Brottfallnar reglugerðir

127/1937

Reglugerð um skemmtanaskatt - Brottfallin

1. gr.

Til þess að halda skemmtun, sem aðgangur er seldur að, skal fá leyfi lögreglustjóra, og skal tilkynna honum, hvar og hvenær hún skuli haldin. Í Reykjavík þarf einnig leyfi tollstjóra til þess að halda skemmtun, sem aðgangur er seldur að.

Einnig þarf leyfi nefndra yfirvalda til þess að halda dansleiki, enda þótt ekki sé seldur aðgangur að þeim.

Eigi þarf leyfi til að halda hverja einstaka skemmtun, sem kvikmyndahús og aðrar skemmtistofnanir, sem rekin eru sem föst atvinnufyrirtæki, stofna til.

2. gr.

Lögreglustjóri getur gert það að skilyrði fyrir veitingu leyfis til skemmtanahalds, að ekki annist aðrir dyravörzlu að skemmtun en hann samþykkir, enda skuldbindi þessir menn sig gangvart honum til þess að hleypa engum öðrum inn á skemmtun en þeim, sem afhenda aðgöngumiða stimplaðan skemmtanaskattsstimplinum ( sbr.4.gr. ), að þeir skuli afhenda lögreglustjóra, í Reykjavík tollstjóra, alla þá aðgöngumiða, sem þeir taka á móti við innganginn, og að þeir skuli gæta þess, að ekki sé farið í kringum skemmtanaskattslögin, t. d. með því, að gert sé að skilyrði fyrir aðgöngu að skemmtun, að menn greiði félagsskírteini, félagstillög, merki eða annað þess háttar.

Ennfremur má lögreglustjóri binda leyfi því skilyrði, að sá, er fyrir skemmtun stendur, geri þær ráðstafarnir til að halda þar uppi reglu og velsæmi, sem lögreglustjóri telur fullnægjandi, og beri kostnað af þeim.

 

3. gr.

Aðgang að skemmtunum má ekki selja án þess að aðgöngumiðar séu afhentir, enda er seljanda ekki heimilt að taka aftur við aðgöngumiðum, nema hann greiði fullt andvirði þeirra.

4. gr.

Aðgöngumiðar að skemmtunum skulu stimplaðir með þar til gerðum stimpli og kallst hann í reglugerð þessari skemmtanaskattstimpill.

Stimplun aðgöngumiða skal annaðhvort fara fram í skrifstofu lögreglustjóra, í Reykjavík tollstjóra, eða í prentsmiðju. Ef stimpla á í prentsmiðju, semur lögreglustjóri, í Reykjavík tollstjóri, við prentsmiðju um stimplun miðanna, um leið og þeir eru prentaðir, með þar til gerðum stimpli eða stimpilmóti ( cliché ), sem lögreglustóri, í Reykjavík tollstjóri, afhendir prentara gegn skuldbindingu hans um, að hann skuli ekki misnota stimpilinn og að hann skuli afhenda lögreglustjóra, í Reykjavík tollstjóra, og engum öðrum alla

þá aðgöngumiða, sem hann setur stimpilinn á. Á hvern aðgöngumiða skal prenta verð hans og upphæð skemmtanaskattsins.

5. gr.

Aðgöngumiðar skulu þannig gerðir, að þeir verði hæglega rifnir í tvennt þá er þeir eru notaðir, þannig að dyravörður haldi öðrum hlutanum, en aðgangskaupandi hinum.

 

6. gr.

Um leið og lögreglustjóri, í Reykjavík tollstjóri, leyfir einhverja skemmtun, sem ekki er undanþegin skatti samkvæmt 3.gr. skemmtanaskattslaganna, færir hann inn í sérstaka bók nafn leyfishafa, tegund skemmtunar og hvar og hvenær hún skuli haldin. Jafnframt setur hann í bókina raðtölu við skemmtunina, og skulu allar skemmtanir ársins merktar áframhaldandi raðtölum. Á eftir því, sem skráð er í bókina um hverja skemmtun, skal ætla nægilegt rúm til að innfæra þar fjölda miða þeirra, sem afhentir eru leyfishafa til sölu gegn kvittun hans, ritaðri í bókina, að innfæra þar miða þá, sem ekki seljast og skilað er aftur, að innfæra útreikning skattsins af seldum miðum. Nú fellur leyfi til skemmtunar niður, og skal þess þá getið í bókinni. Nú sannar leyfishafi fyrir lögreglustjóra, í Reykjavík tollstjóra, á þann hátt,er hann telur fullnægjandi, að nokkrum miðum hafi verið útbýtt kauplaust ( fríbílæti ), og er þá rétt, að ekki sé greiddur skattur af þeim miðum, en lögreglustjóri, í Reykjavík tollstjóri, telur þá miða í skemmtanaskattsbókinni meðal skilaðra miða.

Um trygging og fyrirkomulag skattgreiðslu frá kvikmyndahúsum og öðrum skemmtistofnunum, er rekin eru sem föst atvinnufyrirtæki, getur lögreglustjóri, í Reykjavík tollstjóri, sett önnur a´kvæði, svo sem um sundurliðaða og daglega bókfærslu seldra aðgöngumiða, er tryggi það, að skatturinn verði talinn rétt fram. Aðgöngumiðar skulu þó ætíð vera gerðir eins og að framan segir.

7. gr.

Gjalddagi skemmtanaskatts er næsti virki dagur eftir að skemmtun hefur verið haldin.

Eigandi húsnæðis þess, er dansleikur er haldinn í, ber ábyrgð á greiðslu skattsins.

8. gr.

Þá er skemmtanaskatturinn fyrir hvern ársfjórðung hefir verið innheimtur, skal lögreglustjóri, í Reykjavík tollstjóri, þegar senda hann fjármálaráðuneytinu með bréfi, þar sem hin senda fjárhæð er tilgreind. Reikning yfir skemmtanaskattinn úr umdæminu fyrir almanaksárið, skal lögreglustjóri, í Reykjavík tollstjóri, hafa gert svo tímalega, að hann geti sent hann tvíritaðan með fylgiskjölum til fjármálaráðuneytisins innan loka febrúarmánaðar þess árs, sem í hönd fer.

Ársreikning með skilagrein skal gera samkvæmt fyrimyndum, er ráðuneytið sendir lögreglustjórum, í Reykjavík tollstjóra.

Fjármálaráðuneytið afhendir stjórn þjóðleikhússjóðsins skemmtanaskattupp-hæðirnar eftir því sem þær berast ráðuneytinu.

Framkvæmd á ákvæðum 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar er frestað meðan 2. töluliður laga nr. 73, 23. júní 1936 og síðari framlengingar á gildi ákvæða þess liðs eru lög. Meðan svo stendur fer um skilagrein fyrir skemmtanaskatti eftir almennum reglum um opinber reikningsskil.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í skemmtanaskattslögunum og varða brot gegn henni, sem sæta meðferð almennra lögreglumála, sektum samkvæmt 7.gr. laganna.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytið, 8. desember 1937.

Eysteinn Jónsson.

_______________

Páll Pálmason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica