1. gr.
Rétt til þess að kalla sig matvælafræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn, er hefur fengið til þess leyfi heilbrigðismálaráðherra.
2. gr.
Starfsleyfi samkv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hafa B.S. prófi í matvælafræðum frá Háskóla Íslands. Ráðherra getur að fenginni umsögn Matvæla- og næringafræðingafélags Íslands og þeirrar deildar Háskóla Íslands, þar sem matvælafræði eru kennd, veitt þeim starfsleyfi, ótakmarkað eða tímabundið, sem lokið hafa sambærilegu háskólaprófi erlendis. Í þeim tilvikum skal umsækjandi sanna þekkingu sína í íslenskri matvælalöggjöf og mæltu og rituðu íslensku máli, séu um erlenda ríkisborgara að ræða.
3. gr.
Matvælafræðingur skal starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um matvæli og aðrar neysluvörur. Starfssvið matvælafræðinga er á heilbrigðisstofnunum, kennslustofnunum heilbrigðisstétta og matvælastofnunum. Matvælafræðingar starfa á eigin ábyrgð.
4. gr.
Óheimilt er að ráða sem matvælafræðinga aðra en þá, sem hafa starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari.
5. gr.
Matvælafræðingi er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt hann láti af störfum. Sömu reglur gilda um starfólk það sem matvælafræðingar kunna að hafa í starfi.
6. gr.
Matvælafræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar, er varða starfið.
7. gr.
Um matvælafræðinga gilda að öðru leyti reglur læknalaga nr. 80/1969, svo sem um viðurlög við brotum í starfi, sviptingu starfsleyfis og endurveitingu starfsleyfis.
8. gr.
Ráðherra getur í auglýsingu sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar reglugerðar.
9. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, öðlast þegar gildi.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 1. september 1987.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson