1. gr.
II. viðauki reglugerðarinnar, undir fyrirsögninni: "lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt hæfi til að stjórna vélknúnu ökutæki", breytist þannig:
A-liður undir fyrirsögninni "Sjón" orðast svo:
A. Sjón.
Umsækjandi um ökuskírteini skal fara í augnskoðun til að gengið sé úr skugga um að hann hafi nógu góða sjón til að stjórna vélknúnu ökutæki. Ef ástæða er til að efast um að svo sé, skal umsækjandi fara í rannsókn hjá þar til bærum lækni. Í þeirri rannsókn skal einkum lögð áhersla á sjónskerpu, sjónsvið, sjón í rökkri, næmi fyrir glömpum og andstæðum, tvísýni og aðra starfsemi augna sem getur dregið úr öryggi við akstur.
Gefa má út ökuskírteini fyrir umsækjanda í hópi 1 með því að gera undantekningu frá reglu í 1. og 2. mgr. undir "Hópur 1", séu kröfur um sjónsvið eða sjónskerpu ekki uppfylltar. Í slíkum tilvikum skal ökumaður gangast undir skoðun hjá þar til bærum lækni til að sýna fram á að starfsemi augna sé ekki skert af öðrum orsökum, þ.m.t. glampa, andstæðunæmi og tvísýni. Umsækjandi skal einnig gangast undir augnpróf, sem gefur jákvæða niðurstöðu, hjá þar til bærum lækni.
Hópur 1.
Umsækjandi um ökuskírteini eða endurnýjun þess skal hafa sjónskerpu á báðum augum, sem nemur a.m.k. 0,5 þegar bæði augu eru notuð í einu, með sjónglerjum til leiðréttingar ef nauðsyn krefur.
Ennfremur skal lárétt sjónsvið vera a.m.k. 120° og ná a.m.k. 50° til vinstri og hægri og 20° upp og niður. Engir sjóngallar skulu vera fyrir hendi innan miðlægs 20° sjónsviðs.
Ef upplýsingar liggja fyrir um augnsjúkdóm sem ágerist eða hann greinist er heimilt að gefa út ökuskírteini eða endurnýja það að því tilskildu að umsækjandi fari reglulega í augnskoðun hjá þar til bærum lækni.
Umsækjandi um ökuskírteini eða endurnýjun þess, sem er alveg blindur á öðru auga eða sem notar aðeins annað augað (tvísýni), verður að hafa sjónskerpu a.m.k. 0,5 með sjónglerjum til leiðréttingar ef nauðsyn krefur. Þar til bær læknir verður að votta að þetta ástand, þar sem aðeins öðru auganu er beitt, hafi varað nógu lengi til að umsækjandi hafi vanist því og að sjónsvið þess auga sé eðlilegt og uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr.
Sé um að ræða nýtilkomna tvísýni eða blindu á öðru auga skal gera ráð fyrir hæfilegum aðlögunartíma (t.d. sex mánuðum) og bannaakstur á meðan. Að þeim tíma liðnum er akstur einungis heimill að fengnu jákvæðu áliti sérfræðings sem metið getur sjón og akstur.
Hópur 2.
Umsækjandi um ökuskírteini eða endurnýjun þess skal hafa sjónskerpu, með sjónglerjum til leiðréttingar, ef þörf krefur, sem nemur a.m.k. 0,8 á betra auganu og a.m.k. 0,1 á verra auganu. Ef sjóngler til leiðréttingar eru notuð til að ná gildunum 0,8 og 0,1 verður lágmarkssjónskerpa (0,8 og 0,1) að nást annað hvort með því að leiðrétta með sjónglerjum, sem eru ekki sterkari en plús átta ljósbrotseiningar eða með snertilinsum. Sjóngler sem leiðrétta sjón mega ekki valda óþægindum.
Ennfremur skal lárétt sjónsvið beggja augna vera a.m.k. 160° og ná a.m.k. 70° til vinstri og hægri og 30° upp og niður. Engir sjóngallar skulu vera fyrir hendi innan miðlægs 30° sjónsviðs.
Ekki skal gefa út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjanda sem þjáist af skertu andstæðunæmi og tvísýni.
Sé um að ræða umtalsvert sjóntap á öðru auga skal gera ráð fyrir hæfilegum aðlögunartíma (t.d. sex mánuðum) og viðkomandi bannað að aka á meðan. Að þeim tíma liðnum er akstur einungis heimill að fengnu jákvæðu áliti frá sérfræðingi sem metið getur sjón og akstur.
E-liður undir fyrirsögninni "Sykursýki" orðast svo:
E. Sykursýki.
Í eftirfarandi liðum merkir mikil blóðsykurslækkun að umsækjandi geti ekki brugðist við af eigin rammleik og endurtekin blóðsykurslækkun er skilgreind sem annað tilfelli mikillar blóðsykurslækkunar á 12 mánaða tímabili.
Hópur 1.
Heimilt er gefa út eða endurnýja ökuskírteini fyrir umsækjanda sem þjáist af sykursýki. Taki hann lyf er það með fyrirvara um viðurkennt læknisfræðilegt álit og reglubundið lækniseftirlit, eftir því sem við á, hið minnsta á fimm ára fresti.
Ekki skal gefa út eða endurnýja ökuskírteini umsækjenda sem er með endurtekna mikla blóðsykurslækkun og/eða hefur skerta meðvitund um blóðsykurslækkun. Umsækjandi með sykursýki skal sýna fram á skilning á áhættunni sem tengist blóðsykurslækkun og getu til að hafa fullnægjandi stjórn á sjúkdómnum.
Hópur 2.
Taka má til athugunar útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis í hópi 2 fyrir umsækjanda með sykursýki. Ef hann tekur lyf sem eykur hættu á því að framkalla blóðsykurslækkun (þ.e. með insúlíni og tilteknum tegundum taflna), skulu eftirfarandi skilyrði gilda:
a) mikil blóðsykurslækkun hafi ekki átt sér stað undanfarna 12 mánuði,
b) umsækjandi hafi fulla meðvitund um blóðsykurslækkun,
c) umsækjandi sýni fram á fullnægjandi tök á sjúkdómnum með reglubundnum blóðsykursmælingum, a.m.k. tvisvar á dag, og þegar við á vegna aksturs,
d) umsækjandi verður að sýna fram á skilning á áhættu sem tengist blóðsykurslækkun,
e) engir aðrir fylgikvillar sykursýki séu til staðar sem hafa áhrif á ökuhæfni.
Slíkt ökuskírteini skal jafnframt gefið út að fengnu áliti þar til bærs læknis sem byggt er á reglubundnu eftirliti, sem ekki fer fram sjaldnar en á þriggja ára fresti.
G-liður undir fyrirsögninni "flogaveiki" orðast svo:
G. Flogaveiki.
Flogaköst stofna umferðaröryggi í mikla hættu ef þau koma fram hjá ökumanni vélknúins ökutækis. Sama á við um aðrar skyndilegar truflanir á meðvitund.
Flogaveiki er skilgreind sem tvö eða fleiri flogaköst, með skemmra en fimm ára millibili. Framkallað flogakast er skilgreint sem flogakast af þekktum orsökum sem hægt er að komast hjá.
Ökumanni skal ráðlagt að aka ekki, hafi hann fengið flogakast í fyrsta skipti eða eitt flogakast eða misst meðvitund. Gerð er krafa um umsögn sérfræðings þar sem lengd hvíldar frá akstri er tilgreind ásamt ráðstöfunum til eftirfylgni.
Afar mikilvægt er að tegund flogaveiki og gerð flogakasta hjá viðkomandi umsækjanda sé greind svo fullnægjandi mat á öryggi hans í akstri geti farið fram (þ.m.t. hætta á frekari flogaköstum) og viðeigandi meðferð hafist. Sérfræðingur í taugasjúkdómum skal annast greininguna.
Hópur 1.
Útgáfa ökuskírteinis fyrir umsækjanda, sem er flogaveikur, skal háð endurskoðun þar til hann hefur verið án floga í a.m.k. fimm ár.
Ef umsækjandi er flogaveikur fullnægir hann ekki skilyrðum til þess að fá ökuskírteini án takmarkana.
Framkallað flogakast.
Ef umsækjandi hefur fengið framkallað flogakast af þekktum orsökum, sem ólíklegt er að endurtaki sig undir stýri, er í hverju tilviki fyrir sig hægt að skera úr um að hann sé fær um að aka, að fengnu áliti sérfræðings í taugasjúkdómum (matið skal, ef við á, vera í samræmi við viðeigandi þætti í þessum viðauka t.d. neyslu áfengis eða aðra samverkandi sjúkdóma).
Fyrsta flogakast eða eitt flogakast sem ekki er framkallað.
Ef umsækjandi hefur fengið fyrsta flogakast, sem ekki er framkallað, er hægt að skera úr um, á grundvelli læknismats, að hann sé fær um að aka ef sex mánuðir líða án þess að hann fái flogakast.
Heimila má umsækjanda að aka fyrr ef mat sýnir fram á að horfur hans séu góðar.
Meðvitundarleysi af öðrum orsökum.
Meðvitundarleysi af öðrum orsökum skal metið í samræmi við hættu á að það endurtaki sig við akstur.
Flogaveiki.
Hægt er að skera úr um að umsækjandi sé fær um að aka ef eitt ár líður án þess að hann fái frekari flogaköst.
Flogakast í svefni.
Ef umsækjandi fær einungis flogakast bundið svefni, er hægt að skera úr um að hann sé fær um að aka, að því tilskildu að flogakast hafi eingöngu verið í svefni á tímabili sem ekki er skemmra en sá tími sem miðað er við að flogaveikur einstaklingur sé án floga. Ef flogaköst verða í vöku skal eitt ár líða án frekari tilvika þar til heimilt er að veita ökuskírteini (sjá "flogaveiki").
Flogaköst sem ekki trufla meðvitund eða getu til athafna.
Ef umsækjandi fær einungis flogakast, sem sýnt hefur verið fram á að trufli hvorki meðvitund né valdi skerðingu á líkamlegri hæfni, er hægt að skera úr um að hann sé fær um að aka, að því tilskildu að það ástand hafi ekki varað skemur en miðað er við að flogaveikur umsækjandi sé án floga. Ef annars konar flogakast á sér stað, skal eitt ár líða án frekari flogakasta þar til heimilt er að veita ökuleyfi (sjá "flogaveiki").
Flogaköst sem verða eftir að dregið er úr meðferð við flogaveiki eða eftir að meðferð hefur verið breytt samkvæmt læknisráði.
Ökumanni skal ráðlagt að aka ekki í sex mánuði frá því að dregið er úr meðferð og í sex mánuði frá því að meðferð er lokið. Fái ökumaður flogakast á meðan dregið er úr lyfjagjöf eða henni er breytt samkvæmt læknisráði, er honum ekki heimilt að aka í þrjá mánuði, sé árangursrík meðferð, sem hann gekkst áður undir, endurtekin.
Að lokinni skurðaðgerð við flogaveiki.
Sjá "flogaveiki".
Hópur 2.
Umsækjandi skal ekki taka lyf við flogaveiki á því tímabili þegar krafist er að hann sé án floga. Viðeigandi eftirmeðferð hjá lækni hefur farið fram. Ítarleg taugafræðileg skoðun hefur ekki leitt í ljós heilasjúkdóm og flogvirkni hefur ekki komið fram á heilariti. Mat á heilariti og viðeigandi taugafræðilegt mat skal fara fram í kjölfar bráðatilviks.
Framkallað flogakast.
Ef umsækjandi hefur fengið framkallað flogakast af þekktum orsökum, sem ólíklegt er að endurtaki sig undir stýri, er í einstökum tilvikum hægt að skera úr um að hann sé fær um að aka, að fengnu áliti sérfræðings í taugasjúkdómum. Mat á heilariti og viðeigandi taugafræðilegt mat skal fara fram í kjölfar bráðatilviks.
Umsækjanda með byggingarskemmd í heilavef sem eykur hættu á flogaköstum skal ekki heimilað að aka ökutæki í hópi 2 uns líkur á flogaköstum hafa minnkað í a.m.k. 2% á ári. Matið skal, ef við á, vera í samræmi við önnur viðeigandi ákvæði um heilbrigði í þessum viðauka (t.d. neyslu áfengis).
Fyrsta flogakast eða eitt flogakast sem ekki er framkallað.
Ef umsækjandi hefur fengið fyrsta flogakast eða flogakast, sem ekki er framkallað, er hægt að skera úr um, á grundvelli viðeigandi mats taugalæknis, að hann sé fær um að aka ef hann hefur verið án floga í fimm ár án þess að taka lyf við flogaveiki. Heimila má umsækjanda að aka fyrr ef mat sýnir fram á að horfur hans séu góðar.
Meðvitundarleysi af öðrum orsökum.
Meðvitundarleysi af öðrum orsökum skal metið í samræmi við hættu á að það endurtaki sig við akstur. Líkur á endurtekningu skulu vera 2% á ári eða minni.
2. gr.
Á eftir orðunum "viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 29. hefti 1997, bls. 33-8, sbr. bls. 30 og 31" í 2. mgr. 89. gr. kemur ný 3. mgr. sem hljóðar svo:
Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun nr. 2009/112/EB frá 26. ágúst 2009 um breytingu á tilskipun nr. 91/436/EBE. Tilskipunin var felld inn í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28, 12. mars .2010 og birt í EES-viðbæti 18. nóvember 2010.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 50. og 52. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Innanríkisráðuneytinu, 27. apríl 2011.
Ögmundur Jónasson.
Sigurbergur Björnsson.