Umhverfisráðuneyti

321/1996

Reglugerð um frjálsa þátttöku iðnfyrirtækja í umhverfismálakerfi ESB - Brottfallin

REGLUGERÐ

um frjálsa þátttöku iðnfyrirtækja í umhverfismálakerfi ESB.

 

1. gr.

Gildissvið og tilgangur.

1.1. Með reglugerð þessari er sett á laggirnar eftirlitskerfi í samræmi við 2. tl. f í XX. viðauka EES-samningsins (reglugerð 1836/93/EBE), sbr. tölulið b, 2. gr. reglugerðar nr. 377/1994 um umhverfismál á Evrópska efnahagssvæðinu. Þátttaka í kerfinu er frjáls öllum sem stunda iðnstarfsemi, sbr. skilgreiningu í i-lið 2. gr. Heimilt er að lækka eða fella niður gjald, á fyrirtæki sem þátt taka í kerfinu, fyrir reglubundið eftirlit Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda, sbr 5. og 6. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994.

1.2. Tilgangur kerfisins er að meta og bæta áhrif sem iðnstarfsemi hefur á umhverfið og upplýsa almenning í þeim efnum. Kerfið skal stuðla að síauknu framlagi iðnfyrirtækja til umhverfismála með því:

 a)            að fyrirtæki setji sér stefnu í umhverfismálum og framkvæmi hana, geri áætlanir og komi á umhverfisstjórnkerfi á athafnasvæðum sínum;

 b)           að meta með skipulögðum, hlutlægum og reglubundnum hætti framlag þeirra á þessum sviðum;

 c)            að upplýsa almenning um framlag þeirra til umhverfismála.

1.3. Kerfið hefur ekki áhrif á gildandi lög, reglugerðir eða tæknistaðla, sbr. þó 1. mgr., né á skyldur fyrirtækja samkvæmt þeim.

 

2. gr.

Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 a)            Umhverfismálastefna: heildarmarkmið og meginreglur varðandi aðgerðir fyrirtækisins í umhverfismálum, m.a. uppfylling laga og reglugerða á þessu sviði.

 b)           Umhverfisrýni: grunnrannsókn á umhverfisaðstæðum og áhrifum á umhverfið af iðnstarfsemi á tilteknu athafnasvæði.

 c)            Umhverfisáætlun: lýsing á sérmarkmiðum fyrirtækis og aðgerðum til að efla umhverfisvernd á tilteknu athafnasvæði, þar með talin lýsing á ráðstöfunum sem eru gerðar eða fyrirhugaðar til að ná slíkum markmiðum og, þar sem við á, frestur til að hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd.

 d)           Umhverfismarkmið: það takmark sem fyrirtæki setur sér um framlag til umhverfismála.

 e)            Umhverfisstjórnkerfi: sá þáttur heildarstjórnkerfis sem felur í sér skipulag, hvernig skyldur eru uppfylltar, málsmeðferð, aðferðir og getu til að ákvarða umhverfismálastefnu og hrinda henni í framkvæmd.

 f)            Úttekt: stjórntæki til að meta og skrá með skipulegum hætti, reglulega og á hlutlægan hátt hversu vel skipulagið, stjórnkerfið og aðferðirnar í þágu umhverfisverndar duga með tilliti til þess að:

 i)             auðvelda eftirlit með þeim athöfnum er gætu haft áhrif á umhverfið;

ii)             meta hvort umhverfismálastefna fyrirtækisins nær fram að ganga.

 g)           Úttektarlota: sá tími sem úttekt á allri starfsemi á tilteknu athafnasvæði stendur yfir, samkvæmt kröfum 4. gr. og II. viðauka, með tilliti til þeirra umhverfisþátta sem máli skipta og getið er um í C-lið I. viðauka.

 h)           Umhverfismálayfirlýsing: yfirlýsing samin í fyrirtækinu í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar, einkum 5. gr.

 i)             Iðnstarfsemi: starfsemi sem fellur undir atvinnuflokkaskráningu í VI. viðauka, sbr. einnig C- og D-lið viðauka reglugerðar 3037/90/EBE, ásamt rafmagns-, gas-, gufu- og heitavatnsframleiðslu og endurvinnslu, meðhöndlun, eyðingu eða losun úrgangs og skólps.

 j)             Fyrirtæki: lögaðili sem hefur heildarstjórn á starfsemi á tilteknu athafnasvæði.

 k)            Athafnasvæði: allt það landsvæði þar sem iðnstarfsemi fer fram undir stjórn fyrirtækis á tilteknum stað, m.a. geymsla í tengslum við hana á hráefnum, aukaafurðum, hálfunnum afurðum, lokaafurðum og úrgangsefnum ásamt tækjabúnaði og lögnum sem tengjast starfseminni, hvort sem þeim er komið fyrir eða ekki.

 l)             Úttakandi: einstaklingur eða hópur einstaklinga úr röðum starfsmanna fyrirtækis eða utan þess sem starfar í umboði æðstu stjórnar fyrirtækis og hefur, einn eða í sameiningu, þá hæfi til að bera sem um getur í C-lið II. viðauka og er nægilega óháður þeirri starfsemi sem hann gerir úttekt á til að geta fellt hlutlæga dóma.

 m)           Faggiltur umhverfisvottandi: einstaklingur eða lögaðili, óháður því fyrirtæki sem er undir eftirliti og sem hlotið hefur viðurkenningu samkvæmt þeim skilyrðum og þeirri málsmeðferð sem um getur í 6. gr.

 n)           Faggildingarkerfi: kerfi til faggildingar og eftirlits með umhverfisvottendum, undir stjórn óháðrar stofnunar eða lögaðila sem aðildarríkið hefur tilnefnt eða stofnsett, sem býr yfir getu, hæfni og leiðum til að skila því hlutverki sem skilgreint er í þessari reglugerð viðvíkjandi slíku faggildingarkerfi.

 

3. gr.

Aðild að kerfinu.

Kerfið er opið fyrirtækjum er bera ábyrgð á athafnasvæðum þar sem iðnstarfsemi fer fram. Til að unnt sé að skrá athafnasvæði sem hluta af kerfinu skal fyrirtæki:

 a)            í samræmi við viðeigandi kröfur í I. viðauka samþykkja umhverfismálastefnu er samrýmist lögum og reglum um umhverfismál. Umhverfismálastefnan skal fela í sér skuldbindingar um eðlilegt, síaukið framlag til umhverfismála, uns þeim mörkum er náð sem samræmast hagkvæmri beitingu fullkomnustu tækni sem völ er á;

 b)           láta fara fram grunnumhverfisrýni á athafnasvæðinu með tilliti til þeirra þátta sem um getur í C-hluta I. viðauka;

 c)            gera umhverfisáætlun fyrir athafnasvæðið byggða á fyrrnefndri rýni og koma á umhverfisstjórnkerfi fyrir alla starfsemi á athafnasvæðinu. Umhverfisáætlunin skal miða að því að uppfylla þær skuldbindingar sem felast í þeirri umhverfismálastefnu fyrirtækisins að auka sífellt framlag þess til umhverfismála. Umhverfisstjórnkerfið skal vera í samræmi við kröfurnar í I. viðauka;

 d)           gera eða láta gera úttekt á viðkomandi athafnasvæðum í samræmi við ákvæði 4. gr.;

 e)            setja sér umhverfismarkmið á sem hæstu stigi um að auka sífellt framlag til umhverfismála með hliðsjón af úttektinni og gera nauðsynlegar breytingar á umhverfisáætluninni til að ná settum markmiðum á athafnasvæðinu;

 f)            semja sérstaka umhverfismálayfirlýsingu fyrir sérhvert athafnasvæði sem úttekt er gerð á í samræmi við ákvæði 5. gr. Þær upplýsingar sem um getur í V. viðauka skulu og koma fram í upphaflegu yfirlýsingunni;

 g)           láta fara fram könnun á umhverfismálastefnunni, áætluninni, rýninni eða aðferðum við úttektina og umhverfismálayfirlýsingunni eða -yfirlýsingunum til að sannreyna að þær uppfylli settar kröfur í þessari reglugerð og umhverfismálayfirlýsingunum sem eru staðfestar í samræmi við 4. gr. og III. viðauka;

 h)           senda Hollustuvernd ríkisins staðfesta umhverfismálayfirlýsingu og koma henni á framfæri við almenning þegar athafnasvæðið hefur verið skráð í samræmi við ákvæði 8. gr.

 

4. gr.

Úttekt og staðfesting.

4.1. Úttakendur fyrirtækis eða utanaðkomandi einstaklingar eða lögaðilar á þess vegum geta stjórnað eigin úttekt fyrirtækis á athafnasvæði sínu. Úttektin skal í öllum tilvikum fara fram í samræmi við viðmiðin í I. viðauka, C-hluta, og II. viðauka.

4.2. Úttektartíðni skal vera í samræmi við viðmiðin í H-hluta II. viðauka.

4.3. Á grundvelli III. viðauka skal óháður, faggiltur umhverfisvottandi ganga úr skugga um að umhverfismálastefnur, umhverfisáætlanir, umhverfisstjórnkerfi, aðferðir við umhverfisrýni og úttektir og umhverfismálayfirlýsingar uppfylli kröfur þessarar reglugerðar.

4.4. Faggilti umhverfisvottandinn skal vera óháður úttakandanum á athafnasvæðinu.

4.5. Faggilti umhverfisvottandinn skal, að því er varðar ákvæði 3. mgr., kanna hvort:

 a)            umhverfismálastefnan hefur verið mótuð og hvort hún stenst kröfurnar í 3. gr. og viðeigandi kröfur í I. viðauka;

 b)           búið er að koma í framkvæmd umhverfisstjórnkerfi og áætlun á athafnasvæðinu og hvort kerfið og áætlunin samrýmist viðeigandi kröfum í I. viðauka;

 c)            umhverfisrýni og úttekt séu gerðar í samræmi við viðeigandi kröfur í I. og II. viðauka;

 d)           upplýsingar í umhverfismálayfirlýsingunni séu áreiðanlegar og hvort hún nær til allra mikilvægra umhverfisþátta á athafnasvæðinu.

4.6. Faggilti umhverfisvottandinn skal aðeins staðfesta umhverfismálayfirlýsinguna að fullnægðum skilyrðunum sem um getur í 3. til 5. mgr.

4.7. Utanaðkomandi úttakendum og faggiltum umhverfisvottendum er óheimilt án leyfis stjórnar fyrirtækisins að senda áfram upplýsingar eða gögn sem aflað er við úttekt eða staðfestingu.

 

5. gr.

Umhverfismálayfirlýsing.

5.1. Semja skal umhverfismálayfirlýsingu í kjölfar grunnumhverfisrýni og í lok sérhverrar úttektar eða úttektarlotu fyrir hvert athafnasvæði sem kerfið nær til.

5.2. Umhverfismálayfirlýsingin skal vera gagnorð og víðtæk og texti hennar aðgengilegur almenningi. Tæknilegar upplýsingar geta fylgt með í viðauka.

5.3. Eftirfarandi atriði skulu einkum koma fram í umhverfismálayfirlýsingunni:

 a)            lýsing á starfsemi fyrirtækisins á því athafnasvæði sem um er að ræða;

 b)           mat á öllum mikilvægum umhverfisþáttum sem tengjast starfseminni;

 c)            tölulegar upplýsingar um losun mengunarefna, úrgangsframleiðslu, hráefnis-, orku- og vatnsnotkun, hávaða og aðra mikilvæga umhverfisþætti eftir því sem við á;

 d)           aðrir þættir sem tengjast áhrifum á umhverfið;

 e)            umhverfismálastefna fyrirtækisins, umhverfisáætlun og umhverfisstjórnkerfi sem framfylgt er á athafnasvæðinu;

 f)            frestur til að leggja fram næstu umhverfismálayfirlýsingu;

 g)           nafn faggilta umhverfisvottandans.

5.4. Í umhverfismálayfirlýsingunni skal vekja athygli á markverðum breytingum sem orðið hafa frá síðustu yfirlýsingu.

5.5. Þau ár sem umhverfismálayfirlýsing er ekki samin skal taka saman styttri greinargerð sem að minnsta kosti er byggð á kröfunum í c-lið 3. mgr., þar sem athygli er vakin, eins og tilefni gefst til, á markverðum breytingum sem orðið hafa frá síðustu yfirlýsingu. Aðeins er þörf á að staðfesta slíkar styttri greinargerðir í lok úttektar eða úttektarlotu.

5.6. Þó er þarflaust að semja umhverfismálayfirlýsingu árlega fyrir athafnasvæði ef:

 a) faggilti umhverfisvottandinn álítur, einkum þegar um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki, að eðli og umfang starfseminnar á athafnasvæðinu gefi ekki tilefni til umhverfismálayfirlýsingar fyrr en næstu úttekt er lokið og fáar markverðar breytingar hafa orðið frá síðustu umhverfismálayfirlýsingu.

 

6. gr.

Faggilding umhverfisvottenda og eftirlit með störfum þeirra.

6.1. Löggildingarstofan, sbr. 11. gr. laga nr. 100/1992, faggildir óháða umhverfisvottendur og hefur eftirlit með störfum þeirra. Faggilding og eftirlit skal vera í samræmi við kröfur í III. viðauka.

6.2. Umhverfisvottendum sem hlotið hafa faggildingu í einu aðildarríki EES-samningsins er heimilt að inna störf sín af hendi í öllum öðrum aðildarríkjum að því tilskildu að faggildingarstofnun í aðildarríkinu þar sem vottunin fer fram sé tilkynnt um það fyrirfram og hún hafi eftirlit með þeim.

 

7. gr.

Skrá yfir faggilta umhverfisvottendur.

7.1. Löggildingarstofan skal halda skrá yfir faggilta umhverfisvottendur í sérhverju aðildarríki EES-samningsins. Endurskoða og uppfæra skal skrána á sex mánaða fresti.

 

8. gr.

Skráning athafnasvæða.

8.1. Hollustuvernd ríkisins skal skrá athafnasvæði og úthluta því skráningarnúmeri, telji stofnunin það fullnægja öllum skilyrðum þessarar reglugerðar og eftir að hafa tekið á móti staðfestri umhverfisyfirlýsingu og skráningargjaldi samkvæmt 10. gr. Stofnunin skal tilkynna stjórnendum athafnasvæðisins um að það hafi verið skráð.

8.2. Hollustuvernd ríksins skal árlega uppfæra skrána yfir athafnasvæði sem um getur í 1. mgr.

8.3. Hafi fyrirtæki ekki sent Hollustuvernd ríkisins staðfesta umhverfismálayfirlýsingu og greitt skráningargjald innan þriggja mánaða eftir að beiðni um það kom fram, eða hvenær sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að athafnasvæðið samræmist ekki lengur öllum skilyrðum þessarar reglugerðar, skal fella athafnasvæðið út af skránni og tilkynna stjórnendum þess um það.

8.4. Tilkynni viðkomandi heilbrigðisnefnd til Hollustuverndar ríkisins, eða ef Hollustuvernd ríkisins fær á annan hátt örugga vitneskju um brot á viðeigandi lögum og reglum um umhverfismál á athafnasvæðinu, skal hún neita að skrá athafnasvæðið eða fella það tímabundið út af skránni, eftir því sem við á, og tilkynna stjórnendum þess þar um. Afturkalla skal synjun umsóknar eða tímabundna brottfellingu ef Hollustuvernd ríkisins fær örugga tryggingu fyrir því að bætt hafi verið úr brotinu og ráðstafanir séu gerðar til að tryggja að það endurtaki sig ekki.

 

9. gr.

Yfirlýsing um aðild.

9.1. Fyrirtækjum er heimilt að nota eina af aðildaryfirlýsingunum í IV. viðauka vegna skráðs athafnasvæðis eða -svæða þar sem fram kemur með skýrum hætti hvers eðlis kerfið er. Aðeins er heimilt að nota táknmyndina með einni af aðildaryfirlýsingunum.

9.2. Nöfn athafnasvæðis eða svæða skulu fylgja aðildaryfirlýsingunni, þar sem við á.

9.3. Óheimilt er að nota aðildaryfirlýsingu til þess að auglýsa vörur eða á sjálfum vörunum eða umbúðum þeirra.

 

10. gr.

Kostnaður og gjöld.

10.1. Vegna stjórnunarkostnaðar í tengslum við skráningu athafnasvæða og faggildingu umhverfisvottenda og kostnaðar því samfara að stuðla að framgangi kerfisins gefur umhverfisráðuneytið út gjaldskrá að fengnum tillögum stjórnar Hollustuverndar ríkisins, sbr. lög nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

10.2. Um kostnað við faggildinu umhverfisvottenda og eftirlit með störfum þeirra fer samkvæmt gjaldskrá Löggildingarstofunnar sem viðskiptaráðherra staðfestir, sbr. lög nr. 100/1992.

 

11. gr.

Tengsl við innlenda, evrópska og alþjóðlega staðla.

11.1. Líta ber svo á að fyrirtæki sem beita innlendum, evrópskum og alþjóðlegum stöðlum um umhverfismálakerfi og úttektir og hafa hlotið rétta staðfestingu samkvæmt viðeigandi staðli, fullnægi viðeigandi kröfum þessarar reglugerðar, að því tilskildu að staðlarnir hafi verið birtir í stjórnartíðindum Evrópubandalagsins (og faggiltur umhverfisvottandi annist staðfestinguna).

11.2. Til að fyrrnefnd athafnasvæði fáist skráð sem hluti af kerfinu skulu fyrirtæki í öllum tilvikum uppfylla kröfurnar vegna umhverfismálayfirlýsingarinnar í 3. og 5. gr., þar á meðal kröfurnar um staðfestingu, og kröfurnar í 8. gr.

 

12. gr.

Upplýsingar.

Hollustuvernd ríkisins skal með viðeigandi aðgerðum tryggja að:

 a)            fyrirtæki fái upplýsingar um ákvæði þessarar reglugerðar,

 b)           almenningur fái upplýsingar um markmið og meginuppbyggingu kerfisins.

 

13. gr.

Brot.

Um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum.

 

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit ásamt síðari breytingum, að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið hvað þátt Löggildingarstofunnar varðar, sbr. 4. tl. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 100/1992 og með hliðsjón af 2. tl. f XX. viðauka EES-samningsins (reglugerð 1836/93/EBE), sbr. reglugerð nr. 377/1994 um umhverfismál á Evrópska efnahagssvæðinu, öðlast þegar gildi.

 

Umhverfisráðuneytinu, 3. júní 1996.

 

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

 

 

I. VIÐAUKI

 

Kröfur um umhverfismálastefnu, umhverfisáætlanir og umhverfisstjórnkerfi.

 

 

A. Stefna, markmið og áætlanir í umhverfismálum.

 

1. Umhverfismálastefna.

1.1. Umhverfismálastefna fyrirtækisins og umhverfisáætlun fyrir athafnasvæðið skal sett fram skriflega. Í fylgiskjölum skal skýra tengsl umhverfisáætlunar og umhverfisstjórnkerfis fyrir athafnasvæðið við stefnu og kerfi fyrirtækisins í heild.

1.2. Umhverfismálastefna fyrirtækisins skal samþykkt og endurmetin reglulega, einkum með tilliti til úttektar, og endurskoðuð ef þörf krefur á æðsta stjórnstigi. Hún skal tilkynnt starfsfólki fyrirtækisins og vera tiltæk almenningi.

1.3. Umhverfismálastefna fyrirtækisins skal byggjast á aðgerðarreglunum í D-hluta og einkum taka tillit til atriðanna í C-hluta. Markmiðið með stefnunni er að auka sífellt framlag fyrirtækisins í umhverfismálum og sjá þar að auki til þess að farið sé að öllum viðeigandi reglugerðarkröfum sem í gildi eru og varða umhverfið.

 

2. Umhverfismarkmið.

2.1. Fyrirtækið skal tilgreina umhverfismarkmið sín á öllum viðeigandi stigum innan fyrirtækisins. Markmiðin skulu vera í samræmi við umhverfismálastefnuna og í þeim skal ávallt ákveða í tölulegu formi, þegar unnt er, þá skuldbindingu fyrirtækisins að auka sífellt framlag sitt í umhverfismálum innan ákveðinna tímamarka.

 

3. Umhverfisáætlun fyrir athafnasvæðið.

3.1. Fyrirtækið skal gera og fylgja áætlun, sem einkum tekur tillit til atriðanna í C-hluta um framkvæmd umhverfismarkmiðanna fyrir athafnasvæðið.

Áætlunin felur í sér:

3.1.1.       skiptingu ábyrgðar á markmiðunum á öll starfssvið og stig innan fyrirtækisins,

3.1.2.       leiðir til að ná umhverfismarkmiðunum.

3.2. Gera skal sérstakar áætlanir fyrir umhverfisstjórnkerfið vegna verkefna sem tengjast nýju þróunarstarfi, nýjum eða breyttum vörum, þjónustu eða ferlum. Þar skal tilgreina nánar:

 

3.2.1.       umhverfismarkmiðin sem stefnt er að,

3.2.2.       aðferðir til að ná umhverfismarkmiðunum,

3.2.3.       aðferðir til að fást við breytingar og lagfæringar meðan á lausn verkefnanna stendur,

3.2.4.       hvaða úrbótaaðgerða skuli grípa til ef þörf krefur, hvenær skuli grípa til þeirra og hvernig skuli meta hvort þær séu fullnægjandi við þær sérstöku aðstæður þar sem þeim er beitt.

 

 

 

 

 

B. Umhverfisstjórnkerfi.

 

Hanna skal umhverfisstjórnkerfið og því beitt og viðhaldið á þann hátt að tryggt sé að eftirfarandi kröfur verði uppfylltar:

 

1. Stefna, markmið og áætlanir í umhverfismálum.

Umhverfismálastefnu, umhverfismarkmið og umhverfisáætlanir fyrirtækisins fyrir athafnasvæðið skal ákveða og, eftir því sem við á, endurskoða reglulega á æðsta viðeigandi stjórnstigi.

 

2. Stjórnskipulag og starfsfólk.

2.1. Skipting ábyrgðar og valds.

Semja skal greinargerð um og lýsingu á skiptingu ábyrgðar og valds og samskiptum yfirmanna sem stjórna, framkvæma og fylgjast með störfum sem hafa áhrif á umhverfið.

2.2. Fulltrúi stjórnenda.

Skipa skal fulltrúa stjórnenda sem hefur vald til og ber ábyrgð á því að tryggja að umhverfisstjórnkerfinu sé komið á og viðhaldið.

2.3. Starfsfólk, boðskipti og þjálfun.

Tryggja skal að eftirtaldir þættir séu ljósir starfsmönnum á öllum stigum:

2.3.1.       mikilvægi þess að fylgja umhverfismálastefnunni, ná umhverfismarkmiðunum og uppfylla þær kröfur sem tilgreindar eru í umhverfisstjórnkerfinu;

2.3.2.       þau áhrif sem störf þeirra gætu haft á umhverfið og kosti aukins framlags fyrir umhverfið;

2.3.3.       þáttur þeirra og ábyrgð að því er varðar að framfylgja umhverfismálastefnunni, ná umhverfismarkmiðunum og uppfylla þær kröfur sem tilgreindar eru í umhverfisstjórnkerfinu;

2.3.4.       hvaða afleiðingar það getur haft að víkja frá samþykktum verklagsreglum.

 

Skilgreina skal þörf fyrir þjálfun, og starfsfólki sem gegnir störfum sem geta haft veruleg áhrif á umhverfið skal séð fyrir viðeigandi þjálfun.

Fyrirtækið skal koma á og viðhalda verklagsreglum um móttöku, skráningu og svörun fyrirspurna vegna áhrifa fyrirtækisins á umhverfið og vegna umhverfisstjórnkerfis þess.

 

3. Umhverfisáhrif.

3.1. Mat og skráning á áhrifum fyrirtækisins á umhverfið.

Áhrifin af starfsemi fyrirtækisins á athafnasvæðið skulu könnuð og metin og taka skal saman skrá um þau áhrif sem telja verður mikilvæg. Einkum skal, eftir því sem við á, taka til athugunar:

3.1.1.       stýrða og óstýrða losun efna í andrúmsloftið;

3.1.2.       stýrða og óstýrða losun efna í vatn eða fráveitukerfi;

3.1.3.       úrgang í föstu formi og annan úrgang, einkum úrgang sem getur reynst hættulegur (spilliefni);

3.1.4.       mengun lands;

3.1.5.       notkun lands, vatns, eldsneytis og orku og annarra náttúruauðlinda;

3.1.6.       losun varmaorku, hávaða, lykt, ryk, titring og sýnileg áhrif;

3.1.7.       áhrif á tiltekna hluta umhverfis og vistkerfa.

 

3.2. Einnig skal taka til athugunar áhrif sem fylgja eða geta fylgt:

3.2.1.       venjulegum rekstrarskilyrðum;

3.2.2.       óvenjulegum rekstrarskilyrðum;

3.2.3.       óhöppum, slysum og hugsanlegu neyðarástandi;

3.2.4.       fyrri starfsemi, núverandi starfsemi og fyrirhugaðri starfsemi.

 

3.3. Skrá yfir kröfur í lögum og reglugerðum og aðrar stefnukröfur.

Fyrirtækið skal koma á og viðhalda verklagsreglum um skráningu á öllum kröfum sem settar eru fram í lögum og reglugerðum og öðrum stefnukröfum um þá þætti starfsemi, vara og þjónustu fyrirtækisins er varða umhverfið.

 

4. Rekstrarstýring.

4.1. Verklagsreglur.

Skilgreina skal störf, starfsemi og ferli sem hafa eða geta haft áhrif á umhverfið og eru viðkomandi stefnu og markmiðum fyrirtækisins. Skipuleggja og stýra skal þessum störfum, starfsemi og ferlum, einkum með því að taka upp:

4.1.1.       skjalfestar starfsleiðbeiningar þar sem skilgreint er hvernig starfsemin skuli fara fram, hvort sem það eru starfsmenn fyrirtækisins sem sjá til þess eða aðrir fyrir hönd fyrirtækisins. Í þessum leiðbeiningum skal gera ráð fyrir aðstæðum þar sem skortur á leiðbeiningum gæti leitt til þess að vikið yrði frá umhverfismálastefnu fyrirtækisins;

4.1.2.       verklagsreglur um innkaup og samningsbundna starfsemi til að tryggja að birgjar og þeir sem sinna störfum fyrir hönd fyrirtækisins fylgi umhverfismálastefnu fyrirtækisins, að því marki sem hún tengist þeim;

4.1.3.       eftirlit með og stýringu á mengun frá mismunandi starfsemi fyrirtækisins (svo sem fráveituvatni og förgun úrgangs);

4.1.4.       samþykki fyrir nýjum ferlum og búnaði;

4.1.5.       viðmið fyrir framlag í umhverfismálum, sem skulu fastsett í skriflegum stöðlum.

 

5. Eftirlit.

5.1. Eigið eftirlit fyrirtækisins með því að það uppfylli kröfur fyrir athafnasvæðið sem settar eru fram í umhverfismálastefnu, umhverfisáætlun og umhverfisstjórnkerfi fyrirtækisins; koma skal á og viðhalda skráningarkerfi fyrir eftirlitið. Í þessu felst, fyrir alla starfsemi eða svæði sem skipta máli:

5.1.1.       að velja og skjalfesta hvaða upplýsinga skuli aflað;

5.1.2.       að tiltaka og skjalfesta aðferðir við eftirlit;

5.1.3.       að ákveða og skjalfesta viðmið fyrir ásættanleika og til hvaða aðgerða skuli grípa þegar niðurstöður úr eftirliti eru ófullnægjandi;

5.1.4.       að meta og skjalfesta gildi upplýsinga úr fyrra eftirliti ef í ljós kemur að eftirlitið hefur ekki reynst fullnægjandi.

5.2. Brot á ákvæðum og úrbætur.

Framkvæma skal rannsókn og úrbótaaðgerðir þegar umhverfismálastefnu, umhverfismarkmiðum eða umhverfisstöðlum fyrirtækisins er ekki framfylgt, með það fyrir augum að:

5.2.1.       finna orsökina;

5.2.2.       semja aðgerðaáætlun;

5.2.3.       hefja fyrirbyggjandi aðgerðir, í þeim mæli sem samsvarar þeirri hættu sem er á ferðum;

5.2.4.       beita stjórnunarráðstöfunum til að tryggja að fyrirbyggjandi aðgerðir beri árangur;

5.2.5.       skrá þær breytingar á aðferðum sem úrbótaaðgerðir hafa í för með sér.

 

6. Skráning umhverfisstjórnkerfis.

6.1. Koma skal á skráningu umhverfisstjórnkerfis í því skyni að:

6.1.1.       gera umhverfismálastefnu, umhverfismarkmið og umhverfisáætlun fyrirtækisins ítarleg skil;

6.1.2.       skjalfesta lykilstöður og ábyrgðarskiptingu;

6.1.3.       lýsa sambandi mismunandi þátta kerfisins.

Færa skal skrár til að sýna fram á að þær kröfur sem settar eru fram í umhverfisstjórnkerfinu hafi verið uppfylltar og til að skrá í hve miklum mæli umhverfismarkmiðum hefur verið náð.

 

7. Úttekt.

7.1. Framkvæmd og endurskoðun á kerfisbundinni og reglubundinni áætlun svo og stjórnun skal vera með þeim hætti að gengið sé úr skugga um:

7.1.1.       hvort starfsemi fyrirtækisins að því er varðar umhverfisstjórnkerfi sé í samræmi við umhverfisáætlunina og hvort starfsemin beri árangur;

7.1.2.       hvernig umhverfisstjórnkerfið nýtist til að framfylgja umhverfismálastefnu fyrirtækisins.

 

C. Málefni sem falla undir kerfið.

Fjalla skal um eftirfarandi málefni innan ramma umhverfismálastefnu umhverfisáætlana og úttekta.

 1.            Hvernig meta skuli, stýra og draga úr áhrifum tiltekinnar starfsemi á mismunandi umhverfisþætti.

 2.            Orkustjórnun, orkusparnað og val á orkugjafa.

 3.            Hráefnaeftirlit, -sparnað, -val og -flutning, vatnseftirlit og -sparnað.

 4.            Endurvinnslu, endurnýtingu, flutning og förgun, svo og aðgerðir til að forðast sóun.

 5.            Hvernig meta skuli, stýra og draga úr hávaða á og utan athafnasvæðis.

 6.            Val á nýjum framleiðsluferlum og breytingum á framleiðsluferlum.

 7.            Vöruáætlun (hönnun, pökkun, flutningur, notkun og förgun).

 8.            Framlag og starfshætti verktaka, undirverktaka og birgja í umhverfismálum.

 9.            Aðgerðir til að fyrirbyggja og takmarka umhverfisslys.

10.           Neyðaráætlanir vegna umhverfisslysa.

11.           Upplýsingar til starfsfólks og þjálfun þess viðvíkjandi umhverfismálum.

12.           Upplýsingar til aðila utan fyrirtækisins um umhverfismál.

 

D. Góðar stjórnunarvenjur.

Umhverfismálastefna fyrirtækisins skal byggjast á þeim reglum sem settar eru hér á eftir; starfsemi fyrirtækisins skal könnuð reglubundið til að sjá hvort hún sé í samræmi við þessar reglur og síaukið framlag í umhverfismálum.

 1.            Rækta skal ábyrgðartilfinningu gagnvart umhverfinu hjá starfsmönnum á öllum starfsþrepum.

 2.            Meta skal fyrirfram umhverfisáhrif allrar nýrrar starfsemi, vara og ferla.

 3.            Meta skal og fylgjast með áhrifum núverandi starfsemi á næsta umhverfi og rannsaka öll mikilvæg áhrif þessarar starfsemi á umhverfið almennt.

 4.            Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja eða eyða mengun og, þegar það er ekki gerlegt, til að draga úr losun mengunarefna og myndun úrgangs eins og unnt er og vernda auðlindir, með notkun hreinni framleiðslutækni.

 5.            Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja losun efna eða orku af slysni.

 6.            Koma skal á og beita eftirlitsaðferðum til að fylgjast með því hvort umhverfismálastefnunni sé fylgt og, ef aðferðirnar útheimta mælingar og prófanir, til að koma á og uppfæra skráningu á niðurstöðum eftirlitsins.

 7.            Semja skal og uppfæra reglur og aðgerðaáætlanir sem fylgja skal þegar í ljós kemur að umhverfismálastefnu eða umhverfismarkmiðum er ekki framfylgt.

 8.            Stofna skal til samstarfs við opinber yfirvöld til þess að að koma á neyðaráætlun um að draga eins og unnt er úr áhrifum losunar efna í umhverfið af slysni.

 9.            Veita skal almenningi allar upplýsingar sem þarf til að skilja áhrifin af starfsemi fyrirtækisins á umhverfið og koma skal á opnum skoðanaskiptum við almenning.

10.           Veita skal viðskiptavinum viðeigandi ráðgjöf um þá umhverfisþætti er skipta máli við meðferð, notkun og förgun framleiðsluvara fyrirtækisins.

11.           Gera skal ráðstafanir til að tryggja að verktakar sem starfa á athafnasvæðinu fyrir hönd fyrirtækisins beiti umhverfisstöðlum sem eru jafngildir umhverfisstöðlum félagsins.

 

 

II. VIÐAUKI

Kröfur um úttekt.

 

Úttektin skal skipulögð og framkvæmd á grundvelli viðeigandi viðmiðunarreglna í ISO 10011 alþjóðastaðli (1990, 1. hluta, einkum liða 4.2, 5.1, 5.2, 5.3, 5.4.1, 5.4.2) og annarra viðeigandi alþjóðastaðla og á grundvelli þeirra meginreglna og krafna sem gerðar eru í þessari reglugerð.

 

A. Markmið

Í úttektaráætlun fyrirtækisins fyrir athafnasvæðið skal lýsa nánar markmiðum með hverri úttekt eða úttektarlotu, þar á meðal úttektartíðni fyrir hvert starfssvið.

Markmiðin verða einkum að ná yfir mat á umhverfisstjórnkerfunum sem fyrir eru og ganga þarf úr skugga um að þau séu í samræmi við stefnumið fyrirtækisins og áætlunina fyrir athafnasvæðið, þar á meðal í samræmi við viðeigandi reglugerðarkröfur er varða umhverfið.

 

B. Umfang

Skilgreina skal ítarlega heildarumfang einstakra úttekta eða einstakra áfanga í úttektarlotu, eftir því sem við á, og tiltaka nákvæmlega:

1. viðfangsefnin;

2. starfssviðin sem taka skal út;

3. umhverfisstaðlana sem taka skal tillit til;

4. hvaða tímabil úttektin nær yfir.

Í vistúttekt felst mat á þeim raungögnum sem þarf til að meta frammistöðu.

 

C. Skipulag og föng

Úttekt skal gerð af einstaklingi eða einstaklingum sem hafa viðeigandi þekkingu á þeim þáttum og sviðum sem tekin skulu út. Aðilar skulu hafa þekkingu á og reynslu í viðeigandi umhverfisstjórnkerfi, tæknilegum málum og umhverfis- og reglugerðarmálum og nægilega þjálfun og hæfni á einstökum úttektarsviðum til að geta náð settu marki. Þau aðföng og sá tími sem er ætlaður til úttektar skal vera í samræmi við umfang og markmið úttektarinnar. Yfirstjórn fyrirtækisins skal aðstoða við úttektina. Úttakendur skulu vera nógu óháðir starfseminni sem þeir taka út til að geta fellt hlutlæga og óhlutdræga dóma.

 

D. Skipulagning og undirbúningur fyrir úttekt athafnasvæðis

Úttekt skal einkum skipuleggja og undirbúa með því markmiði að:

1. tryggja að viðeigandi aðföng séu fyrir hendi til úttektar,

2. tryggja að allir einstaklingar sem eiga hlut að úttektinni (þar með talið úttak-

endur, stjórn athafnasvæðisins og starfsfólk) skilji hlutverk sitt og ábyrgð.

Við undirbúning úttektar skulu þátttakendur kynna sér starfsemina á athafnasvæðinu og umhverfisstjórnkerfið þar og endurskoða niðurstöður og ályktanir úr fyrri úttektum.

 

E. Úttektarstörf

1. Úttekt felur í sér að ræða við starfsfólk á athafnasvæðinu, skoða rekstrarskilyrði, búnað og endurskoða skrár, skriflegar reglur og önnur viðeigandi skjöl í þeim tilgangi að meta framlag í umhverfismálum á athafnasvæðinu. Ganga skal úr skugga um hvort athafnasvæðið uppfylli þá staðla sem við eiga og hvort það kerfi sem beitt er til að úthluta ábyrgð á umhverfismálum sé skilvirkt og hentugt.

2. Einkum þessir áfangar eru liðir í úttektarferlinu:

2.1. skilningur á umhverfisstjórnkerfunum;

2.2. mat á styrkleika og veikleika umhverfismálakerfanna;

2.3. söfnun viðeigandi gagna;

2.4. mat á niðurstöðum úttektar;

2.5. samning úttektarályktunar;

2.6. skýrslugjöf um niðurstöður og ályktun úttektar.

 

F. Skýrslugjöf um niðurstöður og ályktanir úttektar

1. Úttektarstjórar semja skriflega úttektarskýrslu með viðeigandi formi og innihaldi, þannig að allar niðurstöður og ályktanir úttektar komi örugglega til fulls og formlega fram í lok hverrar úttektar eða úttektarlotu. Tilkynna skal yfirstjórn fyrirtækisins formlega um niðurstöður og ályktanir úttektar.

2. Grundvallarmarkmiðið með skriflegri úttektarskýrslu er að:

2.1.          skjalfesta umfang úttektar;

2.2.          veita stjórn fyrirtækisins upplýsingar viðvíkjandi því hvort umhverfismálastefnu fyrirtækisins sé framfylgt og um framfarir í umhverfismálum á athafnasvæðinu;

2.3.          veita stjórn fyrirtækisins upplýsingar um það hversu skilvirkt og áreiðanlegt eftirlit er með umhverfisáhrifum á athafnasvæðinu;

2.4.          sýna fram á þörf fyrir úrbætur þegar það á við.

 

G. Úttekt fylgt eftir

Úttektarferlinu lýkur með gerð og framkvæmd áætlunar um viðeigandi úrbætur.

Nauðsynleg og virk kerfi verða að vera til staðar til að tryggt sé að niðurstöðum úttektar sé fylgt eftir.

 

H. Úttektartíðni

Úttekt fer fram eða úttektarlotu lýkur, eftir því sem við á, með ekki meira en þriggja ára millibili. Yfirstjórn fyrirtækisins ákveður tíðni úttektar fyrir hvert starfssvið á athafnasvæðinu, með hliðsjón af þeim heildarumhverfisáhrifum sem starfsemin á staðnum getur haft og með hliðsjón af umhverfisáætluninni fyrir athafnasvæðið.

Einkum skal leggja áherslu á eftirfarandi þætti:

1. eðli, umfang starfseminnar og hversu margslungin hún er;

2. eðli og umfang losunar, úrgang, hráefni og orkunotkun og almennt tengsl við

umhverfið;

3. hversu mikilvæg og áríðandi vandamálin eru sem í ljós koma, annaðhvort í

framhaldi af fyrstu heildarskoðun á umhverfinu eða fyrri úttekt;

4. sögu umhverfisvandamála í tengslum við fyrirtækið.

 

 

III. VIÐAUKI

Kröfur um faggildingu umhverfisvottenda og starfssvið þeirra.

 

A. Kröfur um faggildingu umhverfisvottenda

 

1. Viðmið fyrir faggildingu umhverfisvottenda eru þessi:

1.1. Starfsfólk.

Umhverfisvottendur skulu vera hæfir til starfa á því sviði sem faggildingin nær til og verða að geta sýnt fram á, og hafa jafnan tiltækar, skrár um menntun og hæfi, þjálfun og reynslu starfsfólks síns, að minnsta kosti að því er varðar:

1.1.1.       aðferðafræði úttektar,

1.1.2.       þekkingu á fyrirtækjastjórnun og stjórnunaraðferðum,

1.1.3.       umhverfismál,

1.1.4.       viðeigandi löggjöf og staðla, þar með taldar sérstakar leiðbeiningar sem hafa verið unnar í tengslum við þessa reglugerð,

1.1.5.       viðeigandi tæknilega innsýn í starfsemina sem á að votta.

 

1.2. Sjálfstæði og hlutlægni.

Umhverfisvottendur skulu vera sjálfstæðir og hlutlausir. Umhverfisvottandi verður að geta sýnt fram á að hann og fyrirtæki hans séu ekki undir þrýstingi, viðskiptalegs eða fjárhagslegs eðlis eða af öðrum toga, sem gæti haft áhrif á dóma hans eða varpað rýrð á starf hans og að hann fylgi öllum reglum þar að lútandi.

Umhverfisvottendur sem uppfylla staðalinn EN 45012, 4. og 5. gr., uppfylla þessar kröfur.

 

1.3. Reglur.

Til að standast kröfur þessarar tilskipunar um vottun skulu umhverfisvottendur hafa yfir að ráða skjalfestri aðferðafræði og reglum, þar með talið gæðaeftirlitskerfi og ákvæði um þagnarskyldu.

 

1.4. Fyrirtæki umhverfisvottenda.

Ef umhverfisvottandi er fyrirtæki skal hann hafa skipurit sem hann leggur fram að fenginni beiðni. Á skipuritinu skal koma fram uppbygging fyrirtækisins og dreifing ábyrgðar og yfirlýsing um réttarstöðu, eigendur og fjármögnun.

 

1.5. Faggilding einstaklinga.

Heimilt er að veita einstaklingum faggildingu að því tilskildu að hún sé takmörkuð við þá tegund fyrirtækja og starfsemi sem viðkomandi einstaklingur hefur nauðsynlega þekkingu á og reynslu af, til að geta leyst til fullnustu þau verkefni sem um getur í B-hluta.

Að því er varðar athafnasvæðin þar sem slík starfsemi fer fram skal umsækjandi einkum sýna nægilega þekkingu og reynslu á sviði tækni-, umhverfis- og reglugerðarmála sem máli skipta við faggildinguna og í vottunaraðferðum og -aðgerðum. Umsækjandinn skal uppfylla viðmiðin samkvæmt 1. lið fyrir sjálfstæði, hlutlægni og aðferðir.

 

2. Umsóknir um faggildingu.

Sá sem sækir um faggildingu sem umhverfisvottandi skal útfylla og undirrita opinbert umsóknareyðublað þar sem hann lýsir yfir þekkingu sinni á faggildingarkerfinu; samþykkir að fylgja reglum um faggildingu og greiða nauðsynleg gjöld; samþykkir að fylgja viðmiðum fyrir faggildingu og greinir frá fyrri umsóknum eða faggildingu.

Umsækjandi skal fá afhentar skriflegar upplýsingar um faggildingarreglurnar og réttindi og skyldur, þar með talin gjöld, faggilts umhverfisvottanda. Umsækjanda skulu veittar frekari upplýsingar þessu viðkomandi að beiðni hans.

 

3. Faggildingarreglur.

Faggilding felst í eftirfarandi atriðum:

3.1. söfnun á viðeigandi upplýsingum sem þarf til að meta þann sem sækir um faggildingu sem umhverfisvottandi, þar með taldar almennar upplýsingar svo sem nafn, heimilisfang, réttarstaða, menntun og hæfi, ef til vill staða innan stærra fyrirtækis o.s.frv.; og upplýsingum til að meta hvort fylgt sé þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 1. lið og hvort takmarka skuli umfang faggildingarinnar;

3.2. mati á umsækjanda; annaðhvort er það starfsfólk Löggildingarstofunnar eða skipaðir fulltrúar hennar sem mynda sér skoðun á því hvort umsækjandi uppfyllir faggildingarviðmið með því að kanna þær upplýsingar sem umsækjandi leggur fram og störf hans í þessu sambandi og með því að gera frekari fyrirspurnir, ef þörf krefur, m.a. með því að ræða við samstarfsmenn umsækjanda. Umsækjanda skal tilkynnt um þessa könnun og honum gefið færi á að gera athugasemdir við innihald hennar;

3.3. Löggildingarstofan skal kanna allt það efni varðandi matið sem þarf til að taka ákvörðun um faggildingu;

3.4. Löggildingarstofan tekur ákvörðun um að veita eða synja um faggildingu, með ákveðnum skilmálum og skilyrðum eða takmörkunum á umfangi faggildingarinnar, á grundvelli könnunarinnar í b-lið. Faggildingaraðilar skulu hafa skriflegar verklagsreglur til að meta hvert skuli vera umfang faggildingar umhverfisvottenda.

 

4. Umsjón með faggiltum umhverfisvottendum.

Gera skal ráðstafanir með reglulegu millibili, sem má ekki vera lengra en þrjú ár, til að tryggja að faggilti umhverfisvottandinn uppfylli enn faggildingarkröfurnar og til að fylgjast með ágæti þeirrar umhverfisvottunar sem fram hefur farið.

Faggilti umhverfisvottandinn verður þegar í stað að tilkynna Löggildingarstofunni um allar breytingar sem snerta faggildinguna eða umfang hennar.

Löggildingarstofunni er hvorki heimilt að taka ákvörðun um tímabundna eða varanlega niðurfellingu faggildingar né takmarka umfang faggildingarinnar nema faggilti umhverfisvottandinn hafi fengið tækifæri til að láta álit sitt í ljós.

Þegar vottandi er við vottunarstörf í aðildarríki en er faggiltur í öðru aðildarríki skal hann tilkynna faggildingarstofnun aðildarríkisins þar sem vottunin fer fram um starfsemi sína.

 

6. Aukning á umfangi faggildingar.

Löggildingarstofan skal hafa skriflegar reglur um hvernig fjalla skuli um mat á faggiltum umhverfisvottendum sem sækja um aukningu á umfangi faggildingar sinnar.

B. Störf vottenda.

 

1. Rannsóknir.

Faggiltir umhverfisvottendur skulu rannsaka umhverfismálastefnu, umhverfisáætlanir, umhverfisstjórnkerfi, reglur um rýni og úttektir og umhverfismálayfirlýsingar og sjá um viðurkenningu yfirlýsinganna. Störf vottenda felast í eftirliti með því:

1.1. hvort allar kröfur þessarar reglugerðar séu uppfylltar, einkum kröfur er varða umhverfismálastefnu og -áætlun, umhverfisrýni, virkni umhverfisstjórnkerfisins, úttektarferlið og umhverfismálayfirlýsingarnar,

1.2. hversu áreiðanleg gögn og upplýsingar í umhverfismálayfirlýsingunni eru og hvort yfirlýsingin taki á fullnægjandi hátt til allra mikilvægra umhverfismálefna viðvíkjandi athafnasvæðinu.

Umhverfisvottendur rannsaka einkum, á áreiðanlegan og fagmannlegan hátt, tæknilegt gildi umhverfisrýni eða úttektar eða annarra starfsaðferða fyrirtækisins, án þess að endurtaka þessar starfsaðferðir að óþörfu.

 

2. Samkomulag.

Vottandinn skal starfa á grundvelli skriflegs samkomulags við fyrirtækið. Í samkomulaginu skal skilgreina umfang verksins, gera vottandanum kleift að starfa á faglega sjálfstæðan hátt og skylda fyrirtækið til nauðsynlegrar samvinnu.

Við vottun skal rannsaka skjöl, heimsækja athafnasvæðið og einkum ræða við samstarfsmenn, undirbúa skýrslu til stjórnar fyrirtækisins og leysa þau vandamál sem sett eru fram í skýrslunni.

Þau skjöl sem rannsaka skal áður en farið er á athafnasvæðið taka til grundvallarupplýsinga um athafnasvæðið og þá starfsemi sem þar fer fram, umhverfismálastefnu og áætlun, lýsingu á umhverfisstjórnkerfinu fyrir athafnasvæðið, upplýsingar um fyrri umhverfisrýni eða úttekt, skýrslu um þá rýni eða úttekt og úrbætur í framhaldi af henni og drög að umhverfismálayfirlýsingu.

 

3. Skýrslugjöf.

Í skýrslu vottanda til stjórnar fyrirtækisins skal tilgreina tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum þessarar reglugerðar, einkum:

3.1. tæknilega vankanta umhverfisrýninnar eða úttektaraðferðarinnar eða umhverfisstjórnkerfisins eða annars viðeigandi ferlis.

3.2. hvar vottandi er ósammála drögum að umhverfismálayfirlýsingu og gefa upplýsingar um nauðsynlegar breytingar á umhverfismálayfirlýsingunni eða viðbætur við hana.

 

4. Eftirfarandi getur átt sér stað:

1) Ef

4.1.1.       umhverfismálastefnan er í samræmi við viðeigandi kröfur þessarar reglugerðar,

4.1.2.       umhverfisrýnin eða -úttektin virðist hafa verið tæknilega fullnægjandi,

4.1.3.       í umhverfisáætluninni er fjallað um öll mikilvæg málefni sem vakin hefur verið athygli á,

4.1.4.       umhverfisstjórnkerfið uppfyllir kröfurnar í I. viðauka, og

4.1.5.       yfirlýsingin reynist nákvæm, nægilega ítarleg og í samræmi við kröfur kerfisins

þá viðurkennir vottandinn yfirlýsinguna.

 

2) Ef

4.2.1.       umhverfismálastefnan er í samræmi við viðeigandi kröfur þessarar reglugerðar,

4.2.2.       umhverfisrýnin eða -úttektin virðist hafa verið tæknilega fullnægjandi,

4.2.3.       í umhverfisáætluninni er fjallað um öll mikilvæg málefni sem vakin hefur verið athygli á,

4.2.4.       umhverfisstjórnkerfið uppfyllir kröfurnar í I. viðauka, en

4.2.5.       endurskoða verður eða ljúka við yfirlýsinguna eða yfirlýsing fyrir millibilsár, þegar engin viðurkenning fór fram, hefur reynst röng eða misvísandi, eða engin yfirlýsing var gefin á millibilsári en hefði átt að vera gefin

þá skal vottandinn ræða nauðsynlegar breytingar við stjórn fyrirtækisins og ekki viðurkenna yfirlýsinguna fyrr en fyrirtækið hefur bætt nauðsynlegum viðbótum og/eða breytingum við yfirlýsinguna, þar á meðal, ef þörf krefur, tilvísun í nauðsynlegar breytingar á fyrri óviðurkenndum yfirlýsingum eða viðbótarupplýsingar sem hefði átt að birta á milliliggjandi árum.

 

3) Ef

4.3.1.       umhverfismálastefnan er ekki í samræmi við viðeigandi kröfur þessarar reglugerðar eða

4.3.2.       umhverfisrýnin eða úttektin er ekki tæknilega fullnægjandi eða

4.3.3.       í umhverfisáætluninni er ekki fjallað um öll mikilvæg málefni sem vakin hefur verið athygli á, eða

4.3.4.       umhverfisstjórnkerfið uppfyllir ekki kröfurnar í I. viðauka,

þá skal vottandinn beina viðeigandi tilmælum til stjórnar fyrirtækisins um nauðsynlegar úrbætur og ekki viðurkenna yfirlýsingu fyrr en vankantar í stefnunni og/eða áætluninni og/eða ferlunum hafa verið lagfærðir, ferlin endurtekin að því marki sem þörf er á og yfirlýsingin endurskoðuð í samræmi við það.

 

IV. VIÐAUKI

Yfirlýsingar um aðild.

 

UMHVERFISSTJÓRNAR- OG

ÚTTEKTARKERFI ESB

Á þessu athafnasvæði er beitt umhverfisstjórnkerfi og almenningur fær upplýsingar um árangurinn í samræmi við umhverfisstjórnar- og úttektarkerfi ESB. (skráningarnúmer.)

 

 

 

 

UMHVERFISSTJÓRNAR- OG

ÚTTEKTARKERFI ESB

Á öllum athafnasvæðum í bandalaginu, þar sem við stundum iðnstarfsemi, er beitt umhverfisstjórnkerfi og almenningur fær        upplýsingar um árangurinn í samræmi við umhverfisstjórnar- og úttektarkerfi ESB (auk valfrjálsrar yfirlýsingar um starfsvenjur í löndum utan ESB)

 

UMHVERFISSTJÓRNAR- OG

ÚTTEKTARKERFI ESB

Á öllum athafnasvæðum í (heiti aðildarríkis/-ríkja) þar sem við stundum iðnstarfsemi er beitt umhverfisstjórnkerfi og almenningur fær upplýsingar um árangurinn í samræmi við umhverfisstjórnar- og úttektarkerfi ESB.

 

 

 

UMHVERFISSTJÓRNAR- OG

ÚTTEKTARKERFI ESB

Á eftirfarandi athafnasvæðum, þar sem við stundum iðnstarfsemi er beitt umhverfisstjórnkerfi og almenningur fær upplýsingar um árangurinn í samræmi við umhverfisstjórnar- og úttektarkerfi ESB:

- heiti athafnasvæðis, skráningarnúmer

- ...

 

 

V. VIÐAUKI

Upplýsingar sem veita skal Hollustuvernd ríkisins þegar sótt er um skráningu og þegar lagðar eru fram viðurkenndar umhverfismálayfirlýsingar.

 

 

 1.            Heiti fyrirtækis.

 2.            Auðkenni og staðsetning athafnasvæðis.

 3.            Stutt lýsing á starfseminni á athafnasvæðinu (með tilvísun í fylgiskjöl ef þörf krefur).

 4.            Nafn og heimilisfang faggilta umhverfisvottandans sem viðurkennir hjálagða yfirlýsingu.

 5.            Lokafrestur til að senda inn næstu viðurkenndu umhverfismálayfirlýsingu.

Eftirfarandi skal koma fram í umsókninni:

 a)            Stutt lýsing á umhverfisstjórnkerfinu.

 b)           Lýsing á úttektaráætluninni fyrir svæðið.

 c)            Viðurkennd umhverfismálayfirlýsing.

 

VI. VIÐAUKI

Fyrirtækjaflokkar sem þátt geta tekið í eftirlitskerfi reglugerðar þessarar.

 

1.             Matvæla- og drykkjarvöruiðnaður

1.1.          Framleiðsla og vinnsla kjöts og kjötvara

1.2.          Öll vinnsla sjávarafurða, þar með talin fiskimjölsframleiðsla

1.3.          Vinnsla ávaxta og grænmetis

1.4.          Framleiðsla á feiti, jurta- og dýraolíu

1.5.          Framleiðsla mjólkurafurða

1.6.          Framleiðsla á kornvöru, mölva og mjölvaríkri vöru

1.7.          Fóðurframleiðsla

1.8.          Önnur matvælaframleiðsla

1.9.          Framleiðsla drykkjarvara

1.10.        Tóbaksiðnaður

2.             Textíl- og textílvöruiðnaður

2.1.          Forvinnsla og spuni á textíltrefjum

2.2.          Vefnaður

2.3.          Frágangur á textílum

2.4.          Framleiðsla á tilbúinni textílvöru, annarri en fatnaði

2.5.          Framleiðsla annarrar textílvöru

2.6.          Framleiðsla á hekl- og prjónavoð

2.7.          Framleiðsla á prjónaðri og heklaðri vöru

2.8.          Framleiðsla á leðurfatnaði

2.9.          Framleiðsla á öðrum fatnaði

2.10.        Sútun og litun loðskinna og framleiðsla loðskinnsvöru

 

3.             Leðuriðnaður og leðurvöruframleiðsla

3.1.          Sútun á leðri

3.2.          Framleiðsla á ferðatöskum, handtöskum og skyldum vörum og reiðtygjum

3.3.          Framleiðsla á skófatnaði

 

4.             Timburiðnaður

4.1.          Sögun, heflun og fúavörn á viði

4.2.          Framleiðsla á spónaþynnum, krossviði, límtré, spónarplötum, trefjaplötum og öðrum viðarplötum

4.3.          Framleiðsla á mótatimbri og smíðaviði

4.4.          Framleiðsla á umbúðum úr tré

4.5.          Framleiðsla annarrar viðarvöru; framleiðsla vöru úr korki, hálmi og fléttuefnum

 

5.             Pappírs- og pappírsvöruiðnaður, útgáfustarfsemi og prentiðnaður

5.1.          Framleiðsla á pappírskvoðu, pappír og pappa

5.2.          Framleiðsla á pappírs- og pappavöru

5.3.          Útgáfustarfsemi

5.4.          Prentiðnaður og starfsemi tengd prentiðnaði

5.5.          Fjölföldun upptekins efnis

 

6.             Framleiðsla á koksi, hreinsuðum jarðolíuvörum og kjarnaeldsneyti

6.1.          Koksframleiðsla

6.2.          Framleiðsla á hreinsuðum jarðolíuvörum

6.3.          Framleiðsla kjarnaeldsneytis

 

7.             Efnavöruiðnaður

7.1.          Framleiðsla á grunnefnum til efnaiðnaðar

7.2.          Framleiðsla á varnarefnum og öðrum efnaafurðum til nota í landbúnaði

7.3.          Framleiðsla á málningu, lakki og svipuðum þekjuefnum, prentbleki og fylli- og þéttiefnum

7.4.          Framleiðsla á lyfjum og hráefnum til lyfjagerðar

7.5.          Framleiðsla á sápu, hreinsi- og þvottaefnum, hreingerningar- og fægiefnum, ilmvatni og snyrtivöru

7.6.          Annar efnaiðnaður

7.7.          Framleiðsla gervitrefja

 

8.             Gúmmí- og plastvöruframleiðsla

8.1.          Gúmmívöruframleiðsla

8.2.          Plastvöruframleiðsla

 

9.             Steinefnaiðnaður, annar en málmiðnaður

9.1.          Framleiðsla á gleri og glervörum

9.2.          Framleiðsla á leirvöru til annarra nota en til bygginga; framleiðsla eldfastrar leirvöru

9.3.          Framleiðsla á flísum og hellum úr leir og postulíni

9.4.          Framleiðsla á múrsteinum, tígulsteinum og öðrum byggingarvörum úr brenndum leir

9.5.          Framleiðsla á sementi, kalki og gifsi

9.6.          Framleiðsla á hlutum úr steinsteypu, sementi eða gifsi

9.7.          Steinsmíði

9.8.          Framleiðsla annarrar vöru úr steinefnum öðrum en málmum

10.           Málmiðnaður

10.1.        Járn, stál- og járnblendiframleiðsla samkvæmt samningi Kola- og stálbandalags Evrópu (KSE)

10.2.        Röraframleiðsla

10.3.        Önnur frumvinnsla á járni og stáli og framleiðsla járnblendis sem samningur Kola- og stálbandalags Evrópu (KSE) tekur ekki til

10.4.        Frumvinnsla góðmálma og framleiðsla málma sem innihalda ekki járn

10.5.        Málmsteypa

10.6.        Framleiðsla á byggingarefni úr málmi

10.7.        Framleiðsla geyma, kera og íláta úr málmi; framleiðsla miðstöðvarofna og miðstöðvarkatla

10.8.        Framleiðsla á gufukötlum, öðrum en miðstöðvarkötlum

10.9.        Eldsmíði, þrýstismíði, stönsun og völsun málma; sindurmótun

10.10.      Meðferð og húðun málma; almenn þjónusta vélsmiðja gegn þóknun eða skv. verksamningi

10.11.      Framleiðsla á hnífum, hnífapörum, verkfærum og ýmiss konar járnvöru

10.12.      Framleiðsla annarra fullunninna málmvara

 

11.           Framleiðsla véla og tækja ót. a.

11.1.        Framleiðsla véla og vélbúnaðar til að framleiða og nýta vélræna orku, þó ekki í loftför, ökutæki og bifhjól

11.2.        Framleiðsla vélbúnaðar til almennra nota

11.3.        Framleiðsla véla til landbúnaðar og skógræktar

11.4.        Framleiðsla smíðavéla

11.5.        Framleiðsla annars sérhæfðs vélbúnaðar

11.6.        Vopna- og skotfæraframleiðsla

11.7.        Framleiðsla heimilistækja ót.a.

 

12.           Framleiðsla rafmagns-, rafeinda- og sjóntækja

12.1.        Framleiðsla á skrifstofuvélum og tölvum

12.2.        Framleiðsla rafmótora, rafala og straumbreyta

12.3.        Framleiðsla dreifi- og stýribúnaðar fyrir raforku

12.4.        Framleiðsla á einangruðum vírum og köplum

12.5.        Framleiðsla á rafgeymum og rafhlöðum

12.6.        Framleiðsla á ljósabúnaði og lömpum

12.7.        Framleiðsla annarra rafmagnstækja ót.a.

12.8.        Framleiðsla á rafeindalömpum og öðrum íhlutum rafeindatækja

12.9.        Framleiðsla útvarps- og sjónvarpssenda og tækja fyrir símatækni og símritun

12.10.      Framleiðsla sjónvarps- og útvarpsviðtækja, hljóð- eða myndupptökuvéla, sýningarvéla eða spilara og skyldrar vöru

12.11.      Framleiðsla á tækjum til lækninga og skurðlækninga og búnaði til bæklunarlækninga

12.12.      Framleiðsla á tækjum og búnaði til mælinga, eftirlits og prófana, leiðsögu o.fl., þó ekki stýribúnaður fyrir iðnaðarframleiðslu

12.13.      Framleiðsla á sjóntækjum og ljósmyndavélum og öðrum ljósmyndabúnaði

12.14.      Úr- og klukkusmíði

 

13.           Framleiðsla flutningatækja

13.1.        Framleiðsla vélknúinna ökutækja

13.2.        Smíði yfirbygginga fyrir ökutæki; framleiðsla eftir- og festivagna

13.3.        Framleiðsla hluta og aukabúnaðar í ökutæki og vélar

13.4.        Skipa- og bátasmíðar og skipa- og bátaviðgerðir

13.5.        Framleiðsla járnbrautar- og sporvagna

13.6.        Smíði loftfara og geimflauga

13.7.        Framleiðsla bif- og reiðhjóla

13.8.        Framleiðsla annarra flutningatækja

 

14.           Iðnaður

14.1.        Húsgagnaiðnaður

14.2.        Skartgripasmíði og skyld framleiðsla

14.3.        Hljóðfærasmíði

14.4.        Sportvörugerð

14.5.        Leikfangagerð

14.6.        Annar iðnaður ót.a.

 

15.           Námugröftur og vinnsla orkugjafa

15.1.        Steinkolanám

15.2.        Brúnkolanám

15.3.        Móvinnsla

15.4.        Vinnsla á olíu og jarðgasi

15.5.        Þjónusta tengd olíu og vinnslu önnur en jarðgasleit

 

16.           Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu, annarra en orkugjafa

16.1.        Nám málma úr jörðu

16.2.        Grjótnám

16.3.        Sand- og leirnám

16.4.        Námuvinnsla á steinefnum til efnaiðnaðar og áburðargerðar

16.5.        Saltvinnsla

16.6.        Annar námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica