Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Umferð og flutningar á landi

501/1997

Reglugerð um ökuskírteini. - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

Sjá allar
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Enginn má stjórna vélknúnu ökutæki nema hann hafi gilt ökuskírteini sem veitir honum réttindi fyrir viðkomandi flokk ökutækja, sbr. 5. - 13. gr. og 81. gr., sbr. þó 14. gr. um undanþágur frá ökuskírteini.
Engum er heimilt að hafa ökuskírteini frá meira en einu ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.

2. gr.

Ökuskírteini má veita þeim sem sannar með prófi að hann hafi næga aksturshæfni og nauðsynlega þekkingu á ökutækinu og meðferð þess og umferðarlöggjöf, sbr. ákvæði III. kafla.
Ökuskírteini má aðeins veita þeim sem hefur fasta búsetu hér á landi, sbr. 4. gr. Þetta á þó ekki við um útgáfu samrits skv. 1. - 2. mgr. 50. gr., útgáfu bráðabirgðaakstursheimildar skv. 4. mgr. 51. gr., útgáfu alþjóðlegs ökuskírteinis skv. 52. gr. og um útgáfu fullnaðarskírteinis og endurnýjun ökuskírteinis skv. VI. kafla.

3. gr.

Umsókn um ökuskírteini má afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar á landinu umsækjandi hefur búsetu.
Umsókn skal fylgja:
a. Ljósmynd (andlitsmynd án höfuðfats) sem líkist umsækjanda vel, 35x45 mm að stærð. Myndin skal vera á endingargóðum ljósmyndapappír, merkja- og stimplalaus. Falla má frá kröfu um ljósmynd ef fullnægjandi ljósmynd er til í gagnagrunni ökuskírteinaskrár.
b. Yfirlýsing umsækjanda um heilbrigði eða læknisvottorð, sbr. 22. gr. Við umsókn um réttindi fyrir flokkana A, B, BE, M og T nægir heilbrigðisyfirlýsing ein, nema lögreglustjóri telji þörf á læknisvottorði eða ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri. Við umsókn um réttindi fyrir flokkana C, CE, D og DE, svo og til farþegaflutninga í atvinnuskyni, skal krafist læknisvottorðs.
Á umsóknareyðublaðinu skal umsækjandi gefa skriflega yfirlýsingu um að hann hafi fasta búsetu hér á landi eða fullnægi að öðru leyti skilyrðum um búsetu skv. 4. gr. Lögreglustjóri getur krafist þess að umsækjandi, sem hvorki hefur íslenskt né annað norrænt ríkisfang, leggi fram dvalarleyfi, nema hann megi dvelja löglega í landinu án leyfis. Lögreglustjóri getur og krafist þess að umsækjandi færi sönnur á að hann hafi fasta búsetu hér á landi eða hafi dvalist hér sem námsmaður í a.m.k. sex mánuði, sbr.


4. gr.

Umsækjandi skal enn fremur gefa skriflega yfirlýsingu um að hann, þegar umsókn er lögð fram, hafi ekki:
a. undir höndum ökuskírteini gefið út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, eða
b. sætt takmörkunum á eða sviptingu ökuréttar í þeim ríkjum.
Lögreglustjóri getur, ef ástæða þykir, krafist þess að umsækjandi leggi fram skilríki er sanni hver hann er.
Þegar umsókn hefur verið lögð fram skal umsækjandi í viðurvist fulltrúa lögreglustjóra rita nafn sitt í þar til gerðan reit á kennispjald sem ljósmynd af umsækjanda skal fest við.

Búsetuskilyrði.
4. gr.

Með fastri búsetu er í reglugerð þessari átt við þann stað þar sem hlutaðeigandi býr að jafnaði, þ.e. í a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári, vegna persónu- eða atvinnutengsla eða, þegar um er að ræða þann sem hefur engin atvinnutengsl, vegna persónulegra tengsla sem sýna náið samband milli hlutaðeigandi og staðarins þar sem hann býr.
Föst búseta telst vera komin á þegar hlutaðeigandi tekur sér búsetu hér á landi í þeim tilgangi að fullnægja a.m.k. einu þeirra skilyrða sem tilgreind eru í 1. mgr.
Sá sem eingöngu hefur atvinnutengsl hér á landi telst hafa fasta búsetu í því landi þar sem hann hefur persónuleg tengsl, enda snúi hann þangað með reglubundnu millibili. Síðastnefnda skilyrðinu þarf ekki að fullnægja ef hlutaðeigandi dvelur hér vegna tímabundinna verkefna.
Námsdvöl við menntastofnun felur ekki sjálfkrafa í sér að viðkomandi teljist hafa fasta búsetu hér á landi.

Ökuréttindaflokkar.
5. gr.

Gefa má út ökuskírteini fyrir eftirtalda flokka:
Flokkur A: Bifhjól
- lítið bifhjól
- stórt bifhjól
Flokkur B: Fólksbifreið/sendibifreið
Flokkur C: Vörubifreið
Flokkur D: Hópbifreið
Flokkur E: Stór eftirvagn/tengitæki:
- flokkur B með stóran eftirvagn/tengitæki (BE)
- flokkur C með stóran eftirvagn/tengitæki (CE)
- flokkur D með stóran eftirvagn/tengitæki (DE)
Enn fremur má gefa út ökuskírteini fyrir eftirtalda undirflokka: A1, B1, C1, D1, C1E og D1E.
Þá má einnig gefa út ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni, svo og ökuskírteini fyrir dráttarvél (flokk T) og létt bifhjól (flokk M).

6. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk A (bifhjól) veitir ökuréttindi sem hér greinir:
a. Ökuskírteini fyrir flokk A (lítið bifhjól) veitir rétt til að stjórna:
- tvíhjóla bifhjóli án hliðarvagns þar sem hlutfall vélarafls og eigin þyngdar fer ekki yfir 0,16 kW/kg. Þá má vélarafl bifhjólsins ekki fara yfir 25 kW,
- tvíhjóla bifhjóli með hliðarvagni þar sem hlutfall vélarafls og eigin þyngdar fer ekki yfir 0,16 kW/kg,
- þríhjóla bifhjóli,
- léttu bifhjóli og
- torfærutæki.
b. Ökuskírteini fyrir flokk A (stórt bifhjól) veitir rétt til að stjórna:
- ökutæki skv. a-lið,
- tvíhjóla bifhjóli án hliðarvagns þar sem hlutfall vélarafls og eigin þyngdar fer yfir 0,16 kW/kg, eða vélarafl fer yfir 25 kW og
- tvíhjóla bifhjóli með hliðarvagni þar sem hlutfall vélarafls og eigin þyngdar fer yfir 0,16 kW/kg.

7. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk B (fólksbifreið/sendibifreið) veitir rétt til að stjórna:
a. fólksbifreið með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna og með sæti fyrir 8 farþega eða færri auk ökumanns,
b. sendibifreið með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna,
c. fólksbifreið eða sendibifreið með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd,
d. fólksbifreið eða sendibifreið með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 3.500 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins,
e. dráttarvél,
f. vinnuvél,
g. léttu bifhjóli og
h. torfærutæki.
Um stjórn vinnuvéla gilda að auki sérstakar reglur um réttindi til að stjórna vinnuvélum, settar samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

8. gr.

Ökuskírteini fyrirflokk C (vörubifreið) veitir rétt til að stjórna:
a. bifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd og með sæti fyrir 8 farþega eða færri auk ökumanns og
b. bifreið skv. a-lið með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er ekki meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd.

9. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk D (hópbifreið) veitir rétt til að stjórna:
a. bifreið með sæti fyrir fleiri en 8 farþega auk ökumanns,
b. bifreið skv. a-lið með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd og
c. liðvagni til fólksflutninga.

10. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk E (stór eftirvagn/tengitæki) veitir rétt til að stjórna:
a. samtengdum ökutækjum með fólksbifreið/sendibifreið og eftirvagni/tengitæki sem ekki fellur undir flokk B (flokkur BE),
b. samtengdum ökutækjum með vörubifreið og eftirvagni/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd (flokkur CE) og
c. samtengdum ökutækjum með hópbifreið og eftirvagni/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd (flokkur DE).
Ökuskírteini fyrir flokk BE veitir einungis rétt til að stjórna stórum eftirvagni/tengitæki í tengslum við fólksbifreið/sendibifreið (flokkur B).
Ökuskírteini fyrir flokkana CE og DE veitir jafnframt rétt til að stjórna stórum eftirvagni/tengitæki í tengslum við fólksbifreið/sendibifreið (flokkur B).
Ökuskírteini fyrir flokk CE veitir jafnframt rétt til að stjórna ökutækjum sem falla undir flokk DE þegar skírteinishafi hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk D.

11. gr.

Ökuskírteini fyrir undirflokka veita ökuréttindi sem hér segir:
Undirflokkur A1: Ökutæki í flokki A með aflvél ekki yfir 125 rúmsentrimetrar og vélarafl sem fer ekki yfir 11 kW.
Undirflokkur B1: Þrí- og fjórhjóla ökutæki í flokki B með eigin þyngd 550 kg eða minna.
Undirflokkur C1: Ökutæki í flokki C með leyfðri heildarþyngd 7.500 kg eða minna.
Undirflokkur D1: Ökutæki í flokki D með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns.
Undirflokkur C1E: Ökutæki í flokki C með leyfðri heildarþyngd 7.500 kg eða minna (C1) með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 12.000 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins.
Undirflokkur D1E: Ökutæki í flokki D með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns (D1) með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé:
a. leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 12.000 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins og
b. eftirvagninn/tengitækið ekki notað til fólksflutninga.
Undirflokkar þessir gilda um ökuskírteini sem gefin eru út í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og um íslensk ökuskírteini sem gefin eru út í skiptum fyrir slík ökuskírteini, sbr. IX. kafla. Undirflokkarnir C1, D1, C1E, og D1E gilda einnig við útgáfu nýs ökuskírteinis í stað eldra ökuskírteinis, sbr. 82. gr.

12. gr.

Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni veitir rétt til að stjórna fólksbifreið (flokkur B), hópbifreið (flokkur D, eftir atvikum D1) eða bæði fólksbifreið og hópbifreið til flutnings farþega í atvinnuskyni.

13. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk M (létt bifhjól) veitir rétt til að stjórna léttu bifhjóli.
Ökuskírteini fyrir flokk T (dráttarvél) veitir rétt til að stjórna dráttarvél.

Undanþága frá ökuskírteini.
14. gr.

Ekki þarf ökuskírteini til að stjórna:
a. dráttarvél við landbúnaðarstörf utan alfaravegar, enda sé ökumaður fullra 13 ára og
b. vinnuvél utan vegar, enda sé ökumaður fullra 17 ára. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. eiga við.

Aldursskilyrði o.fl.
15. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk A má veita þeim sem er fullra 17 ára.
Réttur til að stjórna stóru bifhjóli, sbr. b-lið 6. gr., er þó háður því að hlutaðeigandi:
a. hafi a.m.k. tveggja ára reynslu sem ökumaður lítils bifhjóls á grundvelli ökuskírteinis fyrir flokk A,
b. án þess að hafa tveggja ára reynslu sem ökumaður lítils bifhjóls á grundvelli ökuskírteinis fyrir flokk A, sé orðinn 21 árs og hafi síðan staðist verklegt próf á stóru bifhjóli, sbr. III. viðauka, eða
c. án þess að hafa áður öðlast ökuskírteini fyrir bifhjól, sé orðinn 21 árs og hafi stundað ökunám og staðist ökupróf fyrir flokk A þar sem verklega prófið er tekið á stóru bifhjóli, sbr. III. viðauka.
Með umsókn um rétt til að stjórna stóru bifhjóli, sbr. b-lið 2. mgr., skal fara samkvæmt reglum um aukin ökuréttindi í V. kafla.

16. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk B má veita þeim sem er fullra 17 ára.

17. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk BE, flokk C og flokk CE má veita þeim sem er fullra 18 ára.
Ökuskírteini fyrir flokk C má einungis veita þeim sem hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk B.
Ökuskírteini fyrir flokk BE og flokk CE má einungis veita þeim sem hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk B, eftir atvikum C.
Sjá og reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við vöruflutninga sem falla undir ákvæði þeirrar reglugerðar þarf stjórnandi ökutækis eða samtengdra ökutækja sem eru meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd að vera orðinn 21 árs eða hafa starfshæfnisvottorð um að hafa lokið starfsþjálfun fyrir ökumenn ökutækja í vöruflutningum á vegum.

18. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk D og flokk DE má veita þeim sem er orðinn 21 árs.
Ökuskírteini fyrir flokk D má einungis veita þeim sem hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk B.
Ökuskírteini fyrir flokk DE má einungis veita þeim sem hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk D.

19. gr.

Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni má veita þeim sem er fullra 20 ára.
Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni má einungis veita þeim sem hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk B og staðist ökupróf fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni.
Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni má einungis veita fyrir þann flokk sem ökupróf er tekið.
Heimilt er að synja um útgáfu á ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við. Synjunin skal að kröfu hlutaðeigandi borin undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a almennra hegningarlaga.

20. gr.

Ökuskírteini fyrir flokk M má veita þeim sem er fullra 15 ára.
Ökuskírteini fyrir flokk T má veita þeim sem er fullra 16 ára.

Heilbrigðisskilyrði.
21. gr.

Ökuskírteini má aðeins veita þeim sem sér og heyrir nægilega vel og er að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega. Nánari ákvæði um heilbrigðisskilyrði til að öðlast ökuskírteini koma fram í II. viðauka.
Dómsmálaráðherra setur, að höfðu samráði við landlækni, leiðbeinandi reglur um meðferð mála er varða útgáfu og endurnýjun ökuskírteinis, þar sem fram koma upplýsingar um heilbrigði, er krefjast læknisfræðilegra yfirlýsinga, umsagna eða mats.

22. gr.

Læknisvottorð, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr., skal ritað á eyðublað sem gert er eftir fyrirmælum landlæknis.
Læknisvottorð skal gefið út af heimilislækni umsækjanda. Ef læknisvottorðið er gefið út af öðrum lækni skal umsækjandi gefa á því fullnægjandi skýringu.
Læknisvottorð má við umsókn ekki vera eldra en þriggja mánaða og ekki eldra en eins árs við útgáfu ökuskírteinis.

Könnun lögreglustjóra.
23. gr.

Á grundvelli heilbrigðisyfirlýsingar/læknisvottorðs ákveður lögreglustjóri hvort umsækjandi fullnægi heilbrigðisskilyrðum til að öðlast þau ökuréttindi sem sótt er um.
Lögreglustjóri getur krafist þess að frá sérfræðingi eða öðrum verði fengin yfirlýsing eða ítarlegri upplýsingar, svo og að umsækjandinn að öðru leyti taki þátt í læknisfræðilegum rannsóknum til að skera úr um hvort gefa megi út ökuskírteini eða það skuli skilyrt á einhvern hátt.
Lögreglustjóri getur og krafist þess að aflað verði yfirlýsinga eða ítarlegri upplýsinga frá prófdómara og enn fremur að umsækjandi gangist undir hæfnisathugun, sbr. 45. gr., til að meta hvort gefa megi út ökuskírteini eða það skuli skilyrt á einhvern hátt.
Umsækjandi ber kostnað af rannsóknum og athugunum samkvæmt þessari grein.

24. gr.

Auk könnunar á heilbrigðisskilyrðum kannar lögreglustjóri hvort aðrar upplýsingar sem lagðar eru fram eru réttar. Hann kannar og reglusemi og áreiðanleik umsækjanda og aflar þeirra upplýsinga sem þörf er á, m.a. upplýsinga úr viðeigandi skrám lögreglu og ákæruvalds.
Lögreglustjóri metur að lokum hvort umsækjandi fullnægir skilyrðum til að öðlast þau ökuréttindi sem sótt er um, og þá hvort þau skuli á einhvern hátt skilyrt. Telji hann skilyrði fyrir hendi skal umsækjanda vísað í ökupróf sem fram fer skv. ákvæðum III. kafla.

25. gr.

Neita má þeim um ökuskírteini sem háður er notkun ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna eða er að öðru leyti ekki nægilega reglusamur. Slík synjun skal að kröfu hlutaðeigandi borin undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a almennra hegningarlaga.
Ákvæði 2. og 4. mgr. 23. gr. eiga við.

II. KAFLI
Ökunám og ökukennsla.
26. gr.

Sá sem sækir um ökuskírteini fyrir flokk sem hann hefur ekki áður haft ökuskírteini fyrir skal hafa hlotið kennslu hjá ökukennara sem hefur löggildingu fyrir þann réttindaflokk.
Kennsla fyrir flokk BE skal fara fram hjá ökukennara sem hefur löggildingu fyrir flokka C, D og E.
Kennsla skal fara fram í samræmi við námskrá sem Umferðarráð setur, að höfðu samráði við Ökukennarafélag Íslands, og dómsmálaráðherra staðfestir, um ökunám fyrir hlutaðeigandi flokk.
Námskrárnar skulu kveða á um þá þekkingu, hæfni og leikni sem umsækjandi þarf að búa yfir til að öðlast ökuskírteini. Fræðilegur hluti ökunáms skal að jafnaði fara fram í ökuskóla. Að öðru leyti skal eftir því sem unnt er fella saman kennslu um fræðileg efni og verkleg og fylgja námskrá.

27. gr.

Kennslu fyrir flokkana C og D má þá fyrst hefja þegar umsækjandi hefur öðlast ökuskírteini fyrir flokk B.
Kennslu fyrir flokkana BE, CE og DE má þá fyrst hefja þegar umsækjandi hefur öðlast ökuskírteini fyrir, eftir því sem við á, flokk B, C og D.
Hafi umsækjandi áður haft ökuskírteini fyrir flokk B, eða hafi umsækjandi áður haft ökuskírteini fyrir flokk C eða D, má hefja kennslu fyrir flokkana C, D og, eftir því sem við á, CE og DE, enda þótt hlutaðeigandi hafi verið sviptur ökuréttindum, sbr. þó 2. mgr. 28. gr.

Æfingaakstur.
28. gr.

Æfingaakstur má ekki fara fram fyrr en tólf mánuðum áður en nemandi hefur aldur til að fá útgefið það ökuskírteini sem óskað er eftir, sbr. ákvæði I. kafla.
Sá sem sviptur hefur verið ökurétti má ekki æfa sig í akstri fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út.
Æfingaakstur má ekki fara fram á vegum þar sem umferð er mikil fyrr en nemandi hefur náð þeirri leikni í akstri að eigi stafi sérstök hætta af. Æfingaakstur skal fara fram á vegum við mismunandi umferðarþunga, bæði í þéttbýli og utan þess.

29. gr.

Við æfingaakstur á bifhjóli, þ. á m. léttu bifhjóli, má ökukennari kenna mest tveimur nemendum í senn. Ökukennarinn skal geta fylgst gaumgæfilega með akstri nemendanna. Ökukennarinn má og skal, ef kennt er fleiri en einum nemanda í senn, fylgjast með nemendunum úr ökutæki sem fylgir á eftir. Ökutækið skal þannig búið að ökukennarinn geti haft handfrjálst fjarskiptasamband við nemandann, og því skal stjórnað af ökukennaranum eða öðrum sem hefur gilt ökuskírteini. Við kennslu eins nemanda má ökukennarinn fylgjast með akstrinum úr baksæti bifhjólsins.
Ef æfingaakstur á bifhjóli fer fram á svæði þar sem ekki er önnur umferð og ökukennarinn getur haft stöðugt eftirlit með nemanda og veitt honum nauðsynlegar leiðbeiningar eiga ákvæði 1. mgr. ekki við.
Ökutæki sem notuð eru til ökukennslu skulu fullnægja skilyrðum í III. viðauka.

Æfingaakstur með leiðbeinanda.
30. gr.

Nemanda er heimilt að æfa akstur bifreiðar eða bifhjóls með leiðbeinanda í stað ökukennara, enda hafi nemandinn hlotið lágmarksþjálfun og leiðbeinandinn fengið til þess leyfi lögreglustjóra, svo sem nánar greinir í IV. viðauka, 3. tölulið.

Æfingaakstur á léttu bifhjóli og dráttarvél.
31. gr.

Æfingaakstur á léttu bifhjóli má ekki fara fram fyrr en þremur mánuðum áður en nemandi hefur aldur til að öðlast þau réttindi. Sama er um æfingaakstur á dráttarvél sem fram fer á alfaravegi.
Nemanda er heimilt að æfa akstur létts bifhjóls, svo og akstur dráttarvélar á alfaravegi, án ökukennara, enda hafi hann fengið til þess leyfi lögreglustjóra, svo sem nánar greinir í IV. viðauka, 4. tölulið.

III. KAFLI
Ökupróf.
32. gr.

Ökupróf skiptist í tvo hluta, fræðilegt próf og verklegt próf.
Próf fyrir stórt bifhjól, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr., og flokk BE skal eingöngu vera verklegt.
Við aksturspróf skal umsækjandi, ef það á við, hafa þegar útgefið ökuskírteini meðferðis.
Niðurstaða fræðilegs prófs og verklegs prófs skal tilkynnt umsækjanda um leið og prófið hefur verið dæmt.

33. gr.

Ökupróf skulu fara fram á vegum Umferðarráðs.
Dómsmálaráðherra löggildir prófdómendur að fengnum tillögum Umferðarráðs.
Umferðarráð getur ráðið sérfróða prófdómendur sem meðprófdómendur, sbr. V. viðauka, 5. tölulið.

34. gr.

Ökupróf skulu fara fram í samræmi við ákvæði V. viðauka.
Ökupróf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D má fara fram samtímis ökuprófi fyrir flokk D. Ef umsækjandi stenst ekki fræðilega prófið til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D heldur hann rétti til að gangast undir verklegt próf fyrir flokk D, enda hafi hann staðist fræðilega prófið fyrir flokk D.

35. gr.

Ef umsækjandi getur ekki talað og skilið íslensku eða erlent tungumál sem prófdómari veldur nægilega vel skal notast við túlk við bæði fræðilegt og verklegt próf. Umferðarráð leggur til túlk en kostnað af túlkun ber umsækjandi.
Ökukennari má ekki koma fram sem túlkur.
Við próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni má ekki nota túlk.

Fræðilegt próf.
36. gr.

Fræðilegt próf má ekki fara fram fyrr en sá ökukennari sem hefur kennt nemandanum hefur staðfest skriflega að fullnægjandi ökukennsla hafi farið fram, sbr. 38. gr.

37. gr.

Fræðilegt próf fyrir flokkana A, B, M og T má ekki fara fram fyrr en tveimur mánuðum áður en umsækjandi fullnægir aldursskilyrði til að fá útgefið það ökuskírteini sem óskað er eftir.

38. gr.

Ökukennari sá sem hefur kennt umsækjandanum skal áður en próf fer fram staðfesta skriflega að umsækjandi hafi fengið kennslu, fræðilega og verklega, í samræmi við námskrá fyrir hlutaðeigandi flokk. Hafi fleiri en einn ökukennari annast kennslu umsækjandans skal sá ökukennari sem kenndi honum síðast staðfesta þetta, og skal hann áður hafa fullvissað sig um að farið hafi verið eftir námskránni.

Verklegt próf.
39. gr.

Verklegt próf má ekki fara fram fyrr en að stöðnu fræðilegu prófi. Sá ökukennari sem kennt hefur nemandanum skal staðfesta skriflega að fullnægjandi ökukennsla hafi farið fram, sbr. 38. gr.

40. gr.

Verklegt próf skal ekki fara fram fyrr en einni viku áður en umsækjandi hefur náð þeim aldri sem er skilyrði fyrir útgáfu þess ökuskírteinis sem óskað er eftir. Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi má prófið fara fram allt að tveimur vikum áður en tilskildum aldri er náð. Verklegt próf fyrir flokkana C, CE, D og DE og próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni má þó fara fram allt að sex mánuðum áður en tilskildum aldri er náð.
Umsækjandi skal hafa staðist verklega prófið áður en sex mánuðir eru liðnir frá því hann stóðst fræðilega prófið.
Umsækjandi skal sjálfur leggja til ökutæki til prófsins. Ökutækið skal fullnægja skilyrðum í III. viðauka.
Ef umsækjandi vegna fötlunar eða af öðrum heilsufarsástæðum getur aðeins fengið ökuskírteini fyrir sérstaka gerð ökutækja eða sérbúin ökutæki, sbr. 2. mgr. 47. gr., skal verklega prófið tekið á slíku ökutæki. Áskilja má að ökutækið við verklega prófið skuli búið sérstökum hemlabúnaði, sbr. III. viðauka.

41. gr.

Ef umsækjandi stenst ekki verklega prófið vegna vanþekkingar á mikilvægum umferðarreglum eða vegna slakrar aksturshæfni ákveður lögreglustjóri, samkvæmt ákvæðum 62. gr., hvort umsækjandi skuli gangast undir hæfnispróf til að mega halda ökuskírteini sem hann kann þegar að hafa öðlast fyrir aðra flokka.

Hæfnispróf.
42. gr.

Hæfnispróf skal fara fram í samræmi við ákvæðin um ökupróf fyrir flokk B, sbr. V. viðauka.
Sá sem hyggst gangast undir hæfnispróf skal sjálfur leggja til ökutæki til prófsins. Ökutækið skal fullnægja skilyrðum í III. viðauka. Ákvæði 4. mgr. 40. gr. eiga við.

43. gr.

Ef hæfnispróf fer fram skv. 62. gr. skal prófdómara sýnt ökuskírteini. Standist skírteinishafi ekki prófið skal ökuskírteinið afhent prófdómara.
Hæfnispróf skv. 62. gr. skal fara fram innan þriggja mánaða frá því ákvörðun um prófið er endanleg. Lögreglustjóri getur ef sérstaklega stendur á veitt undanþágu frá þessum fresti.

44. gr.

Ef ákvörðun um próftöku er byggð á akstri hlutaðeigandi með ökutæki í öðrum flokki getur lögreglustjóri ákveðið að prófið fari fram eftir reglum um próf fyrir þann flokk, enda hafi umsækjandi eða hafi haft ökuskírteini fyrir þann flokk. Standist umsækjandi prófið skal gefa út ökuskírteini fyrir þá flokka sem fyrir voru.
Standist umsækjandi ekki hæfnispróf í þriðja sinn skulu frekari próf fara fram eftir reglum um ökupróf fyrir þá flokka sem hann óskar eftir að öðlast aftur. Ef ökuréttindin voru afturkölluð vegna þess að hæfnispróf náðist ekki, sbr. 62. gr., telst það próf sem ekki var staðist fyrsta próf.

Hæfnisathugun.
45. gr.

Lögreglustjóri getur krafist þess að umsækjandi gangist undir hæfnisathugun svo að ákveða megi hvort gefa megi út ökuskírteini eða það eftir atvikum skuli gefið út með sérstökum skilyrðum. Hæfnisathugun skal fara fram í samræmi við ákvæði V. viðauka, 8. tölulið. Ákveða má að umsækjandi skuli leggja til ökutæki sem er viðurkennt kennslutæki.

IV. KAFLI
Útgáfa ökuskírteina.
46. gr.

Lögreglustjóri annast endanlega könnun á því hvort skilyrðum til útgáfu ökuskírteinis er fullnægt og kveður nánar á um útgáfu skírteinisins.
Ríkislögreglustjóri gefur út ökuskírteini.

47. gr.

Ökuskírteini skulu vera af EES gerð í samræmi við ákvæði I. viðauka.
Gefa má út ökuskírteini með takmarkaðan gildistíma eða takmarka það við ökutæki sem fullnægja nánar tilgreindum skilyrðum eða binda það að öðru leyti sérstökum skilyrðum. Skilyrði og takmarkanir skal færa á ökuskírteinið í formi tákntalna í samræmi við ákvæði VII. viðauka.
Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni skulu gefin út í samræmi við ákvæði VII. viðauka, 3. tölulið.

Gildistími.
48. gr.

Ökuskírteini eru tvenns konar, bráðabirgðaskírteini og fullnaðarskírteini.
Bráðabirgðaskírteini skal gefa út til byrjanda og til tveggja ára frá útgáfudegi.
Fullnaðarskírteini fyrir flokkana A, B og BE skal gefa út þar til hlutaðeigandi verður fullra 70 ára.
Ökuskírteini fyrir flokkana C, CE, D og DE skal gefa út sem fullnaðarskírteini og til tíu ára frá útgáfudegi. Ökuskírteini fyrir þessa flokka skal þó gefa út þar til hlutaðeigandi verður fullra 70 ára ef umsækjandi hefur slík réttindi útgefin fyrir gildistöku reglugerðarinnar og þau réttindi eru að öðru leyti ekki tímabundin.
Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni skal gefa út sem fullnaðarskírteini og til tíu ára frá útgáfudegi.
Hafi umsækjandi þegar ökuskírteini er gefið út náð 65 ára aldri en er ekki fullra 70 ára skal gefa skírteini fyrir alla flokka út til fimm ára frá útgáfudegi.
Hafi umsækjandi þegar ökuskírteini er gefið út náð 70 ára aldri skal gildistími ökuskírteinisins vera þessi:
– hafi umsækjandi náð 70 ára aldri en ekki 71 árs: Fjögur ár.
– hafi umsækjandi náð 71 árs aldri en ekki 72 ára: Þrjú ár.
– hafi umsækjandi náð 72 ára aldri en ekki 80 ára: Tvö ár.
– hafi umsækjandi náð 80 ára aldri: Eitt ár.
Þegar gildistími ökuskírteinis fyrir flokkana C, CE, D og DE og til farþegaflutninga í atvinnuskyni rennur út, sbr. 4. og 5. mgr., heldur skírteinið gildi sínu að því er varðar aðra flokka, sbr. 3. mgr.
Ökuskírteini fyrir dráttarvél og létt bifhjól skal gefa út þar til hlutaðeigandi verður fullra 70 ára.

49. gr.

Ef upplýsingar um heilbrigði mæla með því, eða rökstuddur vafi er um, hvort umsækjandi sé reglusamur eða ekki háður notkun ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna, má jafnan gefa út ökuskírteini til skemmri tíma en segir í 48. gr.

Samrit ökuskírteina.
50. gr.

Ef ökuskírteini glatast eða það hefur skemmst eða slitnað svo að áritanir, númer, stimplar, ljósmynd eða þess háttar verður ekki staðreynt þegar í stað, eða ökuskírteinið hefur að öðru leyti skemmst, skal handhafi skírteinisins sækja um að fá útgefið samrit ökuskírteinisins, enda sé ætlunin að nota ökuréttindin áfram. Þessa er þó ekki þörf við nafnbreytingu.
Umsókn um samrit ökuskírteinis má afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar umsækjandi hefur búsetu, sbr. þó 3. mgr. Umsókn skal fylgja ljósmynd, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. og 4. - 6. mgr. 3. gr. eiga við. Ef ökuskírteini hefur glatast skal umsækjandi undirrita yfirlýsingu um það. Finnist hið glataða ökuskírteini skal það þegar afhent lögreglu. Skemmt ökuskírteini skal afhent lögreglu þegar samrits er beiðst.
Sá sem hefur fasta búsetu hér á landi og hefur ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu getur fengið útgefið samrit samkvæmt ákvæðum þessum. Ákvæði 1. og 3. málsl. 3. mgr. 3. gr. eiga við.

Bráðabirgðaakstursheimild.
51. gr.

Lögreglustjóri getur gefið út bráðabirgðaakstursheimild handa þeim sem hefur íslensk ökuréttindi. Sama er um handhafa ökuskírteinis sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum og hefur fasta búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 73. gr. Bráðabirgðaakstursheimild skal vera tímabundin, að jafnaði til ekki lengri tíma en eins mánaðar.
Bráðabirgðaakstursheimild má gefa út við þessar aðstæður:
a. þegar ökuskírteini hefur glatast, sbr. 50. gr., og umsækjanda er nauðsyn að stjórna ökutæki,
b. þegar skírteinishafi hefur gleymt ökuskírteini sínu á stað þar sem ekki verður með sanngirni gerð krafa um að hann sæki það,
c. þegar ökuréttinda hefur verið aflað og tiltekinn tíma tekur þar til ökuskírteinið verður tilbúið til afhendingar, og
d. þegar aðrar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
Við akstur skal akstursheimildin höfð meðferðis, svo og viðurkennt skilríki með ljósmynd af handhafa. Heimildin veitir einungis rétt til aksturs hér á landi.
Bráðabirgðaakstursheimild má einnig gefa út handa þeim sem ekki hefur fasta búsetu hér á landi og hefur ekki undir höndum tilskilið ökuskírteini, sbr. 71. gr. Leyfið má m.a. binda því skilyrði að umsækjandi gangist undir hæfnispróf.

Alþjóðleg ökuskírteini.
52. gr.

Lögreglustjórar og Félag íslenskra bifreiðaeigenda mega gefa út alþjóðlegt ökuskírteini samkvæmt alþjóðasamningi um umferð frá 19. september 1949.
Umsókn má afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar umsækjandi hefur búsetu. Umsókn skal fylgja ljósmynd, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr., auk ökuskírteinis umsækjanda. Ákvæði 3. og 4. mgr. 3. gr. eiga við.
Alþjóðlegt ökuskírteini má einungis gefa út fyrir þann sem hefur gilt íslenskt ökuskírteini og tekur einungis til ökutækja sem hlutaðeigandi hefur rétt til að stjórna samkvæmt hinu íslenska ökuskírteini.
Alþjóðlegt ökuskírteini skal gilda í eitt ár frá útgáfudegi. Það veitir rétt til að stjórna þeim flokkum ökutækja sem í því greinir í þeim löndum sem eru aðilar að samningnum. Skírteinið veitir ekki rétt til að stjórna ökutæki hér á landi.

V. KAFLI
Aukin ökuréttindi.
53. gr.

Umsókn um að ökuskírteini gildi fyrir nýja flokka ökutækja eða til farþegaflutninga í atvinnuskyni og umsókn um verklegt próf skv. b-lið 2. mgr. 15. gr. má afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar á landinu umsækjandi hefur búsetu.
Umsókn skal fylgja ljósmynd, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. Ákvæði 3. - 6. mgr. 3. gr. eiga við.
Umsókn um að ökuskírteini gildi einnig fyrir flokkana C, CE, D, DE eða til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokkana B eða D skal auk þess fylgja læknisvottorð, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr. Þessa er þó ekki þörf ef umsækjandi hefur áður fengið ökuskírteini fyrir einhvern nefndra flokka eða til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
Með umsókn um að ökuskírteini sem gildir fyrir flokkana M eða T gildi fyrir flokkana A eða B skal fara skv. 3. gr.
Að öðru leyti þarf læknisvottorð ekki að fylgja umsókn. Lögreglustjóri getur þó krafist læknisvottorðs ef það telst nauðsynlegt.

54. gr.

Ökupróf og verklegt próf vegna aukinna ökuréttinda skulu fara fram samkvæmt reglum III. kafla.
Standist umsækjandi próf og fullnægi að öðru leyti skilyrðum til að fá aukin ökuréttindi skal gefa út nýtt ökuskírteini í samræmi við ákvæði IV. kafla. Ákvæði 23. gr. eiga við.
Ökuskírteinið gildir þaðan í frá fyrir þá flokka ökutækja sem hlutaðeigandi hefur nú rétt til að stjórna, eftir atvikum einnig til farþegaflutninga í atvinnuskyni.

VI. KAFLI
Útgáfa fullnaðarskírteinis og endurnýjun ökuskírteinis.
55. gr.

Umsókn um útgáfu fullnaðarskírteinis og um endurnýjun ökuskírteinis við lok gildistíma má afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar umsækjandi hefur búsetu.
Umsókn skal fylgja ljósmynd og heilbrigðisyfirlýsing/læknisvottorð, sbr. a- og b-lið 2. mgr. 3. gr. Ákvæði 3. - 6. mgr. 3. gr. eiga við.
Við umsókn um endurnýjun ökuskírteinis til farþegaflutninga í atvinnuskyni eiga ákvæði 4. mgr. 19. gr. við.

56. gr.

Lögreglustjóri getur ákveðið að áður en fullnaðarskírteini verður gefið út í stað bráðabirgðaskírteinis skuli skírteinishafi gangast undir hæfnispróf ef hlutaðeigandi hefur sýnt af sér vankunnáttu í akstri, vanhæfni eða vítaverða aksturshætti.
Ef sótt er um útgáfu fullnaðarskírteinis eða endurnýjun ökuskírteinis þegar meira en tvö ár eru frá því ökuskírteinið féll úr gildi skal umsækjandi standast hæfnispróf. Lögreglustjóri getur þó ákveðið að ekki þurfi að gangast undir hæfnispróf.

57. gr.

Ef umsækjandi fullnægir skilyrðum til að fá útgefið fullnaðarskírteini eða að fá ökuskírteini endurnýjað skal gefið út ökuskírteini í samræmi við ákvæði IV. kafla. Ákvæði 23. gr. eiga við.
Gildistími ökuskírteinis skal ákveðinn frá útgáfudegi þess.

VII. KAFLI
Afturköllun ökuréttinda og ökuskírteinis og hæfnispróf.
58. gr.

Lögreglustjóri getur, samkvæmt ákvæðum þessa kafla, afturkallað ökuréttindi ef skilyrðum til að öðlast ökuskírteini er ekki lengur fullnægt.
Svipting réttar til farþegaflutninga í atvinnuskyni fer fram samkvæmt reglum 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga. Þann rétt getur lögreglustjóri ekki afturkallað nema hann afturkalli jafnframt hin almennu ökuréttindi.
Lögreglustjóri getur afturkallað ökuskírteini sem er skemmt eða slitið.

59. gr.

Ef lögreglustjóri tekur ákvörðun um afturköllun ökuréttinda, eða ökuréttindi hafa sætt sviptingu, skal ökuskírteinið afhent lögreglu.
Ökuskírteini skal einnig afhent lögreglu ef takmarka á ökuréttindi skv. 2. mgr. 63. gr.
Ef gefið hefur verið út íslenskt alþjóðlegt ökuskírteini og ökuréttindi hlutaðeigandi sæta afturköllun eða sviptingu skal hið alþjóðlega ökuskírteini einnig afhent lögreglu.
Ef ökuréttindi eru afturkölluð vegna þess að hlutaðeigandi er ekki nægilega reglusamur eða hann er háður notkun ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna skal synjunin, að kröfu hlutaðeigandi, borin undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a almennra hegningarlaga.

60. gr.

Hæfnispróf samkvæmt kafla þessum skulu fara fram í samræmi við ákvæði III. kafla, sbr. þó 2. mgr.
Í stað þess að gangast undir hæfnispróf skv. 1. mgr. getur skírteinishafi sótt um að fá útgefið ökuskírteini fyrir frekari flokka, enda feli það í sér að gangast verði undir ökupróf til að öðlast þau réttindi, sbr. 1. mgr. 32. gr.
Um ökupróf sem tekið er skv. 2. mgr. eiga við skilyrði og réttaráhrif sem gilda um hæfnispróf.
Neiti skírteinishafi að gangast undir hæfnispróf, ökupróf skv. 2. mgr. eða þær rannsóknir eða athuganir sem nauðsynlegar eru, sbr. 1. mgr. 63. gr., getur lögreglustjóri afturkallað ökuréttindin þegar í stað.
Ökuréttindi skal einnig afturkalla ef skírteinishafi stenst ekki hæfnispróf í fyrstu prófraun.
Ef lögreglustjóri hefur afturkallað ökuréttindi vegna þess að skírteinishafi stóðst ekki hæfnispróf eða það fór ekki fram skal fara með umsókn um endurveitingu eftir ákvæðum VIII. kafla.

Bráðabirgðasvipting ökuréttinda.
61. gr.

Nú telur lögreglustjóri skilyrði til sviptingar ökuréttinda vera fyrir hendi og skal þá svipta skírteinishafa ökuréttindum til bráðabirgða svo fljótt sem unnt er. Ákvörðun þessa má bera undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála, og skal lögreglustjóri leiðbeina skírteinishafa um þann rétt þegar ákvörðun er birt.

Vanþekking eða vanhæfni.
62. gr.

Lögreglustjóri getur ákveðið að skírteinishafi skuli gangast undir hæfnispróf ef rökstuddur vafi er um hvort hlutaðeigandi hafi enn næga aksturshæfni, nauðsynlega þekkingu á umferðarlöggjöf eða skilning á tillitssemi við aðra vegfarendur.
Hæfnispróf þarf ekki að fara fram ef hlutaðeigandi hefur staðist ökupróf eftir það atvik sem gaf tilefni til ákvörðunar lögreglustjóra.

Heilbrigði.
63. gr.

Ef lögregla verður vör við atvik sem veitir rökstuddan vafa um hvort skírteinishafi er enn nægilega heilbrigður eða sé enn reglusamur eða ekki háður notkun ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna ber hlutaðeigandi að gangast undir rannsóknir eða athuganir sem nauðsynlegar eru til að taka um það ákvörðun, þ. á m. að leggja fram læknisvottorð, eftir atvikum frá sérfræðilækni. Ákvæði 23. gr. eiga að öðru leyti við.
Á grundvelli rannsóknanna eða athugananna ákveður lögreglustjóri hvort afturkalla skuli ökuréttindin, eða hvort skírteinishafi megi halda ökuréttindunum, eftir atvikum með sérstökum takmörkunum, sbr. 2. mgr. 47. gr. og 49. gr. Sama gildir um rétt til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
Ef ökuréttindi eru takmörkuð skal gefa út nýtt ökuskírteini í samræmi við ákvæði IV. kafla. Hlutaðeigandi skal leggja fram ljósmynd, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. Ákvæði 3. - 6. mgr. 3. gr. eiga við.

VIII. KAFLI
Endurveiting ökuréttinda.
64. gr.

Umsókn um endurveitingu ökuréttinda, hvort heldur er vegna afturköllunar eða sviptingar, skal afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar á landinu umsækjandi hefur búsetu.
Umsókn skal fylgja ljósmynd, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. Ákvæði 3. - 6. mgr. 3. gr. eiga við. Ef endurveiting sviptra ökuréttinda er háð leyfi dómsmálaráðuneytisins skal heimild þess fylgja.
Hafi ökuréttindi verið afturkölluð vegna læknisfræðilegra ástæðna eða vegna notkunar ávana- eða fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna eða vegna ónógrar reglusemi skal enn fremur leggja fram læknisvottorð, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr. Að öðru leyti þarf því aðeins að leggja fram læknisvottorð að fyrra læknisvottorð, sem gefið var vegna útgáfu eða endurnýjunar ökuskírteinis, eða önnur atvik, gefi tilefni til þess.

65. gr.

Ökupróf og hæfnispróf samkvæmt þessum kafla skulu fara fram í samræmi við ákvæði III. kafla, sbr. þó 2. mgr. 67. gr.

66. gr.

Ef umsækjandi fullnægir skilyrðum til að öðlast ökuréttindi að nýju skal gefa út ökuskírteini í samræmi við ákvæði IV. kafla. Ákvæði 23. gr. eiga við.

Endurveiting eftir afturköllun ökuréttinda.
67. gr.

Hafi lögreglustjóri afturkallað ökuréttindi vegna þess að hlutaðeigandi stóðst ekki hæfnispróf eða prófið fór ekki fram má endurveiting þá fyrst fara fram að hlutaðeigandi standist nýtt hæfnispróf.
Í stað þess að gangast undir hæfnispróf skv. 1. mgr. getur skírteinishafi sótt um að fá útgefið ökuskírteini fyrir fleiri flokka, enda feli það í sér að gangast verði undir ökupróf, sbr. 1. mgr. 32. gr. Réttaráhrif er eiga við um hæfnispróf gilda eftir því sem við á.
Hafi afturköllun ökuréttinda varað þrjú ár eða lengur vegna notkunar ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna, vegna ónógrar reglusemi eða vegna upplýsinga um heilbrigði er það skilyrði fyrir endurveitingu að umsækjandi standist hæfnispróf. Lögreglustjóri getur ef sérstaklega stendur á ákveðið að ekki þurfi að gangast undir hæfnispróf.

Endurveiting eftir sviptingu ökuréttinda.
68. gr.

Sá sem sviptur hefur verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár öðlast ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist hæfnispróf.
Verklegt próf má ekki fara fram fyrr en einum mánuði áður en sviptingartímabil rennur út.

IX. KAFLI
Erlend ökuskírteini.
69. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda eftir því sem við á um handhafa erlendra ökuskírteina, að því leyti sem ökuskírteinið veitir skírteinishafa með fasta búsetu hér á landi rétt til að stjórna ökutækjum hér.
Ökuréttindi samkvæmt erlendu ökuskírteini má afturkalla eftir sömu reglum og gilda um íslensk ökuskírteini.

70. gr.

Erlent ökuskírteini veitir ekki heimild til að stjórna bifreið eða bifhjóli nema skírteinishafi hafi náð 17 ára aldri.
Farþegaflutninga í atvinnuskyni er ekki heimilt að stunda á grundvelli erlends ökuskírteinis.
Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni má ekki gefa út á grundvelli erlends ökuskírteinis.

Ákvæði um ökuskírteinishafa sem dvelja um stundarsakir hér á landi.
71. gr.

Sá sem ekki hefur fasta búsetu hér á landi má stjórna hér vélknúnu ökutæki ef hann hefur undir höndum eitt eftirgreindra gildra ökuskírteina:
a. Ökuskírteini gefið út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.
b. Færeyskt ökuskírteini.
c. Bráðabirgðaökuskírteini eða ökuskírteini fyrir ferðamann gefið út í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
d. Erlent ökuskírteini, annað en fellur undir a- - c-lið, ef ökuskírteinið er gefið út með latneskum bókstöfum, eða ef því fylgir þýðing á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku.
e. Alþjóðlegt ökuskírteini gefið út í samræmi við alþjóðasamningana frá 24. apríl 1926 um bifreiðaumferð, frá 19. september 1949 um umferð eða frá 8. nóvember 1968 um umferð á vegum.
Ökuskírteinið veitir handhafanum rétt til að stjórna ökutækjum í sömu flokkum hér á landi og það heimilar að stjórna í útgáfulandinu.

Ákvæði um ökuskírteinishafa sem hafa fasta búsetu hér á landi.
72. gr.

Sá sem hefur fasta búsetu hér á landi skal hafa undir höndum íslenskt ökuskírteini til að stjórna vélknúnu ökutæki hér.
Þó má stjórna vélknúnu ökutæki hér á landi á grundvelli erlends ökuskírteinis eftir að stofnað hefur verið til fastrar búsetu, samkvæmt því er greinir í 73. og 74. gr.

73. gr.

Ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum veitir handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar að stjórna í útgáfulandinu á gildistíma þess, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs handhafans.
Ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, svo og ökuskírteini sem gefið er út á grundvelli slíks ökuskírteinis, veitir handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar að stjórna í útgáfulandinu í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu er fullnægt.

74. gr.

Eftir að stofnað hefur verið til fastrar búsetu hér á landi má því aðeins stjórna vélknúnu ökutæki á grundvelli erlends ökuskírteinis að ökuskírteinið sé gilt og að handhafi þess fullnægi aldursskilyrðum sem gilda um útgáfu samsvarandi íslensks ökuskírteinis, sbr. ákvæði I. kafla.

Skipti á erlendum ökuskírteinum.
75. gr.

Umsókn um skipti á erlendu ökuskírteini í samsvarandi íslenskt ökuskírteini má afhenda lögreglustjóra, óháð því hvar umsækjandi hefur búsetu, sbr. þó 1. málsl. 2. mgr. 2. gr.
Umsókn skal fylgja ljósmynd, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. Við afhendingu umsóknar skal jafnframt afhenda hið erlenda ökuskírteini. Ákvæði 3. - 6. mgr. 3. gr. eiga við.
Umsókn um skipti á ökuskírteini sem ekki er gefið út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, né í Færeyjum, skal fylgja heilbrigðisyfirlýsing/læknisvottorð, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr. Ákvæði 23. gr. eiga við.
Við skipti á ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem ekki er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og ökuskírteini sem gefið er út á grundvelli slíks ökuskírteinis skal hið nýja ökuskírteini bera áritun um útgáfulandið, svo og sérhver síðari endurnýjun eða skipti á ökuskírteininu.
Ef umsækjandi fullnægir skilyrðum til að fá skipt á ökuskírteini skal gefa út ökuskírteini í samræmi við ákvæði IV. kafla.

76. gr.

Gefa má út íslenskt ökuskírteini í stað gilds erlends ökuskírteinis, með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 77. - 79. gr., enda fullnægi handhafi skírteinisins þeim skilyrðum sem gilda um öflun samsvarandi íslensks ökuskírteinis, sbr. ákvæði I. kafla.
Ef skilyrði 1. mgr. um gildi ökuskírteinisins er ekki fullnægt og það stafar eingöngu af því að gildistími ökuskírteinisins er liðinn, getur umsækjandi þó fengið útgefið íslenskt ökuskírteini á grundvelli hæfnisprófs.

77. gr.

Handhafi ökuskírteinis sem gefið er út í Færeyjum getur án frekari könnunar fengið skipt á því og samsvarandi íslensku ökuskírteini. Sama er um ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. þó 2. mgr.
Handhafi ökuskírteinis sem gefið er út í ríki sem er ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða ökuskírteinis sem gefið er út á grundvelli slíks ökuskírteinis getur því aðeins fengið skipt á því og samsvarandi íslensku ökuskírteini að hann standist hæfnispróf.

78. gr.

Lögreglustjóri getur ákveðið að ekki þurfi að gangast undir hæfnispróf vegna útgáfu íslensks ökuskírteinis í stað erlends ökuskírteinis ef telja má að útgáfa ökuskírteina í hlutaðeigandi ríki lúti ekki verulega vægari skilyrðum en hér á landi.
Lögreglustjóri getur krafist þess að hæfnispróf fari fram áður en íslenskt ökuskírteini verður gefið út í stað samsvarandi erlends ökuskírteinis ef:
a. ökuskírteinishafi hefur áður gengist undir ökupróf hér á landi sem hann stóðst ekki vegna ónógrar aksturshæfni, vanþekkingar á mikilvægum umferðarreglum eða ónógs skilnings á tilliti við aðra vegfarendur, eða
b. ökuréttindin hafa áður sætt afturköllun eða sviptingu hér á landi.

79. gr.

Sá sem hefur fasta búsetu hér á landi og öðlast hefur ökuskírteini erlendis getur fengið því skipt samkvæmt ákvæðum þessa kafla enda hafi dvölin staðið lengur en sex mánuði, sbr. þó 2. mgr.
Þessi takmörkun gildir þó ekki um færeysk ökuskírteini eða ökuskírteini sem gefin hafa verið út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.

X. KAFLI
Eldri ökuréttindi.
80. gr.

Fullnaðarskírteini, sem gefin höfðu verið út til tíu ára fyrir 1. mars 1988 og voru þá í gildi, skulu gilda áfram án áritunar þar til hlutaðeigandi er fullra 70 ára.

81. gr.

Þeir, sem fyrir gildistöku reglugerðar þessarar hafa öðlast réttindi sem nú er krafist sérstakrar löggildingar til, halda þeim rétti, enda fullnægi þeir almennum skilyrðum til þess, þannig:
a. Þeir, sem fyrir 1. júlí 1958 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið, mega stjórna bifhjóli, svo og vörubifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd.
b. Þeir, sem fyrir 12. apríl 1960 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið, mega stjórna hópbifreið, þó ekki hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
c. Þeir, sem fyrir 12. apríl 1960 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna leigubifreið til mannflutninga, mega stjórna fólksbifreið og hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
d. Þeir, sem frá og með 1. júlí 1958 og fyrir 1. mars 1988 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið, mega stjórna hópbifreið með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns, þó ekki hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
e. Þeir, sem frá og með 12. apríl 1960 og fyrir 1. mars 1988 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna leigubifreið til mannflutninga, mega stjórna fólksbifreið og hópbifreið með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
f. Þeir, sem frá og með 1. júlí 1958 og fyrir 1. júní 1993 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið, mega stjórna vörubifreið fyrir allt að 5 smálesta farm.
g. Þeir, sem fyrir 1. janúar 1997 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið, mega stjórna fólksbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd.
h. Þeir, sem fyrir 15. ágúst 1997 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið, vörubifreið eða hópbifreið, mega stjórna samtengdum ökutækjum með bifreið, vörubifreið eða hópbifreið, eftir því sem við á, og stórum eftirvagni/tengitæki.
i. Þeir, sem frá og með 1. mars 1988 og fyrir 15. ágúst 1997 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni, mega stjórna fólksbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
j. Þeir, sem fyrir 15. ágúst 1997 hafa, á grundvelli ökuprófs, öðlast réttindi til að mega stjórna hópbifreið, mega stjórna hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni.
k. Þeir, sem fyrir 15. ágúst 1997 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna bifhjóli, mega stjórna stóru bifhjóli, óháð ákvæði 2. mgr. 15. gr. um reynslutíma.
l. Þeir, sem fyrir 30. desember 1996 hafa öðlast réttindi til að mega stjórna dráttarvél, léttu bifhjóli eða torfærutæki, mega til 30. júní 1999 stjórna torfærutæki.

82. gr.

Við útgáfu nýs ökuskírteinis í stað ökuskírteinis sem gefið hefur verið út fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skal hið nýja ökuskírteini bera réttindaflokka í samræmi við ákvæði 5. - 13. gr., sbr. VI. viðauka, og gildistíma í samræmi við ákvæði IV. kafla.
Handhafi gilds ökuskírteinis af eldri gerð getur með sama hætti fengið útgefið nýtt ökuskírteini. Ákvæði 1. og 2. mgr. 50. gr. gilda eftir því sem við á.

XI. KAFLI
Málskot.
83. gr.

Sá sem ekki vill una niðurstöðu prófdómara vegna ökuprófs getur skotið henni til sérstakrar nefndar sem stjórn Umferðarráðs skipar. Í nefndinni skulu eiga sæti deildarstjóri ökunámsdeildar Umferðarráðs, ökukennari tilnefndur af Ökukennarafélagi Íslands og fulltrúi tilnefndur af stjórn Umferðarráðs, og er hann formaður nefndarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti, þó þannig að framkvæmdastjóri Umferðarráðs tilnefnir varamann deildarstjóra ökunámsdeildar. Nefndin skal skipuð til tveggja ára í senn. Ákvörðun nefndarinnar verður skotið til dómsmálaráðuneytisins.
Að öðru leyti fer um málskot ákvarðana samkvæmt reglugerð þessari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Gjöld fyrir próf.
84. gr.

Fyrir hvert próf (fræðilegt próf og verklegt próf) skal greiða sérstakt gjald, þannig:
Flokkur M,T A,B BE C CE D DE Farþegaflutningar
í atvinnuskyni
B D
Fræðilegt 900 900 - - - - - - - kr.
próf
Verklegt 2.000 2.800 2.800 5.000 3.500 5.000 3.500 8.000 3.000 kr.
próf

Fyrir verklegt próf fyrir stórt bifhjól, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr., skal greiða 2.800 krónur.
Ef verklegt próf fyrir flokk D og til farþegaflutninga í atvinnuskyni fer fram samtímis skal greiða 9.000 krónur.
Fyrir fyrsta hæfnispróf skal ekki greiða gjald nema prófið fari fram skv. 68. gr.

85. gr.

Komi umsækjandi ekki til prófs á tilsettum tíma án þess að hafa boðað forföll eigi síðar en kl. 12.00 á hádegi tveimur virkum dögum fyrir próf, eða próftaki stenst ekki próf, skal greiða nýtt prófgjald þegar skráð er í próf að nýju, nema forföll stafi af staðfestum veikindum umsækjandans eða ökukennarans.

Gjöld fyrir ökuskírteini.
86. gr.

Fyrir ökuskírteini skal greiða:
a. Bráðabirgðaökuskírteini 1.500 kr.
b. Ökuskírteini (fullnaðarskírteini) fyrir flokkana A, B, BE, C, CE, D og

DE, svo og til farþegaflutninga í atvinnuskyni, að 65 ára aldri 3.000 kr.

c. Ökuskírteini, 65 ára og eldri 1.500 kr.
d. Ökuskírteini fyrir flokkana M og T 1.500 kr.
e. Alþjóðlegt ökuskírteini 1.000 kr.

Sama gjald skal greiða fyrir samrit,

Ekki skal taka gjald fyrir endurnýjun ökuskírteinis þess sem náð hefur 70 ára aldri.

Greiðsla gjalda.
87. gr.

Greiða skal gjald fyrir ökupróf og ökuskírteini um leið og umsókn er lögð fram,
Ef leita þarf umsagnar eða afla frekari upplýsinga eða gagna vegna umsóknar getur lögreglustjóri ákveðið að gjöld skuli greidd síðar.
Gjald fyrir endurtekið próf skal greiða um leið og skráð er í próf að nýju.

Skrá um ökuskírteini.
88. gr.

Ríkislögreglustjóri skal halda skrá um útgefin ökuskírteini.
Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um ökuskírteinaskrá þar sem fram kemur hvaða upplýsingar skuli færðar í skrána.


XII. KAFI.I
Gildistaka.
89. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 50., 52., 54., 57. og 60. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993 og nr. 138 18. desember 1996, svo og með hliðsjón of 24. a tölul. í X)II. viðauka (tilskipun 91/439/EBE, sbr. tilskipun 96/47/EB) við EES samninginn og tilskipun 97/26/EB, öðlast gildi 15. ágúst 1997.
Tilskipanir 91/439/EBE og 96/47/EB sem vísað er til eru birtar í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 346-369, sbr. EES viðbæti við Stjómartíðindi EB, 17. hefti 1994, bls. 69, og í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 29. hefti 1997, bls. 33-38, sbr. bls. 30 og 31.
Jafnframt falla úr gildi:
a. Reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 787 13. desember 1983, með síðari breytingum, 1. - 6. gr., 11. - 12. gr., 15. - 20. gr., 24. - 52. gr., 52. gr. a, a- - g-liðir 52. gr. b og 53. - 55. gr.
b. Reglugerð um prófgjöld ökumanna, gjöld fyrir ökuskírteini o.fl., nr. 634 30. desember 1991, með síðari breytingum, 1. - 6. tölul. 1. gr. og 1. - 8. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 2. gr.

Ákvæði til bráðabirgða

a. Um ökupróf fyrir flokkana A, B, M og T sem hafið er fyrir gildistöku reglugerðarinnar fer eftir ákvæðum eldri reglugerðar. Þó skal verklegt próf á bifhjól fara fram sam-kvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Um réttindi fer eftir ákvæðum þessarar reglu-gerðar.
b. Þeir sem fyrir gildistöku reglugerðarinnar hafa lokið prófi til að mega stjórna bifreið, annarri en hópbifreið, sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, hópbifreið eða bifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni, en fullnægja þá ekki aldursskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini er veitir þau réttindi, skulu fá útgefin ökuréttindi í samræmi við ákvæði 81. gr.
c. Þar til nýjar námskrár hafa verið settar skv. 3. mgr. 26. gr. skal ökukennsla fara fram í samræmi við núgildandi námskrár með þeim breytingum sem leiðir of ákvæðum reglugerðarinnar.
d. Ökukennarar sem við gildistöku reglugerðarinnar hafa löggildingu til kennslu í akstri bifreiða mega annast ökukennslu fyrir þá flokka bifreiða sem ökuskírteinið heimilar þeim að stjórna.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 11. ágúst 1997.

Þorsteinn Pálsson.
Ólafur W. Stefánsson.


I. VIÐAUKI
Ákvæði um gerð og efni ökuskírteinisins.

I. Gerð ökuskírteinis.

Ökuskírteini skulu vera of EES gerð í samræmi við ákvæði tilskipunar 96/47/EB um breytingu á tilskipun 91/439/EBE um ökuskírteini eins og þau ákvæði eru eftir aðlögun þeirra að reglum Evrópska efnahagssvæðisins.
Gerð ökuskírteinisins skal vera í samræmi við meðfylgjandi mynd.


II. Útlit ökuskírteinis og efni.

Framhlið ökuskírteinisins:
Í efra vinstra horni er íslenska þjóðernismerkið, ÍS, hvítt að lit á bláum sporöskjulaga grunni.
Efst fyrir miðju er orðið "ökuskírteini" prentað með svörtum upphafsstöfum. Í efra hægra horni er orðið "Ísland" prentað með bláum upphafsstöfum.
Í neðra vinstra horni er ljósmynd of skírteiníshafa.
Í neðra hægra horni er mynd of íslenska skjaldarmerkinu í fánalitum.
Í grunni framhliðarinnar eru orðin EES gerð og orðið "ökuskírteini" á tungumálum Evrópska efnahagssvæðisins.

Efni ökuskírteinisins er á framhliðinni tilgreint með töluliðum sem merkja:
2. Eiginnafn (eiginnöfn) skírteinishafa og, ef því er að skipta, millinafn.
1. Kenninafn skírteinishafa.
3. Fæðingardagur og fæðingarstaður (fæðingarland) skírteinishafa.
4a. Útgáfudagur ökuskírteinisins.

Tilgreind dagsetning er útgáfudagur sjálfs skírteinisins. Útgáfudagur áður útgefinna réttindaflokka, ef því er að skipta, er tilgreindur í dálki 10 á bakhlið skírteinisins.

4b. Lokadagur ökuskírteinisins.

Tilgreind dagsetning er þegar sjálft skírteinið fellur úr gildi. Fyrir einstaka réttindaflokka o.fl. kann annar lokadagur að vera ákveðinn fyrr. Það er tilgreint á bakhlið skírteinisins.

4c. Nafn útgefanda skírteinisins (ríkislögreglustjóri).
4d. Kennitala skírteinishafa.
5. Númer ökuskírteinisins.
7. Undirskrift skírteinishafa.
9. Upplýsingar um réttindaflokka skírteinishafa. Rita skal innlenda flokka með öðru letri en samræmda flokka.


Bakhlið ökuskírteinisins:
Í efra vinstra horni er skilinn eftir sérstakur reitur, merktur 13, fyrir erlend yfirvöld til að færa á upplýsingar vegna umsýslu þeirra ef skírteinishafinn Best að í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins.
Á vinstri hlið eru skýringar á liðunum 2, 1, 3, 4a, 4b, 4c, 4d, S, 7 og 9 á framhlið ökuskírteinisins, svo og á dálkunum 9, 10, I 1 og 12 á bakhlið þess.
Á vinstri hlið (milli liðanna 2 og 3) er svört mynd of íslenska skjaldarmerkinu. Í grunni bakhliðarinnar, umhverfis dálkana 9 - 12, eru einnig orðin EES gerð og orðið "ökuskírteini" á tungumálum Evrópska efnahagssvæðisins.
Efni ökuskírteinisins er á bakhliðinni tilgreint í dálkum sem merkja:
9. Ökuréttindaflokkar þeir sem notaðir eru hér á landi.

Samræmdir ökuréttindaflokkar eru tilgreindir með bókstöfum, A, B, C, D, BE, CE og DE, og einnig með táknmynd. Innlendir flokkar eru eingöngu tilgreindir með bókstöfum, M og T, og með öðru letri en samræmdir flokkar.

10. Útgáfudagur hvers réttindaflokks fyrir sig.
11. Lokadagur hvers réttindaflokks fyrir sig.
12. Viðbótarupplýsingar og eftir atvikum skilyrði og takmarkanir er varða ökuskírteinið. Dálkurinn nær einnig til stóra reitsins neðst á bakhlið ökuskírteinisins neðan við dálkana 9 - 12.

Viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir eru tilgreindar með tákntölum eins og greinir í VII. viðauka.

II. VIÐAUKI
Lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt hæfi til að stjórna vélknúnu ökutæki.


Skilgreiningar.

Í viðauka þessum er ökumönnum skipt í tvo hópa:
Hópur l: Ökumenn ökutækja í flokki A, B og BE, svo og í flokki M og T.
Hópur 2: Ökumenn ökutækja í flokki C, CE, D og DE, svo og ökumenn í flokki B sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni.
Á sama hátt flokkast hver sá sem sækir um útgáfu eða endumýjun ökuskírteinis í þann hóp sem harm mun tilheyra þegar ökuskírteinið hefur verið gefið út eða endurnýjað.


Meginregla.
Gerðar eru lágmarkskröfur um andlegt og líkamlegt heilbrigði ökumanna. Meiri kröfur eru gerðar til ökumanna í hópi 2 en í hópi 1. Meginkrafan er að ökumaður geti skynjað hættur umhverfisins og stjórnað hlutaðeigandi ökutæki of öryggi fyrir harm sjálfan og aðra og að harm eigi ekki á hættu að missa stjórn á ökutækinu vegna líkamlegra eða andlegra orsaka.
Lágmarkskröfur sem gerðar eru um heilbrigði ökumanna í hópi 1 eiga einnig við um ökumenn í hópi 2.


A. Sjón.
Sá sem sækir um ökuskírteini skal fara í skoðun til að ganga úr skugga um að harm hafi nógu góða sjón til að stjórna vélknúnu ökutæki. Ef ástæða er til að efast um að svo sé skal umsækjandi fara í rannsókn hjá þar til bærum lækni. Í þeirri rannsókn skal einkum lögð áhersla á sjónskerpu, sjónsvið, sjón í rökkri og augnsjúkdóma sem ágerast.
Ígræddar augnlinsur teljast ekki vera sjóngler í skilningi þessa viðauka.


Hópur 1.
Sá sem sækir um útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis skal hafa sjónskerpu.sem nemur a.m.k. 0,5 þegar óæði augu eru mæld samtímis, eftir atvikum með sjónglerjum. Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja ef fram kemur við læknisskoðun að lárétt sjónsvið viðkomandi er innan við 120°, nema víkja megi frá því í undantekningartilvikum á grundvelli læknisfræðilegs álits og hæfnisathugunar sem gefur jákvæða niðurstöðu, eða að sjón hans er of öðrum ástæðum þannig að harm getur ekki ekið of öryggi. Ef augnsjúkdómur sem ágerist verður sannreyndur eða upplýsingar um harm koma fram má gefa út eða endurnýja ökuskírteini, enda fari viðkomandi reglulega í augnskoðun hjá þar til bærum lækni.
Sá sem sækir um útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis og er alveg blindur á öðru auga eða notar aðeins annað augað (t.d. við tvísýni) skal hafa sjónskerpu sem nemur a.m.k. 0,6, eftir atvikum með sjónglerjum. Þar til bær læknir þarf að votta að það ástand, þar sem aðeins öðru auganu er beitt, hafi varað það lengi að viðkomandi hafi vanist því og að sjónsvið þess auga sé eðlilegt.


Hópur 2.
Sá sem sækir um útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis skal hafa sjónskerpu, eftir atvikum með sjónglerjum, sem nemur a.m.k. 0,8 á öðru auga og a.m.k. 0,5 á hinu. Ef sjóngler eru notuð til að ná þessari sjónskerpu skal óleiðrétt sjónskerpa á hvoru auga vera a.m.k. 0,05; að öðrum kosti verður lágmarkssjónskerpan (0,8 og 0,5) að nást annaðhvort með því að leiðrétta með gleraugum sem eru ekki sterkari en plús eða mínus átta ljósbrotseiningar eða með snertilinsum (óleiðrétt sjón = 0,05). Sjónglerin mega ekki valda óþægindum. Hvorki má gefa út né endurnýja ökuskírteini ef umsækjandinn eða ökumaðurinn hefur ekki eðlilegt sjónsvið með báðum augum saman eða ef viðkomandi er haldinn tvísýni.


B. Heyrn.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn í hópi 2 á grundvelli álits þar til bærs læknis. Við læknisskoðun skal tekið tillit til möguleika á leiðréttingu.


C. Hreyfihömlun.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem haldnir eru sjúkdómi í hreyfikerfi líkamans eða hafa afbrigðilegt hreyfikerfi þannig að hættulegt sé að þeir stjórni vélknúnu ökutæki.


Hópur 1.
Gefa má út ökuskírteini, eftir atvikum með sérstökum takmörkunum, fyrir líkamlega fatlaða umsækjendur eða ökumenn að fengnu áliti þar til bærs læknis. Álitið skal byggt á læknisfræðilegu mati á viðkomandi sjúkdómi eða fötlun og, eftir atvikum, á hæfnisathugun. Þar skal einnig koma fram hvaða breytingar þurfi að gera á ökutækinu og hvort ökumaðurinn skuli nota bæklunarbúnað, enda leiði athugunin í ljós að akstur með slíkum búnaði geti farið fram af öryggi.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur sem eru haldnir sjúkdómi sem ágerist, enda fari viðkomandi reglubundið í eftirlit til að karma hvort harm sé enn fær um að stjórna ökutæki sínu of öryggi. Ef fötlunin tekur engum breytingum má gefa út eða endurnýja ökuskírteini án þess að gerð sé krafa um reglubundið eftirlit læknis.


Hópur 2.
Þar til bær læknir skal taka viðeigandi tillit til þeirrar auknu áhættu sem tengist akstri ökutækja sem falla undir þennan hóp.


D. Hjarta- og æðasjúkdómar.
Sjúkdómar, sem geta valdið því að sá sem sækir um útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis verði fyrir skyndilegu áfalli í hjarta- og æðakerfi sem getur valdið skyndilegri breytingu á heilavirkni, skapa hættu í umferð á vegum.


Hópur 1.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem eru haldnir alvarlegum hjartsláttartruflunum.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn sem nota hjartagangráð á grundvelli vottorðs þar til bærs læknis og reglubundins eftirlits hjá lækni.
Meta skal hvort gefa eigi út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur sem hafa óeðlilegan blóðþrýsting, með tilliti til annarra niðurstaðna rannsóknarinnar, hugsanlegra aukaverkana og þeirrar hættu sem þeir Beta skapað í umferðinni.
Almennt gildir að ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem eiga vanda til hjartakveisu í hvíld eða við geðshræringu. Útgáfa eða endurnýjun ökuskírteinis fyrir umsækjendur eða ökumenn sem hafa fengið kransæðastíflu skal háð vottorði þar til bærs læknis og eftir atvikum reglubundnu eftirliti hjá lækni.


Hópur 2.
Þar til bær læknir skal taka viðeigandi tillit til þeirrar auknu áhættu sem tengist akstri ökutækja sem falla undir þennan hóp.


E. Sykursýki.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn sem eru haldnir sykursýki á grundvelli álits þar til bærs læknis og reglubundins eftirlits hjá lækni sem hæfir hverju einstöku tilviki.


Hópur 2.
Aðeins í undantekningartilvikum má gefa út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn í þessum hópi sem haldnir eru sykursýki og þurfa insúlínmeðferð, og þá aðeins á grundvelli álits þar til bærs læknis og reglubundins eftirlits hjá lækni.


F. Taugasjúkdómar.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem eru haldnir alvarlegum taugasjúkdómi, nema umsóknin sé studd áliti þar til bærs læknis.
Í þessu sambandi skal taka tillit til truflana í taugakerfi sem stafa of sjúkdómi eða uppskurði og hafa áhrif á miðtaugakerfið eða úttaugakerfið og koma fram í slakri skynjun eða hreyfigetu og hafa áhrif á jafnvægi og samhæfingu, vegna áhrifa þeirra á starfshæfni og hættu á að einkennin aukist. Í þeim tilvikum getur útgáfa eða endurnýjun ökuskírteinis verið háð reglulegu endurmati þegar hætta er á að ástandið versni.
Flogaveikisköst eða aðrar skyndilegar truflanir á meðvitund valda mikilli hættu í umferð á vegum ef þau koma fram hjá þeim sem ekur vélknúnu ökutæki.


Hópur 1.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini á grundvelli rannsóknar þar til bærs læknis og reglubundins eftirlits læknis. Læknirinn skal meta stig flogaveikinnar eða annarra truflana á meðvitund, tegund sjúkdómsins og þróun (t.d. ekkert kast í tvö ár), meðferðina sem bent hefur verið og árangur hennar.


Hópur 2.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem fá eða eru líklegir til að fá flogaveikiköst eða aðrar skyndilegar truflanir á meðvitund.


G. Geðtruflanir.
Hópur 1.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem haldnir eru:
– alvarlegum geðtruflunum, hvort heldur er meðfæddum eða of völdum sjúkdóms, áverka eðataugaskurðaðgerða,
– miklum andlegum vanþroska,
– alvarlegum hegðunarvandamálum vegna öldrunar eða persónuleikatruflunum sem valda skorti á dómgreind eða samskipta- og aðlögunarhæfni,
nema umsóknin sé studd áliti þar til bærs læknis og, ef þurfa þykir, háð reglubundnu eftirliti læknis.

Hópur 2.
Þar til bær læknir skal taka viðeigandi tillit til þeirrar auknu áhættu sem tengist akstri ökutækja sem falla undir þennan hóp.


H. Áfengi.
Áfengisneysla veldur mikilli hættu í umferðinni. Í ljósi þess hversu alvarlegt þetta vandamál er verður læknisfræðilegt eftirlit að vera mjög árvökult.


Hópur 1.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem háðir eru áfengi eða ófærir um að aðskilja áfengisneyslu og akstur.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn sem hafa verið háðir áfengi eftir tiltekinn tíma sem þeir hafa sannanlega verið án áfengis, að fengnu áliti þar til bærs læknis og háð reglubundnu eftirliti læknis.


Hópur 2.
Þar til bær læknir skal taka viðeigandi tillit til þeirrar auknu áhættu sem tengist akstri ökutækja sem falla undir þennan hóp.


I. Ávana- og fíkniefni og læknislyf
Ökuskírteini skal hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem eru háðir geðsæknilyfjum eða, án þess að vera háðir þeim, nota þau að staðaldri og gildir þá einu hvaða flokk ökuskírteina sótt er um.


Hópur 1.
Ökuskírteini skal hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn sem að staðaldri nota geðsæknilyf, í hvaða formi sem er, sem Beta dregið úr aksturshæfni ef þeirra er neytt í svo miklu magni að það hafi neikvæð áhrif á aksturinn. Hið sama gildir um öll önnur læknislyf eða lyfjablöndur sem hafa áhrif á aksturshæfni.


Hópur 2.
Þar til bær læknir skal taka viðeigandi tillit til þeirrar áhættu sem tengist akstri ökutækja sem falla undir þennan hóp.


J. Nýrnasjúkdómar.
Hópur 1.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn með alvarlega nýrnabilun, að fengnu áliti þar til bærs læknis og háð reglubundnu eftirliti læknis.

Hópur 2.
Ökuskírteini má hvorki gefa út né endurnýja fyrir umsækjendur eða ökumenn með alvarlega og ólæknanlega nýrnabilun, nema í undantekningartilvikum, að fengnu áliti þar til bærs læknis og háð reglubundnu eftirliti læknis.


K. Ýmis ákvæði.
Hópur 1.
Gefa má út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjendur eða ökumenn sem líffæri eða gervilíffæri, sem geta haft áhrif á aksturshæfni, hafa verið grædd í, að fengnu áliti þar til bærs læknis og háð reglubundnu eftirliti læknis.

Hópur 2.
Þar til bær læknir skal taka viðeigandi tillit til þeirrar auknu áhættu sem tengist akstri ökutækja sem falla undir þennan hóp.
Almennt gildir að ekki skal gefa út eða endurnýja ökuskírteini umsækjenda eða ökumanna sem eru haldnir sjúkdómi sem ekki hefur verið getið hér að framan en hafa eða gets haft áhrif á hreyfigetu sem hefur áhrif á öryggi við akstur, nema umsóknin sé studd áliti þar til bærs læknis og, ef þörf þykir, háð reglubundnu eftirliti læknis.

III. VIÐAUKI

Ákvæði um ökutæki sem notuð eru til ökukennslu og við verklegt próf.


I. Sérstök skráning.

Ökutæki sem notað er til ökukennslu og við ökupróf skal viðurkennt of faggiltri skoðunarstofu og vera skráð sem slíkt hjá skráningarstofu ökutækja.
Dráttarvél og létt bithjól þarf ekki að skrá til ökukennslu og eru þau ökutæki undanþegin sérákvæðum um búnað.


II. Sameiginleg ákvæði.
Ástand ökutækis og búnaður.
Ökutæki skal við ökukennslu og verklegt próf jafnan vera þrifalegt og í fullkomnu lagi. Heimilt er að nota ökutæki sem viðurkennt er til ökukennslu þótt það fullnægi ekki ákvæðum viðauka þessa til 31. desember 1999.

Ökukennslumerki, auglýsingar o.fl.
Við ökukennslu skal ökutæki búið merki/merkjum með áletruninni "Ökukennsla" með svörtum stöfum á hvítum grunni. Á bifreið skal merkjum komið fyrir í lóðréttri eða nærri lóðréttri stöðu og þannig að áletrunin sjáist vel, bæði að framan og að aftan. Á fólksbifreið má koma merki, með áletrun sem snýr bæði fram og aftur, fyrir á þaki bifreiðarinnar. Þegar kennt er á bifhjól skal nemandi klæðast vesti í áberandi lit með áletrun að aftan. Önnur ökutæki skulu búin merki að aftan. Umferðarráð ræður gerð merkjanna.
Óheimilt er að nota merkin við annan akstur en við ökukennslu, þar með talinn akstur að og frá þeim stað þar sem ökukennsla fer fram. Heimilt er að nota eldri kennslumerki með áletruninni "Kennslubifreið" til 31. desember 1999.
Við verklegt próf má ökutæki vera auðkennt með nafni skráðs eiganda/notanda, þó án þess að notað sé orðið ökuskóli eða þess háttar, og símanúmeri. Að öðru leyti má ökutækið við verklega prófið ekki vera auðkennt með kennslumerki né heldur firmamerki, auglýsingum eða öðru sem auðkennir það sem kennslutæki.
Þegar ökutæki, sem sérstaklega hefur verið búið til ökukennslu, er notað í öðru skyni en til kennslu og við verklegt próf, og einhver notar það sæti sem kennslubúnaðinum er stjórnað frá, skal búa þannig um þann búnað að eigi stafi hætta af. Ekki er þörf á slíkum viðbúnaði varðandi speglabúnað.

Sjálfskipting.
Við verklegt próf má einungis nota handskiptibúnað ökutækisins.
Þetta gildir þó ekki um bifreið sem notuð er við verklegt próf fyrir flokk BE, við verklegt próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk B, né um bifreið sem notuð er við verklegt próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D, enda hafi nemandinn ökuskírteini fyrir flokk D.
Ákveða má að ökuskírteini megi því aðeins gefa út að verklegt próf verði tekið með bifreið með sjálfskiptingu. Ef próftaki hefur ekki áður fengið útgefið ökuskírteini fyrir flokk B verður ökuskírteini er þannig stendur á takmarkað við bifreið með sjálfvirkri gírskiptingu.


III. Ákvæði um gerð og búnað.
A. Flokkur A.
Ef stefnt er að öflun réttinda í áföngum: Tvíhjóla bithjól án hliðarvagns með slagrými yfir 120 sm3 og gert fyrir a.m.k. 100 km/klst hraða.
Ef stefnt er að öflun réttinda fyrir stórt bifhjól, sbr. b- og c- 1ið 2. mgr. 15. gr.: Tvíhjóla bilhjól án hliðarvagns með vélarafl a.m.k. 35 kW.
Bifhjól skal búið baksýnisspeglum fyrir ökumann á báðum hliðum, stefnuljóskerum að framan og að aftan og miðjustandara.

B. Flokkur B.
Fjórhjóla fólksbifreið, skráð fyrir a.m.k. þrjá farþega en ekki fleiri en átta auk ökumanns, með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna.
Lengd bifreiðarinnar skal vera a.m.k. 3,80 m og breidd a.m.k. 1,45 m, eða eigin þyngd a.m.k. 700 kg. Bifreiðin skal gerð fyrir a.m.k. 100 km/klst hraða.
Við sæti ökukennara skal komið fyrir sérstökum fetlum, þannig að ökukennari geti, óháð nemanda, rofið aflrás og hemlað bifreiðinni. Fetlar ökumanns mega ekki virka á fetla ökukennara.
Ef bifreiðin er búin læsivörn á hemlum, spólvörn eða hallahemli skal hafa rofa fyrir þann búnað.
Ef bifreiðin er búin sjálfskiptingu skal gírstöng koma í stað fetils til þess að rjúfa aflrás, og komið þannig fyrir að ökukennari geti stjórnað henni.
Bifreiðin skal búin baksýnisspegli fyrir ökumann á hægri hlið og eftirtöldum speglum fyrir ökukennara:
a. Baksýnisspegli inni í bifreið.
b. Flötum augnspegli til að fylgjast með athygli nemanda.
c. Kúptum baksýnisspegli á hægri hlið.
Stýri bifreiðarinnar skal vera vinstra megin.

C. Flokkur C.
Vörubifreið a.m.k. 7,5 m að lengd, a.m.k. 12.000 kg að leyfðri heildarþyngd og gerð fyrir a.m.k. 80 km/klst hraða.
Bifreiðin skal búin baksýnisspeglum fyrir ökukennara, í flokki II skv. reglugerð um gerð og búnað ökutækja, á báðum hliðum. Baksýn án spegla skal ekki vera möguleg fyrir ökumann.
Um aðrar sérkröfur gildir hið sama og fyrir flokk B. Þó er ekki gerð krafa um rofa fyrir læsivörn á hemla.
Bifreiðin skal búin lyftanlegum vörupalli. Við verklega prófið skal bifreið vera með a.m.k. 50% of leyfðum farmþunga.

D. Flokkur D.
Hópbifreið a.m.k. 10 m að lengd eða a.m.k. 9 m að lengd og skráð fyrir a.m.k. 40 farþega. Bil milli ása skal vera a.m.k. 5,5 m og bifreiðin gerð fyrir a.m.k. 90 km/klst hraða. Um sérkröfur gildir hið sama og fyrir flokk C.

E. Flokkur E.
- Flokkur BE:
Fólksbifreið í flokki B með tengdan eftirvagn/tengitæki að heildarþyngd a.m.k. 1.250 kg. Heildarþyngd samtengdu ökutækjanna skal vera meiri en 3.500 kg eða heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins a.m.k. 200 kg meiri en eigin þyngd bifreiðarinnar.
Ökutækin skulu gerð fyrir a.m.k. 100 km/klst hraða.
Ef eftirvagninn byrgir sýn í baksýnisspegli fyrir ökukennara eða prófdómara skal bifreiðin vera búin auka útispegli vinstra megin.
- Flokkur CE:
Vörubifreið í flokki C með tengdan tengivagn á tveimur ásum sem er a.m.k. 4 m að lengd og a.m.k. 8.000 kg að leyfðri heildarþyngd eða tvíása vörubifreið með tengdan festivagn þar sem vörubifreiðin skal uppfylla þær kröfur sem tilgreindar eru undir flokki C, þó ekki kröfu um lengd og þyngd.
Samtengdu ökutækin skulu vera a.m.k. 18.000 kg að leyfðri heildarþyngd, a.m.k. 12 m að lengd og gerð fyrir a.m.k. 80 km/klst hraða.
Við verklega prófið skulu ökutækin vera með a.m.k. 50% of leyfðum farmþunga.
- Flokkur DE:
Bifreið í flokki D með tengdan tengivagn sem er a.m.k. 3.000 kg að leyfðri heildarþyngd. Samtengdu ökutækin skulu gerð fyrir a.m.k. 80 km/klst hraða.
Við verklega prófið skal eftirvagninn vera með a.m.k. 50% of leyfðum farmþunga.

F. Flokkur M.
Létt bifhjól ekki aflmeira en 50 sm3 að slagrúmmáli og ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km/klst. Bifhjólið skal búið baksýnisspeglum á báðum hliðum fyrir ökumann, stefnuljóskerum að framan og að aftan og hliðarstandara.

G. Flokkur T.
Dráttarvél a.m.k. 2.000 kg að eigin þyngd með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er a.m.k 800 kg að eigin þyngd.

H. Farþegaflutningar í atvinnuskyni.
- Flokkur B:
Fólksbifreið fyrir ekki fleiri en 8 farþega auk ökumanns og með leyfða heildarþyngd ekki yfir 3.500 kg. Bifreiðin skal annað hvort vera a.m.k. 4,40 m að lengd og a.m.k. 1,60 m á breidd eða vera a.m.k. 1.100 kg að eigin þyngd.
Um hemla og spegla gildir hið sama og fyrir flokk B. Bifreiðin má vera búin sjálfskiptingu.
- Flokkur D:
Hópbifreið eins og lýst er við flokk D.

I. Ökutæki fyrir fatlaða.
Bifreið, sem sérstaklega er búin fyrir fatlaðan ökumann, má eigandi/umráðamaður nota til æfingaaksturs og við verklegt próf enda hafi áður verið fengin heimild frá skráningarstofu.
Um hemla og spegla gildir hið sama og fyrir flokk B. Ef bifreiðin er með handstýrðum hemlabúnaði til að nota með hægri hendi fellur brott áskilnaður um hemlafetil við sæti ökukennara ef einnig er unnt án erfiðleika að nota handstýrða hemlabúnaðinn úr sæti ökukennarans.

IV. VIÐAUKI
Ökunám.

1. Námskrár.

Ökunám skal fara fram samkvæmt námskrám fyrir hvern einstakan flokk, A, B, C, D, BE, CE, DE, M og T, svo og fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokkana B og D.
Námskrár fyrir hvern flokk skulu kveða á um þá þekkingu, hæfni og leikni sem umsækjandi þarf að búa yfir til að öðlast hlutaðeigandi réttindi. Ökunám skal vera fræðilegt og verklegt. Í námskrá skal gera grein fyrir námsefni og skipulagi náms, svo og veita leiðbeiningar um fjölda kennslustunda er verja skal til einstakra þátta námsins. Þar skal og kveða á um tilhögun prófa fyrir hvern einstakan flokk.


2. Fræðilegt ökunám.
Fræðilegt ökunám skal metið til eininga og skal ein eining jafngilda 24 kennslustundum (45 mínútur hver). Miða skal við að fjöldi eininga í fræðilegu námi fyrir hvern flokk sé að lágmarki þessi:
- Flokkur A: Ein eining.
- Flokkur B: Ein eining.
- Farþegaflutningar í atvinnuskyni
fyrir flokk B: 4 einingar.
- Flokkur C: 4,5 einingar.
- Flokkur D: 5,5 einingar, þar af ein eining vegna farþega flutninga
í atvinnuskyni.
- Flokkar CE og DE: Hálf eining.
- Flokkar M og T: Hálf eining.
Meta má nám til flokks sem nemandi hefur þegar öðlast rétt til sem hluta náms fyrir nýjan flokk, þannig:
- við nám til flokks A telst nám fyrir flokk B hálf eining;
- við nám til flokks C telst nám fyrir flokk D 4,5 einingar;
- við nám til flokks D telst nám fyrir flokk C 4,5 einingar.
Ökukennarar og ökuskólar bera ábyrgð á að undirbúningur ökunema sé í samræmi við námskrá.


3. Æfingaakstur með leiðbeinanda.
Nemanda sem hlotið hefur nauðsynlegan undirbúning hjá ökukennara er heimilt að æfa akstur bifreiðar eða bifhjóls með leiðbeinanda í stað ökukennara, enda hafi leiðbeinandinn fengið til þess leyfi lögreglustjóra.
Engum má veita leyfi sem leiðbeinandi nema hann:
a. hafi náð 24 ára aldri,
b. hafi gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með og hafi a.m.k. fimm ára reynslu of að aka þannig ökutæki,
c. hafi ekki á undangengnum tólf mánuðum verið án ökuskírteinis vegna ökuleyfissviptingar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti.
Umsókn um heimild til að æfa akstur með leiðbeinanda skal rituð á eyðublað sem gert er eftir fyrirmælum Umferðarráðs. Á eyðublaðinu skal vera vottorð ökukennara er staðfesti að nemandinn hafi öðlast næga þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í meðferð og stjórnun ökutækis til að æfa akstur með leiðbeinanda. Slíkt vottorð þarf ekki ef leitað er heimildar fyrir nýjum leiðbeinanda með nemandann.
Leyfi skal gefið út á nafn nemanda og leiðbeinanda og til tiltekins tíma, allt að fimmtán mánuðum. Á leyfið skal prenta leiðbeiningar um æfingaakstur með leiðbeinanda. Leyfið fellur sjálfkrafa úr gildi þegar nemandi hefur öðlast ökuréttindin. Heimilt er að afturkalla leyfi ef sérstaklega stendur á.
Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur og sýna það þegar lögreglan krefst þess. Leiðbeinanda er óheimilt að taka endurgjald fyrir starf sitt.
Æfingaakstur skal fara fram með hliðsjón of þjálfun nemandans og leiðbeiningum sem Umferðarráð gefur út að höfðu samráði við Ökukennarafélag Íslands. Skal ökukennari veita leiðbeinanda aðstoð við skipulagningu æfingaakstursins, svo sem með því að leiðbeinandinn fylgist með kennslustund nemandans í akstri.
Óheimilt er að æfa með leiðbeinanda akstur bifreiðar sem krafist er aukinna ökuréttinda til að stjórna.
Við æfingaakstur á bifhjóli skal leiðbeinandinn sitja fyrir aftan nemanda nema æfingaaksturinn fari fram á svæði þar sem ekki er önnur umferð og leiðbeinandinn getur haft stöðugt eftirlit með nemandanum og vein honum nauðsynlegar leiðbeiningar.
Ökutæki sem notað er til æfingaaksturs með leiðbeinanda skal auðkennt að aftan með merki með áletruninni "Æfingaakstur". Umferðarráð ræður gerð merkjanna. Óheimilt er að nota merkin við annan akstur.
Um æfingaakstur með leiðbeinanda gilda að öðru leyti, eftir því sem við á, sömu reglur og um æfingaakstur með ökukennara.


4. Æfingaakstur á léttu bithjóli og dráttarvél.
Nemanda er heimilt að æfa án ökukennara akstur létts bifhjóls, svo og dráttarvélar á alfaravegi, enda hafi hann fengið til þess leyfi lögreglustjóra. Til að fá útgefið æfingaleyfi á létt bifhjól skal nemandi hafa lokið fræðilegu námi og fengið nauðsynlega þjálfun í akstri hjá ökukennara. Leyfi skal að jafnaði gefið út til þriggja mánaða. Æfingaaksturinn skal fara fram undir umsjón ökukennara. Ákvæði 3. töluliðar um æfingaakstur með leiðbeinanda gilda að öðru leyti eftir því sem við á.

V. VIÐAUKI
Ökupróf.

1. Tilgangur ökuprófs.

Tilgangur ökuprófs er að meta hvort próftaki búi yfir þeirri þekkingu, hæfni og leikni sem áskilin er til að harm geti stjórnað hlutaðeigandi ökutæki of nægu öryggi og til að fá útgefið ökuskírteini. Ökupróf skal fara fram samkvæmt námskrá og próflýsingum Umferðarráðs.
Ökuprófi skal haga með hliðsjón of eðli ökutækja í hlutaðeigandi flokki, notkun þeirra og þeirri hættu sem of notkun þeirra getur stafað.


2. Tilhögun ökuprófs.
Ökupróf skiptist í tvo hluta; fræðilegt próf og verklegt próf. Verklega prófið er tvíþætt, munnlegt próf og aksturspróf.
Standist próftaki ekki próf má harm ekki reyna við sama próf að nýju fyrr en að viku liðinni. Ef sérstaklega stendur á má stytta þennan tíma.
Próftaka sem vegna sérstakra ástæðna, sem leggja skal fram gögn um, svo sem lesblindu, heyrnar- eða málleysis eða þess að harm á að öðru leyti erfitt með að tjá sig, getur ekki gengist undir venjulegt skriflegt eða munnlegt próf má vísa í sérstakt próf þar sem prófdómari eða annar tilkvaddur aðstoðarmaður, þó ekki ökukennari, veitir aðstoð við að leggja fram spurningar eða koma svörum á framfæri.


3. Fræðilegt próf.
Fræðilegt próf skal vera skriflegt.
Fyrir flokkana A, B, M og T skal prófið vera krossapróf. Spyrja skal um atriði er varða umferðarlöggjöf, viðurkennda aksturshætti, ökutækið, mannlega þætti og viðbrögð á slysstað. Próftaki skal fá allt að 45 mínútum til að leysa úr verkefninu.
Fræðilegt próf í einstökum námsþáttum náms til flokkanna C, CE, D, DE og til farþegaflutninga í atvinnuskyni skal fara fram á vegum ökuskóla og skulu prófkröfur vera í samræmi við námskrá.
Fræðilegt próf í flokkunum A, B, M og T missir gildi ef verklega prófið er ekki tekið innan sex mánaða.
Við próf fyrir þá flokka þar sem ekki er krafist læknisvottorðs skal kanna sjón próftaka á þann hátt að harm þarf að geta lesið of skráningarmerki ökutækis (gerð A) úr 20 metra fjarlægð.


4. Munnlegt próf.
Tilgangur munnlegs prófs er að komast að raun um hvort próftaki hafi þá þekkingu á gerð og búnaði ökutækis að harm geti haldið ökutækinu þannig við að ekki verði um óeðlilegar bilanir að ræða sem gera það óöruggt í akstri eða auka verulega rekstrarkostnað þess. Einnig skal hann geta framkvæmt einfalda athugun á helstu öryggisþáttum ökutækis.
Munnlega prófið skal lagt fyrir próftaka í og við ökutæki áður en akstursprófið hefst. Í munnlegu prófi skal spyrja um atriði sem tilgreind eru í próflýsingum.


5. Aksturspróf.
Aksturspróf má ekki fara fram fyrr en að stöðnu munnlegu prófi.
Í akstursprófi skal prófdómari stjórna prófi og leiðbeinir harm próftaka um tilhögun prófsins. Í prófi fyrir flokk D og við próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni er heimilt að hafa tvo prófdómara, einn sem stjórnar prófi og meðprófdómara. Prófdómari skal að jafnaði sitja við hlið próftaka eða þar sem harm hefur góða yfirsýn yfir umferðaraðstæður og getur fylgst með próftaka. Próftaki skal prófaður í undirbúningi aksturs og öryggisþáttum ökutækis, öryggi í akstri, tæknilegri leikni á ökutæki, hæfni í umferðinni og fylgni við umferðarreglur.
Prófdómari skal því aðeins hafa afskipti of stjórn ökutækis að umferðaröryggi krefjist. Hann skal eftir því sem unnt er láta próftaka afskiptalausan en fylgjast vel með akstursháttum hans, gæta að hvort harm fer eftir umferðarreglum og hvort harm ekur eðlilega miðað við aðstæður. Nauðsynlegar ábendingar og fyrirmæli ber prófdómara að gefa greinilega og í tæka tíð þannig að próftaka gefist ráðrúm til að skilja þær og framkvæma. Prófdómari má ekki gefa fyrirmæli sem leiða myndu til umferðarbrota ef hlýtt væri.


6. Verklegt próf á bifhjól og létt bifhjól.
Auk bifhjóls/létts bifhjóls til próftöku skal próftaki leggja til bifreið búna fjarskiptatækjum fyrir prófdómara og vanan ökumann.
Prófdómari skal gæta þess að próftaki hafi viðeigandi öryggis- og verndarbúnað, þ.e. hlífðarhjálm, hlífðargleraugu, hanska og skó, svo og klæðnað, t.d. leðurklæðnað, sem hlífir líkama við minniháttar hnjaski. Prófdómara er heimilt að fresta prófi telji harm próftaka ekki nægilega varinn, fjarskipti við próftaka ekki í nægilega góðu lagi eða veður eða veðurhorfur þannig að geti skapað hættu fyrir próftaka.
Prófið skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn felur í sér munnlegt próf og æfingar á plani. Próftaki þarf að standast munnlega prófið til að mega halda áfram í æfingar á plani. Seinni hlutinn felur í sér akstur í umferð og fer hann fram strax að loknum fyrri hlutanum. Standist próftaki ekki fyrri hlutann er prófi hætt án þess að prófað sé í seinni hluta.


7. Farþegaflutningar í atvinnuskyni.
Við ökupróf til farþegaflutninga í atvinnuskyni, bæði fræðilegt próf og verklegt, skal leg~ja strangara mat á einstaka prófþætti en í almennu ökuprófi til flokkanna B, eftir atvikum D. I munnlegu prófi skal sérstaklega spyrja um atriði er tengjast farþegaflutningi fyrir hvorn flokk.fyrir sig.
Ökupróf fyrir flokk D og ökupróf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D mega fara fram samtímis. Fræðilegt próf og verklegt próf fara þá fram eins og próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D. Ef frammistaða próftaka nægir ekki til að standast próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D skal prófdómari eftir sem áður meta og dæma hvort frammistaða próftakans sé nægileg til að standast ökupróf fyrir flokk D.


8. Hæfnisathugun.
Markmið hæfnisathugunar er að meta hvort skilyrði séu til útgáfu ökuskírteinis eða endurnýjunar, eftir atvikum með skilyrðum, svo og hvort skírteinishafi skuli halda ökuréttindum sínum að öllu eða að hluta. Hæfnisathugun getur farið fram að kröfu lögreglustjóra ef upplýsingar um heilbrigði umsækjanda gefa tilefni til, svo og ef fram koma upplýsingar sem gefa til kynna að heilbrigði skírteinishafa sé ekki lengur fullnægjandi. Hæfnisathugun er ekki fræðileg. Í athuguninni má þó leggja fyrir skírteinishafa spurningar til að kanna þekkingu hans á fræðilegum atriðum, m.a. með hliðsjón of mistökum sem skírteinishafi kann að hafa sýnt.


9. Niðurstaða prófs.
Að loknu verklegu prófi tilkynnir prófdómari lögreglustjóra niðurstöðu prófs. Komist prófdómari að því að andlegri eða líkamlegri hreysti próftaka sé að einhverju áfátt skal prófdómari geta þess í tilkynningu til lögreglustjóra, hvort sem próftaki hefur staðist próf eða ekki.


10. Prófstaðir.
Umferðarráð ákveður hvar ökupróf (fræðileg próf og verkleg próf) fara fram. Aksturspróf skal halda þar sem reynir á sem flesta þætti sem upp geta komið í daglegri umferð. Hæfni og leikni próftaka má að hluta prófa á sérstöku svæði. Hæfni próftaka í umferð skal prófuð á vegum í þéttbýli og utan þess, við mismikinn umferðarþunga, þar sem akstursskilyrði geta talist dæmigerð fyrir þá erfiðleika sem geta orðið á vegi ökumanna, þannig að verulega reyni á ökuhæfni próftaka. Gera skal mismunandi kröfur eftir réttindaflokkum.


11. Prófdæming.
Frammistaða próftaka á prófi (fræðilegu prófi og verklegu prófi) skal metið til stiga.
Við mat á villum í verklegu prófi skal unnið eftir viðmiðunarkvarða akstursprófa fyrir hvern réttindaflokk. Viðmiðunarkvarðarnir skulu gerðir í samráði við Ökukennarafélag Íslands og skulu þeir segja til um hvað telst villa og hversu alvarleg hún er.

VI. VIÐAUKI
Eldri ökuréttindi.


Við útgáfu nýs ökuskírteinis í stað ökuskírteinis sem gefið hefur verið út fyrir 15. ágúst 1997 skal hið nýja ökuskírteini berg nýja réttindaflokka sem hér greinir:
Ökuskírteini sem ber réttindaflokk A (bifhjól) skal berg nýjan réttindaflokk A (stórt bifhjól).
Ökuskírteini sem ber réttindaflokk B (bifreið) skal bera nýja réttindaflokka, þannig:
- útgefið fyrir 1. júlí 1958 B - BE - C - CE - D - DE
- útgefið fyrir 12. apríl 1960 B - BE - C1 - C1E - D - DE
- útgefið fyrir 1. mars 1988 B - BE - C1 - C1E - D1 - D1E
- útgefið fyrir 1. júní 1993 B - BE - C1 - C1E
- útgefið fyrir 15. ágúst 1997 B - BE
Réttindaflokkarnir C1, D1, C1E og D1E skulu auðkenndir með viðeigandi tákntölu í refit 12 aftan við samræmdan réttindaflokk sem við á í samræmi við ákvæði VII. viðauka. Okuskírteini sem ber réttindaflokk D (vörubifreið) skal bera nýja réttindaflokka C og CE.
Ökuskírteini sem ber réttindaflokk E (hópbifreið) skal bera nýja réttindaflokka D og DE. Ökuskírteini sem ber réttindaflokk C (farþegaflutningar í atvinnuskyni) skal fá tákntöluna 400, 425 eða 450, sbr. VII. viðauka, 3. tölulið, eftir því sem við á, ritaða neðst og fremst í dálk 12, eftir því hvort ökuskírteinið ber réttindaflokk B, réttindaflokk D (eftir atvikum D1) eða bæðí B og D (eftir atvikum D1), og miðað við útgáfudag C-réttindanna, þannig:
- útgefin fyrir 12. apríl 1960: tákntalan 450 (B og D).
- útgefin frá og með 12. apríl 1960
og fyrir 1. mars 1988: tákntalan 450 (B og D1); 450
(B og D) ef ökuskírteinið ber
nú réttindaflokk E
að undangengnu ökuprófi.
- útgefin frá og með 1. mars 1988
og fyrir 15. ágúst 1997: tákntalan 400 (B); 450 (B og D)
ef ökuskírteinið ber nú
réttindaflokk E að
undangengnu ökuprófi.


VII. VIÐAUKI

Ákvæði um viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir er varða ökuskírteini.

1. Sameiginleg ákvæði.

Tákntölur í 2. og 3. tölulið tilgreina viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir er varða handhafa ökuskírteinis og skulu færðar í dálk 12 á ökuskírteininu, að jafnaði aftan við þann réttindaflokk sem við á. Ef dálkurinn nægir ekki fyrir tákntölur skulu þær með tilvísun (*) færðar neðan við ökuréttindaflokkana og dálkana 9 - 11. Ef tákntala varðar alla réttindaflokka skal hún og færð neðan við ökuréttindaflokkana. Sama á við um tákntölur vegna stjórnsýslu.
Tákntölurnar eru annars vegar samræmdar tákntölur (1 - 99) sem gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar innlendar tákntölur (100 og hærra) sem einungis gilda innan viðkomandi lands.
Lögreglustjóri ákveður, eftir atvikum á grundvelli tilmæla eða meðmæla læknis eða prófdómara, hvaða tákntölur, fyrir undirflokk ef við á, skal nota við útgáfu ökuskírteinis. Tákntölurnar eru annað hvort notaðar einar sér eða ásamt tákntölu fyrir undirflokk.
Dómsmálaráðuneytið getur sett nánari leiðbeiningar um notkun tákntalna og undirflokka. Tákntölurnar 72 - 79 skal nota við skipti á ökuskírteinum sem gefin hafa verið út í ríkjum sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, að því leyti sem hlutaðeigandi ökuskírteini er með undirflokk ökutækja í samræmi við tilskipun EB um ökuskírteini. Tákntölurnar 74 - 77 skulu með sama hætti notaðar við útgáfu nýs ökuskírteinis í stað eldra ökuskírteinis.


2. Tákntölur sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið.

Atriði er varða heilbrigði ökumanns:

01 Nota skal búnað til að leiðrétta sjón.
01.01 Gleraugu.
01.02 Snertilinsur.
01.03 Hlífðargleraugu.
01.04 Ógegnsæ linsa.
01.05 Augnhlífar.
01.06 Gleraugu eða snertilinsur.

02 Nota skal heyrnartæki/samskiptastoð.
02.01 Heyrnartæki við annað eyra.
02.02 Heyrnartæki við bæði eyru.

03 Nota skal gervilim(i)/stoðtæki fyrir hendur og fætur.
03.01 Gervilim(i)/stoðtæki fyrir handlegg/handleggi.
03.02 Gervilim(i)/stoðtæki fyrir fót/fætur.

04 Gilt læknisvottorð skal haft meðferðis.

05 Akstur háður takmörkunum af læknisfræðilegum ástæðum (nota ber tákntölu fyrir undirflokk).

05.01 Takmarkað við akstur í dagsbirtu (t.d. einni klukkustund eftir sólris og einni klukkustund fyrir sólarlag).
05.02 Takmarkað við akstur innan ... km radius frá heimili skírteinishafa eða innan ... bæjar.
05.03 Akstur án farþega.

05.04 Takmarkað við akstur sem er ekki hraðari en ... km/klst.
05.05 Akstur aðeins heimill í fylgd annars.
05.06 Án eftirvagns/tengitækis.
05.07 Ökuskírteinið gildir einungis fyrir þennan flokk.

Atriði er varða sérstakan búnað ökutækis og aðlög_un þess:

10 Ökutækið skal vera með aðlagaðan gírkassa.
10.01 Handskipting.
10.02 Sjálfskipting.
10.03 Rafknúin skipting.
10.04 Aðlöguð gírstöng.
10.05 Auka gírkassi.

15 Ökutækið skal vera með aðlagaðan tengslisbúnað.
15.01 Aðlagaður tengslisfetill.
15.02 Handstýrt tengsli.
15.03 Sjálfvirkt tengsli.
15.04 Tengslisbúnaður sem leggja má samara eða aftengja.

20 Ökutækið skal vera með aðlagaðan hemlunarbúnað.
20.01 Aðlagaður hemlafetill.
20.02 Stækkaður hemlafetill.
20.03 Hemlafetill til nota fyrir vinstri fót.
20.04 Hemlafetill við il.
20.05 Skásettur hemlafetill.
20.06 Handstýrður aksturshemill.
20.07 Hámarks styrking aksturshemils.
20.08 Neyðarhemill sambyggður aflhemli.
20.09 Aðlagaður stöðuhemill.
20.10 Rafknúinn stöðuhemill.
20.11 Aðlagaður stöðuhemill sem beita má með fæti.
20.12 Hemlafetill sem leggja má samara eða aftengja.

25 Ökutækið skal vera með aðlagaðan búnað fyrir eldsneytisgjöf.
25.01 Aðlagaður eldsneytisfetill.
25.02 Eldsneytisfetill við il.
25.03 Skásettur eldsneytisfetill.
25.04 Handstýrð eldsneytisgjöf.
25.05 Eldsneytisgjöf stýrt með hné.
25.06 Eldsneytisgjöf með aflgjafa (t.d. rafmagni eða lofti).
25.07 Eldsneytisfetill vinstra megin við hemlafetil.
25.08 Eldsneytisfetill vinstra megin.
25.09 Eldsneytisfetill sem leggja má samara eða aftengja.

30 Ökutækið skal vera með aðlagaðan sambyggðan hemlunarbúnað og búnað fyrir eldsneytisgjöf.
30.01 Fetlar hlið við hlið.
30.02 Fetlar í sömu eða nærri sömu hæð.
30.03 Eldsneytisgjöf og hemill sem renna má til.
30.04 Eldsneytisgjöf og hemill sem renna má til fyrir stoðtæki.
30.05 Eldsneytisfetill og hemlafetill sem leggja má saman eða aftengja.
30.06 Hækkað gólf.
30.07 Skilplata við hlið hemlafetils.
30.08 Skilplata fyrir gervilim við hlið hemlafetils.
30.09 Skilplata framan við eldsneytis- og hemlafetil.
30.10 Stuðningur við hæl og/eða fót.

35 Ökutækið skal vera með aðlagað fyrirkomulag rofa (ljósabúnaður, rúðuþurrkur/ sprautur, flauta, stefnuljós o.fl.).

35.01 Rofum komið fyrir svo þá megi nota þannig að tryggt sé að ökutækinu verði stjórnað á öruggan hátt.
35.02 Rofum komið fyrir svo þá megi nota án þess að sleppa taki á stýrishjóli og aukahlutum.
35.03 Rofum komið fyrir svo þá megi nota án þess að sleppa taki vinstri handar á stýri og aukahlutum.
35.04 Rofum komið fyrir svo þá megi nota án þess að sleppa taki hægri handar á stýri og aukahlutum.
35.05 Rofum komið fyrir svo þá megi nota án þess að sleppa taki á stýri og aukahlutum eða sambyggðum búnaði fyrir eldsneytisgjöf og hemlun.

40 Ökutækið skal vera með aðlagaðan stýrisbúnað.

40.01 Venjulegt aflstýri.
40.02 Aflstýri með viðbótar stýrishjálp.
40.03 Stýri með hjálparbúnaði til að létta stýrið.
40.04 Lengd stýrisstöng.
40.05 Aðlagað stýrishjól (stærra og/eða þykkara, minna þvermál o.fl.).
40.06 Skásett stýrishjól.
40.07 Lóðrétt stýrishjól.
40.08 Lárétt stýrishjól.
40.09 Akstri stýrt með fótum.
40.10 Annars konar aðlögun stýrisbúnaðar (stýrispinni o.fl.).
40.11 Hnappur á stýrishjóli.
40.12 Handstoð á stýrishjóli.
40.13 Með "orthes tenodes" (aðgerð á sinum til að rétta stöðu handleggs/arms).

42 Ökutækið skal vera með aðlagaðan baksýnisspegiV-spegla.
42.01 Úti-baksýnisspegill á hægri hlið.
42.02 Úti-baksýnisspegill á frambretti.
42.03 Auka inni-baksýnisspegill fyrir ökumann til að fylgjast með umferðinni.
42.04 Gleiðhorns-inni-baksýnisspegill.
42.05 Baksýnisspegill til að sjá blinda svæðið við hlið ökutækisins.

42.06 Rafstýrður úti-baksýnisspegill.

43 Ökutækið skal vera með aðlagað ökumannssæti.
43.01 Ökumannssæti komið fyrir í hæð sem veitir ökumanni góða útsýn og er í eðlilegri fjarlægð frá stýrishjóli og fetlum.

43.02 Ökumannssæti aðlagað lögun líkama ökumanns.
43.03 Ökumannssæti með stoð til beggja hliða.
43.04 Ökumannssæti með armhvílu.
43.05 Ökumannssæti komið fyrir á lengdri rennibraut.
43.06 Aðlagað öryggisbelti.
43.07 Öryggisbelti of H-gerð.

44 Sérstök aðlögun bithjóls (nota ber tákntölu fyrir undirflokk).
44.02 Aðlagaður stöðuhemill.

44.03 Aðlagaður aksturshemill.

44.04 Aðlagað handfang fyrir eldsneytisgjöf.

44.05 Handstýrt tengsli og handstýrð gírskipting.
44.06 Baksýnisspegill.

44.07 Stefnuljós og hemlaljós.

44.08 Ökumannssæti í hæð sem tryggir að ökumaður, þegar harm situr, geti snert jörðu með báðum fótum samtímis.

45 Einungis bithjól með hliðarvagni.

50 Takmarkað við tiltekið ökutæki

(á eftir tákntölunni skal tilgreina verksmiðjunúmer ökutækisins).

51 Takmarkað við tiltekið ökutæki (á eftir tákntölunni skal tilgreina skráningarmerki ökutækisins).

55/56 Margháttuð aðlögun ökutækja.

Tákntölur 55 og 56 með undirflokkum verða fyrst um Sinn ekki notaðar innanlands. Ökuskírteini gefin út innan Evrópska efnahagssvæðisins kunna að bera þessar tákntölur. Þær hafa þá gildi að því er varðar rétt skírteinishafa til að stjórna vélknúnu ökutæki hér á landi. Jafnframt skulu þær notaðar við útgáfu ökuskírteinis eða samrits ökuskírteinis á grundvelli slíks erlends ökuskírteinis.


Tákntölur vegna stjórnsýslu:

70 Skipti á erlendu ökuskírteini nr. ..... útgefnu í ..... Tilgreina skal land með þjóðernismerki (t.d. 70 123456 DK).

71 Samrit ökuskírteinis nr. ....... (t.d. 71 12345 IS).

72 Takmarkað við ökutæki í flokki A með aflvél ekki yfir 125 rúmsentimetrar og vélarafl sem fer ekki yfir 11 kW (undirflokkur A1).

73 Takmarkað við þrí- og fjórhjóla ökutæki í flokki B (undirflokkur B 1).

74 Takmarkað við ökutæki í flokki C með leyfðri heildarþyngd 7.500 kg eða minna (undirflokkur C1).

75 Takmarkað við ökutæki í flokki D með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns (undirflokkur D1).

76 Takmarkað við ökutæki í flokki C með leyfðri heildarþyngd 7.500 kg eða minna (C1) með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 12.000 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins (undirflokkur C 1 E).

77 Takmarkað við ökutæki í flokki D með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns (D1) með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé:
a. leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 12.000 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins og
b. eftirvagninn/tengitækið ekki notað til fólksflutninga (undirflokkur D1E).

78 Takmarkað við ökutæki með sjálfskiptingu.

79 Takmarkað við ökutæki sem falls undir lýsingu sem tilgreind er innan sviga.

Auka tákntölur:

90 Auka tákntölur (nota ber tákntölu fyrir undirflokk):
90.01 á vinstri hlið
90.02 á hægri hlið
90.03 vinstri
90.04 hægri
90.05 fyrir hendi
90.06 fyrir fót
90.07 má nota

3. Innlendar tákntölur.

Tákntölur í þessum 1ið skulu jafnan færðar í dálk 12 neðan við ökuréttindaflokkana. Aftan við tákntölurnar skal innan sviga tilgreina lokadag réttindanna. Þessar tákntölur hafa einungis gildi hér á landi.
400 Skírteinishafi hefur ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk B.
425 Skírteinishafi hefur ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokk D (eftir atvikum D 1).
450 Skírteinishafi hefur ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokkana B og D (eftir atvikum D 1).

Word útgáfa af reglugerð

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica