Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

1117/2006

Reglugerð um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð. - Brottfallin

1. gr.

Styrkir til kaupa á heyrnartækjum.

Einstaklingar 18 ára og eldri sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu >30 dB <50 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz geta sótt um styrki til Tryggingastofnunar ríkisins vegna kaupa á heyrnartækjum hjá rekstrarleyfishafa, sbr. reglugerð nr. 1116/2006 um sölu heyrnartækja og tengda þjónustu.

2. gr.

Umsóknir til Tryggingastofnunar ríkisins.

Með umsókn um styrk vegna kaupa á heyrnartæki skulu fylgja niðurstöður heyrnarmælinga og mat læknis á þörf fyrir heyrnartæki, sbr. reglugerð nr. 1116/2006 um sölu heyrnartækja og tengda þjónustu, sem sýna að umsækjandi uppfylli skilyrði 1. gr. ásamt fullnægjandi greiðslukvittun frá söluaðila tækisins.

Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið að umsóknir skuli gerðar á sérstökum eyðublöðum sem stofnunin útbýr.

3. gr.

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins.

Fullnægi umsækjandi skilyrðum 1. gr. skal Tryggingastofnun ríkisins greiða honum styrk að fjárhæð 30.800 kr. fyrir hvert heyrnartæki en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði tækis.

Hver umsækjandi getur mest notið styrkja hjá Tryggingastofnun ríkisins eða greiðsluþátttöku hjá Heyrnar- og talmeinastöð, sbr. reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar, fyrir tvö heyrnartæki, eitt fyrir hvort eyra, á hverju fjögurra ára tímabili. Heimilt er að víkja frá þessu ef heyrn breytist umtalsvert að mati sérgreinalæknis í heyrnarfræði (háls-, nef- og eyrnalækningum) þannig að talin er nauðsyn á nýju heyrnartæki. Framvísa skal vottorði því til staðfestingar.

Heyrnar- og talmeinastöð skal miðla upplýsingum til Tryggingastofnunar ríkisins um greiðsluþátttöku í heyrnartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

4. gr.

Söfnun og skil upplýsinga.

Tryggingastofnun ríkisins skal halda skrá yfir þá sem fá styrki samkvæmt reglugerð þessari. Þar skulu koma fram upplýsingar um kennitölu og kyn styrkþega, niðurstöðu heyrnarmælingar raðnúmer og tegund heyrnartækis sem styrkur er veittur fyrir. Þessum upplýsingum skal skila ársfjórðungslega til landlæknis í samræmi við 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

5. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 4. mgr. 37. gr. a og 4. mgr. 37. gr. b laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu og 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, öðlast gildi 1. janúar 2007.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 28. desember 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica