Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Fjármálaráðuneyti

484/1992

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns. - Brottfallin

I. kafli 

 Upphafsákvæði.

1. gr.

Endurgreiða skal hluta virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa eða laugarvatns þannig að álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu nemi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna enda sé sala á orkunni til framangreindra nota.

II. kafli

Um endurgreiðslur.

2. gr.

Endurgreiðsla skal ákvörðuð þannig að af álögðum virðisaukaskatti vegna sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa eða laugarvatns skal endurgreiða þann hundraðshluta sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.

Eftirtaldir aðilar eiga rétt til endurgreiðslu vegna sölu á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns og skal þeim endurgreiddur tilgreindur hundraðshluti af álögðum virðisaukaskatti:

Hitaveita Bessastaðahrepps 18%

Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar 61%

Hitaveita Suðureyrar 55%

Hitaveita Hvammstanga 6%

Hitaveita Blönduóss 35%

Hitaveita Hríseyjar 32%

Hitaveita Akureyrar 60%

Hitaveita Reykjahlíðar 6%

Hitaveita Egilsstaða og Fella 43%

Hitaveita Rangæinga 58%

Selfossveitur vegna Hitaveitu Eyra 58%

Hitaveita þorlákshafnar 20%

Hitaveita Suðurnesja 27%

Bæjarveitur Vestmannaeyja 55%

Orkubú Vestfjarða 62%

Rafmagnsveitur ríkisins 58%

Endurgreiðsluhlutfall vegna sölu rafmagns til hitunar húsa og laugarvatns skal vera 62% af álögðum virðisaukaskatti. Eftirtalin veitufyrirtæki eiga rétt til endurgreiðslu: Rafmagnsveita Reykjavíkur, Rafveita Hafnarfjarðar, Rafveita Akraness, Rafveita Borgarness, Orkubú Vestfjarða, Rafveita Sauðárkróks, Rafveita Akureyrar, Rafveita Húsavíkur, Rafveita Reyðarfjarðar, Bæjarveitur Vestmannaeyja, Hitaveita Suðurnesja, Selfossveitur BS, Rafveita Hveragerðis og Rafmagnsveitur ríkisins.

3. gr.

Hvert endurgreiðslutímabil samkvæmt reglugerð þessari er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember.

Aðilar sem um ræðir í 2. gr. skulu eigi síðar en 15. dag næsta mánaðar eftir lok endurgreiðslutímabils senda viðkomandi skattstjóra greinargerð um sölu sína á viðkomandi endurgreiðslutímabili á hita eða rafmagni til hitunar húsa eða laugarvatns.

Greinargerð skv. 2. mgr. skal vera á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

4. gr.

Skattstjóri skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og leiðrétta hana ef hún er í ósamræmi við reglugerð þessa eða önnur fyrirmæli skattyfirvalda. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu. Innheimtumaður annast endurgreiðslu.

Hafi beiðni um endurgreiðslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram eigi síðar en 5. dag næsta mánaðar eftir skiladag.

Frestur þessi framlengist þó ef skattstjóri getur vegna aðstæðna aðila ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim sem beiðnin byggist á.

Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með greinargerð næsta endurgreiðslutímabils.

III. kafli 

 Færslur í bókhald, ársreikninga o.fl.

5. gr.

Sá sem fær endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal færa hana á sérstakan tekjureikning í bókhaldi sínu. þá skal endurgreiðslan tilgreind annað hvort sérstaklega í ársreikningi sem fylgir skattframtali eða í skýringum með honum.

Að öðru leyti gildir, eftir því sem við getur átt, reglugerð nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

6. gr.

Auk skilyrða um form og efni sölureikninga skv. 4. gr. reglugerðar nr. 501/1989 skal tilgreina sérstaklega á sölureikningi endurgreiðslufjárhæð og mismun álagðs virðisaukaskatts og endurgreiðslufjárhæðar.

Frádráttarbær innskattur hjá virðisaukaskattsskyldum aðilum af innkaupum samkvæmt þessari reglugerð er sá mismunur álags virðisaukaskatts og endurgreiðslufjárhæðar sem kemur fram á sölureikningi skv. 1. mgr.

IV. kafli

Ýmis ákvæði.

7. gr.

Vegið meðalverð skv. 1. gr. reglugerðarinnar miðast við upplýsingar um árlega orkusölu og orkuverð sem iðnaðarráðuneytið aflar og aðrar forsendur sem það ákveður nánar.

Endurskoða skal meðalorkuverð skv. 1. mgr. og endurgreiðsluhlutfall skv. 2. gr. reglugerðarinnar a.m.k. árlega með hliðsjón af síðustu upplýsingum sem fyrir liggja skv. 1. mgr. og skulu breytingar sem leiða af þeirri endurskoðun birtar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

8. gr.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf, látin í té í því skyni að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, öðlast gildi 1. janúar 1993.

Fjármálaráðuneytið, 29. desember 1992.

f.h.r.
Indriði H. Þorláksson

Jón H. Steingrímsson

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica