REGLUGERÐ
um viðauka við reglugerð nr. 127 frá 1937, um skemmtanaskatt.
1. gr.
Nú eru vínveitingar um hönd hafðar í veitinga- eða samkomuhúsi, án þess að skemmtanaskattur sé greiddur samkvæmt ákvæðum 1. og 2. flokks 2. gr. skemmtanaskattslaganna, og skal þá greiða kr. 8.00 í skemmtanaskatt og kr. 2.00 í menningarsjóð fyrir hvern mann, er aðgang fær að húsinu eftir kl. 19.00 föstudaga og laugardaga og eftir kl. 20.30 aðra vikudaga. 10% álag á skemmtanaskatt, er rennur til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er innifalið í 8 kr. gjaldinu.
Sérstakir aðgöngumiðar skulu gerðir í þessu skyni undir umsjón tollstjórans í Reykjavík, er hefur miðana til sölu fyrir veitingamenn og til dreifingar til bæjarfégeta, sem annast sölu þeirra á sama hátt hver í sínu umdæmi.
Á miðunum skal tilgreind fjárhæð skemmtanaskattsins og menningarsjóðsgjaldsins og að álag það, sem veitingamanni er heimilt að leggja á miðana, megi ekki vera hærra en kr. 5.00. Álag þetta er undanþegið skemmtanaskatti.
Tollstjóri ræður gerð aðgöngumiðana, kr. 10.00 fyrir hvern miða, við afhendingu hjá tollstjóra eða bæjarfógeta, að viðbættum prentunarkostnaði. Miðanir skulu prentaðir og seldir í rúllum.
Veitingamenn skulu annast sölu aðgöngumiða, og skulu miðarnir seldir samkomugestum um leið og þeir fá aðgang að samkomu- eða veitingahúsinu, og verða seldir miðar ógildir, ef þeir eru ekki notaðir þá þegar.
Nú er vínveitingahús jafnframt gistihús og skal gjaldið þá ekki heimt þar af föstum dvalargestum þess, enda sýni þeir gistiskírteini, ef krafizt er.
2. gr.
Dansleikir, sem unglingar frá 16 til 21 árs aldri eiga einir aðgang að og standa ekki lengur en til kl. 0.30, skulu undanþegnir öllum skemmtanaskatti, enda sé aðgangur seldur vægu verði og fullnægt öðrum skilyrðum, er lögreglustjóri telur rétt að setja.
3. gr.
Undanþiggja má skemmtanaskatti dansskemmtanir með eða án minni háttar skemmtiatriða, enda sé vín ekki um hönd haft á skemmtununum. Undaþága tekur ekki til skemmtana, sem haldnar eru í danshúsum, en í þessu sambandi teljast danshús samkomu- eða veitingahús, sem löggilt eru fyrir 300 gesti eða fleiri í sæti, eða þar sem dans fer að jafnaði fram 20 sinnum á mánuði, enda sé í hvorugu tilvikinu um að ræða veitingahús, sem venjulega greiða skatt samkvæmt 1. gr. þessarar reglugerðar af daglegum rekstri sínum.
Eigendum og umráðamenn samkomu- eða veitingahúsa, sem óska eftir að njóta undanþágunnar fyrir hús sín, skulu senda um það skriflega umsókn til menntamálaráðherra, þar sem gerð er grein fyrir rekstri húsanna að undanförnu og fyrirætlunum um reksturinn framvegis. Umsókn skulu fylgja vottorð heilbrigðisyfirvalda, að hreinlæti og hollustuháttum í húsinu sé ekki ábótavant og vottorð lögreglustjóra, um, að góðrar reglu hafi verið gætt í húsinu að undanförnu. Sams konar ákvæði gilda um matsöluhúsnæði og annað húsnæði, ef skemmtanir eru haldnar þar.
Að athuguðum þessum gögnum, ákveður ráðherra, hvort veita skuli undanþáguna og þá með eða án frekari skilyrða en lögin og reglugerð þessi segja til um. Séu sett skilyrði fyrir undanþágunni brotin, fellur hún sjálfkrafa úr gildi.
Nú er stærð eða rekstri samkomu- eða veitingahúss, sem undanþága hefur verið fengin fyrir, breytt svo að í bága fari við sett skilyrði, og skulu eigandi þess og umráðamaður þá tilkynna ráðuneytinu þegar í stað um breytinguna. Láti þeir það hjá líða, skulu þeir bera solídaríska ábyrgð á greiðslu skemmtanaskatts og menningarsjóðsgjalds af öllum skemmtunum, sem fram hafa farið í húsinu eftir breytinguna og gjaldskyldar hefðu verið, og má innheimtumaður áætla gjöldin, ef ekki er gerð fullnægjandi grein fyrir þeim. sama gildir, ef brotið er á annan hátt á bága við þau skilyrði, sem sett hafa verið fyrir undanþágunni. Bæjarfógetum (í Reykjavík lögreglustjóra og tollstjóra) skal gerð grein fyrir, hve oft dans fer fram í húsum, sem undanþágu fá.
Aðili, sem halda vill gjaldfrjálsa dansskemmtun í húsi, sem undanþágu hefur fengið samkvæmt ákvæðum hér að framan, skal sækja um skemmtanaleyfi með venjulegum hætti, lýsa því jafnframt yfir, að vín verði ekki haft um hönd á skemmtuninni og greiða þann kostnað af löggæzlu, sem nauðsynleg er að dómi lögreglustjóra. Sé þessa ekki gætt, er skemmtunin skattskyld. Komi síðar í ljós, að neyzla áfengis hafi viðgengizt á skemmtuninni, skal greiddur af henni skemmtanaskattur miðaður við aðgangseyri, svo og menningarsjóðsgjald, og má hlutaðeigandi innheimtumaður áætla gjöldin, ef þörf gerist.
4. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 24 frá 1963, öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytið, 15. maí 1963.
Gylfi Þ. Gíslason.
______________
Birgir Thorlacius.