Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

51/2007

Reglugerð um starfsheiti og starfsréttindi næringarráðgjafa. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig næringarráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.

2. gr.

Leyfi samkvæmt 1. gr. skal veita þeim sem hafa lokið B.Sc. prófi í næringarfræðum eða sambærilegu háskólaprófi og a.m.k. eins árs framhaldsnámi í næringarráðgjöf þar sem hluti náms er starfsmenntun á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun. Leita skal umsagnar Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands og landlæknis áður en leyfi er veitt.

3. gr.

Um umsóknir ríkisborgara í aðildarríkjum EES-samningsins, skal fara samkvæmt reglu­gerð nr. 244/1994, um starfsleyfi nokkurra heilbrigðisstétta o.fl. skv. ákvæðum EES-samningsins.

4. gr.

Næringarráðgjafar starfa að næringarráðgjöf á heilbrigðisstofnunum, kennslu-, rann­sókna-, matvælastofnunum og víðar.

5. gr.

Næringarráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar, er varða starfssvið hans.

6. gr.

Næringarráðgjafar eru bundnir þagnarskyldu um alla vitneskju eða grun sem þeir fá í starfi sínu um sjúkdóma eða önnur mál sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins og helst þagnarskyldan þótt viðkomandi láti af störfum.

7. gr.

Um næringarráðgjafa gilda að öðru leyti og eftir því sem við geta átt reglur læknalaga nr. 53/1988, með áorðnum breytingum. Reglur læknalaga gilda m.a. um viðurlög við brotum í starfi næringarráðgjafa, um sviptingu löggildingar þeirra og endurveitingu starfsréttinda.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur brott reglugerð nr. 47/1987 um starfsheiti og starfsréttindi næringarráðgjafa.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 8. janúar 2007.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica