Menntamálaráðuneyti

231/1995

Reglugerð um Listasafn Íslands. - Brottfallin

I. KAFLI

Stjórn safnsins.

1. gr.

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn, meginsafn íslenskrar myndlistar í eigu íslenska ríkisins og miðstöð rannsókna í myndlistarefnum, heimildarsöfnunar og kynningar á íslenskri myndlist.

Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn safnsins. Stjórn þess er að öðru leyti í höndum forstöðumanns safnsins og safnráðs.

2. gr.

Forstöðumaður safnsins er ráðinn af menntamálaráðherra til fimm ára í senn að fenginni umsögn safnráðs. Ráðinn skal maður með sérfræðilega menntun og staðgóða þekkingu á myndlist og rekstri listasafna. Starfið skal auglýsa samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Endurnýja má ráðningu forstöðumanns einu sinni til næstu fimm ára ef meirihluti safnráðs mælir með endurráðningu. Skal við ákvörðun launa hans taka tillit til tímabundinnar ráðningar.

>Fostöðumaður er stjórnandi safnsins og mótar listræna stefnu þess í samráði við safnráð. Hann stjórnar daglegum rekstri, skipuleggur sýningar á verkum safnsins og sér um aðra venjulega starfsemi.

Forstöðumaður hefur umsjón með gerð fjárlagatillagna í samvinnu við yfirmann rekstrarsviðs.

Forstöðumaður situr í safnráði og innkaupanefnd safnsins samkvæmt stöðu sinni.

Staðgengill forstöðumanns safnsins er annar hvor yfirmanna sérsviðs. Yfirmaður rekstrarsviðs er staðgengill forstöðumanns í daglegum rekstri, en yfirmaður safnsviðs er staðgengill forstöðumanns á safnsviði og í safnráði.

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar fimm menn í safnráð, sem hefur umsjón og eftirlit með starfsemi Listasafns Íslands. Safnráð fjallar um allar meiri háttar ákvarðanir sem safnið varðar. Forstöðumaður á sæti í safnráði samkvæmt stöðu sinni, en menntamálaráðherra skipar fjóra aðra menn í safnráð til þriggja ára í senn: Tvo samkvæmt tilnefningu fulltrúaráðs Sambands íslenskra myndlistarmanna og einn úr hópi fastráðinna starfsmanna safnsins að fenginni tillögu þeirra. Ráðherra skipar formann ráðsins og skal hann hafa til að bera sérfræðilega þekkingu á höfundarétti og góða almenna þekkingu á myndlist. Safnráðsmenn skipaða samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra myndlistarmanna má aðeins endurskipa einu sinni. Ráðherra skipar varamenn með hliðstæðum hætti.

4. gr.

Safnráð fjallar um gjafir sem safninu eru boðnar og metur hvort þær skulu þegnar. Það sker úr ágreiningi um listaverkakaup og heimilar sölu listaverka úr safninu og útlán í stofnanir.

Forstöðumaður safnsins leitar tillagna ráðsins um listræna stefnu og langtímaáætlanir safnsins og afnot af húsakynnum þess til annarra nota en sýninga. Í safnráði kynnir forstöðumaður kaup innkaupanefndar, hugmyndir að sýningum, fjármál safnsins í samvinnu við yfirmann rekstrarsviðs, ársskýrslu safnsins í upphafi hvers árs svo og önnur mál er safnið varða.

Safnráð heldur fundi svo oft sem þurfa þykir, en ekki sjaldnar en mánaðarlega að jafnaði. Forstöðumaður gefur skýrslu um starfsemi safnsins í upphafi hvers fundar. Færa skal gerðabók safnráðs og skulu útskriftir fundargerða sendar öllum safnráðsmönnum áður en næsti fundur er haldinn. Dagskrá skal liggja fyrir hverjum fundi. Meirihluti atkvæða ræður samþykktum.

Safnráð skal boða til fundar með öllum starfsmönnum safnsins í byrjun árs þegar fjárlög liggja fyrir.

5. gr.

Innkaupanefnd annast kaup listaverka til safnsins. Nefndina skipa forstöðumaður safnsins og tveir fulltrúar listamanna í safnráði. Við val listaverka ber að fara eftir listrænu gildi þeirra og hafa í huga hvað safnið á eftir sama höfund.

Forstöðumaður skal vera formaður nefndarinnar. Hann kallar nefndina saman og stjórnar fundum hennar, og ræður meirihluti atkvæða úrslitum. Verði ágreiningur um kaup listaverks milli forstöðumanns og annarra nefndarmanna skal skjóta málinu til safnráðs til endanlegrar ákvörðunar.

Forstöðumaður getur einn tekið ákvörðun um kaup erlendra listaverka þegar samráði við aðra nefndarmenn verður ekki við komið. Þá getur forstöðumaður ráðstafað allt að 20% af ráðstöfunarfé til kaupa innlendra verka án afskipta nefndarinnar og skal það tilkynnt safnráði sérstaklega eins og önnur innkaup nefndarinnar.

II. KAFLI 

 Skipulag.

6. gr.

Meginsvið Listasafnsins eru tvö, þ.e. safnsvið og rekstrarsvið og skal vera yfirmaður yfir hvoru sviði. Yfirmaður safnsviðs er jafnframt deildarstjóri listaverka- og sýningardeildar og yfirmaður rekstrarsviðs er jafnframt deildarstjóri fjármáladeildar. Yfirmaður hvors sviðs annast daglega stjórn þess undir yfirumsjón forstöðumanns safnsins.

7. gr.

Listasafn Íslands skal vera deildaskipt og heyra mismundandi deildir undir hvort sérsvið. Fyrir hverri deild skal vera deildarstjóri. Deildarstjóri getur verið yfirmaður fleiri en einnar deildar. Deildarstjórar heyra undir yfirmann sérsviðs.

Á safnsviði skulu vera eftirtaldar deildir: Listaverka- og sýningardeild (öll listaverk Listasafns Íslands, sýningar og útlán), fræðsludeild (fræðsla og kynning), forvörslu- og viðgerðadeild, bókasafn (öll heimildasöfnun og söfnun myndgagna um íslenska og erlenda myndlist) og Safn Ásgríms Jónssonar.

Á safnsviði fer fram varðveisla, skráning, forvarsla og viðgerðir listaverka, undirbúningur og hönnun sýninga, kynning, heimildasöfnun, fræðsla og rannsóknir á íslenskri myndlist svo og fagleg ráðgjöf og upplýsingamiðlun.

Á rekstrarsviði skulu vera eftirtaldar deildir: Fjármáladeild (fjármál, starfsmannamál og daglegur rekstur), umsýsludeild fasteigna og útgáfudeild. Á rekstrarsviði fer fram stjórnsýsla safnsins, fjármálastjórnun, rekstur almennrar skrifstofu, starfsmannahald, útgáfustarfsemi, rekstur kaffistofu Listasafnsins og safnbúðar og umsýsla fasteigna.

Yfirmaður rekstrarsviðs gerir fjárlagatillögur í samráði við forstöðumann safnsins. Fjárlagatillögur skulu byggðar á drögum að starfsáætlun samkvæmt stefnumörkun forstöðumanns og safnráðs, er liggi fyrir í ársbyrjun og með árs fyrirvara. Haft skal samráð við deildarstjóra um fjárþörf einstakra deilda.

8. gr.

Í Listasafni Íslands skal vera sérfræðibókasafn um myndlist og meginheimildasafn á sviði íslenskrar myndlistar. Það skal vera í umsjón bókasafnsfræðings. Þar skulu vera til heimildir og gögn sem fjalla um íslenska myndlist: Útgefin rit, sýningarskrár, úrklippur, tímarit, bókverk, smáefni, veggspjöld o.fl. sem snerta sviðið.

>Bókasafnið skal einnig annast allar myndheimildir safnsins, s.s. ljósmyndir, litskyggnur, myndbönd, kvikmyndir og hljóðbönd.

Bókasafnið sér um að safna og skrá allt það efni sem því berst og gera það aðgengilegt sérfræðingum og almenningi. Þá veitir það þjónustu og ráðgjöf varðandi efni þess. Bókasafnið lánar ekki út frumheimildir eða bækur.

III. KAFLI 

 Útlán.

9. gr.

Heimilt er að lána verk í eigu safnsins á listsýningar, enda sé gætt réttar höfunda samkvæmt ákvæðum höfundalaga um slíkar sýningar. Höfundur á alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar.

10. gr.

Heimilt er að lána listaverk safnsins til tiltekinna opinberra stofnana enda sé meirihluti safnráðs því samþykkur og eftirfarandi skilyrðum fullnægt:

Verk skulu hengd upp af fagmanni á vegum safnsins, þegar því verður við komið, á kostnað viðkomandi stofnana.

Óheimilt er að færa verk á milli stofnana eða herbergja án leyfis safnsins.

Yfirmenn stofnana skulu ábyrgir fyrir verkum sem lánuð eru í stofnanir þeirra og bera þar með ábyrgð á öryggi þeirra og ástandi. Settum öryggisreglum safnsins skal fylgt í meðferð verka hvað hita, raka og sólarljós varðar, auk annars öryggis. Ef eitthvað kemur fyrir listaverk á meðan það er á ábyrgð lántaka, þannig að gera þurfi við það eða skipta um ramma, skal það gert á kostnað lántaka að fengnu leyfi forstöðumanns safnsins. Verk sem eru í útláni skulu sérstaklega tryggð á kostnað viðkomandi stofnunar. Tryggingafjárhæð skal ákveðin af safninu í samráði við lántaka. Ef ríkisstofnun á í hlut fer um tryggingar eftir almennum reglum ríkisins um kaup á vátryggingum.

Verkum skal skilað úr sendiráðum og ráðuneytum við sendiherra- og ráðherraskipti. Að öðru leyti fara skipti á verkum fram á þriggja ára fresti. Verk skulu flutt á milli staða í sérstökum þar til gerðum umbúðum fyrir listaverk á kostnað lántaka.

Ef um vanrækslu af hálfu lántaka er að ræða á meðferð verka, samkvæmt reglum þessum, skal þeim strax skilað ef forstöðumaður safnsins eða fulltrúi hans óskar eftir því. Ef verk eru kölluð inn til sýninga getur lántaki óskað eftir að fá annað verk að láni í staðinn.

11. gr.

Heimilt er að setja á stofn sérstaka útlánadeild við safnið ef sérstök fjárveiting er veitt til þess í fjárlögum. Útlánadeild sjái um útlán listaverka, sem sérstaklega verða keypt eða gefin safninu í því skyni. Réttar höfunda skal gætt samkvæmt ákvæðum höfundalaga.

IV. KAFLI 

 Heimildanotkun.

12. gr.

Opinber birting mynda af verkum safnsins er óheimil nema með sérstöku leyfi safnsins, enda sé gætt réttar höfunda samkvæmt ákvæðum höfundalaga.

Listasafnið getur tekið þjónustugjald vegna afgreiðslu myndefnis, auk sérstaks gjalds vegna höfundaréttar þegar hann er í höndum safnsins. Myndheimildir safnsins og litgreiningar skulu aðeins lánaðar gegn skilatryggingu.

Forstöðumaður ákveður þjónustugjald er taki mið af kostnaði. Auk þjónustugjalds skal safnið fá að minnsta kosti 3 eintök af verki því, þar sem listaverk safnsins birtist.

Tillögur safnráðs og forstöðumanns um þjónustugjöld Listasafns Íslands skulu staðfestar af menntamálaráðherra með sérstakri gjaldskrá sem birtist í Stjórnartíðindum.

V. KAFLI 

 Almenn starfsemi Listasafns Íslands.

13. gr.

Ef forstöðumaður telur sérstaka ástæðu til, getur safnráð ákveðið að aðgangseyrir sé tekinn að meiri háttar sérsýningum safnsins.

14. gr.

Óheimilt er að halda aðrar sýningar í sýningarsölum safnsins en þær sem safnið stendur sjálft að eða vinnur í samvinnu við aðra.

15. gr.

Safnráð getur heimilað að húsakynni safnsins séu notuð til annars en sýninga, enda sé listrænn metnaður hafður í fyrirrúmi í hvívetna.

Óheimil er hvers konar kynning á vörum sem hafa sölugildi og eru safninu óviðkomandi.

VI. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 58/1988 um Listasafn Íslands og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 28. mars 1995.

Ólafur G. Einarsson.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica