Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

146/2007

Reglugerð um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð. - Brottfallin

1. gr.

Styrkir til kaupa á heyrnartækjum.

Einstaklingar 18 ára og eldri sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu >30 dB <70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz eiga rétt á styrk að fjárhæð 30.800 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins vegna kaupa á heyrnartækjum hjá rekstrarleyfishöfum, sbr. reglugerð um sölu heyrnar­tækja

Hver einstaklingur getur mest notið styrkja hjá Tryggingastofnun ríkisins eða greiðslu­þátttöku hjá Heyrnar- og talmeinastöð, sbr. reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar, fyrir tvö heyrnartæki, eitt fyrir hvort eyra, á hverju fjögurra ára tímabili. Heimilt er að víkja frá þessu ef heyrn breytist umtalsvert að mati háls-, nef- og eyrnalæknis þannig að talin er nauðsyn á nýju heyrnartæki. Framvísa skal vottorði því til staðfestingar.

Heyrnar- og talmeinastöð skal miðla upplýsingum til Tryggingastofnunar ríkisins um greiðsluþátttöku í heyrnartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

2. gr.

Umsóknir til Tryggingastofnunar ríkisins.

Sækja skal um styrk vegna kaupa á heyrnartækjum hjá rekstrarleyfishöfum til Trygg­ingastofnunar ríkisins. Með umsókn um styrk skal fylgja greiðslukvittun frá sölu­aðila og niðurstöður heyrnarmælinga, framkvæmdar af háls-, nef- og eyrnalækni eða heyrnarfræðingi sem hlotið hefur fullnægjandi menntun sem slíkur, sem sýna að umsækjandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 1. gr. Sé heyrnarmæling ekki framkvæmd af háls-, nef- og eyrnalækni eða löggiltum heyrnarfræðingi þarf jafnframt vottorð háls-, nef- og eyrnalæknis þar sem staðfest er að viðkomandi hafi þörf fyrir heyrnartæki.

Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið að umsóknir skuli gerðar á sérstökum eyðu­blöðum sem stofnunin útbýr.

3. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 4. mgr. 37. gr. a og 4. mgr. 37. gr. b laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu og 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, öðlast þegar gildi. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 1117/2006, um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð.

Þeir sem hafa keypt heyrnartæki hjá rekstrarleyfishafa, samanber reglugerð um sölu heyrnartækja, eftir 1. janúar 2007 og uppfylla skilyrði 1. gr. eiga rétt á styrk frá Trygg­ingastofnun ríkisins samkvæmt reglugerð þessari.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 26. febrúar 2007.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica