Menntamálaráðuneyti

74/1999

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 231/1995, um Listasafn Íslands. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

REGLUGERÐ

um breyting á reglugerð nr. 231/1995, um Listasafn Íslands.

1.gr.

5. mgr. 2. gr. orðast svo:

Í forföllum forstöðumanns er yfirmaður rekstrarsviðs staðgengill hans nema menntamálaráðherra mæli fyrir um aðra skipan.

2. gr.

10. gr. orðast svo:

Heimilt er að lána listaverk safnsins til opinberra stofnana, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt, sbr. og 2. mgr.:

a). Verk skulu hengd upp af fagmanni á vegum safnsins þegar því verður komið við. Óheimilt skal að breyta staðsetningu verks án leyfis safnsins. Verk skulu flutt á milli staða í sérstökum þar til gerðum listaverkaumbúðum á kostnað lántaka.

b). Yfirmenn stofnana skulu ábyrgir fyrir verkum sem lánuð eru í stofnanir þeirra og bera þar með ábyrgð á öryggi þeirra og ástandi. Settum öryggisreglum safnsins skal fylgt í meðferð verka hvað hita, raka og sólarljós varðar, auk annars öryggis. Ef eitthvað kemur fyrir listaverk á meðan það er á ábyrgð lántaka, þannig að gera þurfi við það eða skipta um ramma, skal það gert á kostnað lántaka að fengnu leyfi forstöðumanns safnsins. Verk sem eru í útláni skulu sérstaklega tryggð á kostnað viðkomandi stofnunar. Tryggingarfjárhæð skal ákveðin af safninu í samráði við lántaka. Ef ríkisstofnun á í hlut fer um tryggingar eftir almennum reglum ríkisins um kaup á vátryggingum.

c). Ef um vanrækslu af hálfu lántaka er að ræða á meðferð verka, samkvæmt reglum þessum, skal þeim starx skilað ef forstöðumaður safnsins eða fulltrúi hans óskar eftir því. Ef verk eru kölluð inn til sýningas getur lántaki óskað eftir að fá annað verk að láni í staðinn.

Gengið skal frá skriflegu samkomulagi milli Listasafns Íslands og hlutaðeigandi stofnunar, þar sem tilgreindir eru allir skilmálar fyrir láni listaverksins eða listaverkanna, þar með talin gjaldtaka, sbr. 4. mgr., lánstími og meðferð verkanna meðan á láni stendur.

Þess skal gætt við útlán að höfundur eða heildarsamtök myndhöfunda í umboði hans hafi veitt til þess samþykki sitt. Útlán samkvæmt þessari grein skulu og háð samþykki safnráðs.

Heimilt er að taka gjald fyrir útlán listaverka samkvæmt þessari grein og skal gjaldið ákvarðast hverju sinni miðað við beinan kostnað safnsins vegna útlánanna og þá vinnu sem safnið innir af hendi í því skyni. Skulu þeir kostnaðarþættir skilgreindir í samningnum. Þá skal gjaldið tryggja greiðslu til myndhöfunda, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. höfundalaga, nr. 73/1972 með síðari breytingum.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 58/1988, um Listasafn Íslands og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Gjaldtökuheimild skv. 4. mgr. 2. gr. tekur ekki til þeirra verka sem við gildistöku reglugerðar þessarar hafa verið lánuð til opinberra stofnana.

Menntamálaráðuneytinu, 27. janúar 1999.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica