1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um einkenni lögreglunnar. Öðrum en lögreglunni er óheimilt að nota einkenni, merki og/eða einkennisfatnað lögreglunnar eða fatnað sem er svo áþekkur þeim er lögregla notar, að hætta sé á að á verði villst. Brot á þessum reglum geta varðað refsingu skv. 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Allir þeir sem taldir eru í 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fá úthlutað einkennisfatnaði með tilhlýðilegum einkennum samkvæmt þessari reglugerð.
2. gr.
Skýringar.
Með lögreglumerki í reglugerð þessari er átt við eftirfarandi:
Nánari lýsing á einkennum og merkjum lögreglunnar er í viðauka með þessari reglugerð.
3. gr.
Íslenska lögreglumerkið.
Íslenska lögreglumerkið er gyllt stjarna með sex jöfnum örmum. Í miðri stjörnunni er skjöldur með tveimur krosslögðum sverðum að baki skjaldarins, þannig að aðeins sér í hjöltun ásamt efsta og neðsta hluta blaðanna.
Umhverfis skjöldinn skal vera áletrunin: MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA, með leturgerðinni New Century Schoolbook, Trademark, Normal. Áletrunin skal vera afmörkuð með tveimur upphleyptum hringjum. Frá ytri hringnum, liggja 54 teinar með jöfnu millibili út að jaðri stjörnunnar. Neðst á milli hringjanna er 5 arma stjarna.
Ef stjarnan er prentuð í lit skal hún vera svört á gulum grunni, sjá mynd.
Litir: svartur, gulur Pantone 109U.
4. gr.
Merkið LÖGREGLAN.
Merkið LÖGREGLAN í lit gulur Pantone 109U á svörtum fleti telst til lögreglumerkja. Sama á við um merkið POLICE þar sem það er notað.
5. gr.
Endurskinseinkenni.
Lögreglan notar svart/hvítt endurskinsmerki sem er svartur og hvítur endurskinsborði og telst til lögreglumerkja.
6. gr.
Einkennishnappar.
Einkennishnappar lögreglunnar eru hringlaga, gylltir með upphleyptri mynd af hönd og auga.
7. gr.
Armmerki.
Armmerki er hringlaga úr svörtu klæði. Lögreglumerkið sbr. 3. gr. er í miðju merkisins með gylltum þræði. Yst á armmerkinu, allan hringinn, er gyllt rönd sem er efst á merkinu, á milli hringjanna, skal standa LÖGREGLAN, leturgerð Arial. Neðst á merkinu, á milli hringjanna skal standa POLICE með gylltum þræði í sömu leturgerð.
8. gr.
Sérstök einkenni lögreglunnar.
Ríkislögreglustjóri getur heimilað einstökum starfseiningum lögreglunnar að bera sérstakar merkingar s.s. tæknideild.
9. gr.
Alþjóðleg merki.
Íslenskum lögreglumönnum sem starfa í alþjóðlegum lögreglusveitum á vegum íslenskra stjórnvalda, s.s. Sameinuðu þjóðanna, er heimilt að nota einkennisfatnað íslensku lögreglunnar við störf sín í öðrum löndum. Heimilt er að festa merki viðeigandi alþjóðastofnunar á einkennisfatnaðinn meðan því starfi er sinnt. Jafnframt er heimilt að nota húfu þeirrar sveitar sem starfað er í þegar svo ber undir.
Ríkislögreglustjóri getur sett sérstakar reglur um þessar merkingar.
10. gr.
Fyrirmæli.
Ríkislögreglustjóri getur sett nánari fyrirmæli um einkenni og merki lögreglunnar samkvæmt reglugerð þessari, þar á meðal um stöðueinkenni lögreglunnar.
11. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 40. gr. lögreglulaga öðlast þegar gildi.
Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um einkennisfatnað, merki og búnað lögreglumanna nr. 8 frá 3. janúar 2007.
Innanríkisráðuneytinu, 6. desember 2011.
Ögmundur Jónasson.
Þórunn J. Hafstein.
VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)