Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

1043/2004

Reglugerð um menntun sjóntækjafræðinga og takmarkanir á heimild þeirra til sjónmælinga. - Brottfallin

1. gr.
Réttur til að mæla sjón.

Sjónmæling er mæling á sjónskekkju og sjónlagi augans með og án sjónhjálpartækja.

Rétt til að mæla sjón vegna gleraugna og til að ávísa á gleraugu hafa sjóntækjafræðingar sem hafa menntun sem fullnægir kröfum um sjónmælingar og ávísun á gleraugu og fengið hafa leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Miðað skal við þriggja ára háskólanám í greininni.

Rétt til að mæla sjón vegna snertilinsa og til að ávísa á snertilinsur hafa sjóntækjafræðingar sem uppfylla skilyrði 2. mgr. auk skilyrða um menntun til slíkra mælinga. Miðað skal við 10 vikna fullt nám í snertilinsufræðum á háskólastigi.

Leyfi skv. 2. og 3. mgr. skal veita íslenskum ríkisborgurum, ríkisborgurum í öðru aðildarríki EES-samningsins og í Sviss, sem lokið hafa prófi sem veitir rétt til sjónmælinga, frá skóla sem viðurkenndur er af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið var stundað í.

Leita skal umsagnar prófessorsins í augnlækningum við Háskóla Íslands, Félags íslenskra sjóntækjafræðinga og landlæknis áður en leyfi er veitt.

Í leyfisbréfi skal koma fram réttur sjóntækjafræðings til sjónmælinga vegna gleraugna og ávísunar á gleraugu og réttur til sjónmælinga vegna snertilinsa og ávísunar á snertilinsur.


2. gr.
Staðfesting réttar til að mæla sjón.

Rétt til að mæla sjón vegna gleraugna hafa sjóntækjafræðingar sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á sjóntækjafræðingsleyfi sem veitir rétt til að mæla sjón og ávísa á gleraugu og uppfylla skilyrði 2. gr. laga um sjóntækjafræðinga og reglugerðar nr. 244/1994 um staðfestingu starfsleyfa nokkurra heilbrigðisstétta samkvæmt ákvæðum EES samningsins.

Rétt til að mæla sjón vegna gleraugna og snertilinsa hafa sjóntækjafræðingar sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á sjóntækjafræðingsleyfi sem veitir rétt til að mæla sjón og ávísa á gleraugu og snertilinsur og uppfylla skilyrði 2. gr. laga um sjóntækjafræðinga og reglugerðar nr. 244/1994 um staðfestingu starfsleyfa nokkurra heilbrigðisstétta samkvæmt ákvæðum EES samningsins.


3. gr.
Réttur til smíði sjónhjálpartækja.

Sjóntækjafræðingar sem ekki uppfylla skilyrði um menntun skv. 1. gr. eða staðfestingu réttinda skv. 2. gr. mega einungis fullvinna gleraugu og máta snertilinsur samkvæmt tilvísun og/eða forskrift augnlæknis eða sjóntækjafræðings, sem hefur rétt til sjónmælinga skv. 1. eða 2. gr.


4. gr.
Leiðbeiningarskylda.

Sé um að ræða sjónmælingu einstaklings sem náð hefur 60 ára aldri og hefur ekki farið til augnlæknis síðastliðin fimm ár skal sjóntækjafræðingur benda viðkomandi á að leita til augnlæknis til að láta meta aldurstengda augnsjúkdóma.


5. gr.
Takmarkanir á rétti til að mæla sjón.

Sjóntækjafræðingar sem rétt hafa til að mæla sjón skv. 1. eða 2. gr. mega ekki vinna sjónhjálpartæki án fyrirsagnar augnlæknis til eftirfarandi einstaklinga:

1. Barna undir 12 ára aldri.
2. Fólks sem aldrei hefur farið til augnlæknis.
3. Sjúklinga sem hafa skilgreindan augnsjúkdóm eða sjúkdóma sem skaðlegir gætu verið sjón, svo sem sykursýki, alvarlega gigtarsjúkdóma og skjaldkirtilssjúkdóma, nema staðfest sé að sjúklingurinn sé í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni.
4. Fólks sem á nána ættingja með gláku, nema staðfest sé að það sé í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni.
5. Fólks sem ekki nær betri sjón en 6/9 á hvoru auga fyrir sig með gleraugum.
6. Hafi sjón versnað skyndilega, séu takmarkanir á sjónsviði, sé einstaklingur rangeygður eða hafi tvísýni.


6. gr.
Leyfisbréf.

Sjóntækjafræðingur sem fengið hefur leyfi til að mæla sjón skal hafa slíkt leyfisbréf eða staðfestingu leyfis á áberandi stað á starfsstöð sinni þannig að það sé örugglega sýnilegt þeim sem sækja sér þjónustu viðkomandi sjóntækjafræðings.


7. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 5. gr. laga nr. 17/1984, með síðari breytingum öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.

Sjóntækjafræðingar sem uppfylla menntunarskilyrði til sjónmælinga hafa frest til 1. apríl 2005 til að sækja um leyfi til sjónmælinga skv. 1. gr. eða staðfestingu á leyfi til sjónmælinga skv. 2. gr.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 17. desember 2004.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica