1. gr.
Frá og með 1. september 2014, má við línuveiðar dagróðrabáta með línu, sem beitt er í landi, landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi, að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum. Heimild þessi er bundin eftirfarandi skilyrðum:
1. | Að línan sé beitt í landi eða stokkuð upp í landi og ekki séu önnur veiðarfæri um borð í bátnum. | |
2. | Að bátur komi til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að haldið var til veiða. | |
3. | Að sjálfvirkt tilkynningakerfi bátsins sé virkt. | |
4. | Að útgerðaraðili tilkynni um fyrirhugaðar línuveiðar til Fiskistofu skv. 4. gr. | |
5. | Að við skráningu afla í löndunarhöfn, í aflaupplýsingakerfið Gafl, komi fram, að veiðarfæri í tilteknum róðri hafi verið landbeitt lína eða lína stokkuð upp í landi samkvæmt upplýsingum útgerðaraðila. |
2. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal línuívilnun í þorski á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir, 1.100 lestir af ýsu og 700 lestir af steinbít, miðað við óslægðan fisk, sem skiptast þannig innan fiskveiðiársins:
Tímabil |
Þorskur |
Ýsa |
Steinbítur |
|
1. |
September - nóvember |
1.080 |
473 |
33 |
2. |
Desember - febrúar |
1.280 |
353 |
105 |
3. |
Mars - maí |
770 |
203 |
425 |
4. |
Júní - ágúst |
245 |
71 |
138 |
3. gr.
Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær líklegt megi telja að viðmiðunarafla hvers tímabils verði náð sbr. 2. gr. Náist ekki að veiða viðmiðunarafla einhvers tímabils bætast ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta tímabils á eftir. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða degi tiltekinn afli reiknast að fullu til aflamarks.
4. gr.
Útgerðaraðili skal tilkynna Fiskistofu fyrirfram um upphaf og lok þess tíma sem línuveiðar samkvæmt 1. gr. eru fyrirhugaðar. Fiskistofa ákveður nánar hvernig tilkynningunni skuli háttað. Tilkynningin gildir aldrei lengur en til loka fiskveiðiárs.
5. gr.
Reglugerð þessi er gefin út með stoð í 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. september 2014. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 664/2010, um línuívilnun, með síðari breytingum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 3. júlí 2014.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Jóhann Guðmundsson.
Baldur P. Erlingsson.