REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um einkennisbúninga, merki og
búnað lögreglunnar nr. 528 18. ágúst 1997, sbr. reglugerðir
nr. 716 23. desember 1997 og 603 23. september 1998.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. kafla reglugerðarinnar:
a. Töluliður 1.7 orðast svo:
1.7 Flísfatnaður skal vera úr svörtu flísefni, polartec 200 eða sambærilegu efni. Peysa með tveimur hliðarvösum, rennilás að framan sem lokast upp í háls, svartri styrkingu á öxlum og axlasprotum sem á eru dregnir smeygar með stöðueinkennum. Hægra megin að framan er nafnið LÖGREGLAN sams konar og á skyrtum og vinstra megin lögreglunúmer. Lögreglumerki á báðum ermum, 7 sm neðan við axlasaum. Á peysunni eru hvorki einkennisborðar á ermum né endurskinsborðar. Buxur skulu vera úr sama efni og peysan.
b. Töluliður 1.9 orðast svo:
1.9 Buxur 2 skulu vera úr svörtu, slitsterku efni, þær eru síðar, án uppbrota, með sjö vösum, þar af tveimur vösum á buxnaskálmun 6-7 sm neðan við hliðarvasa og vasa fyrir kylfu innan á hliðarvasa öðru hvoru megin. Við buxur 2 skal nota svart belti með einfaldri sylgju eða innra belti tækjabeltis.
c. Töluliður 1.15 orðast svo:
1.15 Einkennisbúningur 3: Svört síð úlpa og svartar buxur, undir þann fatnað er notaður flísklæðnaður þegar það hentar. Á úlpunni eru axlasprotar sem á eru dregnir smeygar með stöðueinkennum. Lögreglumerki eru á báðum ermum og stöðueinkenni á ermum þar sem það á við. Á baki og hægra megin á brjósti er orðið LÖGREGLAN með endurskinsstöfum, lögreglunúmer á vinstra brjóstvasaloki, fölblá skyrta, svart bindi, svartir skór, svartur strokkur, svartir hanskar. Svört kuldahúfa (húfa 3) með lögreglumerki úr málmi eða húfa 2.
d. Töluliður 1.17 orðast svo:
1.17 Samsetning einkennisbúninga: Ekki er heimilt að nota hluta einkennisbúninga 2 eða 3 með einkennisbúningi 1 en heimilt er að nota buxur 1 með fölblárri skyrtu við einkennisjakka 2 og 3 og húfu 1 þar sem það er sérstaklega heimilað í reglugerð þessari. Heimilt er að nota saman hluta einkennisfatnaðar 2 og 3, svo sem buxur 2 er heimilt að nota með jakka 3 og flísfatnað með einkennisbúningi 2. Húfu 2 er heimilt að nota með einkennisjakka 3. Flísfatnað er heimilt að nota með einkennisbúningum og samfestingi. Endurskinsvesti er notað utan um einkennisfatnað eða við sérstakar lögregluaðgerðir með húfu 2 án einkennisfatnaðar. Regnfrakki er eingöngu notaður með einkennisbúningi 1.
2. gr.
Töluliður 3.5 orðast svo:
3.5 Belti skal vera svart.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. kafla reglugerðarinnar:
a. Töluliður 5.6 orðast svo:
5.6 Endurskinsvesti skal vera úr neongulu polyester efni með svörtum bryddingum úr sama efni. Endurskin vestisins skal a.m.k. uppfylla CE staðal EN 471. Framan á vestið skal áprentað með svörtu letri orðið LÖGREGLAN, stafagerð Arial, hæð leturs 2,5 sm. Á baki vestisins skal áprentað orðið LÖGREGLAN og þar fyrir neðan POLICE með Arial letri 4-5 sm á hæð. Heimilt er að hafa sömu merkingar að framan og á baki.
Vestið skal að jafnaði nota þegar skuggsýnt er og slæmt skyggni og/eða við sérstakar lögregluaðgerðir, þ.á.m. með vísun til 1. málsliðar töluliðar 6.5.
b. Töluliður 5.10 orðast svo:
5.10 Annar fatnaður. Til afnota fyrir lögreglumenn við sérstakar aðstæður getur lögreglustjóri látið þeim í té eftir þörfum; öryggishjálma, sloppa, samfestinga, rúllukragapeysur, vinnuvettlinga, öryggisgleraugu og gúmmístígvél.
Við sérstök störf er lögreglumönnum heimilt að klæðast bláum samfestingi með lögreglumerkjum á báðum ermum, endurskinsborða á ermum og skálmum og orðið Lögreglan á baki. Sprotar skulu vera á samfestingi sem á eru dregnir smeygar með stöðueinkennum en önnur stöðueinkenni eða lögreglumerki eru ekki á samfestingi.
c. Töluliður 5.12. orðast svo:
5.12 Kylfa og úðavopn. Allir lögreglumenn, sem til þess hafa hlotið þjálfun, skulu að jafnaði bera á sér kylfu og úðavopn við störf. Þeir lögreglumenn sem að jafnaði starfa innan lögreglustöðvar skulu bera slík vopn í samræmi við eðli þeirra verkefna sem þeir sinna á hverjum tíma. Óheimilt er að nota kylfur og úðavopn af annarri gerð en þeirri sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt.
d. Töluliður 5.13 orðast svo:
5.13 Handjárn. Allir lögreglumenn skulu að jafnaði bera á sér handjárn við störf. Þeir lögreglumenn sem að jafnaði starfa innan lögreglustöðvar skulu bera handjárn í samræmi við eðli þeirra verkefna sem þeir sinna á hverjum tíma. Óheimilt er að nota aðra gerð handjárna en þá sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt.
e. Töluliður 5.16 orðast svo:
5.16 Notkun tækjabeltis. Tækjabelti með tilheyrandi búnaði er notað með einkennisfatnaði 2, 3 og samfestingi þegar það á við, en ekki með einkennisfatnaði 1. Lögreglumenn skulu að jafnaði nota tækjabelti, en við störf innan lögreglustöðvar er tækjabelti notað í samræmi við eðli verkefna hverju sinni. Heimilt er að nota tækjabelti utan um jakka 3 og samfestinga.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 6. kafla reglugerðarinnar:
a. Töluliður 6.1 orðast svo:
6.1 Klæðnaður almennt. Lögreglumenn skulu klæðast einkennisbúningi 2 eða 3 og nota einkennishúfu 2 eða 3 við dagleg störf, samkvæmt reglugerð þessari. Með einkennisbúningi 2 og 3 skal alltaf nota fölbláa einkennisskyrtu , sbr. tölulið 1.6.
Lögreglumönnum er heimilt að vera án einkennisjakka, í heil- eða hálferma einkennisskyrtum og án einkennishúfu við störf innan lögreglustöðvar og í lögreglubifreiðum. Heimilt er að vera án einkennisjakka við störf utandyra á góðviðrisdögum.
Ríkislögreglustjóri getur sett reglur um samræmi klæðaburðar.
b. Töluliður 6.2 orðast svo:
6.2 Snyrtilegur klæðnaður. Lögreglan skal ætíð vera snyrtileg í klæðaburði við störf. Einkennisfatnaði skal halda vel við og hann skal vera hreinn. Lögreglustjórar og aðrir yfirmenn lögregluliða sjá um að klæðnaður lögreglunnar sé í samræmi við reglugerð þessa.
c. Töluliður 6.4 orðast svo:
6.4 Klæðaburður ríkislögreglustjóra, vararíkislögreglustjóra, lögreglustjóra í Reykjavík, varalögreglustjóra í Reykjavík og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins.
Ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjóri í Reykjavík, varalögreglustjóri í Reykjavík og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins skulu klæðast einkennisbúningi samkvæmt reglugerð þessari við dagleg störf.
Ríkislögreglustjóri getur heimilað ofangreindum embættismönnum að vera óeinkennisklæddir við störf í sérstökum tilvikum.
Öðrum lögreglustjórum en þeim sem taldir eru upp í 1. mgr. og staðgenglum þeirra er ekki skylt að klæðast einkennisbúningi við dagleg störf en þeir skulu klæðast einkennisbúningi samkvæmt reglugerð þessari við störf sem sérstaklega lúta að lögreglustjórn, við opinber eða hátíðleg tækifæri, sérstakar móttökur o.þ.h.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8. kafla reglugerðarinnar:
a. Töluliður 8.6 orðast svo:
8.6 Armmerki skal vera hringlaga úr svörtu klæði, 8,2 sm í þvermál. Lögreglumerki, skv. lýsingu í 8.1, skal ísaumað í miðju armmerkis með gylltum þræði. Yst á armmerkinu, allan hringinn, skal vera ísaumuð gyllt rönd 2 mm á breidd og önnur eins rönd, 1 sm innar, utan við horn lögreglumerkis. Efst á merkinu, á milli hringjanna, skal vera ísaumað með gylltum þræði LÖGREGLAN, leturgerð Arial, eða sambærilegt, stafahæð 8 mm.
Armmerki sem notað er á einkennisbúninga við alþjóðleg lögreglustörf, sbr. 8.8, má hafa orðið POLICE milli hringjanna í stað orðsins LÖGREGLAN.
Lögreglumerki í húfu 2 er sams konar og innri hringur armmerkis með ísaumuðu lögreglumerki.
b. Töluliður 8.8 orðast svo:
8.8 Merki Sameinuðu þjóðanna. Íslenskum lögreglumönnum sem starfa í alþjóðlegum lögreglusveitum Sameinuðu þjóðanna er heimilt að nota einkennisbúninga lögreglunnar samkvæmt reglugerð þessari. Heimilt er að merkja slíka einkennisbúninga með merkjum Sameinuðu þjóðanna og nota með sérstökum einkennisfatnaði og húfum Sameinuðu þjóðanna.
Á báðum ermum einkennisjakka 1, 2, 3 og flíspeysu skal vera landsmerki 10 x 2 sm, hvítir stafir á bláum grunni ICELANDIC POLICE. Undir því merki á hægri ermi skal koma merki Sameinuðu þjóðanna og þar undir armmerki lögreglunnar, sbr. 8.6. Á vinstri ermi undir landsmerki skal koma láréttur íslenski fáninn í stærð 4 x 5,5 sm en þar undir armmerki lögreglunnar, sbr. 8.6.
Á baki jakka 2 og 3 skal vera orðið POLICE, hæð stafa 10 sm og leturgerð Arial og hægra megin yfir brjóstvasa að framan í endurskinsborðanum.
Ríkislögreglustjóri getur sett nánari reglur um merkingar og einkennisfatnað sem notaður er í alþjóðlegu lögreglusamstarfi.
6. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. kafla reglugerðarinnar:
a. Töluliður 10.1 orðast svo:
10.1 Axlasprotar. Stöðueinkenni úr málmi skulu vera á axlasprotum á jakka 1 og staðsett milli 10 mm breiðra gylltra borða sem eru á jöðrum sprotanna. Sprotarnir skulu festir til endanna með lögregluhnöppum, minni gerð nær kraga en stærri gerð nær axlarbrún.
b. Töluliður 10.2 orðast svo:
10.2 Axlasmeygar. Á öðrum fatnaði en jakka 1 skal draga smeyga með stöðueinkennum á axlasprota. Stöðueinkenni á smeygum eru 3 eða 6 mm þverborðar nær axlabrún, saumaðir með gylltum þræði með 3 mm bili. Önnur stöðueinkenni eru ísaumuð með gylltum þræði, samskonar og á sprotum á jakka 1. Allir smeygar hafa 3 mm þverborða nær kraga.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 13. kafla reglugerðarinnar:
a. Töluliður 13.1 orðast svo:
13.1 Almennt. Þeir sem taldir eru upp í 11. kafla reglugerðarinnar skulu fá úthlutað einkennisfatnaði skv. þessari reglugerð. Við afgreiðslu einkennisfatnaðar lögreglu skal taka fullt tillit til þess að fatnaður henti báðum kynjum.
Öllum lögreglumönnum sem skipaðir eru til starfa skv. 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er skylt að eiga tiltækan einkennisfatnað 1, 2 og 3.
b. Töluliður 13.4 orðast svo:
13.4 Lögreglustjórar, varalögreglustjórar, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærður fulltrúi sem er staðgengill lögreglustjóra.
Lögreglustjórar, varalögreglustjórar, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og löglærðir fulltrúar sem eru staðgenglar lögreglustjóra skulu fá einkennisfatnað samkvæmt reglugerð þessari, eftir því sem þurfa þykir, eftir ákvörðun ríkislögreglustjóra.
8. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 40. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 28. júní 1999.
Sólveig Pétursdóttir.
Björg Thorarensen.