Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

376/2014

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2014. - Brottfallin

1. gr.

Leyfi til veiða á makríl.

Þeim fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og hafa leyfi frá Fiskistofu til makrílveiða samkvæmt reglugerð þessari, er heimilt að stunda veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), utan lögsögu ríkja. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til makrílveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

Útgerðir skipa sem ætla að stunda veiðar á makríl skulu sækja um leyfi til Fiskistofu. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum 30. apríl 2014 og er sérstakur umsóknarfrestur, vegna skipa sem falla undir 2. tl. 1. mgr. 2. gr., til og með 16. maí 2014. Leyfi til makrílveiða skulu gefin út fyrir almanaksárið 2014.

Fari leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2014 yfir 147.721 lest, þar með talið 20.000 lestir á samningssvæði NEAFC, utan lögsögu ríkja, ákveður ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar.

Makríl í færeyskri lögsögu er einungis heimilt að veiða sem meðafla við veiðar á norsk-íslenskri síld. Heildarmakrílafli íslenskra skipa í færeyskri lögsögu skal ekki fara yfir 1.300 lestir. Fiskistofa tilkynnir ráðherra hvenær líklegt megi telja að aflanum verði náð. Ráðherra tilkynnir með auglýsingu frá hvaða tíma óheimilt er að veiða makríl sem meðafla innan færeyskrar lögsögu.

2. gr.

Skipting heildarafla á flokka skipa.

Viðmiðun leyfilegs heildarafla skal ráðstafað til skipa sem stunduðu veiðar á makríl á árunum 2007, 2008 eða 2009, sbr. 4. tl. 1. mgr. þessarar greinar, skipa sem fyrirhugað er að stundi veiðar skv 1. og 2. tl. 1. mgr. þessarar greinar og skipa sem öðluðust leyfi skv. 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2011. Ráðstafað er til skipa í einstökum flokkum, sem hér segir:

  1. 6.000 lestum skal ráðstafað til skipa sem stunda makrílveiðar með línu eða handfærum. Þeim skal skipt eftir veiðitímabilum sem hér segir: 1.300 lestir á tímabilið 1.-31. júlí, 3.000 lestir á tímabilið 1.-31. ágúst og 1.700 lestir á tímabilið 1. september til 31. desember.
  2. 7.917 lestum skal ráðstafað til skipa sem ekki frysta afla um borð enda hafi útgerðir þeirra sýnt fram á að aflinn verði unninn í landi í samræmi við ákvæði 3. gr. Við útgáfu veiðileyfis skal viðkomandi útgerð sýna fram á að til staðar sé gildandi samningur um vinnslu í landi eða jafngilda yfirlýsingu þegar um eigin vinnslu er að ræða. Aflaheimildum þessum skal skipt á milli eftirfarandi stærðarflokka sem hér segir:
    1. Skip 200 BT og yfir.
    2. Skip undir 200 BT.
      Hvert skip sem fellur undir a-lið skal fá í sinn hlut X lestir af makríl. Hvert skip sem fellur undir b-lið skal fá í sinn hlut 0,20 sinnum X lestir af makríl. X skal fundið með eftirfarandi jöfnu: aX + 0,20bX = 7.917 lestir (a er fjöldi skipa sem fellur undir a-lið; b er fjöldi skipa sem fellur undir b-lið). X skal þó aldrei vera hærra en 1.000 lestir.
  3. 330.682 lestum skal ráðstafað til vinnsluskipa sem fengu leyfi skv. 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2011. Skipum skal skipt í þrjá flokka eftir stærð:
    1. Vinnsluskip sem mælast minni en 800 BT.
    2. Vinnsluskip sem mælast 800 - 2.400 BT.
    3. Vinnsluskip sem mælast stærri en 2.400 BT.
    Úthlutun á vinnsluskip sem falla undir a. flokk er 50% af úthlutun skipa sem falla undir b. flokk og úthlutun til skipa sem falla undir c. flokk er 50% meiri en til skipa sem falla undir b. flokk. Heildarúthlutun skv. þessu reiknast skv. eftirfarandi jöfnu:
    Nb×X+Na×X/2+Nc×X×1,5= 30.682.
    N= fjöldi skipa með leyfi til veiða á makríl í viðkomandi flokki,
    X= afli skips í b. flokki.
    Skylt er vinnsluskipum að vinna og frysta allan sinn afla um borð.
  4. 103.121 lest skal ráðstafað til skipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009 og skal skipt hlutfallslega miðað við aflareynslu þeirra á árunum 2007, 2008 til og með 11. júlí 2009, miðað við landaðan afla, að undanskildum sérstökum heimildum til veiða í lögsögu Færeyja.

Hafi skip, sem fellur undir 3. eða 4. tl. 1. mgr., horfið úr rekstri, er síðasta eiganda skips­ins áður en það hvarf úr rekstri heimilt að ákveða á hvaða skip í hans eigu úthlutuðum aflaheimildum er ráðstafað.

Nái þau skip sem njóta leyfis skv. 1. tl. 1. mgr. ekki að veiða heimilaðan viðmiðunarafla á tímabilinu, skal óveiddu aflamagni ráðstafað á næsta tímabil sbr. 1. tl.

Leyfi skipa til makrílveiða skv. 2. tl. 1. mgr. fellur úr gildi ef skip hefur ekki landað a.m.k. 50% af aflaheimildum sínum 20. ágúst 2014. Ónýttum heimildum skipa skal ráðstafa til annarra skipa í sama flokki. Þó er ráðherra heimilt að ráðstafa ónýttum heimildum milli flokka, megi ætla að skip í viðkomandi flokki muni ekki geta veitt það aflamagn sem tilgreint er í hverjum flokki. Við þá tilfærslu skulu njóta forgangs flokkar sem hafa lægra raðtölunúmer skv. 1. mgr. en sá flokkur sem flutt er frá gefi veiði tilefni til.

Á árinu 2014 getur hvert skip aðeins öðlast eitt af veiðileyfum skv. 1.-4. tl. 1. mgr.

3. gr.

Vinnsla til manneldis.

Skylt er að ráðstafa mánaðarlega 70% af makrílafla einstakra skipa til vinnslu. Fiskistofa skal fylgjast með að skilyrði um vinnsluskyldu sé uppfyllt hið minnsta einu sinni í mánuði eftir að skip hefur veiðar.

4. gr.

Takmörkun við framsali aflaheimilda.

Framsal aflaheimilda er óheimilt, að öðru leyti en hér greinir:

  1. Heimilt er að flytja aflaheimildir milli skipa sem falla undir 3.-4. tl. 1. mgr. 2. gr. ef þau eru í eigu sömu útgerðar og í sama flokki. Þá er heimilt að flytja aflaheimildir á milli skipa sem falla undir 2. tl. 1. mgr. 2. gr. sem eru í eigu sömu útgerðar strax eftir að þau hafa veitt 50% af aflaheimildum sínum. Einnig er heimilt að færa aflaheimildir skipa sem falla undir 4. tl. 1. mgr. 2. gr. til skipa sem falla undir 2. og 3. tl. 1. mgr. 2. gr. og heimilt er að færa aflaheimildir skipa sem falla undir 3. tl. 1. mgr. 2. gr. til skipa sem falla undir 2. tl. 1. mgr. 2. gr. enda séu viðkomandi skip í eigu sömu útgerðar.
  2. Heimilt er að flytja allt að 10% af úthlutuðum heimildum fiskiskips frá árinu 2014 til ársins 2015, enda hafi skip ekki sætt skerðingu skv. 4. mgr. 2. gr.
  3. Hverju skipi er heimilt að ráðstafa allt að 10% umfram úthlutaðar heimildir í makríl á árinu 2014 og dregst sá umframafli frá aflaheimildum þess á árinu 2015.
  4. Frá og með 25. ágúst er heimilt að flytja heimildir milli skipa sem falla undir 2.-4. tl. 1. mgr. 2. gr., ef þau eru í sama flokki. Heimilt er að flytja heimildir sem fluttar voru á milli skipa á grundvelli 4. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 327/2013 til baka til þeirra skipa sem þær voru fluttar frá. Ráðherra er heimilt að leyfa flutning milli flokka ef sýnt þykir að aflaheimildir nýtist ekki með öðrum hætti.
  5. Vegna óhjákvæmilegs meðafla er útgerðum skipa skv. 2.-4. t1. 1. mgr. 2. gr. heimilt að skipta á aflaheimildum í makríl og aflaheimildum í síld og kolmunna, þó getur flutningur aldrei numið meiru en 15% af úthlutuðum heimildum skips í makríl, í þeim hlutföllum sem um semst.

5. gr.

Veiðitilhögun.

Makrílveiðar í flottroll eru ekki heimilar nær landi en 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu. Þá eru makrílveiðar í flottroll bannaðar á milli 65°30´N og 68°30´N milli 27°V og 17°V. Þá er heimilt að áskilja að flotvörpuveiðar á makríl skuli aðeins heimilaðar á tilteknu svæði ef varpan er búin meðaflaskilju. Makrílveiðar í net eru óheimilar.

Skipum sem hafa leyfi til makrílveiða er skylt að halda afladagbækur um veiðarnar sbr. reglugerð nr. 557/2007, um afladagbækur, með síðari breytingum. Þar skal fram koma m.a. veiðisvæði, veiðitími og afli í hverju togi. Sé makríll veiddur á línu eða handfæri er heimilt að færa fleiri en eina veiðiferð á hverja síðu í afladagbók. Skal Fiskistofu sent afrit af afladagbókunum eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót eða eftir að veiðum lýkur. Ennfremur skal allur meðafli skráður nákvæmlega.

Sé makríll veiddur í flottroll eða nót, skulu tekin sýni úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera 100-200 stk. af makríl, sem valin eru af handahófi. Gæta skal þess að sýni sé tekið í öllum tilkynn­ingaskyldureitum þar sem skipið stundar veiðar. Sýnin skulu fryst um borð, ræki­lega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnuninni, þegar að lokinni veiðiferð.

Fiskistofa fylgist með afla skipa sem njóta leyfis skv. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. og skal stöðva veiðar með auglýsingu þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers tímabils verði náð.

6. gr.

Fjarskiptabúnaður og tilkynningar.

Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda makrílveiðar sem búin eru fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlits­stöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

7. gr.

Tilkynningar á alþjóðlegu hafsvæði.

Um tilkynningar varðandi makrílveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og taka þær tilkynningar einnig til veiða innan íslensku lögsögunnar. Það gildir þó ekki fyrir skip skv. 1.-2. tl., 1. mgr. 2. gr. stundi þau eingöngu veiðar í íslenskri lögsögu. Auk þessa skal senda aflatilkynningu daglega til eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, stundi skip veiðar í færeyskri lögsögu.

Þá skal skipstjóri í lok hverrar veiðiferðar og áður en komið er til hafnar, tilkynna viðkomandi löndunarhöfn skriflega og á því formi sem Fiskistofa ákveður, um áætlaðan afla.

8. gr.

Vigtun og löndun.

Makrílafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa makrílafla og makrílafurðum í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar makríls utan íslenskra hafna til Fiskistofu, enda skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og hvert er áætlað magn makríls. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda makrílsins eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Um vigtun á makríl gilda ákvæði reglugerðar nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum og ákvæði reglugerðar nr. 246/2008, um vigtun og skráningu meðafla á uppsjávarfiski, með síðari breytingum. Þó skal draga frá 2% af afla hvers skips vegna vatnsinnihalds í makríl miðað við afla upp úr sjó og reiknast það magn ekki til aflaheimilda þess. Sé makríll veiddur á línu eða handfæri skal afla haldið aðgreindum um borð í veiðiskipi eftir tegundum. Verði slíku ekki við komið vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun.

Landi skip frystum afurðum utan Íslands skal tilkynna um það í samræmi við ákvæði 5. kafla reglna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) um fiskveiðieftirlit og framkvæmd þess.

Þegar makríll er reiknaður til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,36.

9. gr.

Eftirlit með veiðum.

Fiskistofa skal hafa eftirlit með því að ákvæði þessarar reglugerðar séu uppfyllt á hverjum tíma.

Sé fyrirhugað að stunda veiðar á bolfiski og makríl í sömu veiðiferð skal skipstjóri til­kynna það Fiskistofu eigi síðar en tveimur virkum dögum fyrir upphaf makrílveiða. Skip­stjóra er skylt að koma til næstu hafnar að sækja eftirlitsmann Fiskistofu, enda hafi Fiski­stofa sent útgerð eða skipstjóra tilkynningu þar að lútandi eigi síðar en einum degi fyrir upphaf veiða. Þetta gildir þó ekki um skip sem stunda makrílveiðar með línu eða handfærum.

10. gr.

Refsingar og viðurlög.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viður­lögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti sakamála.

11. gr.

Lagaheimild, gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 327/2013.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. apríl 2014.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica