Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

1077/2010

Reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi.

I. KAFLI

Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að flutningur hættulegs farms á landi fari þannig fram að hætta á líkams- og heilsutjóni, svo og eignatjóni og umhverfisspjöllum, verði sem minnst.

2. gr.

Almennt.

Reglugerðin tekur til vélknúins ökutækis sem ætlað er til aksturs á vegi, er á fjórum eða fleiri hjólum og hannað fyrir hámarkshraða yfir 25 km/klst., svo og eftirvagns.

Reglugerðin tekur þó ekki til ökutækis sem fer eftir teinum, færanlegrar vélar og dráttarvélar fyrir landbúnað eða skógrækt sem ekki fer hraðar en 40 km/klst.

3. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin gildir, með þeim undantekningum sem fram koma í 4. gr., um flutning hættulegs farms á landi, þ.m.t. við lestun og losun, svo og þegar hlé er gert á akstri, t.d. vegna tafa eða hvíldartíma ökumanns.

4. gr.

Flutningur utan gildissviðs reglugerðarinnar.

Reglugerðin gildir ekki um flutning á hættulegum farmi:

  1. sem eingöngu fer fram innan afmarkaðs svæðis;
  2. til eigin nota eða fyrir tómstunda- eða íþróttaiðkun enda sé farmurinn í smásöluumbúðum og magn eldfims vökva, sem fluttur er í margnota umbúðum, ekki meiri en 60 lítrar í hverri einingu og heildarmagnið ekki yfir 240 lítrar;
  3. á vél eða búnaði sem í eru hættuleg efni eða hlutir, þ.e. í vélinni, búnaðinum eða nauðsynlegum fylgihlutum;
  4. til nota við eigin atvinnurekstur þar sem flutningurinn er ekki aðalstarfsemi viðkomandi, svo sem flutningur til eða frá byggingarsvæði eða öðru athafnasvæði, svo og flutningur tengdur skoðun, viðgerð eða viðhaldi. Magn í einingu má eigi vera meira en 450 lítrar og hámarksmagn ekki meira en greinir í II. viðauka. Undanþágan tekur ekki til flutnings geislavirkra efna í 7. flokki, sbr. 6. gr.;
  5. sem fram fer á vegum viðurkenndrar björgunarstofnunar eða björgunarfélags eða undir eftirliti þeirra, svo og við flutning ökutækis sem skemmst hefur í slysi eða óhappi eða er bilað og í eða á er hættulegur farmur;
  6. þegar um er að ræða neyðarflutning og í húfi er að bjarga mannslífi eða vernda umhverfið enda sé fyllsta öryggis gætt við flutninginn.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gilda ákvæði 16. gr. um almenna varúð.

5. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér greinir:

ADR-samningur: Evrópusamningurinn um millilandaflutninga á hættulegum farmi á vegum sem undirritaður var í Genf þann 30. september 1957, með síðari breytingum.

ADR-reglur: Tilskipun 2008/68/EB en í I. viðauka hennar er kveðið á um að viðaukar A og B við ADR-samninginn eins og þeir eru hverju sinni skuli gilda um millilandaflutninga og flutninga innanlands á hættulegum farmi í aðildarríkjum Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Tafla A: Tafla A í viðauka A í ADR-reglum í kafla 3.2.

Hættulegur farmur: Efni og hlutir sem ekki má flytja á vegi eða sem einungis má flytja með tilteknum skilyrðum samkvæmt reglugerð þessari.

UN-númer: Fjögurra stafa einkennistala sem sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum farmi hefur gefið efnum og tilteknum flokkum efna til þess að unnt sé að bera kennsl á þau.

Vagnlest: Tengd ökutæki, þ.e. vélknúið ökutæki sem dregur eftirvagn eða tengitæki.

II. KAFLI

Hættulegur farmur.

6. gr.

Flokkar.

Hættulegur farmur skiptist í eftirgreinda flokka í samræmi við 2. hluta viðauka A í ADR-reglum, sbr. töflu A:

1.

sprengifim efni og hlutir;

2.

lofttegundir;

3.

eldfimir vökvar;

4.1

eldfim föst efni, sjálfhvarfandi efni og sprengifim efni í föstu formi sem gerð hafa verið hlutlaus;

4.2

sjálftendrandi efni;

4.3

efni sem mynda eldfimar lofttegundir við snertingu við vatn;

5.1

eldnærandi efni;

5.2

lífræn peroxíð;

6.1

eitruð efni;

6.2

smitefni;

7.

geislavirk efni;

8.

ætandi efni;

9.

önnur hættuleg efni.



Hættulegur farmur, sem fluttur er um jarðgöng, skal flokkaður í fimm flokka, frá A til E, í samræmi við XV. viðauka, sbr. 15. dálk í töflu A.

Hættulegan farm er annaðhvort bannað að flytja eða það er leyft að uppfylltum skilyrðum, sbr. töflu A.

Hættulegan farm skal flokka fyrir afhendingu til flutnings.

7. gr.

Merking umbúða.

Umbúðir skal merkja með UN-númeri farmsins með bókstöfunum "UN" á undan og með einu eða fleiri varúðarmerkjum sem tilgreind eru í töflu A og sýnd í I. viðauka.

8. gr.

Flutningsskjöl.

Með flutningi á hættulegum farmi skulu fylgja eftirtalin gögn:

A. Farmbréf með upplýsingum um vöru þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. UN-númer með bókstöfunum "UN" á undan;
  2. heiti samkvæmt töflu A;
  3. númer varúðarmerkis og, sé þörf á fleiri en einu varúðarmerki, skal númer viðbótar varúðarmerkis koma í sviga á eftir;
  4. pökkunarflokkur þegar það á við;
  5. fjöldi eininga;
  6. gerð umbúða;
  7. þyngd eða rúmmál vöru;
  8. nafn og heimilisfang sendanda og móttakanda;
  9. nettóþyngd sprengifims efnis þegar það á við.

B. Flutningsslysablað, sbr. XVI. viðauka, með upplýsingum um varúðarráðstafanir og fyrstu viðbrögð við slysi eða óhappi.

Um ábyrgð sendanda og þess sem farm flytur á því að gögn skv. 1. mgr. fylgi, fer eftir ákvæðum í 17. og 18. gr.

9. gr.

Merking ökutækis.

Við flutning á hættulegum farmi skal ökutæki merkt með tveimur ferhyrndum appelsínugulum merkjum, sbr. III. viðauka, búnum endurskini. Merkin skulu vera 400 mm að lengd og 300 mm að hæð með 15 mm breiðri svartri umgerð. Þeim skal komið fyrir þannig að þau sjáist vel að framan og aftan á ökutæki eða eftir atvikum vagnlest. Sé erfitt að koma fyrir merkjum af umræddri gerð vegna stærðar eða lögunar ökutækis, má hafa þau 300 mm að lengd, 120 mm að hæð og umgerð 10 mm breiða. Þegar hættulegur farmur er fluttur ósekkjaður eða í tanki eða gámatanki, skulu merki vera með UN-númeri og viðeigandi hættunúmeri sem tilgreint er í töflu A, sbr. XIV. viðauka.

Ökutæki skal, þegar flutt eru sprengifim efni, geislavirk efni, ósekkjaður farmur eða farmur í tanki, merkt á báðum hliðum og að aftan með einu eða fleiri varúðarmerkjum sem tilgreind eru í töflu A, sbr. I. viðauka.

Gámur eða gámatankur sem hættulegur farmur er fluttur í, skal merktur á báðum hliðum, að framan og aftan með einu eða fleiri varúðarmerkjum sem tilgreind eru í töflu A, sbr. I. viðauka.

10. gr.

Öryggisbúnaður.

Eftirtalinn öryggisbúnaður skal vera í ökutæki sem flytur hættulegan farm, eftir því sem við á:

A. Slökkvibúnaður.

Eitt eða fleiri duftslökkvitæki (eða slökkvitæki með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika) sem er hentugt til að slökkva eld í vélarrými eða stýrishúsi ökutækis og er að lágmarki tvö kg að þyngd.

Eftirtalinn slökkvibúnaður skal vera í ökutæki til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C:

  1. fyrir ökutæki eða vagnlest með leyfða heildarþyngd yfir 7.500 kg:
    eitt eða fleiri að lágmarki tólf kg duftslökkvitæki (eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika) þar sem a.m.k. eitt þeirra er að lágmarki sex kg dufttæki;
  2. fyrir ökutæki eða vagnlest með leyfða heildarþyngd yfir 3.500 kg, að hámarki 7.500 kg:
  3. eitt eða fleiri að lágmarki átta kg duftslökkvitæki (eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika) þar sem a.m.k. eitt þeirra er að lágmarki sex kg dufttæki;
  4. fyrir ökutæki eða vagnlest með leyfða heildarþyngd 3.500 kg og minni:
  5. eitt eða fleiri að lágmarki fjögurra kg duftslökkvitæki (eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika).

B. Annar öryggisbúnaður.

Í ökutæki skal eftirfarandi búnaður vera til staðar, óháð því hvaða varúðarmerki eru á umbúðum:

  1. a.m.k. einn stoppklossi fyrir hvert ökutæki og skal miða stærð hans við þunga ökutækis og stærð (þ.e. þvermál) hjólbarða;
  2. tvö frístandandi viðvörunarmerki;
  3. augnskolvökvi (þarf ekki fyrir varning með varúðarmerki nr. 1., 1.4, 1.5, 1.6, 2.1, 2.2 og 2.3).

C. Sérstakur búnaður fyrir ökumann og eftir atvikum aðstoðarmann hans:

  1. endurskinsvesti eða endurskinsklæðnaður (í samræmi við kröfur sem fram koma í ÍST EN 471 staðlinum);
  2. vasaljós;
  3. hlífðarhanskar;
  4. augnhlífðarbúnaður.

D. Búnaður fyrir tiltekna hættuflokka:

  1. öndunargríma, t.d. öndunargríma með samsettri gassíu/ryksíu af gerðinni A1B1E1K1-P1 eða A2B2E2K2-P2 (eða í samræmi við kröfur sem fram koma í ÍST EN 141 staðlinum) fyrir ökumann og eftir atvikum aðstoðarmann hans þegar fluttur er varningur með varúðarmerki 2.3 eða 6.1;
  2. skófla (aðeins krafist þegar fluttur er varningur með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 og 9);
  3. þéttibúnaður fyrir niðurföll (aðeins krafist þegar fluttur er varningur með varúðar­merki 3, 4.1, 4.3, 8 og 9);
  4. uppsöfnunarílát úr plasti (aðeins krafist þegar fluttur er varningur með varúðar­merki 3, 4.1, 4.3, 8 og 9).

11. gr.

Undanþága frá ADR reglum vegna stykkjavöru innan ákveðins magns.

Við flutning á hættulegum farmi, sem er stykkjavara í minna magni en fram kemur í II. viðauka, er ekki gerð krafa um:

  1. ADR-réttindi;
  2. flutningsslysablað;
  3. merkingu ökutækis eða gáms/gámatanks;
  4. annan öryggisbúnað en eitt duftslökkvitæki sem er að lágmarki 2 kg eða annað sambærilegt slökkvitæki.

12. gr.

Samlestun á mismunandi hættulegum farmi.

Flytja má hættulegan farm í sömu eða mismunandi hættuflokkum, sbr. 6. gr., með sama ökutæki í samræmi við töflu í IV. viðauka. Þó er óheimilt er að flytja saman sprengifim efni og annan hættulegan farm með sama ökutæki með þeirri undantekningu sem greinir í IV. viðauka.

Heimilt er að flytja saman sprengifim efni í mismunandi flokkum í samræmi við töflu í V. viðauka.

Hættulegan farm, þ.m.t. tómar óhreinsaðar umbúðir, sem merktur er með varúðarmerki 6.1, 6.2 og 9, má ekki lesta ofan á eða nálægt matvöru, annarri neytendavöru eða fóðurvöru í ökutæki eða gámi eða á stöðum þar sem lestun, losun eða umlestun á sér stað. Þetta gildir þó eingöngu um varúðarmerki 9 með UN-númeri 2212, 2315, 2590, 3115, 3152 eða 3245.

13. gr.

Viðurkenning og flokkun ökutækis.

Ökutæki, sem notað er til flutnings hættulegs farms, skal eftir því sem við á viðurkennt og skráð af Umferðarstofu. Ökutæki, sem flytur fasta eða lausa tanka eða gámatanka sem rúma yfir 3.000 lítra, skal vera viðurkennt og skráð í einn af flokkunum AT, FL eða OX eftir því sem við á og í samræmi við kafla 7.4 í ADR-reglum.

14. gr.

Flutningur á sprengifimu efni.

Ökutæki, sem flytur sprengifimt efni, skal viðurkennt og skráð, sbr. 13. gr., í annan af tveimur flokkum, EX/II eða EX/III, í samræmi við 9. kafla ADR-reglna.

Ekki má flytja meira magn af sprengifimu efni í ökutæki eða eftir atvikum vagnlest en fram kemur í töflu í VI. viðauka.

15. gr.

Sérstök ákvæði.

Ef í 6. dálki í töflu A eru tölurnar 16 - 654 gilda ákvæði IX. viðauka.

Ef í 16. - 19. dálki í töflu A eru V-, VV-, CV- eða S-kóði, gilda ákvæði í viðaukum X - XIII.

Lögreglustjóri getur, að fenginni umsögn veghaldara, eftir atvikum sveitarstjórnar eða Vegagerðar, sett reglur um takmörkun á flutningi hættulegs farms um tiltekna vegi, brýr eða jarðgöng. Varðandi takmörkun á flutningi um jarðgöng gildir að:

  1. reglurnar skulu vera í samræmi við XV. viðauka sbr. 15. dálk í töflu A;
  2. bókstafur þess flokks, sem takmörkun tekur til, skal vera á merki sem sett skal á áberandi stað við jarðgöngin sem takmörkunina varðar.

Lögregla getur, ef þörf krefur, sett sérreglur um fylgd ökutækja sem notuð eru til að flytja hættulegan farm.

Leyfi lögreglustjóra á áfangastað þarf til að flytja meira en 50 kg af sprengifimu efni með sama ökutæki, sbr. reglugerð um sprengiefni. Lögreglustjóri skal jafnframt senda lögreglustjórum þeirra umdæma, sem flutningurinn fer um, tilkynningu um flutninginn.

Óheimilt er að flytja farþega með ökutæki, sem flytur hættulegan farm, í öðrum tilvikum en undanþága er veitt fyrir samkvæmt II. viðauka.

III. KAFLI

Ábyrgð og skyldur.

16. gr.

Almenn varúð.

Hver sá, maður eða lögpersóna, sem kemur að flutningi hættulegs farms sem fellur undir reglugerð þessa, skal fylgja ákvæðum hennar. Hann skal sýna varúð og standa þannig að verki að sem minnst hætta sé á líkams- og heilsutjóni, svo og eignatjóni eða umhverfisspjöllum.

Áður en hættulegur farmur er fluttur, skal gengið úr skugga um að umbúðir og merking farmsins séu fullnægjandi. Ökutæki og búnaður, sem notuð eru við flutninginn, skulu vera í þannig ástandi að ekki stafi hætta af.

Ekki má afhenda hættulegan farm til flutnings þeim sem ljóst er að ekki hefur kunnáttu eða búnað til þess flytja farminn svo fyllsta öryggis sé gætt.

17. gr.

Sendandi hættulegs farms.

Sendandi hættulegs farms skal:

  1. sjá um að farmurinn sé flokkaður í samræmi við 6. gr. áður en hann er afhentur til flutnings og ganga úr skugga um að leyfilegt sé skv. töflu A að flytja farminn;
  2. sjá um að umbúðir séu í samræmi við ákvæði ADR-reglna og að þær séu rétt merktar;
  3. láta þeim sem flytur farminn í té farmbréf þegar hann er afhentur til flutnings;
  4. afhenda þeim sem flytur farminn aðrar nauðsynlegar upplýsingar um flutninginn en koma fram í farmbréfi;
  5. gæta þess að nota einungis viðurkenndar umbúðir og að þær séu rétt merktar;
  6. gæta þess að nota einungis viðurkenndan tank;
  7. fylgja reglum varðandi þá flutningsaðferð sem notuð er;
  8. sjá um að tómur, óhreinsaður tankur og aðrar umbúðir séu merktar á fullnægjandi hátt, lokaðar og eins þéttar og þegar hættulegur farmur er í þeim;
  9. ábyrgjast að farmurinn, sem afhentur er til flutnings, uppfylli skilyrði ADR-reglna.

18. gr.

Sá sem flytur hættulegan farm.

Sá sem flytur hættulegan farm skal ganga úr skugga um:

  1. að flytja megi farminn;
  2. að skjöl, sem fylgja skulu farminum, séu í ökutækinu;
  3. að ökutæki, sem notað er til að flytja farminn, sé í lögmæltu ástandi, t.d. hvort leki, eða sprungur séu til staðar og að allur búnaður sé í lagi; sama gildir um farminn eftir því sem við á;
  4. að vottorð fyrir tank sé í gildi;
  5. að heildarþyngd ökutækis sé ekki meiri en heimilað er;
  6. að hættumerki og varúðarmerki séu í lagi og ökutækið rétt merkt;
  7. að fylgibúnaður, sem tilgreindur er á flutningsslysablaði, sé til staðar í ökutækinu.

Sá sem flytur hættulegan farm skal taka mið af upplýsingum frá sendanda.

Sá sem flytur hættulegan farm, skal sjá um að ökumaður og eftir atvikum aðstoðar­maður hans fái flutningsslysablað á tungumáli sem þeir skilja. Ganga skal úr skugga um að áhöfnin kunni skil á flutningsslysablaðinu og hvernig framfylgja skuli ákvæðum þess.

19. gr.

Sá sem hættulegur farmur er fluttur til (móttakandi).

Móttakandi hættulegs farms skal sjá um að:

  1. nauðsynleg sótthreinsun ökutækis og gáms fari fram, svo og önnur hreinsun sem hann ber ábyrgð á;
  2. taka merkingar af gámi þegar hann hefur verið losaður og hreinsaður.

20. gr.

Sá sem lestar hættulegan farm.

Sá sem lestar hættulegan farm skal:

  1. gæta þess að leyfilegt sé skv. töflu A að flytja farminn;
  2. ganga úr skugga um að umbúðir farmsins séu óskemmdar;
  3. fylgja í hvívetna reglum um lestun og meðferð farmsins;
  4. gæta þess að gámur sé rétt merktur;
  5. gæta þess að ekki séu fluttar tegundir farms sem ekki má flytja saman, sbr. IV. viðauka;
  6. gæta þess að virtar séu reglur um nálægð hættulegs farms þegar í farmi eru matvörur, aðrar neytendavörur eða fóðurvörur.

21. gr.

Sá sem setur hættulegan farm í umbúðir og merkir þær.

Sá sem setur hættuleg farm í umbúðir og merkir þær skal:

  1. sjá um að farið sé eftir ákvæðum í 4. hluta í ADR-reglum um umbúðir og hvaða varning setja megi saman í umbúðir;
  2. fylgja ákvæðum kafla 5.2 í ADR-reglum um merkingu umbúða.

22. gr.

Sá sem dælir eða fyllir á tank.

Sá sem dælir hættulegum farmi eða fyllir á tank skal:

  1. sjá um að tankur og búnaður tengdur honum sé í lagi og óskemmdur áður en farmur­inn er settur í hann;
  2. ganga úr skugga um að í gildi sé vottorð fyrir ökutæki, tank, gámatank og tankasamstæður;
  3. sjá um að eingöngu sé settur sá farmur í tank sem leyfilegt er að flytja í honum;
  4. sjá um að mismunandi hættulegur farmur, sem ekki má flytja saman, sé ekki settur í samliggjandi hólf;
  5. sjá um að farið sé eftir lið 4.3.2.2 í 4. kafla ADR-reglna um hámark þess magns sem setja má í tank;
  6. ganga úr skugga um eftir að farmur er settur í tank að tankurinn leki ekki;
  7. ganga úr skugga um að ekki séu leifar eða óhreinindi af hættulegum efnum utan á tanki eftir að farmurinn hefur verið settur í hann;
  8. ganga úr skugga um að ökutæki, tankur og gámatankur séu rétt merktir.

IV. KAFLI

Öryggisráðgjafi.

23. gr.

Hver skal hafa öryggisráðgjafa í þjónustu sinni.

Eftirtaldir, sem sinna flutningi á hættulegum farmi, skulu hafa í þjónustu sinni öryggis­ráðgjafa eða eiga aðgang að honum með öðrum hætti og skulu þeir bera ábyrgð á að öryggisráðgjafi fullnægi starfsskyldum sínum:

  1. sá sem setur farminn í umbúðir;
  2. sá sem flytur farminn;
  3. sá sem sér um lestun og losun farmsins.

Upplýsingar um starfsmenn sem sinna öryggisráðgjöf skulu sendar Vinnueftirliti ríkisins.

Starfi fleiri en einn öryggisráðgjafi hjá sama aðila, skal einn þeirra hafa yfirumsjón með öryggisráðgjöf og samræma störf öryggisráðgjafa.

24. gr.

Hlutverk öryggisráðgjafa.

Öryggisráðgjafi skal vegna flutnings á hættulegum farmi:

  1. fylgjast með því að farið sé að reglum um flutninginn, veita ráðgjöf um flutninginn þeim sem hann þjónar og semja árlega skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um verkefni við öryggisráðgjöf á liðnu ári. Þessar upplýsingar skulu geymdar í fimm ár og vera aðgengilegar yfirvöldum sem samkvæmt gildandi reglum annast eftirlit, rannsókn o.þ.h. vegna slysa eða óhappa við slíkan flutning.
  2. hafa eftirlit með:
    1. að fylgt sé reglum um merkingu farmsins sem fluttur er;
    2. hvort og hvernig sá sem flytur farminn fullnægi sérstökum kröfum varðandi ökutæki sem notað er við flutninginn;
    3. búnaði sem notaður er í tengslum við flutning, lestun eða losun farmsins;
    4. þjálfun starfsmanna þess sem flytur farminn og að þeirri þjálfun sé lýst skriflega;
    5. framkvæmd neyðaráætlunar, verði slys eða komi upp önnur atvik sem gætu haft áhrif á öryggi við flutninginn;
    6. rannsókn og skýrslugerð, ef við á, um alvarleg slys, önnur atvik eða alvarleg brot sem verða við flutninginn;
    7. forvarnaraðgerðum sem ætlað er að koma í veg fyrir slys og brot á reglum;
    8. hvort við val á undirverktökum eða öðrum aðilum sé tekið mið af reglum og sérstökum kröfum er varða flutninginn;
    9. hvort starfsmenn sem vinna við flutninginn fylgi settum reglum;
    10. að gerðar séu ráðstafanir til að hlutaðeigandi geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem flutningurinn geti haft í för með sér;
    11. hvort í ökutæki séu skjöl og öryggisbúnaður sem skylt er að hafa þegar farmurinn er fluttur;
    12. hvort farið sé að reglum um lestun og losun farmsins.

25. gr.

Viðurkenning öryggisráðgjafa.

Umferðarstofa viðurkennir öryggisráðgjafa til fimm ára í senn.

Skilyrði viðurkenningar er að viðkomandi hafi ADR-réttindi á starfssviði sínu í samræmi við ákvæði 26. gr. og hafi lokið sérstöku prófi í því námsefni sem tilgreint er í VIII. viðauka. Umferðarstofa annast prófið en getur falið öðrum að leggja það fyrir.

Endurnýja má viðurkenninguna, hafi umsækjandi á síðustu 12 mánuðum á ný lokið prófi, sbr. 1. mgr., einkum með tilliti til breytinga sem kunna að hafa orðið á efni VIII. viðauka.

Sambærileg viðurkenning, sem gefin er út í öðru aðildarlandi að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hefur sama gildi og viðurkenning Umferðarstofu skv. þessari grein með þeim takmörkunum sem viðurkenningin ber með sér.

V. KAFLI

Réttindi til að annast flutning á hættulegum farmi (ADR-réttindi).

26. gr.

Almenn réttindi - Sérstök réttindi.

Réttindi (ADR-réttindi), sem ökumaður skal hafa til að annast flutning á hættulegum farmi, skiptast í almenn réttindi og sérstök réttindi.

Til að öðlast sérstök ADR-réttindi þarf ökumaður að hafa almenn ADR-réttindi.

Sérstök réttindi eru þrenns konar, þ.e. réttindi til flutnings:

a)

hættulegs farms í flokki 1, sbr. 6. gr.

b)

hættulegs farms í flokki 7, sbr. 6. gr.

c)

tanks sem er fastur eða laus með meira en 1.000 lítra rými og gámatanks með meira en 3.000 lítra rými; þetta gildir þar til tankur hefur verið hreinsaður.

Ekki þarf ADR-réttindi vegna flutnings sem fellur undir 11. gr. og II. viðauka.

Aðstoðarmaður ökumanns, sem leysir ökumanninn af, skal hafa ADR-réttindi.

27. gr.

Nám og próf.

Til að öðlast ADR-réttindi þarf umsækjandi að sækja bóklegt og verklegt námskeið sem ljúka skal með prófi. Námið skal fara fram á vegum Umferðarstofu eða þess sem falið er að halda námskeið í umboði Umferðarstofu.

Til þess að fá ADR-réttindi endurnýjuð þarf umsækjandi á síðustu 12 mánuðum áður en gildistími ADR-skírteinis rennur út að sækja endurmenntunarnámskeið sem ljúka skal með prófi.

Umferðarstofa setur námskrá sem staðfest er af ráðherra. Efni námskrár skal mótast af kröfum sem fram koma í VII. viðauka. Þar skal m.a. kveðið á um fjölda kennslustunda. Umferðarstofa annast próf en getur falið öðrum að leggja þau fyrir.

Leggi ökumaður fram vottorð um að hann hafi á síðustu 12 mánuðum sótt hliðstæða þjálfun vegna brunaæfinga, fyrstu hjálpar og annarra aðgerða á slysstað gildir það sem hluti af námi til ADR-réttinda.

28. gr.

Útgáfa réttindaskírteinis (ADR-skírteinis.)

Vinnueftirlit ríkisins gefur út ADR-skírteini til fimm ára í senn eftir því sem við á fyrir almenn réttindi eða einn eða fleiri flokka sérstakra réttinda. Form þess skal vera í samræmi við ákvæði XVII. viðauka.

VI. KAFLI

Kennsluréttindi.

29. gr.

Nám.

Sá sem vill öðlast réttindi til kennslu þeirra sem sækja vilja um réttindi til flutnings á hættulegum farmi (ADR-réttindi), skal hafa lokið námi til kennsluréttinda og staðist próf á námskeiði sem haldið er á vegum Umferðarstofu eða þess sem hún viðurkennir. Markmið námsins er að nemandi öðlist þekkingu og skilning á kennslustarfinu og geti beitt þeirri þekkingu.

Námið skal vera bóklegt og verklegt og fara fram í samræmi við námskrá sem Umferðarstofa setur og ráðherra staðfestir. Standist nemandi prófið, skal sá sem prófið heldur gefa út prófskírteini og jafnframt senda Umferðarstofu afrit, fari námið ekki fram á vegum Umferðarstofu.

30. gr.

Gildistími kennsluréttinda.

Réttindi til að mega kenna á ADR-námskeiði gilda í fimm ár frá útgáfudegi prófskírteinis skv. 29. gr. Réttindin má endurnýja til fimm ára í senn, sé framvísað staðfestingu þess að viðkomandi hafi staðist próf þar sem könnuð er þekking hans á þeim breytingum sem orðið hafa á ADR-reglunum.

VII. KAFLI

Eftirlit.

31. gr.

Almennt.

Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar hvað varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófun og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglum, nema að því er varðar geislavirk efni sem Geislavarnir ríkisins hafa yfirumsjón með.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með því að fylgt sé reglum IV. kafla varðandi starf öryggisráðgjafa.

Umferðarstofa gætir þess að búnaður ökutækis sé fullnægjandi samkvæmt kröfum í ADR-reglum þegar ökutækið er skráð til flutnings á hættulegum farmi, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja.

32. gr.

Vegaeftirlit.

Eftirlit á vegum með flutningi á hættulegum farmi skal fara fram á mismunandi tíma og sem víðast til þess að fá glöggar upplýsingar um hversu vel reglum um flutninginn er fylgt.

Tryggja skal:

  1. að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að vera með eftirlitsstöðvar við eða nálægt vegi sem og vegi sem ráðgert er að leggja, og, gerist þess þörf, að sjá til þess að þjónustustöðvar og aðrir öruggir staðir við vegina geti þjónað sem eftirlitsstaðir;
  2. að eftirlitsstaðir séu valdir af handahófi og sem jafnast miðað við vegakerfið í heild.

Eftirlit á vegum skal einkum beinast að:

  1. hvort heimilt er að flytja farminn;
  2. hvort í ökutækinu eru:
    1. flutningsskjöl sem farminn varða;
    2. viðurkenningarvottorð ökutækis;
    3. ADR-skírteini ökumanns;
  3. hvort fluttir eru saman flokkar hættulegs farms sem ekki má flytja saman;
  4. hvort um er að ræða, eftir atvikum, leka eða skemmdar umbúðir;
  5. hvernig merkingum ökutækis eða gáma er háttað;
  6. hvernig hættumerkingum tanks eða búlka er háttað;
  7. búnaði ökutækis með tilliti til þess að í ökutæki sé:
    1. a.m.k. eitt sett af skorðum;
    2. tvö viðvörunarljós;
    3. slökkvitæki (eitt eða fleiri);
    4. hlífar fyrir ökumann.

33. gr.

Eftirlit í bækistöð sendanda eða þess sem flytur hættulegan farm.

Skipuleggja skal eftirlit í bækistöð sendanda í ljósi reynslu sem fengist hefur í eftirliti áður hjá aðilum í mismunandi flutningum og rekstri. Jafnframt skal, ef nauðsyn krefur, fara fram eftirlit í bækistöð þegar við vegaeftirlit hefur verið upplýst um alvarleg brot á ákvæðum reglugerðarinnar.

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

34. gr.

Fræðsla og þjálfun annarra en ökumanna og öryggisráðgjafa.

Aðrir en ökumaður og öryggisráðgjafi, sem koma að flutningi hættulegs farms, skulu fá þá fræðslu og þjálfun hjá vinnuveitanda sínum sem starf þeirra krefst. Hver vinnuveitandi, þ. á m. sá sem flytur hættulegan farm, sendandi og móttakandi farmsins, skal halda skrá yfir fræðslu og þjálfun starfsmanna sinna og skal hver starfsmaður hafa slíkar upplýsingar varðandi sig.

35. gr.

Refsiákvæði.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

36. gr.

Undanþága fyrir eldri ökutæki og tanka.

Heimilt er að nota tanka og ökutæki til flutnings á hættulegum farmi, sem reglugerð þessi tekur til, þó ekki séu uppfylltar kröfur samkvæmt reglugerðinni, hafi þau verið framleidd fyrir 1. janúar 2007, að því tilskildu þó að þau uppfylli öryggiskröfur í kafla 1.6 í ADR-reglum.

37. gr.

Viðaukar.

Eftirtaldir viðaukar nr. I-XVII fylgja reglugerð þessari og eru hluti hennar:

  1. Varúðarmerki og merking þeirra.
  2. Tafla sem sýnir hámarksmagn hættulegs farms, stykkjavöru, sem flytja má á ökutæki (í vagnlest) án þess að uppfylla tiltekin skilyrði reglugerðarinnar, sbr. 11. gr.
  3. Hættumerki.
  4. Samlestun (tafla).
  5. Tafla sem sýnir hvaða sprengifim efni megi geyma eða flytja saman.
  6. Tafla sem sýnir hámarksmagn (þyngd í kg) sem flytja má af tilteknu sprengiefni (flokkur 1) miðað við mismunandi flokka ökutækja (vagnlestar).
  7. Námskeið til að öðlast ADR-skírteini.
  8. Námsefni og próf öryggisráðgjafa.
  9. Sérákvæði fyrir tiltekinn hættulegan farm, sbr. 6. dálk í töflu A.
  10. Sérákvæði fyrir flutning á stykkjavöru sbr. 16. dálk í töflu A.
  11. Sérákvæði fyrir flutning á ósekkjuðum farmi, sbr. 17. dálk í töflu A.
  12. Sérákvæði fyrir flutning á hættulegum farmi (lestun, losun o.fl.), sbr. 18. dálk í töflu A.
  13. Sérákvæði fyrir flutning á hættulegum farmi (vöktun o.fl.), sbr. 19. dálk í töflu A.
  14. Hættumerki og áletrun þeirra.
  15. Flokkun farms vegna flutnings um jarðgöng, sbr. 8. dálk í töflu A.
  16. Flutningsslysablað.
  17. ADR-skírteini.

38. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í 13. c. og 17. d. tölulið XIII. viðauka við samninginn, skulu gilda hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, 1. bókun um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

Með reglugerð þessari eru innleiddar og öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir:

  1. Tilskipun nr. 2008/68/EB frá 24. september 2008 um flutning á hættulegum farmi á landi og skipgengum vatnaleiðum (töluliður 13. c.) sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 61, 19. nóvember 2009 á bls. 5.
  2. Ákvörðun nr. 2009/240/EB frá 4. mars 2009 um breytingu á tilskipun nr. 2008/68/EB sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12, 11. mars 2010 á bls. 36.

Með reglugerð nr. 984/2000 voru innleiddar eftirtaldar gerðir:

  1. Tilskipun nr. 95/50/EB frá 6. október 1995 um samræmt eftirlit með flutningi á hættu­legum farmi (17. d. töluliður) sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23, 23. maí 1996 á bls. 43.
  2. Tilskipun nr. 2001/26/EB frá 7. maí 2001 um breytingu á tilskipun nr. 95/50/EB sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52, 13. júní 2002 á bls. 18.
  3. Tilskipun nr. 2004/112/EB frá 13. desember 2004 um breytingu á tilskipun nr. 95/50/EB sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52, 13. október 2005 á bls. 9.

39. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 60. gr. og 5. mgr. 73. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um flutning á hættulegum farmi, nr. 984/2000, reglugerðir um breytingu á þeirri reglugerð, nr. 773/2001, nr. 684/2002, nr. 750/2003, nr. 1070/2005, nr. 1033/2007 og nr. 1035/2009, svo og reglugerð um öryggisráðgjafa við flutning á hættulegum farmi á vegum nr. 607/2001.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fram til 31. desember 2014 er Umferðarstofu heimilt að undanþiggja ökutæki með farmgeymi, sem skráð voru fyrir 31. desember 1998 og notuð hafa verið til að flytja hættulegan farm, ákvæðum ADR-reglna um:

  1. sérstaka vörn á rafleiðslum;
  2. sérstaka raftengingu við ökurita;
  3. vörn fyrir farmgeymi;
  4. læsivörn á hemlum;
  5. aukahemla (útblásturshemla og/eða drifskaftshemla).

Undanþágan er bundin því skilyrði að búnaði, sem fyrir er í ökutæki, sbr. a- til e-lið, sé haldið þannig við að hann sé í fullkomnu lagi og að umrædd ökutæki uppfylli að öðru leyti ákvæði reglugerðar um gerð og búnað ökutækja.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 14. desember 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica