Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

1051/2009

Reglugerð um veiðar á sæbjúgum. - Brottfallin

1. gr.

Allar veiðar á sæbjúgum í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.

Leyfi til sæbjúgnaveiða skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til sæbjúgnaveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

2. gr.

Leyfi til veiða eru bundin við ákveðin svæði og skiptast miðin umhverfis landið í 3 veiðisvæði þannig:

  1. Svæði A: Á svæði milli lína réttvísandi vestur frá Reykjanesvita (63°48'00 N og 22°41'90 V) og norður frá Skagatá (66°07'20 N og 20°05'90 V).
  2. Svæði B: Á svæði milli lína réttvísandi norður frá Skagatá (66°07'20 N og 20°05'90 V) og réttvísandi austur frá Glettinganesi (65°30'50 N og 13°36'30 V).
  3. Svæði C: Á svæði milli lína réttvísandi austur frá Glettinganesi (65°30'50 N og 13°36'30 V) og réttvísandi vestur frá Reykjanesvita (63°48'00 N og 22°41'90 V).

Einungis skal gefa út 3 veiðileyfi á hverju veiðisvæði.

Við veiðar á sæbjúgum skal plógstærð ekki fara yfir 2,5 m. Þá er lágmarksmöskvastærð netpoka 100 mm.

3. gr.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um leyfi til sæbjúgnaveiða fyrir 1. ágúst ár hvert. Þegar sæbjúgnaveiðileyfum sem til ráðstöfunar eru hefur ekki verið úthlutað við upphaf fiskveiðiárs skal afstaða tekin til umsókna eftir því sem þær berast Fiskistofu.

Skilyrði fyrir útgáfu leyfis til sæbjúgnaveiða er að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni. Við afgreiðslu umsókna og við úthlutun veiðisvæða hafa þau skip forgang sem á síðustu þremur fiskveiðiárum hafa stundað veiðar á sæbjúgum og skal byggt á því á hvaða svæði og í hve langan tíma sæbjúgnaveiðar hafa verið stundaðar, þá skal skipið vera gert út af þeim aðila sem stundað hefur veiðarnar. Auk þessa, í þeim tilvikum sem þess er þörf, skal litið til aflamagns.

Forgangsrétt samkvæmt 2. mgr. er heimilt að flytja á milli skipa skipti útgerðaraðili um skip.

4. gr.

Á hrygningartíma sæbjúgna á tímabilinu frá og með 1. júní til og með 31. júlí eru veiðar á sæbjúgum óheimilar.

5. gr.

Auk skila á afladagbókum samkvæmt reglugerð nr. 557/2007 um afladagbækur skal skipstjóri senda Hafrannsóknastofnuninni vikulega, á mánudegi, upplýsingar um afla og veiðisvæði undanfarandi viku á því formi sem Hafrannsóknastofnunin ákveður.

6. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum.

Heimilt er Fiskistofu að svipta skip leyfi til sæbjúgnaveiða, sem gefið er út með stoð í reglugerð þessari vegna brota gegn lögum eða reglugerð þessari. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til sæbjúgnaveiða.

7. gr.

Reglugerð þessi er gefin út með stoð í lögum nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. janúar 2010 og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 224/2003 um takmarkanir á heimild til veiða á sæbjúgum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um leyfi til sæbjúgnaveiða á fiskveiðiárinu 2009/2010 fyrir 10. janúar 2010 og skal umsóknarfrestur vera 2 vikur. Útgáfu veiðileyfa skal lokið eigi síðar en 20. febrúar 2010. Þar til afstaða Fiskistofu liggur fyrir til fram kominna umsókna gilda þegar útgefin tilraunaleyfi til veiða á sæbjúgum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. desember 2009.

F. h. r.
Steinar Ingi Matthíasson.

Kristján Freyr Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica