Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

215/1987

Reglugerð um störf, starfsvettvang og starfshætti þroskaþjálfa - Brottfallin

1. KAFLI

Réttindi.

1. gr.

1.1. Rétt til þess að kalla sig þroskaþjálfa og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn er til þess hefur fengið leyfi heilbrigðisráðherra.

1.2. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veita þeim, sem lokið hafa prófi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands (áður Gæslusystraskóli Íslands).

1.3. Einnig má veita þeim leyfi, sem lokið hafa hliðstæðu námi erlendis, sé námið viðurkennt sem slíkt af hlutaðeigandi yfirvöldum þess lands, þar sem námið er stundað. Áður en slík leyfi eru veitt skal leita umsagnar Félags þroskaþjálfa og Þroskaþjálfaskóla Íslands.

 

2. gr.

2.1. Óheimilt er að ráða til þroskaþjálfastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi.

 

II. KAFLI

Störf.

3. gr.

3.1.  Þroskaþjálfar starfa að þjálfun, uppeldi og umönnun fatlaðra í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

3.2. Þroskaþjálfar stjórna þroskaþjálfun og bera ábyrgð á henni.

3.3. Með þroskaþjálfun skal á fræðilegan og skipulegan hátt stefnt að því að koma fötluðum til aukins þroska. Skal hún taka mið of breytilegum þörfum í samræmi við aldur og sérþarfir mismunandi einstaklinga.

3.4. Markmið þroskaþjálfunar er hæfing að samfélaginu þar sem gengið skal út frá því að fatlaðir taki fullan þátt í samfélaginu með hliðsjón of sérþörfum hvers og eins. Skal það gert í samvinnu við hinn fatlaða, foreldra og forráðamenn og aðrar fagstéttir.

3.5. Þroskaþjálfar skulu samræma ráðgjöf og fella að starfi sínu eins og þroskaþjálfun er framkvæmd hverju sinni samkvæmt lögum og reglum.

3.6. Þroskaþjálfar skulu í störfum sínum leggja sérstaka áherslu á skyldur samfélagsins við hina fötluðu og stuðla að því að samfélagið mæti þörfum þeirra.

 

III. KAFLI

Starfsvettvangur.

4. gr.

4.1.  Þroskaþjálfar starfa þar sem fatlaðir dveljast um stund eða til lengri tíma þar sem þroskaþjálfun fer fram.

       Þeir starfa m.a. í: Atvinnumiðlun, dagvistun barna, Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, heimilum, leikfangasöfnum, sjúkrastofnunum, skóladagheimilum, tómstundaheimilum, vinnustöðum, þjálfunarstofnunum og þjónustumiðstöðvum.

 

 

IV. KAFLI

Starfshættir.

5. gr.

5.1.  Markmið þjálfunar skal vera að örva alhliða þroska hins fatlaða og skal ferill þjálfunar vera sem hér segir:

1.      Greining á færni einstaklingsins og athugun á aðstæðum hans.

2.      Skilgreind þjálfunarmarkmið.

3.      Skilgreindar aðferðir/leiðir að þjálfunarmarkmiðum.

4.      Skipulegt endurmat

5.      Uppsetning og framfylgni nýrra markmiða með hliðsjón of endurmati.

 

6. gr.

6.1. Þjálfun skal grundvallast í meginatriðum af:

       1   Atferli daglegs lífs (ADL), til þess að hæfa fatlaða að viðurkenndum háttum hins daglega lífs og stuðla að auknu sjálfstæði og þroska. ADL þjálfun tekur yfir:

a)  Frumþjálfun.

b)  Félagsþjálfun.

c)  Samfélagsþjálfun.

2.    Hreyfiþjálfun, sem byggir á líkamsþjálfun og tekur til einstakra hluta líkamans og samspils í hreyfingum og skynjun. Hreyfiþjálfun tekur yfir:

a)  Þjálfun grófhreyfinga.

b)  Þjálfun fínhreyfinga.

c)  Samhæfing hreyfingar og skynjunar.

      3   Skynþjálfun, sem miðar að því að þekkja líkama sinn og sjálf og skynja umhverfi sitt. Skynþjálfun tekur yfir:

a) Sjálfskynjun/tengsl.

b) Þjálfun snertiskyns.

c) Þjálfun heyrnarskyns.

d) Þjálfun sjónskyns.

e) Þjálfun litarskyns og formskyns.

f)  Þjálfun bragðskyns og þefskyns.

       4.  Málþjálfun, sem miðar að því að örva tjáskipti með málörvandi samskiptum, umhverfis- og athafnatengingu orða. Málaþjálfun tekur yfir:

a)  Þjálfun talfæra.

b)  Þjálfun málskilnings.

c)  Þjálfun tjáningar.

d)  Setningamyndun.

       5.  Hugsanamiðlun, sem felur í sér kerfisbundna þjálfun til undirbúnings leiks, náms og starfs. Hugsanamiðlun tekur yfir:

a)  Hugtakaþjálfun.

b)  Flokkun - pörun - stöflun - röðun.

c)  Atburðarás í tíma.

d)  Afstöðu hluta í rúmi.

e)  Tengingu atburða í athöfnum.

f)   Talnaskilning.

g)  Forþjálfun lesturs og skriftar.

 

Uppeldi.

7. gr.

7.1. Markmið uppeldis er að efla alhliða þroska í hvetjandi uppeldisumhverfi sem skal byggt á þeim grunni að allir geti nýtt sér reynslu sína, lært og þroskast við réttar aðstæður. Skal einkum lögð áhersla á:

       1.  Að tilfinningar nái að þroskast eðlilega.

       2.  Að móta jákvæða sjálfsmynd.

       3.  Að fatlaðir takist á við verkefni, leiti réttar síns, aðlagist samfélaginu og mæti kröfum þess.

       4.  Að hafa áhrif á gildismat óháð fötlun og ytri aðstæðum.

       5.  Að stuðla að þroska til þess að meta rétt og rangt með umburðarlyndi, ábyrgðarkennd og hjálpsemi.

       6.  Að stuðla að markvissu uppeldi sem skapar aukna möguleika til þátttöku í leik, námi og starfi.

 

8. gr.

Umönnun.

8.1. Með umönnun skal h1úð að líkamlegri og andlegri velferð fatlaðra. Ummönnun skal miða að því að auðvelda fötluðum aðgang að almenningsþjónustu. Umönnun tekur yfir:

       1.  Daglega umhirðu og fæðugjöf.

       2.  Eftirlit með daglegu og almennu heilsufari.

       3.  Aðhlynningu.

       4.  Eftirlit með geðrænum hegðunarvandkvæðum og meðferð samkv. fyrirmælum lækna eða sálfræðinga.

            5.         Lyfjagjafir og eftirlit með verkunum lyfja samkvæmt fyrirmælum lækna.

            6.         Ráðstafanir vegna þeirra sem þarfnast skyndilegrar sjúkrahúsvistunar.

8.2. Umönnun skal veitt í samráði við lækna og hjúkrunarfræðinga og að fengnum fyrirmælum þeirra sé um að ræða lækningar eða hjúkrun.

 

V. KAFLI

Skyldur.

9. gr.

9.1. Sérhverjum þroskaþjálfa er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt viðkomandi láti of starfi.

 

10. gr.

10.1. Þroskaþjálfum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem þroskaþjálfar. Þroskaþjálfum og stéttarfélagi þeirra ber að vinna gegn því að eftir þeim séu birt ummæli eða samtöl eða um þá ritaðar greinar í blöð eða tímarit í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber þeim eða stéttarfélagi þeirra jafnskjótt að leiðrétta það sem ofmælt kann að hafa verið.

 

11. gr.

11.1. Vanræki þroskaþjálfi skyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við fyrirmæli heilbrigðislaga landsins skal landlæknir áminna viðkomandi.

Komi áminning ekki að haldi ber landlækni að kæra málið fyrir ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að viðkomandi skuli sviptur starfsleyfi, en skjóta má þeim úrskurði til dómstóla.

11.2. Þroskaþjálfa ber að viðhalda þekkingu sinni. Telji landlæknir að þroskaþjálfi hafi sýnt að hann uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem krefjast beri of honum skýrir hann ráðherra frá málavöxtum. Ráðherra leitar álits Þroskaþjálfaskóla Íslands. Fallist hann á álit landlæknis má svipta viðkomandi starfleyfi, en skjóta má þeim úrskurði til dómstóla.

11.3. Um endurfengi starfsleyfis fer samkv. 1. gr.

 

12. gr.

12.1. Þroskaþjálfar skulu færa skrár eftir því sem landlæknir krefst. Óheimilt er að ónýta þær nema með leyfi landlæknis.

 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

13. gr.

13.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar geta, auk sviptingar leyfis, sbr. 12. gr. varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi. Að öðru leyti gilda ákvæði 18. greinar læknalaga, nr. 80/1969, eftir því sem við á.

 

14. gr.

14.1. Ákvæði læknalaga, nr. 80 frá 23. júní 1969, skulu gilda að öðru leyti um þroskaþjálfa eftir því sem við á.

 

15. gr.

15.1. Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 9. gr. laga nr. 18/1978, um þroskaþjálfa, og 2. gr. laga nr. 24/1985, um starfsleyfi og starfsréttindi heilbrigðisstétta, öðlast gildi þegar við birtingu.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 18. maí 1987.

 

Ragnhildur Helgadóttir.

                                                    Ingimar Sigurðsson

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica