1. gr.
Ábyrgð menntamálaráðuneytis.
Menntamálaráðherra ber ábyrgð á að haldin séu sveinspróf fyrir iðnnema í löggiltum iðngreinum, hefur eftirlit með framkvæmd prófanna og veitir upplýsingar um þau.
2. gr.
Reglur um uppbyggingu og tilhögun sveinsprófa.
Menntamálaráðherra setur reglur þar sem kveðið er á um uppbyggingu, inntak og tilhögun sveinsprófa í hverri löggiltri iðngrein um sig að fengnum tillögum viðkomandi starfsgreinaráðs. Reglur þessar skulu tryggja eftir föngum að sveinspróf í viðkomandi iðngrein endurspegli námskröfur, umfang og skipulag náms samkvæmt aðalnámskrá og að jafnræði sé milli próftaka hvar á landinu sem er. Reglurnar eru birtar á vef menntamálaráðuneytis.
3. gr.
Próftakar.
Heimilt er að taka hvern þann til sveinsprófs sem lokið hefur burtfararprófi frá iðnmenntaskóla og tilskilinni starfsþjálfun í atvinnulífi samkvæmt námskrá viðkomandi iðngreinar eða sætt raunfærnimati skv. reglum menntamálaráðuneytis. Nemandi sem lokið hefur tilskildu vinnustaðanámi getur þó hafið töku sveinsprófs á lokaönn í skóla, enda teljist verkefni annarinnar vera hluti af sveinsprófi.
Leitast skal við að koma til móts við sérþarfir nemenda sem eiga við fötlun eða sértæka námsörðugleika að etja, sbr. ákvæði aðalnámskrár framhaldsskóla um frávik frá prófareglum. Frávik í sveinsprófum getur þó ekki leitt til þess að próftaki sé undanþeginn einstökum prófþáttum. Menntamálaráðuneyti veitir leiðbeiningar um þá aðstoð sem viðeigandi er í hverju tilviki.
4. gr.
Staðfesting umsókna.
Meistari staðfestir umsókn um sveinspróf fyrir nemendur í samningsbundnu iðnnámi en framhaldsskóli fyrir þá er ljúka námi af verknámsbraut viðkomandi skóla. Umsóknin skal vera á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal fylgja burtfararprófsskírteini frá skóla eða staðfesting á námsframvindu, afrit af námssamningi nemanda eða heimild menntamálaráðherra þegar svo ber undir.
5. gr.
Skipan sveinsprófsnefnda.
Menntamálaráðherra skipar sveinsprófsnefndir í löggiltum iðngreinum fyrir allt landið til þess að sjá um framkvæmd sveinsprófa og mat á úrlausnum. Þóknun sveinsprófsnefndarmanna greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra.
6. gr.
Sveinsprófsnefndarmenn og kröfur til þeirra.
Í sveinsprófsnefnd skulu vera þrír iðnaðarmenn úr viðkomandi iðngrein og jafnmargir til vara og skulu þeir skipaðir af menntamálaráðherra til allt að fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir að fengnum tillögum viðkomandi starfsgreinaráðs og skal að jafnaði annar vera meistari en hinn sveinn. Einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann hafa kennslureynslu í viðkomandi iðngrein sé þess nokkur kostur. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann. Formaður boðar nefndina til funda og stjórnar störfum hennar.
Við tilnefningar og skipun fulltrúa í sveinsprófsnefndir skal gæta fyrirmæla 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á þeim sem sitja í sveinsprófsnefnd. Þeim ber að sýna hlutleysi og fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum og fyrirmælum stjórnsýslulaga í störfum sínum. Þá eru þeir bundnir af ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996 og er óheimilt að fjalla opinberlega um eða birta í heild úrlausnir einstakra nemenda.
Sveinsprófsnefndarmaður víkur sæti úr nefnd ef hann er eða hefur verið meistari próftaka eða kennari hans í verknámi, náskyldur honum eða tengdur. Nefndarmönnum ber sjálfum skylda til þess að upplýsa um aðstæður er geta valdið vanhæfi þeirra, sbr. 3. - 6. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
7. gr.
Hlutverk sveinsprófsnefndar.
Sveinsprófsnefnd ber ábyrgð á samningu sveinsprófs og gengur frá þeim gögnum sem nota þarf við prófið. Sveinsprófsnefnd leggur fyrir skrifleg og verkleg próf. Hún fylgist með vinnutíma próftaka og skráir upphaf og endi vinnutíma hjá hverjum og einum. Á sama hátt skráir prófnefndin á matsblað (atriðalista) vinnulag próftakans, metur og gefur einkunnir fyrir vinnuhraða og verklag. Ef vart verður við almenn vafaatriði hjá próftökum skal úr þeim leyst í heyranda hljóði ef aðstæður leyfa.
8. gr.
Umsóknarfrestur.
Umsóknarfrestur um sveinspróf er einn mánuður frá birtingu auglýsingar. Ekki er tekið við umsóknum að liðnum auglýstum umsóknarfresti.
9. gr.
Prófstaðir.
Formaður sveinsprófsnefndar ákveður prófstaði í samráði við umsýsluaðila, sbr. 19. gr. Úttekt skal gerð á prófstað og skorið úr um hvort hann uppfylli skilgreindar kröfur. Til þess að próf geti farið fram á tilteknum stað skal við það miðað að próftakar séu fimm eða fleiri. Þegar litlar vegalengdir eru á milli staða skal haldið próf á einum stað enda þótt fjöldi umsækjenda sé það mikill að hægt væri að halda próf á fleiri stöðum. Ef umsækjandi er einn, skal honum vísað á næsta prófstað. Ef prófað er í iðninni á fleiri stöðum en einum á landinu skal gefa slíkum próftaka kost á að velja sér prófstað. Sveinspróf skal halda að lágmarki einu sinni á ári þótt einungis einn sæki um próf í iðninni á öllu landinu. Sveinspróf skulu að jafnaði haldin nálægt annarlokum framhaldsskóla, sbr. þó 1. mgr. 3. gr.
10. gr.
Samræming sveinsprófa.
Ef nauðsynlegt reynist að halda sveinspróf á fleiri en einum stað á landinu samtímis skal prófið vera samræmt eftir því sem við verður komið. Í slíkum tilvikum er prófnefnd heimilt að kalla prófmeistara til starfa. Hlutverk prófmeistara er að leggja próf fyrir á viðkomandi stað samkvæmt verklýsingu prófnefndar, fylgjast með próftökum og meta úrlausnir samkvæmt nánari leiðbeiningum sveinsprófsnefndar. Sveinsprófsnefnd velur prófmeistara í samráði við umsýsluaðila sveinsprófa eða samtök iðnaðarmanna í iðninni í því sveitarfélagi þar sem halda á prófið. Áður en próf hefst skulu liggja fyrir hjá umsýsluaðila upplýsingar um þá prófmeistara sem koma að prófahaldi á hverjum stað.
11. gr.
Efniskostnaður við próftöku.
Um heimild til innheimtu efnisgjalds vegna próftöku fer skv. 45. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla og reglugerð settri samkvæmt þeirri grein.
12. gr.
Uppbygging sveinsprófa - prófþættir.
Umfang og uppbyggingu sveinsprófa skal ákveða í samræmi við markmið aðalnámskrár og uppbyggingu námsins, þ.m.t. skiptingu þess í skólanám og vinnustaðanám. Sveinspróf skiptast eftir atvikum í verklegan hluta, skriflegan hluta, vinnuhraða og teikningu. Sveinsprófsnefnd ákveður vægi prófþátta, svo og vægi efnisatriða innan hvers prófþáttar, ef svo ber undir. Nefndin skilgreinir jafnframt viðmið um lágmarksárangur í einstökum prófþáttum.
Verklegur hluti sveinsprófs skiptist eftir atvikum í:
Vinnuhraði og frágangur. Sveinsprófsnefnd ákveður sjálf í hvaða þáttum prófanna vinnuhraði er metinn, hvaða tímamörk miða skal við og hvaða kröfur eru gerðar um frágang og skil verkefna.
Í skriflegum hluta sveinsprófs skal leitað eftir getu nemenda til að tengja saman verklega og bóklega þætti námsins. Jafnframt skal spurt um verklega þætti og öryggismál sem ekki koma til prófs í verklegum hluta sveinsprófsins.
Þegar teiknipróf frá framhaldsskóla er ekki látið gilda getur teikning á sveinsprófi skipst í iðnteikningu og teiknilestur.
13. gr.
Upplýsingar til próftaka.
Þegar auglýstur umsóknarfrestur um sveinspróf er liðinn sendir umsýsluaðili próftökum upplýsingar um prófdaga og prófstaði ásamt lýsingu á uppbyggingu og framkvæmd prófsins og aðferðum við námsmat. Próftakar skulu upplýstir um vægi einstakra prófþátta og helstu viðmiðanir um nákvæmni, áferð, útlit, frágang og annað er kemur til mats. Benda skal próftökum á rétt þeirra til skýringa og um úrlausn ágreiningsmála, sbr. 15. gr.
Þegar prófið fer fram á stað sem er nemanda ókunnur skal sveinsprófsnefnd veita honum tækifæri til að kynna sér staðinn og æfa sig á vélbúnaði áður en prófið hefst.
Próftökum skal gerð grein fyrir umgengniskröfum, umhirðu á verkfærum, samskiptakröfum og frágangi á prófstað.
14. gr.
Einkunnagjöf.
Sérstök einkunn er gefin fyrir hvern prófþátt og skal próftaki ná tilskildum lágmarksárangri í hverjum prófþætti til þess að standast sveinsprófið. Einkunn í sveinsprófi byggist á reiknuðu meðaltali prófþátta en vægi og fjöldi þátta getur verið mismunandi eftir iðngreinum. Um einkunnagjöf á sveinsprófum fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár framhaldsskóla. Falli próftaki í prófþætti er honum heimilt að gangast undir endurtökupróf í þeim þætti eingöngu, verði því við komið, næst þegar sveinspróf er haldið í viðkomandi iðngrein. Sveinsprófsnefnd annast frekari útfærslu á tilhögun endurtökuprófa og framkvæmd þeirra.
15. gr.
Prófsýning, ágreiningur og endurtökupróf.
Þegar niðurstöður sveinsprófs liggja fyrir skal sveinsprófsnefnd gefa próftaka kost á að sjá niðurstöður úr sínu eigin prófi og einstökum þáttum þess. Sé próftaki ósáttur við niðurstöður nefndarinnar getur hann óskað eftir skýringum á þeim. Komi upp ágreiningur milli próftaka og sveinsprófsnefndar, sem ekki tekst að leysa þeirra í millum, kveður menntamálaráðherra til prófdómara til að fara yfir niðurstöðuna. Ósk próftaka um álit prófdómara skal liggja fyrir innan mánaðar frá því próftaka var kunn niðurstaða prófs. Úrskurður prófdómara skal gilda.
Próftaka er heimilt að þreyta sveinspróf allt að þrisvar sinnum. Hafi hann þá ekki staðist prófið skal hann sæta endurmati og greiningu hjá skóla sem leggur á ráðin um nauðsynleg úrræði. Með umsókn um að gangast undir sveinspróf í fjórða sinn skal fylgja vottorð skóla um undirbúningsþjálfun próftaka fyrir sveinspróf.
16. gr.
Tilkynning niðurstaðna.
Eigi síðar en fjórum vikum eftir sveinspróf skal prófnefnd senda próftaka niðurstöður sveinsprófs í ábyrgðarpósti eða á annan öruggan hátt. Á prófskírteini kemur fram árangur nemanda í einstökum þáttum prófsins og ein aðaleinkunn.
Í síðasta lagi mánuði eftir að sveinspróf eru haldin sendir prófnefnd niðurstöður þeirra til menntamálaráðuneytisins.
17. gr.
Meðferð upplýsinga og gagna.
Óheimilt er að veita öðrum en próftaka upplýsingar um einkunnir hans á sveinsprófi nema nauðsyn beri til vegna fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu að fenginni heimild Persónuverndar.
Sveinsprófsnefnd ber skylda til að varðveita sveinsstykki og/eða myndir og önnur gögn er tilheyra sveinsprófum í eitt ár frá próftöku.
Innan árs frá því að niðurstöður sveinsprófa eru birtar, sbr. 16. gr., getur próftaki krafist þess að fá afrit af úrlausnum sínum afhent. Skriflegum úrlausnum skal eytt á tryggilegan hátt að þeim tíma liðnum og er sveinsprófsnefnd ábyrg fyrir þeirri framkvæmd.
Um varðveislu upplýsinga sem unnar eru upp úr prófúrlausnum á sveinsprófi fer eftir ákvæðum laga um Þjóðskjalasafn Íslands.
18. gr.
Sveinsprófaskrá.
Menntamálaráðherra heldur skrá yfir alla er lokið hafa sveinsprófi í löggiltum iðngreinum.
19. gr.
Umsýsluaðilar sveinsprófa.
Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. getur menntamálaráðherra samið við aðra aðila, svo sem sjálfstæða fræðsluaðila á vinnumarkaði, um að annast framkvæmd sveinsprófa. Í samningi skal m.a. koma fram að umsýsluaðili prófanna sjái um framkvæmd þeirra, auglýsi þau, skrái próftaka til prófs og útvegi sveinsprófsnefnd vinnuaðstöðu.
20. gr.
Viðurkenning á iðnmenntun erlendra einstaklinga.
Menntamálaráðherra getur veitt umsögn um iðnmenntun erlendra einstaklinga utan EES-svæðisins er óska eftir að starfa í löggiltri iðngrein hér á landi. Gengið skal úr skugga um að inntak hins erlenda náms sé sambærilegt við hliðstætt starfsnám hér á landi með samanburði við íslenska námskrá í viðkomandi iðngrein. Umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini á frummálinu þar sem inntak náms er tilgreint, þýðing á prófskírteini á íslensku, ensku eða Norðurlandamál og upplýsingar um starfsreynslu á viðkomandi sviði. Þá fylgi umsókn einnig ljósrit úr vegabréfi með persónuupplýsingum.
Menntamálaráðherra getur heimilað einstaklingi með starfsmenntapróf erlendis frá að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi ef framlögð námsgögn hans leyfa ekki samanburð við íslenska námskrá.
Heimilt er að taka til sveinsprófs einstaklinga sem lokið hafa iðnnámi erlendis og gengist undir mat á námi sínu hér á landi, en teljast ekki uppfylla skilyrði um nám í almennum greinum samkvæmt íslenskri námskrá.
21. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 30. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 525/2000 um sveinspróf með áorðnum breytingum.
Menntamálaráðuneytinu, 20. júlí 2009.
Katrín Jakobsdóttir.
Baldur Guðlaugsson.