1. gr.
Með vísan til meginmáls EES-samningsins, XX. viðauka, ásamt viðbótum, breytingum og bókunum, auk annarra ákvæða hans, er hér með auglýst gildistaka eftirtalinnar reglugerðar og ákvörðunar:
a) Reglugerð (EB) nr. 761/2001 um að heimila frjálsa aðild fyrirtækja/stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi bandalagsins (EMAS), sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 56, 11. nóvember 2004, bls. 202-230.
b) Ákvörðun 2001/681/EB um leiðbeiningar að því er varðar framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 761/2001 um að heimila frjálsa aðild fyrirtækja/stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi bandalagsins (EMAS), sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 56, 11. nóvember 2004, bls. 231-254.
2. gr.
Umhverfisstofnun fer með yfirumsjón með framkvæmd reglugerðar þessarar.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með skráningu samanber 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 761/2001.
3. gr.
Neytendastofa faggildir óháðar umhverfissannprófunarstofur, sbr. 11. gr. laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, og hefur eftirlit með störfum þeirra í samræmi við ákvæði 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 761/2001.
4. gr.
Staðlaráð Íslands, sbr. lög nr. 36/2003 um staðla og Staðlaráð Íslands, er lögbær staðlastofnun samanber I. viðauka reglugerðar (EB) nr. 761/2001.
5. gr.
Fyrirtækjum og stofnunum sem eru aðilar að EMAS er einungis heimilt að nota merki EMAS, samanber IV. viðauka reglugerðar (EB) nr. 761/2001, ef þau eða þær eru með gilda EMAS skráningu.
Útgáfa eitt af íslenskum texta með merki EMAS samanber IV. viðauka reglugerðar (EB) nr. 761/2001 er: Sannprófuð umhverfisstjórnun.
Útgáfa tvö af íslenskum texta með merki EMAS samanber IV. viðauka reglugerðar (EB) nr. 761/2001 er: Fullgiltar upplýsingar.
6. gr.
Um kostnað við skráningu fyrirtækja eða stofnana fer samkvæmt gjaldskrá Umhverfisstofnunar sem umhverfisráðherra staðfestir.
Um kostnað við faggildingu umhverfissannprófunarstofa og eftirlit með störfum þeirra fer samkvæmt gjaldskrá Neytendastofu sem viðskiptaráðherra staðfestir.
7. gr.
Heimilt er að draga úr reglubundnu mengunarvarnaeftirliti með fyrirtækjum sem taka þátt í EMAS, sbr. reglugerð um mengunarvarnaeftirlit.
8. gr.
Með mál sem kunna að rísa vegna brota á reglugerð þessari skal farið samkvæmt 33. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 5. og 21. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, ásamt síðari breytingum og að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið hvað varðar þátt Neytendastofu, sbr. 15. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu með síðari breytingum.
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerð nr. 321/1996, um frjálsa þátttöku iðnfyrirtækja í umhverfismálakerfi ESB og a-liður 2. gr. reglugerðar nr. 377/1994, um umhverfismál á Evrópska efnahagssvæðinu.
Umhverfisráðuneytinu, 2. nóvember 2005.
F. h. r.
Ingimar Sigurðsson.
Kristín L. Árnadóttir.