jakkaermum. Á jakkaermum skulu merkingar vera gylltir borðar, 20 eða 10 mm breiðir, með 5 mm millibili, á hvorri ermi ofan við ermahnappa og ná milli ermasauma á jakka 1, en allan hringinn á jakka 2, jakka 3 og regnfrakka. Á jakka 2, jakka 3 og regnfrakka skal neðri brún á neðsta borða vera 8 sm frá ermabrún.

 

10.6        Armmerkið. Armmerkið skal fest á báðar ermar, 7 sm neðan við axlarsaum á skyrtu, jakka 2, jakka 3, samfesting og skjólklæðnað sérsveitar lögreglunnar.

 

11. Stöðueinkenni og merki íslensku lögreglunnar.

11.1        Ríkislögreglustjóri. Axlarsprotar á jakka 1 og smeygar á öðrum fatnaði skulu vera gylltir. Á hvorum sprota/smeyg skulu vera þrjú lögreglumerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera þrír borðar, 20 mm breiðir.            Á hvoru kragahorni skal vera gyllt skjaldarmerki.

                Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig, 13,5 ´ 2 sm, sem koma saman á miðju skyggni.

 

11.2        Lögreglustjórinn í Reykjavík. Axlarsprotar á jakka 1 og smeygar á öðrum fatnaði skulu vera gylltir. Á hvorum sprota/smeyg skulu vera tvö lögreglumerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera tveir borðar, 20 mm breiðir. Á hvoru kragahorni skal vera gyllt skjaldarmerki.

                Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig, 13,5 ´ 2 sm, sem koma saman á miðju skyggni.

 

11.3        Aðrir lögreglustjórar, skólastjóri lögregluskólans, vararíkislögreglustjóri og varalögreglustjóri í Reykjavík. Axlarsprotar á jakka 1 og smeygar á öðrum fatnaði skulu vera gylltir. Á hvorum sprota/smeyg skal vera eitt lögreglumerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skal vera einn borði, 20 mm breiður. Á hvoru kragahorni skal vera gyllt skjaldarmerki

                Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig, 13,5 ´ 2 sm, sem koma saman á miðju skyggni.

 

11.4        Yfirlögregluþjónn. Á smeygum skulu vera tveir gylltir borðar, 6 mm, nær axlarbrún og einn gylltur borði, 3 mm, nær kraga. Á hvorum axlarsmeyg/sprota skulu vera þrjár fimmarma stjörnur.

                Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera 3 borðar, 10 mm breiðir. Á hvoru kragahorni skal vera eitt lögreglumerki.

                Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 12 mm breið. Ofan á skyggninu skulu ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, 7 ´ 1,8 sm.

 

11.5        Aðstoðaryfirlögregluþjónn. Á smeygum skulu vera tveir gylltir borðar, 6 mm, nær axlarbrún og einn gylltur borði, 3 mm, nær kraga. Á hvorum axlarsmeyg/sprota skulu vera tvær fimmarma stjörnur.               Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera tveir borðar, 10 mm breiðir. Á hvoru kragahorni skal vera eitt lögreglumerki.

                Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 12 mm breið.

 

11.6        Aðalvarðstjóri, lögreglufulltrúi og fulltrúi við lögregluskólann. Á smeygum skulu vera tveir gylltir borðar, 6 mm, nær axlarbrún og einn gylltur borði, 3 mm, nær kraga. Á hvorum axlarsmeyg/sprota skal vera ein fimmarma stjarna. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skal vera einn borði, 10 mm breiður. Á hvoru kragahorni skal vera eitt lögreglumerki.

 

11.7        Varðstjóri og rannsóknarlögreglumaður 1. Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 6 mm, nær axlarbrún og annar, 3 mm, og einn borði, 3 mm, nær kraga. Á hvorum axlarsmeyg/sprota skulu vera tvær gylltar plötur. Á hvoru kragahorni skal vera eitt lögreglumerki.

 

11.8        Aðstoðarvarðstjóri og rannsóknarlögreglumaður 2. Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 6 mm, nær axlarbrún og annar, 3 mm, og einn borði, 3 mm, nær kraga. Á hvorum axlarsmeyg/sprota skal vera ein gyllt plata.

                Á hvoru kragahorni skal vera eitt lögreglumerki.

 

11.9        Flokksstjóri, lögreglumaður í sérhæfðu starfi og stöðvarmaður. Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 6 mm, nær axlarbrún og tveir, 3 mm, og einn borði, 3 mm, nær kraga.

 

11.10      Lögreglumaður 1, lokið lögregluskóla, 3 ár í starfi, þar af eitt ár eftir skóla.

                Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 6 mm, nær axlarbrún og annar, 3 mm, og einn borði, 3 mm, nær kraga.

 

11.11      Lögreglumaður 2 og héraðslögreglumaður, báðir lokið lögregluskóla. Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 6 mm, nær axlarbrún og annar, 3 mm, nær kraga.

 

11.12      Lögreglumaður 3, lokið fyrri hluta lögregluskóla. Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 3 mm, á hvorum enda.

 

11.13      Lögreglumaður 4 og héraðslögreglumaður, sem ekki hafa lokið lögregluskóla. Á smeygum skal vera einn gylltur borði, 3 mm, nær kraga.

 

12. Heiðursmerki, lögreglumerki o.fl.

12.1        Heiðursmerki, þjónustumerki eða táknræna borða þeirra skal bera í samræmi við reglur um lögreglusiði, grein 4.5, frá apríl 1996.

 

12.2        Félagsmerki lögreglumanna og samtaka þeirra mega lögreglumenn bera í hálsbindi en önnur merki með leyfi lögreglustjóra.

 

13. Úthlutun einkennisfatnaðar til lögreglumanna,

lögreglustjóra og skólastjóra lögregluskólans.

13.1        Almennt. Þeir, sem taldir eru upp í 11. kafla reglugerðarinnar, skulu fá úthlutað einkennisfatnaði skv. þessari reglugerð.

 

13.2        Lögreglumaður sem ráðinn er í fyrsta skipti í fast starf skal fá afhentan eftirtalinn einkennisfatnað á fyrsta starfsári: Einn jakka 1 og einar buxur 1, einn jakka 2, og tvennar buxur 2, einn jakka 3 og einar buxur 3, eitt sett af flísfatnaði, þrjár skyrtur, eitt hálsbindi, eina einkennishúfu 1 ásamt auka húfukolli, eina einkennishúfu 2, eina einkennishúfu 3, eina lága götuskó, eina kuldaskó, einn strokk, eina leðurhanska, eina nælon- eða bómullarhanska og ferna sokka.

 

13.3        Lögreglumaður 4 og héraðslögreglumaður skulu fá afhentan einkennisfatnað sem hér segir:

                Einn jakka 2 og einar buxur 2, eina húfu 2, tvær skyrtur, eitt bindi. Annan fatnað, þar með talinn skófatnað, skulu þeir fá samkvæmt mati viðkomandi lögreglustjóra.

 

13.4        Lögreglustjórar, skólastjóri lögregluskólans og varalögreglustjórar.

                Lögreglustjórar, skólastjóri lögregluskólans og varalögreglustjórar skulu fá einkennisfatnað samkvæmt reglugerð þessari, eftir því sem þurfa þykir, að mati ríkislögreglustjóra.

 

13.5        Meðaltalsúthlutun til óeinkennisklæddra lögreglumanna. Þeir lögreglumenn sem að jafnaði ganga óeinkennisklæddir geta í stað reglulegrar úthlutunar samkvæmt tölulið 14.1, fengið árlega almenna fatabeiðni, svokallaða meðaltalsúthlutun einkennisfatnaðar, að frádregnum skóm, sem ávallt koma til úthlutunar sbr. sama tölulið. Meðalverð einkennisfatnaðar er gefið út af ríkislögreglustjóra sem mælir nánar fyrir um úthlutun þessa. Þessi tilhögun leysir viðkomandi ekki undan þeirri skyldu að eiga ávallt tiltækan einkennisfatnað skv. reglugerð þessari, sbr. tölulið 6.5.

 

13.6        Lögreglumaður á bifhjóli lögreglu. Þegar lögreglumenn hefja störf á bifhjólum lögreglu skal þeim úthlutað eftirtöldum fatnaði; leðurjakka og leðurbuxum, öryggishjálmi, leðurhönskum, leðurstígvélum eða klossum og hvítu leðurbelti. Endurskinsvesti skal ætíð fylgja með klæðnaði lögreglumanns á bifhjóli lögreglu og vera til taks á hjólinu þegar á þarf að halda. Endurnýjun fatnaðar bifhjólamanna skal fara eftir þörfum að mati lögreglustjóra.

                Þegar lögreglumaður lætur af störfum á bifhjóli lögreglu ber honum að skila öllum sérbúnaði og fatnaði sem hann hefur fengið afhentan vegna starfsins.

 

13.7        Lögreglumaður í sérsveit lögreglunnar. Þegar lögreglumenn hefja störf í sérsveit lögreglunnar skal þeim úthlutað eftirtöldum fatnaði; einum samfestingi, einum vinnubuxum, tveimur peysum, einum leðurklossum, einum aðgerðaskóm, einni húfu, einu leðurbelti, einum skjólklæðnaði, einum hönskum, einni lambhúshettu og einum regnfatnaði.

                Eftirtalinn hlífðarútbúnaður er nauðsynlegur hverjum lögreglumanni sem starfar í sérsveit lögreglu; legghlífar, hnéhlífar, innanklæða skotvesti, aðgerðaskotvesti, högghlífðarhjálmur, óeirðarhjálmur, skotskýlingarhjálmur, öryggisgleraugu og heyrnarskjól.

                Endurnýjun fatnaðar og hlífðarbúnaðar skal síðan fara eftir þörfum að mati lögreglustjóra. Þegar lögreglumaður lætur af störfum í sérsveit ber honum að skila öllum sérbúnaði og sérsveitarfatnaði.

 

13.8        Kvenlögregla. Kvenlögreglumenn sem verða barnshafandi skulu eiga þess kost að fá skokk og síðar buxur sér að kostnaðarlausu á meðgöngutímanum. Þessi úthlutun skal fara eftir mati viðkomandi lögreglustjóra.

 

13.9        Lögreglueinkenni.              Einkenni skulu fylgja fatnaðinum í samræmi við reglugerð og endurnýjast eftir þörfum að mati viðkomandi lögreglustjóra hverju sinni.

 

14. Úthlutun og endingartími einkennisfatnaðar.

14.1        Regluleg úthlutun og endingartími skal vera eftirfarandi:

                1.             Einkennishúfa 1    ein fjórða hvert ár

                2.             Einkennishúfa 2    ein annað hvert ár

                3.             Einkennishúfa 3    ein fjórða hvert ár

                4.             Jakki 1    einn fjórða hvert ár

                5.             Belti án sylgju       eitt fjórða hvert ár

                6.             Einkennisbuxur 1  einar, annað hvert ár

                7.             Einkennisskyrta    þrjár á hverju ári

                8.             Flísfatnaður           eitt sett þriðja hvert ár

                9.             Jakki 2    einn þriðja hvert ár

                10.           Einkennisbuxur 2  einar á hverju ári og

                                                tvennar annað hvert ár

                11.           Jakki 3 og buxur 3 eitt sett fjórða hvert ár

                12.           Regnfrakki             einn fimmta hvert ár

                13.           Hálsbindi               eitt annað hvert ár

                14.           Strokkur einn þriðja hvert ár

                15.           Leðurhanskar        eitt par á hverju ári

                16.           Hvítir hanskar       eitt par þriðja hvert ár

                17.           Sokkar    fjögur pör á hverju ári

                18.           Götuskór                eitt par á hverju ári

                19.           Kuldaskór              eitt par annað hvert ár

 

                Eftirfarandi tafla er sett upp til fróðleiks og gefur mynd af reglulegri úthlutun einkennisfatnaðar á hverju ári þegar mið er tekið af samsvarandi töflu í síðustu fatareglugerð. Nauðsynlegt er að hafa í huga að úthlutun fatnaðar, þ.m.t. skótau, reiknast frá síðustu úthlutun til hvers lögreglumanns, óháð töflunni.

 

ÚTHLUTUNARÁR:

'98

'99

'00

'01

'02

'03

'04

'05

'06

'07

Einkennishúfa 1

 

 

1

 

 

 

1

 

 

 

Einkennishúfa 2

1

 

1

 

1

 

1

 

1

 

Einkennishúfa 3

 

 

 

1

 

 

 

1

 

 

Jakki 1

1

 

 

 

1

 

 

 

1

 

Belti án sylgju

1

 

 

 

1

 

 

 

1

 

Einkennisbuxur 1

 

1

 

1

 

1

 

1

 

1

Einkennisskyrta

3

3

3

3

3

3

3

3

3

3

Flísfatnaður

1

 

 

1

 

 

1

 

 

1

Jakki 2

 

1

 

 

1

 

 

1

 

 

Buxur 2

2

1

2

1

2

1

2

1

2

1

Jakki + buxur 3

 

1

 

 

 

1

 

 

 

1

Regnfrakki

1

 

 

 

 

1

 

 

 

 

Hálsbindi

1

 

1

 

1

 

1

 

1

 

Strokkur

1

 

 

1

 

 

1

 

 

1

Leðurhanskar

1

1

1

1

1

1

1

1

1

1

Hvítir hanskar

1

 

 

1

 

 

1

 

 

1

Svartir sokkar

4

4

4

4

4

4

4

4

4

4

Götuskór

1

1

1

1

1

1

1

1

1

1

Kuldaskór

 

1

 

1

 

1

 

1

 

1

 

15. Útvegun einkennisfatnaðar, annars búnaðar, viðhald o.fl.

15.1        Útvegun einkennisfatnaðar og búnaðar. Lögreglustjórar skulu útvega einkennisfatnað og annan búnað fyrir lögreglumenn. Þeim ber að halda skrá yfir afhentan einkennisfatnað, lögregluskilríki, tækjabelti og annan tilheyrandi búnað.

 

15.2        Viðhald einkennisfatnaðar. Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar skulu lögreglumenn greiða sjálfir. Þeir skulu þó fá greitt fyrir tvær fatahreinsanir á ári, svo og aðrar hreinsanir á fötum sem yfirmaður telur þörf á. Meiriháttar tjón á einkennisfatnaði, sem rekja má til starfsins, skal lögreglumönnum bætt að mati lögreglustjóra.

 

15.3        Eignarheimild. Einkennisfatnaður, sem fastráðinn lögreglumaður hefur fengið afhentan samkvæmt reglugerð og notað lengur en tvö ár, skal teljast hans eign. Tilheyrandi einkennum og búnaði ber honum þó að skila til viðkomandi lögreglustjóra við starfslok.

 

15.4        Notkun einkennisfatnaðar utan lögreglustarfs. Lögreglumönnum er óheimilt að nota einkennisfatnaðinn utan lögreglustarfs, nema með heimild lögreglustjóra. Ef um er að ræða notkun erlendis skal óska heimildar ríkislögreglustjóra.

                Ekki er heimilt að afhenda einkennisfatnað utanaðkomandi aðila nema með sérstakri heimild lögreglustjóra.

 

15.5        Skil á einkennisfatnaði. Lögreglumönnum, sem láta af störfum á reynslutíma, hafa starfað skemur en tvö ár og hafa ekki útskrifast úr Lögregluskóla ríkisins, ber að skila öllum einkennisfatnaði, búnaði og einkennum, sem þeir hafa fengið afhentan vegna skólagöngu eða lögreglustarfs.

 

15.6        Fataviðskipti. Lögreglustjórum ber að haga viðskiptum með einkennisfatnað, skó og annan búnað skv. þessari reglugerð, í samræmi við fyrirmæli ríkislögreglustjóra.

 

16. Ágreiningsmál.

16.1        Dómsmálaráðherra sker úr ágreiningi sem rísa kann vegna túlkunar á reglugerð þessari.

 

17. Gildistaka o.fl.

17.1        Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 40. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast gildi 1. janúar 1998.

                Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað lögreglumanna nr. 118 9. febrúar 1990, sbr. reglugerð um breyting á þeirri reglugerð nr. 118 18. mars 1993, og reglugerð um merki lögreglunnar nr. 261 13. maí 1980.

 

18. Ákvæði til bráðabirgða.

                Ákvæði reglugerðar þessarar, sem varða lögreglustjóra, skólastjóra lögregluskólns og varalögreglustjóra, taka þegar gildi.

                Eftir gildistöku skv. 17. grein er heimilt að nota áfram einkennisfatnað skv. reglugerð nr. 118/1993 svo sem hér greinir:

                1.1.4        Vesti       (út árið 1998)

                1.1.7        Peysa m. V hálsmáli             (út árið 1998)

                1.1.8        Jakki II    (út árið 1998)

                1.1.9        Frakki "gamli lordinn"         (út árið 2000)

                1.1.10      Kuldaúlpa              (út árið 2000)

                1.1.11      Regnfatnaður        (út árið 2000)

                1.2.9        Trefill      (út árið 1998)

                1.5.1        Skyrtur, bláar        (út árið 1998)

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 18. ágúst 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.

 

Fylgiskjal.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica