Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

201/2010

Reglugerð um breytingu á hafnarreglugerð nr. 287/2005 fyrir Hafnasamlag Norðurlands bs.

1. gr.

Ný 1. gr. orðast svo:

Stærð og takmörk hafnarinnar.

Hafnir Hafnasamlags Norðurlands bs. eru: Akureyrarhöfn, Grenivíkurhöfn, Grímseyjar­höfn, Hjalteyrarhöfn, Hríseyjarhöfn og Svalbarðseyrarhöfn.

Stærð og takmörk hafnarsvæðis fyrir Akureyrarhöfn eru:
Á sjó: Að norðan er lína beint í austur frá þeim stað, þar sem mörk lögsagnarumdæmis Akureyrar og Hörgárbyggðar koma til sjávar, fram í miðjan Eyjafjörð, þaðan inn eftir miðjum firði að línu úr Glerárósi í Geldingsá og liggja mörkin þaðan til lands austan fjarðarins um þá línu. Innan þessara marka afmarkast höfnin af landinu.
Á landi: Í samræmi við aðalskipulag fyrir Akureyri á hverjum tíma.

Stærð og takmörk hafnarsvæðis fyrir Grenivíkurhöfn eru:
Á sjó: Að vestan af línu, sem hugsast dregin frá norðurenda Þengilshöfða (Nöfum) í norðurenda Hríseyjar, en að norðan af línu, sem hugsast dregin réttvísandi í vestur frá íbúðarhúsinu á Melum. Innan þessara marka afmarkast höfnin af landinu.
Á landi: Í samræmi við aðalskipulag fyrir Grenivík á hverjum tíma.

Stærð og takmörk hafnarsvæðis fyrir Grímseyjarhöfn eru:
Á sjó: Að norðan af línu, sem hugsast dregin réttvísandi í vestur frá Hrauntanga, 1000 m frá landi en að sunnan af samsíða jafnlangri línu úr Borgarhöfða. Að vestan takmarkast hafnarsvæðið af línu, sem hugsast dregin milli vesturenda þessara lína.
Á landi: Í samræmi við aðalskipulag Grímseyjar á hverjum tíma.

Stærð og takmörk hafnarsvæðis fyrir Hjalteyrarhöfn eru:
Á sjó: Að norðan af línu sem hugsast dregin beint í austur frá þeim stað sem mörk Arnarholts og Hjalteyrar koma til sjávar, fram í miðjan Eyjafjörð, þaðan inn eftir miðjum firði að línu sem hugsast dregin beint í austur frá þeim stað, þar sem mörk Hjalteyrar og Ytri-Bakka koma til sjávar.
Á landi: Í samræmi við aðalskipulag fyrir Hjalteyri á hverjum tíma.

Stærð og takmörk hafnarsvæðis fyrir Hríseyjarhöfn eru:
Á sjó: Að vestan af línu, er hugsast dregin frá Daltnesi í Hálshorn, eða vestur fram í mitt sund milli eyjar og lands. Að austan af línu, er hugsast dregin frá svonefndu Eyjarhorni réttvísandi í suður, einnig fram í mitt eyjarsund. Að sunnan takmarkast höfnin af beinni línu, er hugsast dregin milli suðurendapunkta, austur- og vesturtakmarkalínu hafnarinnar.
Á landi: Í samræmi við aðalskipulag fyrir Hrísey á hverjum tíma.

Stærð og takmörk hafnarsvæðis fyrir Svalbarðseyrarhöfn eru:
Á sjó: Að norðan af línu, sem hugsast dregin þvert í vestur úr Svalbarðseyrarodda, 40 m norðan vitans. Að sunnan af línu sem hugsast dregin þvert í vestur úr Sigluvíkurklöppum. Að vestan af línu, sem dregin er úr norðurlínu 500 m frá fjöruborði og þvert í suður, 500 m framan við Sigluvíkurklappir. Innan þessara marka afmarkast höfnin af landinu.
Á landi: Í samræmi við aðalskipulag fyrir Svalbarðseyri á hverjum tíma.

Landsvæði hafnanna skiptast í:
Hafnarbakka og bryggjur.
Farmstöðvar og önnur afgreiðslusvæði.
Götur.
Lóðir, iðnaðar- og baksvæði.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 4. gr. hafnalaga nr. 61/2003, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt falla úr gildi hafnarreglugerðir fyrir: Grímsey, nr. 120/1959 og Hrísey, nr. 9/1973.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 16. febrúar 2010.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica