REGLUGERÐ
um vörugjald af ökutækjum.
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
Upphafsákvæði.
1. gr.
Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum, sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, ökutækjahlutum og öðrum vörum, eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari, sbr. 87. kafla viðauka við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
Gjaldskyldar vörur og framleiðsla.
2. gr.
Gjaldskylda skv. 1. gr. nær til allra vara, sbr. II. kafla, nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins, framleiddar eru eða unnið er að hér á landi. Vörur sem seldar eru úr landi eru þó ekki gjaldskyldar.
Gjaldskylda vegna aðvinnslu að ökutækjum, sem leiðir til hækkunar á gjaldflokki sbr. 3. og 4. gr., varir í fimm ár frá nýskráningardegi.
Við flokkun vara til gjaldskyldu skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987. Ákvæði tollalaga gilda jafnframt um úrskurðarvald í ágreiningsmálum um tollflokkun vara.
II. KAFLI
Gjaldflokkar og gjaldtegundir.
Gjaldflokkar ökutækja.
3. gr.
Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. grein, skal lagt vörugjald í eftirfarandi fjórum gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar mælt í rúmsentimetrum:
_______________________________________________________
Flokkur |
Sprengirými aflvélar |
Gjald í % |
_______________________________________________________
I |
0 -1400 |
30 |
_______________________________________________________
4. gr.
Vörugjald af eftirtöldum vörum skal vera sem hér segir:
1. 10% vörugjald:
Dráttarvélar.
2. 15% vörugjald:
a. Tengivagnar og festivagnar, til vöruflutninga, íbúðar eða ferðalaga, sem ekki eru vélknúnir, og yfirbyggingar á þá.
b. Kranabifreiðar og borkranabifreiðar.
c. Grindur með hreyfli fyrir vélknúin ökutæki.
d. Yfirbyggingar, þ.m.t. ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
e. Hópferðabifreiðar fyrir 18 farþega eða fleiri að meðtöldum ökumanni.
3. 30% vörugjald:
a. Dráttarbifreiðar, þ.e. bifreiðar sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki.
b. Hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga og skráð eru fyrir 10 til 17 farþega að meðtöldum ökumanni.
c. Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga.
d. Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl. sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein.
e. Ökutæki sem knúin eru rafhreyfli.
4. 70% vörugjald:
a. Bifhjól (þ.m.t. stigin bifhjól) og reiðhjól með hjálparvél.
b. Beltabifhjól (vélsleðar).
c. Fjórhjól.
d. Önnur vélknúin ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í þessum kafla.
5. gr.
Við álagningu og innheimtu vörugjalds samkvæmt þessari reglugerð flokkast það í innflutningsvörugjald, aðvinnsluvörugjald og viðbótarvörugjald.
1. Innflutningsvörugjald er lagt á innflutt ökutæki og ökutækjahluti samkvæmt gjaldflokki við tollafgreiðslu.
2. Aðvinnsluvörugjald er lagt á framleiðslu eða breytingu á ökutækjum eða ökutækjahlutum samkvæmt gjaldflokki ökutækja eftir aðvinnslu.
3. Viðbótarvörugjald er lagt á vegna hækkunar á gjaldflokki ökutækja við aðvinnslu. Það leggst á eftir aðvinnslu og er mismunur á vörugjaldi samkvæmt gjaldflokki ökutækis eftir aðvinnslu og gjaldflokki þess fyrir aðvinnslu.
III. KAFLI
Um vörugjald af innflutningi.
Gjaldskyldir aðilar.
6. gr.
Gjaldskyldir eru allir þeir sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur, hvort sem er til eigin nota eða endursölu.
Þeir sem um ræðir í 3. gr. tollalaga, nr. 55/1987, eru þó undanþegnir gjaldskyldu við innflutning, enda fullnægi þeir settum skilyrðum um tollfrjálsan innflutning.
Gjaldstofn vegna innflutnings.
7. gr.
Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum, innflutningsvörugjalds, er tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 8.-12. gr. tollalaga, nr. 55/1987.
Álagning og greiðslufrestur vegna innflutnings.
8. gr.
Vörugjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal lagt á og innheimt við tollafgreiðslu. Leyfishafar skv. reglugerð nr. 309/1992, um tollafgreiðslu og greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar tollskjöl eru send milli tölva, hafa greiðslufrest eins og hann er ákveðinn í þeirri reglugerð.
9. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal, að ósk innflytjanda, fresta innheimtu vörugjalds af skráningarskyldum ökutækjum þar til þau eru skráð samkvæmt umferðarlögum, þó ekki lengur en í sex mánuði frá tollafgreiðsludegi. Ákvæði þetta tekur þó ekki til vöru sem afgreidd er skv. reglugerð nr. 309/1992, sbr. 2. mgr. 8. gr.
10. gr.
Um virðisaukaskatt, sem leggst á vörugjald við tollafgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 31. gr., gilda sömu reglur og ákveðnar eru í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/ 1988, og reglugerð um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli, nr. 640/1989.
Tímabundinn tollfrjáls innflutningur ökutækja.
11. gr.
Um tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja gilda ákvæði reglugerðar nr. 160/1990, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla.
IV. KAFLI
Um vörugjald af innlendri framleiðslu og aðvinnslu.
Gjaldskyldir aðilar.
12. gr.
Gjaldskyldir vegna innlendrar framleiðslu og aðvinnslu eru:
1. Allir þeir sem í atvinnuskyni vinna að eða framleiða hér á landi gjaldskyldar vörur. Aðvinnsla eða framleiðsla vegna eigin nota þessara aðila er einnig gjaldskyld. Framleiðsla eða aðvinnsla á frísvæði er ekki gjaldskyld fyrr en við tollafgreiðslu, sbr. reglugerð nr. 527/1991, um frísvæði.
2. Aðrir aðilar sem vinna að eða framleiða hér á landi gjaldskyldar vörur til eigin nota.
3. Skráðir eigendur ökutækja ef ökutæki þeirra hækka um gjaldflokk við aðvinnslu fyrir nýskráningu eða við breytingu innan fimm ára frá nýskráningardegi.
Skráningarskylda.
13. gr.
Gjaldskyldir aðilar skv. 1. tölul. 12. gr. skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en vörugjaldskyld starfsemi hefst senda tilkynningu um hana til tollstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir. Breytingar, sem verða á starfsemi gjaldskyldra aðila eftir að skráning hefur farið fram, skal tilkynna eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting átti sér stað. Tollstjóri gefur út staðfestingu til skráningarskylds aðila um að skráning hafi átt sér stað.
Tilkynningar skv. 1. mgr. skal senda á eyðublöðum í því formi sem ríkistollstjóri ákveður.
Gjaldstofn vegna framleiðslu eða aðvinnslu innanlands.
14. gr.
Gjaldstofn aðvinnsluvörugjalds vegna ökutækja sem framleidd eru eða sett saman hér á landi áður en þau eru nýskráð og falla undir ákvæði reglugerðar þessarar er verksmiðjuverð þeirra, þ.e. söluverð frá framleiðanda án vörugjalds til óháðs aðila, sbr. 8. gr. tollalaga.
Gjaldstofn aðvinnsluvörugjalds vegna ökutækja eða ökutækjahluta sem hljóta aðvinnslu hér á landi er allur aðvinnslukostnaður, svo sem kostnaður vegna efnivöru, launakostnaður og annar kostnaður sem fellur til við aðvinnslu að meðtalinni álagningu aðvinnsluaðila.
15. gr.
Gjaldstofn viðbótarvörugjalds ökutækja, sem vegna aðvinnslu fyrir nýskráningu flokkast í annan gjaldflokk en við tollafgreiðslu, er upphaflegt tollverð.
Gjaldstofn viðbótarvörugjalds ökutækja, sem vegna aðvinnslu eftir nýskráningu og innan fimm ára frá nýskráningardegi, flokkast í hærri gjaldflokk, er tollverð þegar það hefur verið framreiknað og afskrifað, að viðbættri þeirri verðmætaaukningu sem veldur gjaldflokkshækkun. Tollverð skv. 1. málsl. skal taka breytingum samkvæmt gildandi lánskjaravísitölu við nýskráningu annars vegar og hins vegar að lokinni þeirri breytingu sem leiðir til breytingar á gjaldflokkun ökutækis. Um afskrift tollverðs skulu gilda ákvæði 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 261/1991, um tollverð notaðra ökutækja.
Upplýsingaskylda, skýrsluskil, bókhald og reikningsútgáfa.
16. gr.
Hver sá aðili sem framleiðir eða vinnur að gjaldskyldum vörum, sbr. 12. gr., skal ótilkvaddur skila upplýsingum til tollstjóra í því formi sem ríkistollstjóri ákveður.
Þeir aðilar sem um ræðir í 1. tölul. 12. gr. skulu skila vörugjaldsskýrslu fyrir hvert uppgjörstímabil eigi síðar en á gjalddaga. Þeir skulu að auki skila upplýsingum um hvernig gjaldstofn og gjald sundurliðast eftir ökutækjum.
17. gr.
Skila skal til tollstjóra sérstakri skýrslu um hvert ökutæki sem framleitt er eða hlýtur gjaldskylda aðvinnslu hér á landi innan viku frá sölu eða afhendingu þess og eigi síðar en fimm dögum fyrir nýskráningu, sé um óskráð ökutæki að ræða. Skýrsla þessi skal undirrituð af aðvinnslu- eða framleiðsluaðila og eiganda ökutækis. Sé um að ræða aðila skv. 2. tölul. 12. gr. eru skil þessarar skýrslu lokaskil hans til tollstjóri sem leggur hana til grundvallar álagningu.
Álagning og greiðslufrestur vegna framleiðslu
og aðvinnslu innanlands.
18. gr.
Vörugjald af innlendum framleiðsluvörum eða vörum sem hlotið hafa aðvinnslu hér á landi, aðvinnsluvörugjald, reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru og þjónustu frá aðvinnsluaðila eða framleiðanda og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram.
Viðbótarvörugjald vegna hækkunar á gjaldflokki ökutækja við aðvinnslu, innan fimm ára frá nýskráningardegi, er reiknað og lagt á af tollstjóra samkvæmt sérstakri skýrslu, sbr. 17. gr.
Gjaldanda er heimilt að draga frá innheimtu gjaldi af sölu skv. 1. og 2. mgr. það vörugjald sem hann hefur sannanlega greitt við kaup á hráefni og efnivöru til gjaldskyldrar framleiðslu eða aðvinnslu á viðkomandi uppgjörstímabili.
Hvert uppgjörstímabil vegna gjaldskyldrar innlendrar framleiðslu og aðvinnslu er tveir mánuðir: janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember.
19. gr.
Vörugjaldi af innlendri aðvinnslu og framleiðslu skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Gjalddagi er fimmtándi dagur þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virkan dag á eftir.
Sé vörugjald ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar gjaldi samkvæmt vörugjaldsskýrslu, eða til viðbótar því vörugjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef vörugjaldsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og vörugjald því áætlað, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga vörugjaldsins upphæð er til áætlunar svarar.
Álag skv. 2 mgr. skal vera sem hér segir:
a. 2% álag af þeirri upphæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan virkan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 20%.
b. Álag til viðbótar af vangreiddri upphæð fyrir hvern byrjaðan mánuð, reiknað í fyrsta sinn fyrsta dag næsta mánuðar eftir gjalddaga, hið sama og dráttarvextir eru á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
20. gr.
Aðilar, sem eru gjaldskyldir samkvæmt þessum kafla, skulu haga bókhaldi sínu þannig að tollyfirvöld geti á hverjum tíma gengið úr skugga um réttmæti skýrslna um vörugjald.
Þeir sem vilja njóta frádráttar skv. 3. mgr. 18. gr. skulu færa það vörugjald, sem greitt hefur verið við kaup á hráefnum og efnivöru til gjaldskyldrar aðvinnslu eða framleiðslu eða á gjaldskyldum vörum til endursölu, í sérstakan reikning í bókhaldi.
Niðurstaða reiknings skv. 2. mgr. fyrir hvert uppgjörstímabil færist til frádráttar á vörugjaldsskýrslu við skil til ríkissjóðs.
Þeir sem inna af hendi og afhenda bæði gjaldskylda og gjaldfrjálsa vöru og þjónustu skulu halda hinni gjaldskyldu sölu greinilega aðgreindri í bókhaldi sínu. Einnig skulu þeir halda aðgreindri sölu sem er undanþegin vörugjaldi skv. 22. eða 23. gr. reglugerðar þessarar.
Framleiðendur og aðvinnsluaðilar sem selja bæði gjaldskyldar og gjaldfrjálsar vörur skulu færa gjaldskylda sölu á sérstaka sölureikninga.
Á sölureikningi skal tilgreina gjaldstofn, gjaldflokk og fjárhæð vörugjalds.
V. KAFLI
Undanþágur.
21. gr.
Þrátt fyrir ákvæði I. og II. kafla skal veita eftirgjöf frá gjaldskyldu eftir því sem nánar er kveðið á um í þessum kafla. Lækkun eða niðurfelling gjalds samkvæmt kafla þessum tekur jafnt til vörugjalds af aðvinnslu sem vörugjalds við innflutning. Framvísi eigandi ökutækis sem hlýtur aðvinnslu undanþágu, sem samþykkt hefur verið af tollstjóra, skal aðvinnsluaðili ekki innheimta vörugjald af aðvinnslunni.
Eftirgjöf vörugjalds tekur ekki til ökutækja sem þegar hafa verið skráð.
22. gr.
Eftirtalin ökutæki eru undanþegin vörugjaldi:
1. Án kvaðar um notkun:
a. Dráttarbifreiðar að heildarþyngd 4 tonn eða meira, sem gerðar eru til nota utan þjóðvega.
b. Snjóplógar.
c. Beltabifreiðar (snjóbílar), yfir 700 kg að eigin þyngd, sérstaklega ætlaðar til aksturs í snjó.
d. Sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota.
2. Með kvöð um notkun:
a. Dráttarvélar til nota á lögbýlum.
b. Slökkvibifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.
c. Sjúkrabifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.
d. Ökutæki sem knúin eru rafhreyfli og flutt eru inn eða smíðuð í tilraunaskyni. Undanþága þessi er háð samþykki fjármálaráðuneytis.
e. Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum, sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins.
23. gr.
Vörugjald á ökutæki skal lækka sem hér segir frá því sem kveðið er á um í 3. og 4. gr. með þeim skilyrðum sem nánar eru tilgreind:
1. Af bifreiðum fatlaðra, sérstaklega búnum til flutnings á þeim, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins skal vörugjald lækka í 30%.
2. Af ökutækjum á beltum, undir 700 kg sérstaklega ætluðum til flutninga í snjó, á svæðum þar sem samgöngur með öðrum hætti eru erfiðleikum bundnar verulegan hluta árs skal vörugjald lækka í 30%.
3. Af bifreiðum sem sérstaklega eru útbúnar og notaðar til líkflutninga skal vörugjald lækka í 30%.
4. Af leigubifreiðum til fólksflutninga skal vörugjald lækka um 3/4 hluta þess sem gjaldið er umfram 30%. Að teknu tilliti til eftirgjafar verður því gjald sem hér segir, sbr. 3. gr.:
_______________________________________________________
Flokkur |
Sprengirými aflvélar |
Gjald í % |
_______________________________________________________
I |
0 - 1400 |
30,00 |
_______________________________________________________
24. gr.
Um lækkun vörugjalds af leigubifreiðum skv. 4. tölul. 23. gr. skulu gilda eftirfarandi skilmálar:
1. Kaupandi leigubifreiðar hafi stöðvarleyfi og hafi haft akstur leigubifreiðar að aðalstarfi í a.m.k. þrjú ár.
2. Tekjur kaupanda af leiguakstri hafi síðustu tvö ár fyrir kaup nýrrar bifreiðar verið a.m.k. 70% af heildartekjum hans og skattskyldar árstekjur af leiguakstri eigi lægri en 1.200.000 krónur. Fjárhæð þessi breytist árlega í samræmi við skattvísitölu.
3. Sá sem eftirgjafar nýtur skv. 4. tölul. 23. gr. getur aðeins verið aðnjótandi eftirgjafar vegna einnar bifreiðar hverju sinni.
25. gr.
Sækja skal um eftirgjöf, samkvæmt 2. tölul. 22. gr. og 23. gr., til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem ökutæki var eða verður tollafgreitt. Í umsókn skal koma fram heiti og kennitala umsækjanda, heiti og kennitala innflytjanda, fast númer ökutækis, tegund ökutækis og aðrar þær upplýsingar sem ríkistollstjóri ákveður. Jafnframt skal umsækjandi undirrita yfirlýsingu um notkun ökutækisins og kvöð um greiðslu eftirgefinna gjalda til ríkissjóðs, verði breyting á notkun þess eða skipti það um eigendur innan tiltekins tíma, sbr. 26. gr. Þá skal umsækjandi leggja fram önnur þau gögn er tollstjóri telur fullnægjandi til staðfestingar á að ökutæki og eigandi þess uppfylli skilyrði fyrir undanþágu.
Kaupandi leigubifreiðar sem óskar lækkunar vörugjalds skal leggja fram staðfestingu á stöðvarleyfi, afrit af rekstrarreikningi og skattframtali tveggja síðustu ára staðfestu af skattstjóra.
Tollyfirvöldum er heimilt að þinglýsa kvöð skv. 1. mgr. gefi fjármálaráðuneytið fyrirmæli þar um.
26. gr.
Sá sem notið hefur eftirgjafar skal greiða til ríkissjóðs eftirgefið vörugjald með verðbótum að frádreginni fyrningu sé viðkomandi ökutæki selt eða tekið til annarrar notkunar en lá til grundvallar eftirgjöfinni:
1. Innan fimm ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf skv. 2. tölul. 22. gr. og 1.-3. tölul. 23. gr. og
2. Innan þriggja ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf skv. 4. tölul. 23. gr.
Verðbætur skulu reiknaðar miðað við gildandi lánskjaravísitölu við nýskráningu annars vegar og hins vegar við sölu eða breytingu notkunar.
Fyrning skal vera 1/60 af verðbættri fjárhæð fyrir hvern mánuð frá skráningu ökutækis vegna eftirgjafar skv. 2. tölul. 22. gr. og 1.-3. tölul. 23. gr. en 1/36 verðbættrar fjárhæðar vegna eftirgjafar skv. 4. tölul. 23. gr.
Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við þegar um er að ræða sölu til aðila sem uppfyllir sömu skilyrði til undanþágu og fyrri eigandi, sbr. 2. tölul. 22. eða 23. gr. enda taki hann við skuldbindingum og kvöðum fyrri eiganda.
VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
27. gr.
Tollstjórar annast álagningu og innheimtu vörugjalds samkvæmt reglugerð þessari og hafa með höndum eftirlit.
Álagning innflutningsvörugjalds fer fram í því tollumdæmi þar sem gjaldskyld vara er tollafgreidd. Álagning aðvinnsluvörugjalds og viðbótarvörugjalds fer fram í því tollumdæmi þar sem aðvinnsluaðili hefur lögheimili.
28. gr.
Þeir aðilar, sem skrá og skoða ökutæki, skulu ganga úr skugga um það við skráningu og skoðun ökutækja að gjald skv. reglugerð þessari hafi verið greitt. Komi í ljós að gjald sé vangoldið skal synjað um skráningu eða skoðun ökutækis og viðkomandi tollstjóra þegar tilkynnt um það.
Vörugjald telst vangoldið í eftirtöldum tilvikum:
1. Þegar innflutningsvörugjald hefur ekki verið greitt.
2. Þegar aðvinnsluvörugjald, sbr. 2. tölul. 12. gr., og/eða viðbótarvörugjald, sbr. 3. tölul. 12. gr., sem lagt er á eiganda ökutækis, er gjaldfallið og ógreitt.
3. Þegar aðvinnsluvörugjald vegna aðvinnslu þriðja aðila, sbr. 1. tölul. 12. gr., er gjaldfallið og ógreitt nema eigandi ökutækis framvísi fullgildum reikningi frá viðkomandi aðvinnsluaðila til staðfestingar á greiðslu vörugjalds til hans.
4. Þegar vörugjald, sbr. 2. tölul. 12. gr., sem lagt er á fyrri eiganda ökutækis er gjaldfallið og ógreitt.
5. Þegar ökutæki sem nýtur eftirgjafar skv. 22. eða 23. gr. uppfyllir ekki skilyrði til eftirgjafar skv. þeim greinum.
Við forskráningu og eftir skoðun ökutækja skal skrá í bifreiðaskrá þau atriði er varðað gætu gjaldskyldar breytingar ökutækja.
29. gr.
Eftir eigandaskipti ökutækis ber nýr eigandi ábyrgð á gjaldskyldum breytingum ökutækis sem til álagningar koma eftir umskráningu þess nema hann sýni fram á annað.
30. gr.
Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu vegna lækkunar á vörugjaldi skv. reglugerð þessari.
31. gr.
Vörugjald sem lagt er á samkvæmt reglugerð þessari myndar gjaldstofn til virðisaukaskatts.
32. gr.
Að því leyti sem eigi er ákveðið um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, álagningu, kærumeðferð, úrskurð um innheimtu, vörslusviptingu, veð, uppboð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald skv. 1. gr. reglugerðar þessarar skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, og laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
Breyting á skráningarskyldu frá því sem nú er ákveðið samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/ 1987, hefur ekki áhrif á gjaldskyldu samkvæmt reglugerð þessari.
Gildistökuákvæði.
33. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 28. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., öðlast gildi 1. júlí 1993.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði reglugerðar þessarar skulu taka til allra þeirra vara sem eru óto1lafgreiddar við gildistöku hennar, þó ekki vara sem afhentar hafa verið með bráðabirgðatollafgreiðslu.
Aðilar sem verða gjaldskyldir skv. 1. tölul. 12. gr. reglugerðar þessarar við gildistöku hennar hafa frest til 15. ágúst 1993 til að tilkynna tollstjóra um starfsemi sína.
Fjármálaráðuneytið, 30. júní 1993.
F. h. r.
Jón H. Steingrímsson.
Snorri Olsen.