1. gr.
Heimilt er samkvæmt reglugerð þessari að greiða á tímabilinu 1. maí til og með 26. ágúst 2011, nauðsynlegar tannlækningar, aðrar en tannréttingar, fyrir sjúkratryggð börn, tekjulágra foreldra/forráðamanna, yngri en 18 ára, samkvæmt sérstökum samningi Sjúkratrygginga Íslands, tannlæknadeildar Háskóla Íslands og Landspítala. Tannlæknar sem starfa á vegum tannlæknadeildar Háskóla Íslands meta hvað teljist nauðsynlegar tannlækningar hjá hverju barni.
2. gr.
Viðmiðunarmörk um tekjur foreldra/forráðamanna samkvæmt 1. gr. eru eftirfarandi:
Tekjur einstæðs foreldris/forráðamanns árið 2010, sem barnið býr hjá og hefur lögheimili hjá samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, samkvæmt skattframtali 2011, eru undir 2.900.000 kr. en undir 4.600.000 kr. sé um hjón eða sambúðarfólk að ræða. Tekjuviðmiðið hækkar um 350.000 kr. fyrir hvert barn umfram eitt.
Heimilt er að víkja frá tekjuviðmiðunum vegna ársins 2010 ef um verulega lækkun tekna á árinu 2011 er að ræða svo sem vegna atvinnuleysis. Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá tekjuviðmiðum þegar um er að ræða alvarlegan félagslegan vanda fjölskyldunnar. Í slíkum tilvikum þarf að fylgja rökstuðningur frá félagsmála- og /eða barnaverndaryfirvöldum.
Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast allar skattskyldar tekjur.
3. gr.
Sækja skal um tannlæknaþjónustu samkvæmt reglugerð þessari til Tryggingastofnunar ríkisins á því formi sem stofnunin ákveður. Umsóknarfrestur er til 1. júní 2011.
Umsækjanda er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar svo unnt sé að taka ákvörðun um hvort þjónusta skuli veitt. Tryggingastofnun metur hvort umsækjandi uppfylli skilyrði reglugerðarinnar og skal afla samþykkis fyrirfram.
4. gr.
Tannlæknaþjónusta samkvæmt reglugerðinni skal veitt í Reykjavík og vera þeim sem hennar njóta að kostnaðarlausu.
Heimilt er að greiða ferðakostnað barna af landsbyggðinni sem fengið hafa samþykki Tryggingastofnunar fyrir tannlæknaþjónustunni. Um greiðslu ferðakostnaðar fer að öðru leyti eftir reglugerð nr. 871/2004, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands.
5. gr.
Sjúkratryggingar Íslands annast samningsgerð við tannlæknadeild Háskóla Íslands og Landspítala um tannlækningar samkvæmt reglugerðinni svo og greiðslur samkvæmt samningnum en Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðarinnar að öðru leyti.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 20. gr., 2. mgr. 30. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Velferðarráðuneytinu, 14. apríl 2011.
Guðbjartur Hannesson.
Anna Lilja Gunnardóttir.