I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um lækna sem hafa lækningaleyfi og sérfræðileyfi landlæknis skv. 2. og 6. gr.
II. KAFLI
Almennt lækningaleyfi.
2. gr.
Starfsheiti.
Rétt til að kalla sig lækni og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.
3. gr.
Skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis.
Leyfi skv. 2. gr. má veita þeim sem lokið hafa embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og viðbótarnámi skv. 4. gr.
Einnig má staðfesta starfsleyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001.
Þá er heimilt að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.
Um frekari skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis fer skv. 17. gr.
4. gr.
Viðbótarnám.
Viðbótarnám skal vera tólf mánuðir á viðurkenndri heilbrigðisstofnun samkvæmt fylgiskjali 3 með reglugerð þessari. Þar af skulu að minnsta kosti fjórir mánuðir vera á lyflækningadeild, tveir mánuðir á handlækningadeild og þrír mánuðir á heilsugæslustöð.
Tímalengd viðbótarnáms miðast við fullt starf. Við lengri fjarvistir lengist námið að öllu jöfnu sem því nemur og ákveður umsjónarmaður viðbótarnáms tímalengd.
Heimilt er að veita undanþágu frá reglu um 100% starfshlutfall og heimila læknakandídat að stunda viðbótarnám í hlutastarfi, þó að lágmarki í 50% starfi, enda lengist tími hvers hluta viðbótarnámsins hlutfallslega sem því nemur. Störf sem unnin eru áður en embættisprófi í læknisfræði er lokið eða utan við skipulagðan tíma í viðbótarnámi reiknast ekki inn í námstíma.
Heimilt er að ljúka viðbótarnámi skv. 1., 2. og 3. mgr. erlendis, að hluta eða að öllu leyti, á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er til slíks náms af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum í því ríki þar sem námið er stundað.
5. gr.
Umsagnir.
Áður en leyfi er veitt skv. 2. gr. á grundvelli menntunar utan Íslands skv. 3. mgr. 3. gr. skal landlæknir leita umsagnar læknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 3. gr. og skilyrði 4. gr. um menntun og viðbótarnám.
III. KAFLI
Sérfræðileyfi.
6. gr.
Sérfræðileyfi.
Rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan læknisfræði og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.
7. gr.
Skilyrði fyrir sérfræðileyfi.
Sérfræðileyfi má veita í sérgreinum læknisfræði. Skilyrði er að sérfræðinám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til. Viðkomandi sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi.
Til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skv. 6. gr. skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:
Einnig má staðfesta sérfræðileyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða veita sérfræðileyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001.
Þá er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.
Einnig er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi í landi sem gerir sambærilegar kröfur um nám og gerðar eru í reglugerð þessari enda þótt námstilhögun sérfræðináms hafi verið frábrugðið kröfum samkvæmt reglugerð þessari.
Um frekari skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 17. gr.
8. gr.
Mat sérnáms.
Sérnám skv. 10. gr. má einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í viðkomandi landi. Ráðherra veitir heilbrigðisstofnunum hér á landi slíka viðurkenningu samkvæmt tillögu nefndar þriggja lækna sem metur starfsemi þeirra. Einn nefndarmanna skal skipaður samkvæmt tilnefningu læknadeildar og er hann formaður og tveir samkvæmt tilnefningu Læknafélags Íslands, annar skal vera sérfræðingur í heimilislækningum og hinn sérfræðingur á sjúkrahúsi. Nefndin endurskoðar matið eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti og leitar umsagnar hjá framhaldsmenntunarráði, viðkomandi sérgreinafélögum og forstöðumönnum kennslugreina, sbr. fylgiskjal 1 og 2.
9. gr.
Nánar um sérnám.
Ráðherra er heimilt að setja reglur um sérnám hér á landi að fengnum tillögum læknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Tillögur læknadeildar skulu gerðar að fengnum tillögum framhaldsmenntunarráðs og viðkomandi sérgreinafélags. Í reglunum skal kveðið nánar á um fyrirkomulag námsins, meðal annars hvort það skuli stundað samkvæmt marklýsingu, hvort því ljúki með prófi og hversu stór hluti sérnáms megi fara fram á hérlendum heilbrigðisstofnunum.
Læknar sem stunda sérnám skulu vera í fullu starfi á þeim heilbrigðisstofnunum þar sem þeir nema.
Frá þessu ákvæði má þó veita undanþágu ef önnur námstilhögun þykir jafngild að mati læknadeildar. Nám á sérfræðinámskeiði má viðurkenna í stað takmarkaðs hluta tilskilins starfstíma á heilbrigðisstofnun.
Áunnin sumarleyfi og vaktafrí sem tekin eru á námstímanum reiknast sem hluti af heildarnámstíma.
Við lengri fjarvistir lengist námið að öllu jöfnu sem því nemur.
Um frekari skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 17. gr.
10. gr.
Sérgreinar.
Sérfræðileyfi má veita að loknu formlegu viðurkenndu sérfræðinámi á eftirtöldum sérsviðum læknisfræði samkvæmt töluliðum I-XXVI. Heildarnámstími skal eigi vera skemmri en fjögur og hálft ár í aðalgrein.
Til að hljóta einnig sérfræðileyfi í undirsérgrein innan viðkomandi aðalgreinar skal umsækjandi hafa hlotið sérfræðileyfi í viðkomandi aðalgrein og hafa lokið tveggja ára formlega viðurkenndu sérfræðinámi í undirgreininni. Með undirgrein er átt við frekari sérhæfingu á fræða- og starfssviði sem fellur innan viðkomandi aðalgreinar.
Í stað eins árs í aðalgrein, sbr. a-lið í eftirfarandi töluliðum, er sérfræðinefnd skv. 16. gr. heimilt að viðurkenna eins árs nám á deild eða stofnun þar sem vísindalegar rannsóknir sem tengjast viðkomandi sérgrein fara fram.
I. Atvinnulækningar:
II. Augnlækningar:
III. Barnalækningar:
Veita má sérfræðingi í almennum barnalækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem í barnaefnaskiptalækningum, barna- og unglingageðlækningum, barnahjartalækningum, barnakrabbameinslækningum, barnataugalækningum, meltingar- og næringarsjúkdómum barna, nýburalækningum, smitsjúkdómum barna, ofnæmis- og ónæmislækningum barna o.s.frv.
IV. Barna- og unglingageðlækningar:
V. Blóðgjafarfræði:
VI. Bráðalækningar:
VII. Bæklunarskurðlækningar:
Veita má sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum sérfræðileyfi í handaskurðlækningum sem undirgrein.
VIII. Eiturefnafræði:
IX. Endurhæfingarlækningar:
X. Fæðinga- og kvenlækningar:
Veita má sérfræðingi í kvenlækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem kvenkrabbameinslækningum, innkirtlakvensjúkdómum o.s.frv.
XI. Geðlækningar:
Veita má sérfræðingi í geðlækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem barna- og unglingageðlækningum, taugalífeðlisfræði og réttargeðlæknisfræði.
XII. Háls-, nef- og eyrnalækningar:
XIII. Heilbrigðisstjórnun:
XIV. Heimilislækningar:
Námið fer fram samkvæmt "Marklýsingu fyrir sérnám í heimilislækningum", útgefinni af Félagi íslenskra heimilislækna árið 2008. Þar er meðal annars kveðið á um innihald, fyrirkomulag og lengd námsins, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.
XV. Húð- og kynsjúkdómalækningar:
Í stað starfa á húð- og kynsjúkdómadeild má koma tveggja og hálfs árs starf á húðsjúkdómadeild og eins og hálfs árs starf á kynsjúkdómadeild eða lækningastöð fyrir kynsjúkdóma. Heimilt er að veita sérfræðiviðurkenningu í hvorri grein fyrir sig ef a-lið er fullnægt að því er hlutaðeigandi sérdeild snertir enda sé b-lið einnig fullnægt.
Veita má sérfræðingi í húð- og kynsjúkdómalækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem húðmeinafræði.
XVI. Krabbameinslækningar:
XVII. Lyfjafræði:
XVIII. Lyflækningar:
Veita má sérfræðingi í lyflækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem blóðsjúkdómum, efnaskipta- og innkirtlalækningum, gigtarlækningum, hjartalækningum, krabbameinslækningum, lungnalækningum, meltingarlækningum, nýrnalækningum, ofnæmis- og ónæmislækningum, smitsjúkdómalækningum, öldrunarlækningum o.s.frv.
XIX. Lýtalækningar:
Veita má sérfræðingi í lýtalækningum sérfræðileyfi í handaskurðlækningum sem undirgrein.
XX. Meinafræði:
1. Blóðmeinafræði:
2. Klínísk lífefnafræði:
3. Meinalífeðlisfræði:
4. Meinefnafræði:
5. Ónæmisfræði:
6. Sýklafræði:
7. Vefjameinafræði:
Veita má sérfræðingi í vefjameinafræði sérfræðileyfi í einni undirgrein, svo sem barnameinafræði, frumumeinafræði, taugameinafræði o.s.frv.
8. Veirufræði:
XXI. Myndgreining:
Veita má sérfræðingi í myndgreiningu sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem myndgreiningu brjóstholslíffæra, myndgreiningu taugakerfis, ísótópagreiningu o.s.frv.
XXII. Skurðlækningar:
Veita má sérfræðingi í almennum skurðlækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra, svo sem barnaskurðlækningum, brjóstholsskurðlækningum, æðaskurðlækningum, lýtalækningum, þvagfæraskurðlækningum o.s.frv.
XXIII. Svæfingar- og gjörgæslulæknisfræði:
XXIV. Taugalækningar:
Veita má sérfræðingi í taugalækningum sérfræðileyfi í einni undirsérgrein, svo sem taugalífeðlisfræði, taugameinafræði o.s.frv.
XXV. Taugaskurðlækningar:
XXVI. Þvagfæraskurðlækningar:
11. gr.
Umsókn um sérfræðileyfi og umsagnir.
Umsókn um sérfræðileyfi í læknisfræði, ásamt gögnum sem staðfesta faglega menntun, starfsreynslu og hæfi svo og önnur fylgiskjöl sem landlæknir telur nauðsynleg, skal senda til landlæknis.
Áður en veitt er sérfræðileyfi skv. 6. gr. á grundvelli menntunar utan Íslands skal landlæknir leita umsagnar sérfræðinefndar skv. 16. gr. um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði skv. 7.-10. gr. reglugerðar þessarar fyrir veitingu sérfræðileyfis.
IV. KAFLI
Réttindi og skyldur.
12. gr.
Faglegar kröfur og ábyrgð.
Læknir skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við þær faglegu kröfur sem gerðar eru til stéttarinnar á hverjum tíma.
Lækni ber að þekkja skyldur sínar og virða siðareglur stéttarinnar, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
Læknir skal kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á.
Læknir ber ábyrgð á þeirri læknisfræðilegu greiningu og meðferð sem hann veitir.
Læknir skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
13. gr.
Upplýsingaskylda og skráning.
Um upplýsingaskyldu læknis gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.
Um skyldu læknis til að veita landlækni upplýsingar, meðal annars vegna eftirlits með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu og til gerðar heilbrigðisskýrslna, fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.
Læknir sem veitir sjúklingi meðferð skal færa sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.
14. gr.
Aðstoðarmenn og nemar.
Læknir ber ábyrgð á því að aðstoðarmenn og nemar sem starfa undir hans stjórn hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar og tilsögn til að inna af hendi störf sem hann felur þeim.
15. gr.
Trúnaður og þagnarskylda.
Læknir skal gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.
Samþykki sjúklings eða forráðamanns, ef við á, leysir lækni undan þagnarskyldu.
Þagnarskylda samkvæmt þessari grein nær ekki til atvika sem lækni ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Í þeim tilvikum ber lækni skylda til að koma upplýsingum um atvik á framfæri við þar til bær yfirvöld.
Um trúnaðar- og þagnarskyldu læknis gilda jafnframt ákvæði laga um réttindi sjúklinga, ákvæði laga um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.
V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Sérfræðinefnd.
Landlæknir skipar þriggja lækna sérfræðinefnd til að meta og taka afstöðu til umsókna um sérfræðileyfi. Skal einn nefndarmanna vera úr hópi kennara læknadeildar heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar skal tilnefndur af Læknafélagi Íslands og sá þriðji skal vera forstöðumaður kennslu í þeirri grein sem til umfjöllunar er hverju sinni. Þegar við á skal fulltrúi viðkomandi sérgreinafélags boðaður á fund nefndarinnar við afgreiðslu umsókna.
17. gr.
Frekari skilyrði fyrir veitingu almenns lækningaleyfis og sérfræðileyfis.
Umsækjandi um almennt lækningaleyfi skv. 2. gr. og sérfræðileyfi í læknisfræði skv. 6. gr., frá ríki utan EES og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skal leggja fram meðal annars gögn um ríkisfang, innihald náms og námslengd, ásamt prófskírteini, starfsleyfi ef starfsgreinin er löggilt í því landi sem umsækjandi kemur frá, fyrirhuguð störf hér á landi svo og önnur gögn og vottorð sem landlæknir telur nauðsynleg vegna útgáfu leyfis.
Áður en umsókn um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi er tekin til efnislegrar meðferðar þarf eftir atvikum að liggja fyrir staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt undirrituðum ráðningarsamningi.
Heimilt er að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf svo og öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin eru nauðsynleg til að geta starfað sem læknir eða sérfræðilæknir, einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.
Hafi að mati landlæknis ekki verið sýnt fram á að nám umsækjanda uppfylli kröfur skv. 3., 4. og 7.-10. gr. er landlækni heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir próf sem sýni fram á að hann búi yfir þeirri faglegu þekkingu og hæfni sem krafist er af lækni og sérfræðilækni til að starfa hér á landi. Viðeigandi menntastofnun skal skipuleggja próf fyrir umsækjanda í samráði við landlækni.
Starfsleyfi og sérfræðileyfi er gefið út við komu umsækjanda til starfa hér á landi.
18. gr.
Heimild til að synja umsókn um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.
Landlækni er heimilt að synja lækni um almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi þótt hann uppfylli ákvæði þessarar reglugerðar telji landlæknir og sérfræðinefnd skv. 16. gr. að námið hafi ekki verið nægilega samfellt eða að óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að umsækjandi lauk samfelldu námi eða sérnámi og þar til umsókn barst.
19. gr.
Gjaldtaka.
Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfis og sérfræðileyfis fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Um gjaldtöku vegna hvers konar umsýslu landlæknis vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi til viðbótar gjaldi skv. 1. mgr. og vegna prófa í faglegri þekkingu og færni fer samkvæmt reglugerð um gjaldtöku vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna, nr. 951/2012.
20. gr.
Almenn ákvæði.
Ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli gilda eftir því sem við á um lækna og sérfræðilækna.
21. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5., 8., 30. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast gildi 1. janúar 2013. Frá sama tíma fellur brott reglugerð um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, nr. 305/1997, með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Lækni sem hóf nám í heimilislækningum á árinu 2007 eða síðar er heimilt að haga framhaldsnámi í heimilislækningum samkvæmt lið XIV 7. gr. reglugerðar um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, nr. 305/1997, sem var í gildi þegar framhaldsnám hófst.
Endurskoðun reglugerðar þessarar skal lokið eigi síðar en 1. maí 2013.
Velferðarráðuneytinu, 21. desember 2012.
Guðbjartur Hannesson.
Vilborg Ingólfsdóttir.
Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)