1. gr.
Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt til erlendra ferðamanna af varningi sem þeir hafa fest kaup á hér á landi að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar. Endurgreiða skal að lágmarki þá fjárhæð sem tilgreind er í töflum á fylgiskjali við reglugerð þessa.
2. gr.
Einungis er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt til ferðamanna með erlent ríkisfang og erlenda heimilisfesti. Til sönnunar ríkisfangi skal leggja fram vegabréf. Útlendingar með fasta búsetu hérlendis eiga ekki rétt á endurgreiðslu.
3. gr.
Það er skilyrði endurgreiðslu að kaupandi vörunnar hafi hana með sér af landi brott innan 30 daga frá því er kaup gerðust og framvísi henni ásamt tilskildum endurgreiðslugögnum, sbr. 4. gr., við endurgreiðslufyrirtæki eða eftir atvikum tollyfirvöld við brottför.
Til að endurgreiðsla fáist verður að uppfylla öll eftirtalinna skilyrða:
a. Kaupandi hafi vöruna á brott með sér úr landi innan mánaðar frá því að kaupin voru gerð.
b. Kaupverð vörunnar með virðisaukaskatti nemi minnst 4.000 kr.
c. Vörunni sé framvísað ásamt tilskildum gögnum við brottför, sbr. 4. og 6. gr.
Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af vörum á einum og sama vörureikningi sé kaupverð þeirra samtals 4.000 kr. eða meira ásamt virðisaukaskatti, þó einn eða fleiri munir nái ekki tilskilinni lágmarksfjárhæð.
4. gr.
Við sölu skal fylla út endurgreiðsluávísun þar sem fram komi eftirtaldar upplýsingar:
a. Nafn og heimilisfang seljanda.
b. Dagsetning er kaup gerast.
c. Vörutegund og magn.
d. Verð vörunnar með virðisaukaskatti.
e. Fjárhæð sem óskast endurgreidd.
f. Nafn, heimilisfang og vegabréfsnúmer kaupanda.
Seljandi skal fylla út liði a-e en kaupandi lið f. Frumrit ávísunarinnar þannig útfylltrar skal afhenda kaupanda. Búa skal um vöruna í lokuðum og innsigluðum umbúðum.
Endurgreiðsluávísanir vegna sölu á vörum sem bera 14% virðisaukaskatt skulu auðkenndar með áberandi hætti.
5. gr.
Aðilar, sem til þess hafa hlotið leyfi fjármálaráðuneytisins, annast endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari.
Við brottför úr landi um alþjóðaflugvöllinn á Keflavíkurflugvelli skal kaupandi framvísa varningi í innsigluðum umbúðum ásamt endurgreiðsluávísun til endurgreiðsluaðila, er leysir hana til sín, enda séu skilyrði reglugerðar þessarar að öðru leyti uppfyllt. Ef fjárhæð endurgreiðslu nemur hærri fjárhæð en 5.000 kr. skulu tollyfirvöld hafa staðfest útflutning vöru með áritun á ávísunina. Ákvæði þessarar málsgreinar skulu jafnframt gilda við brottför ferðamanna frá öðrum stöðum, ef aðili sem hlotið hefur heimild skv. 1. mgr. annast endurgreiðslu á virðisaukaskatti við brottför.
Við brottför annars staðar frá landinu skal varningi í innsigluðum umbúðum framvísað við tollgæsluna sem ganga skal úr skugga um að skilyrði fyrir endurgreiðslu séu fyrir hendi. Séu öll skilyrði uppfyllt skal tollgæslan staðfesta það með áritun sinni á ávísunina. Kaupandi skal innan þriggja mánaða frá staðfestingu tollyfirvalda afhenda eða senda ávísunina til endurgreiðsluaðila, sem leysir hana til sín.
6. gr.
Endurgreiðsluaðili skal fyrir 5. hvers mánaðar senda skattstjóranum í því umdæmi er endurgreiðsluaðili hefur lögheimili uppgjörsskýrslu vegna endurgreiðslna síðastliðins mánaðar. Uppgjörsskýrsla skal vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Fallist skattstjóri á uppgjörsskýrslu skal endurgreiðsluaðili fá endurgreidda heildarfjárhæð þess virðisaukaskatts sem erlendir ferðamenn hafa greitt af keyptri vöru samkvæmt uppgjörsskýrslu.
Hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal innheimtumaður annast greiðsluna innan tíu daga frá lokum skilafrests skv. 1. mgr. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skal endurgreiðsla fara fram innan tíu daga frá því að skattstjóri samþykkti greiðslu. Geti skattstjóri, af ástæðum er varða endurgreiðsluaðila, ekki gert nauðsynlegar athuganir á uppgjörsskýrslu eða gögnum sem skýrslugjöf byggist á, framlengist greiðslufrestur ríkissjóðs þar til úr þeim annmörkum hefur verið bætt.
7. gr.
Komi í ljós að greiðsla til endurgreiðsluaðila hafi verið of há skal skattstjóri þegar tilkynna viðkomandi innheimtumanni og endurgreiðsluaðila þar um. Endurgreiðsluaðila ber að endurgreiða innheimutmanni það sem ofgreitt var eigi síðar en sjö dögum eftir dagsetningu tilkynningar skattstjóra. Um dráttarvexti vegna of hárrar greiðslu fer eftir vaxtalögum nr. 25/1987.
8. gr.
Endurgreiðsluaðila ber að varðveita endurgreiðsluávísanir, uppgjör og önnur gögn er varða endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt reglugerð þessari í sjö ár frá lokum viðkomandi árs.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 500/1989, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna, með síðari breytingum.
Fjármálaráðuneytinu, 6. maí 1997.
F. h. r.
Indriði H. Þorláksson.
Bergþór Magnússon.
Fylgiskjal:
A. Tafla vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vörum sem bera 24,5% virðisaukaskatt.
Sölufjárhæð Endurgreiðsla Sölufjárhæð Endurgreiðsla Sölufjárhæð Endurgreiðsla
4.001-4.500 550 16.001-16.500 2.300 28.001-28.500 3.900
4.501-5.000 650 16.501-17.000 2.400 28.501-29.000 4.000
5.001-5.500 750 17.001-17.500 2.450 29.001-29.500 4.100
5.501-6.000 800 17.501-18.000 2.500 29.501-30.000 4.200
6.001-6.500 900 18.001-18.500 2.550 30.001-30.500 4.300
6.501-7.000 950 18.501-19.000 2.600 30.501-31.000 4.400
7.001-7.500 1.000 19.001-19.500 2.700 31.001-31.500 4.500
7.501-8.000 1.050 19.501-20.000 2.800 31.501-32.000 4.600
8.001-8.500 1.100 20.001-20.500 2.900 32.001-32.500 4.700
8.501-9.000 1.200 20.501-21.000 3.000 32.501-33.000 4.750
9.001-9.500 1.300 21.001-21.500 3.050 33.001-33.500 4.800
9.501-10.000 1.400 21.501-22.000 3.100 33.501-34.000 4.850
10.001-10.500 1.500 22.001-22.500 3.150 34.001-34.500 4.900
10.501-11.000 1.550 22.501-23.000 3.200 34.501-35.000 5.000
11.001-11.500 1.600 23.001-23.500 3.250 35.001-35.500 5.100
11.501-12.000 1.650 23.501-24.000 3.300 35.501-36.000 5.200
12.001-12.500 1.750 24.001-24.500 3.350 36.001-36.500 5.300
12.501-13.000 1.850 24.501-25.000 3.400 36.501-37.000 5.400
13.001-13.500 1.900 25.001-25.500 3.450 37.001-37.500 5.500
13.501-14.000 1.950 25.501-26.000 3.500 37.501-38.000 5.600
14.001-14.500 2.000 26.001-26.500 3.550 38.001-38.500 5.700
14.501-15.000 2.100 26.501-27.000 3.600 38.501-39.000 5.800
15.001-15.500 2.200 27.001-27.500 3.700 39.001-39.500 5.900
15.501-16.000 2.250 27.501-28.000 3.800 39.501-40.000 6.000
____________________________________________________________________________________________
Ef sölufjárhæð fer yfir 40.000 kr. skal endurgreiða 15% af sölufjárhæð. Endurgreiðslan
skal ætíð ákvörðuð í hundruðum króna.
B. Tafla vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vörum sem bera 14% virðisaukaskatt.
Sölufjárhæð Endurgreiðsla Sölufjárhæð Endurgreiðsla Sölufjárhæð Endurgreiðsla
4.000-5.000 300 16.001-17.000 1.350 28.001-29.000 2.350
5.001-6.000 400 17.001-18.000 1.450 29.001-30.000 2.400
6.001-7.000 500 18.001-19.000 1.500 30.001-31.000 2.500
7.001-8.000 600 19.001-20.000 1.600 31.001-32.000 2.600
8.001-9.000 700 20.001-21.000 1.700 32.001-33.000 2.650
9.001-10.000 750 21.001-22.000 1.800 33.001-34.000 2.750
10.001-11.000 850 22.001-23.000 1.850 34.001-35.000 2.850
11.001-12.000 950 23.001-24.000 1.950 35.001-36.000 2.900
12.001-13.000 1.000 24.001-25.000 2.000 36.001-37.000 3.000
13.001-14.000 1.100 25.001-26.000 2.100 37.001-38.000 3.100
14.001-15.000 1.200 26.001-27.000 2.200 38.001-39.000 3.150
15.001-16.000 1.250 27.001-28.000 2.250 39.001-40.000 3.250
____________________________________________________________________________________________
Ef sölufjárhæð fer yfir 40.000 kr. skal endurgreiða 8% af sölufjárhæð. Endurgreiðslan skal ætíð ákvörðuð í hundruðum króna.