Menntamálaráðuneyti

711/2009

Reglugerð um skipan og störf starfsgreinaráða.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til skipanar starfsgreinaráða, starfa þeirra og flokkunar starfs­greina.

2. gr.

Hlutverk og skipan.

Menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka. Þau eru, hvert á sínu sviði, ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi.

Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fimm til níu fulltrúar. Um fjölda fulltrúa í einstökum starfsgreinaráðum og tilnefningaraðila fer samkvæmt því sem nánar greinir í 5. gr. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Starfsgreinaráð kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna til tveggja ára í senn.

Formaður starfsgreinaráðs tekur sæti í starfsgreinanefnd, sbr. 27. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

3. gr.

Starfsgreinaflokkar.

Starfsgreinaráð eru skipuð í eftirtöldum starfsgreinaflokkum:

  1. bygginga- og mannvirkjagreinum,
  2. heilbrigðis-, félags- og uppeldisgreinum,
  3. hönnunar- og handverksgreinum,
  4. matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum,
  5. málmtækni-, vélstjórnar- og framleiðslugreinum,
  6. rafiðngreinum,
  7. samgöngu-, farartækja- og flutningsgreinum,
  8. skrifstofu- og verslunargreinum,
  9. snyrtigreinum,
  10. umhverfis- og landbúnaðargreinum,
  11. upplýsinga- og fjölmiðlagreinum.

4. gr.

Fulltrúar í starfsgreinaráðum.

Við val á fulltrúum í starfsgreinaráð skal miða við að tilnefndir séu einstaklingar sem hafa góða þekkingu á starfssviði viðkomandi starfsgreinaflokks, hafa reynslu af fræðslu­starfsemi á því sviði og þekkja þá stefnu sem mótuð hefur verið um þróun starfs­náms er undir ráðið heyrir.

Þeir sem tilnefna fulltrúa í starfsgreinaráð skulu gæta fyrirmæla 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

5. gr.

Tilnefningar í starfsgreinaráð.

Í starfsgreinaráði bygginga- og mannvirkjagreina eiga sæti níu fulltrúar, fjórir til­nefndir af Alþýðusambandi Íslands og fjórir tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði heilbrigðis-, félags- og uppeldisgreina eiga sæti níu fulltrúar, þrír tilnefndir af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndur af félags- og tryggingamálaráðuneyti, einn tilnefndur af heilbrigðisráðuneyti og einn tilnefndur af mennta­málaráðuneyti. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhalds­skóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði hönnunar- og handverksgreina eiga sæti sjö fulltrúar, þrír tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og þrír tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina eiga sæti sjö fulltrúar, þrír tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og þrír tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði málmtækni-, vélstjórnar- og framleiðslugreina eiga sæti níu fulltrúar, fjórir tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og fjórir tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennara­sambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði rafiðngreina eiga sæti sjö fulltrúar, þrír tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og þrír tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sam­eigin­lega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði samgöngu-, farartækja- og flutningsgreina eiga sæti sjö fulltrúar, þrír til­nefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn til­nefndur af Samtökum atvinnulífsins, einn tilnefndur af Bílgreinasambandinu og einn tilnefndur af Félagi skipstjórnarmanna. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði skrifstofu- og verslunargreina eiga sæti sjö fulltrúar, tveir tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og þrír fulltrúar tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði snyrtigreina eiga sæti fimm fulltrúar, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins og tveir tilnefndir af Félagi íslenskra snyrtifræðinga. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði umhverfis- og landbúnaðargreina eiga sæti sjö fulltrúar, tveir tilnefndir af Bændasamtökum Íslands, tveir tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitar­félaga. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennara­sambandi Íslands.

Í starfsgreinaráði upplýsinga- og fjölmiðlagreina eiga sæti sjö fulltrúar, tveir tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Blaðamannafélagi Íslands og þrír fulltrúar tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Einn fulltrúi er tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands.

6. gr.

Verkefni starfsgreinaráða.

Starfsgreinaráð hafa með höndum eftirtalin verkefni:

  1. að skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni sem námsbrautalýsingar fyrir við­komandi starfsgreinar byggjast á og eru hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla,
  2. að gera tillögur um lokamarkmið starfsnáms í samræmi við ramma um hæfni­viðmið viðkomandi lokaprófs,
  3. að gera tillögur að námsbrautarlýsingum fyrir einstakar námsbrautir sem framhalds­skólar geta haft til viðmiðunar,
  4. að setja viðmið fyrir skiptingu náms í skóla og náms á vinnustað,
  5. að gera tillögur um uppbyggingu og inntak lokaprófa í starfsnámi á sínu sviði,
  6. að veita umsögn um námsbrautarlýsingar starfsnáms sem einstakir skólar leita eftir staðfestingu á,
  7. að vera ráðgefandi við mat á beiðni einkaskóla um viðurkenningu á starfrækslu starfsnámsbrauta,
  8. að halda skrá yfir fyrirtæki og vinnustaði sem uppfylla skilyrði til vinnustaðanáms,
  9. önnur verkefni sem ráðherra felur starfsgreinaráði hverju sinni.

7. gr.

Verklag starfsgreinaráða.

Starfsgreinaráð ákveður skipulag sitt og setur sér verklagsreglur um framkvæmd verk­efna sinna, sbr. 6. gr.

Við meðferð einstakra mála og í tillögum sínum skal starfsgreinaráð leitast við að hafa samráð og samstarf við tilnefningaraðila sína í atvinnulífinu og samtökum þess og efla samstarf skóla og atvinnulífs um málefni starfsmenntunar.

Starfsgreinaráð skal leita álits starfsgreina og faghópa sem ekki eiga beina aðild að ráðinu þegar metnar eru menntunarþarfir og fjallað er að öðru leyti um starfsmenntun í þeim greinum. Í þessu skyni getur starfsgreinaráð nýtt sér heimild um stofnun fagráða, sbr. 26. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, og skal þá starfsgreinaráð móta reglur um verksvið þeirra.

Starfsgreinaráð getur falið öðrum aðila en fagráði undirbúning einstakra verkefna eða hluta þeirra, sbr. 6. gr., eða óskað eftir því við menntamálaráðherra að skipa hópa eða vinnunefndir til að taka að sér einstök verkefni í umboði ráðsins.

Starfsgreinaráð skal fyrir 1. febrúar ár hvert skila skýrslu til menntamálaráðherra um störf sín á síðastliðnu ári.

8. gr.

Kostnaður og þjónusta við starfsgreinaráð.

Tilnefningaraðilar greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í starfsgreinaráði. Mennta­mála­ráðuneytið greiðir kostnað við störf starfsgreinanefndar, sbr. 27. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Menntamálaráðuneytið greiðir árlegt framlag til að standa straum af kostnaði við almenna starfsemi starfsgreinaráðs og gerir um það samning við viðkomandi starfs­greina­ráð eða við annan aðila sem tekur að sér umsýslu með starfsemi ráðsins.

Menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af sérfræðilegri vinnu skv. 6. gr., eftir því sem við á, samkvæmt sérstökum verksamningum.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 25. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 475/2001 um skipan starfs­greina­ráða með síðari breytingum.

Menntamálaráðuneytinu, 20. júlí 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica