Reglugerð þessi gildir um aðskotaefni í matvælum.
Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
Aðgerðarmörk sýna mesta leyfilegt frávik frá hámarksgildi vegna óvissu í sýnatöku og niðurstöðum rannsókna.
Aðskotaefni eru efni sem berast í matvæli eða myndast í þeim og breyta eiginleikum, samsetningu, gæðum eða hollustu þeirra.
Áhættumat er mat á hættu og byggist það á því hve mikið magn aðskotaefna mælist í matvælum og hugsanlegri neyslu á þeim, eiturefnafræðilegum eiginleikum viðkomandi aðskotaefna svo og niðurbrotshraða og niðurbrotsefnum þeirra.
Egg eru einnig eggjavörur svo sem eggjarauður.
Fiskur og fiskafurðir eru fiskhold og innyfli af og úr þeim fisktegundum, sem almennt eru nýttar til manneldis og vörur unnar úr þeim, ásamt krabbadýrum (Crustacea), samlokum (Bivalvia), smokkfiskum (Cephalopoda) og sniglum (Gastropoda) án skelja.
Hámarksgildi er mesta magn aðskotaefna sem leyfilegt er í hverri þyngdar- eða lagareiningu matvæla eins og þau koma fyrir tilbúin til neyslu. Fyrir varnarefni í ávöxtum og grænmeti skal miða við þann hluta matvælanna sem tilgreindur er í viðauka 7. Fyrir þurrkaðar afurðir og þykkni af öðrum matvælum skal miða við hámarksgildi afurðarinnar í upprunalegu formi. Fyrir aðrar unnar vörur skal taka tillit til þynningar eða annarra breytinga sem geta orðið við vinnslu. Ef ekki eru gefin upp hámörk fyrir samsett matvæli skal fara eftir hámarksgildum fyrir viðkomandi hráefni í viðaukum 2-5 en taka mið af hlutföllum hráefna og breytinga sem geta orðið við vinnslu.
Kjöt og kjötvörur eru úrbeinað kjöt af þeim dýrum sem almennt eru nýtt til manneldis og vörur unnar úr því.
Korn og kornvara er þroskuð fræ af hveiti, rúgi, byggi, höfrum, maís, hýðishrísgrjónum, hirsi, bókhveiti, dúrru, rúghveiti og öðrum korntegundum.
Mjólk og mjólkurvörur eru skilgreindar í gildandi reglugerð um mjólk og mjólkurvörur.
Varnarefni eru efni sem notuð eru m.a. gegn illgresi, sveppum og meindýrum við framleiðslu eða geymslu matvæla.
Varnarefnaleifar eru leifar af varnarefnum og umbrots-, niðurbrots- eða myndefnum þeirra.
Óheimilt er að framleiða eða dreifa matvælum sem innihalda aðskotaefni umfram hámarksgildi sem fram koma í viðaukum 2-5. Þrátt fyrir ákvæði þetta getur Hollustuvernd ríkisins heimilað dreifingu vörutegunda sem innihalda aðskotaefni allt að aðgerðarmörkum, sbr. viðauka 1.
Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að vörutegundir sem hér eru á markaði séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
Þegar hámarksgildi tiltekinna aðskotaefna eru ekki tilgreind fyrir ákveðna vörutegund í viðaukum 2 og 3, en rannsóknir sýna að efnin finnast í vörutegundinni, er hámarksgildi jafnt hæsta magni sem leyft er fyrir viðkomandi efni.
Þegar gildi í viðauka 2 er sett fyrir tiltekinn flokk matvæla gildir það fyrir allan flokkinn, nema þar sem sérstök gildi eru sett fyrir tilteknar afurðir.
Aðferðir við sýnatöku og aðra meðhöndlun sýna, fyrir mælingar á varnarefnaleifum í ávöxtum og grænmeti, skulu vera í samræmi við viðauka 6. Sýnataka vegna eftirlits með sveppaeitri í matvælum skal framkvæmd í samræmi við ákvæði í viðauka 6. Greining skal framkvæmd með þeirri aðferð sem þar kemur fram eða annarri aðferð sem telst sambærileg.
Aðferðir við sýnatöku og aðra meðhöndlun sýna fyrir aðrar rannsóknir á aðskotaefnum í matvælum skulu, eftir því sem við á, vera í samræmi við viðauka 6, staðla Alþjóðlega staðalskrárráðsins fyrir matvæli (Codex Alimentarius) eða samkvæmt ákvörðun Hollustuverndar ríkisins.
Hollustuvernd ríkisins gerir árlega sýnatökuáætlun sem eftirlitsaðilar skulu fara eftir við sýnatökur á matvælum til mælinga á leifum varnarefna í matvælum. Stofnunin sér um framkvæmd rannsókna á framangreindum sýnum og annast úrvinnslu úr niðurstöðum.
Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt nema annað sé ákvarðað samkvæmt lögum eða sérreglum.
Ef matvæli innihalda aðskotaefni umfram leyfileg hámarksgildi reglugerðarinnar skal eftirlitsaðili, að undangengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins um aðgerðir byggðar á áhættumati, grípa til aðgerða á grundvelli XI. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli.
Hafi eftirlitsaðili ástæðu til að ætla að tiltekin matvæli innihaldi aðskotaefni umfram leyfileg hámarksgildi skv. 3. og 4. gr., eða sem geti valdið tjóni á heilsu, er honum heimilt að undangengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins um aðgerðir byggðar á áhættumati, að stöðva afgreiðslu og aðra dreifingu vörunnar. Slíkar ástæður geta t.d. verið vegna fyrri athugana á matvælum frá sama framleiðslustað, sama ræktunarsvæði eða sama vinnsluaðila, eða vegna tilkynninga erlendis frá. Ef innflytjandi, framleiðandi eða dreifingaraðili óskar eftir því að fá að dreifa slíkri vöru, skal Hollustuvernd ríkisins meta hvaða rannsóknir eru nauðsynlegar til þess að ganga úr skugga um heilnæmi hennar. Rannsóknir skulu vera á kostnað þess aðila sem óskar dreifingar vörunnar.
Fyrir 30. september ár hvert skal Hollustuvernd senda Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sýnatökuáætlun fyrir næsta ár vegna eftirlits með leifum varnarefna í matvælum. Þá skal stofnunin senda ESA niðurstöður eftirlits ársins á undan fyrir 31. ágúst ár hvert.
Fyrir 30. júní ár hvert skal Hollustuvernd ríkisins afla upplýsinga um framkvæmd og niðurstöður eftirlits með nítrati í salati og spínati og einnig um þær aðgerðir sem beitt hefur verið til að draga úr magni nítrats og hvaða reglur gilda um góða framleiðsluhætti í framleiðslu á þessum afurðum. Þá er stofnuninni heimilt að veita tímabundna undanþágu fyrir dreifingu á salati og spínati sem inniheldur nítrat í magni umfram hámarksgildi í viðauka 4, ef tryggt er að góðir framleiðsluhættir eru viðhafðir til að ná fullnægjandi árangri í lækkun á magni nítrats.
Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum og VIII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli samanber og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 4. tölul. tilskipun 67/427/EBE, 12. tölul. tilskipun 76/621/EBE, 13. tölul. tilskipun 76/895/EBE, 20. tölul. tilskipun 79/700/EBE, 27. tölul. tilskipun 80/891/EBE, 38. tölul. tilskipun 86/362/EBE, 39. tölul. tilskipun 86/363/EBE, 54. tölul. tilskipun 90/642/EBE, tilskipun 93/57/EBE, tilskipun 93/58/EBE, tilskipun 94/29/EB, tilskipun 94/30/EB, tilskipun 95/38/EB, tilskipun 95/39/EB, tilskipun 95/61/EB, tilskipun 96/32/EB, tilskipun 96/33/EB, tilskipun 97/41/EB, tilskipun 97/71/EB, tilskipun 98/53/EB, tilskipun 98/82/EB, tilskipun 99/71/EB, tilskipun 2000/24/EB, tilskipun 2000/42/EB, tilskipun 2000/48/EB, tilskipun nr. 2000/57/EB, tilskipun nr. 2000/58/EB, tilskipun 2001/22/EB, tilskipun nr. 2000/81/EB, tilskipun nr. 2000/82/EB, tilskipun nr. 2001/35/EB, tilskipun nr. 2001/39/EB, tilskipun 2001/48/EB, tilskipun 2001/57/EB, reglugerð 466/2001/EB, reglugerð 2375/2001/EB, reglugerð 221/2002/EB og tilskipun 2002/5/EB. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 837/2000 um aðskotaefni í matvælum.