1. gr.
Á eftir 6. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar greinar sem verða 6. gr. a. og 6. gr. b. svohljóðandi:
6. gr. a.
Notkun á moltu og kjötmjöli á beitilönd eða lönd sem notuð eru til fóðurgerðar.
Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. nóvember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl.
Þó er heimilt að bera moltu og kjötmjöl að vori á land sem síðan er unnið til túnræktar, kornræktar eða til ræktunar einærra fóðurjurta, enda sé borið á landið áður en jarðvinnsla fer fram þannig að moltan eða kjötmjölið gangi niður í jarðveginn.
Umbúðir og fylgiseðlar áburðar úr kjötmjöli og moltu skulu merktar með eftirfarandi áletrun: "Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni - Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. nóvember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl."
6. gr. b.
Markaðssetning og notkun á kjötmjöli sem áburði.
Kjötmjöl, sem er markaðssett eða notað sem áburður skal blandað með nægu magni af viðurkenndum efnum, sem hindra að það sé notað sem fóður. Þessi efni geta verið kalk, húsdýraáburður, húsdýraþvag, molta eða leifar frá lífgasframleiðslu eða önnur efni t.d. ólífrænn áburður, sem eru óæt og fyrirbyggja nýtingu kjötmjölsins í fóður. Efnin skulu viðurkennd af Matvælastofnun og skal blöndunin fara fram á framleiðslustað kjötmjölsins.
2. gr.
Lagastoð.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 13. og 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, 7. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum og 17. gr. a laga nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Þó tekur ákvæði 6. gr. b. um íblöndun efna til þess að fyrirbyggja nýtingu kjötmjölsins í fóður gildi 1. september 2012.
Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 820/2007 um meðferð og nýtingu á slátur- og dýraleifum, með síðari breytingum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 30. apríl 2012.
F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.
Baldur P. Erlingsson.