Umhverfisráðuneyti

857/1999

Reglugerð um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að takmarka notkun tiltekinna efna:

2. gr.

Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til neðantalinna efna:

1) Eftirtalinna efna sem flokkast sem ,,Eitur" (T) eða ,,Sterkt eitur" (Tx), skv. reglugerð nr. 236/1990 um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, ásamt síðari breytingum:

a) Krabbameinsvaldandi efna sem fá hættusetninguna H45: ,,Getur valdið krabbameini" eða hættusetninguna H49: ,,Getur valdið krabbameini við innöndun" sjá I. viðauka.

b) Efna sem geta valdið stökkbreytingum og fá hættusetninguna H46: ,,Getur valdið arfgengum skaða", sjá II. viðauka.

c) Efna sem geta haft skaðleg áhrif á æxlun og fá hættusetninguna H60: ,,Getur dregið úr frjósemi" eða hættusetninguna H61: ,,Getur skaðað barn í móðurkviði", sjá III. viðauka.

2) Klórefnasambanda - lífræn leysiefni og efni til nota í málmiðnaði, sjá IV. viðauka.

3) Tiltekinna varnarefna, sjá V. viðauka.

4) Annarra hættulegra efna, sjá VI. viðauka.

5) Úðabrúsa, sem í eru efni sem flokkast sem ,,Eitur" (T) eða ,,Sterkt eitur" (Tx).

3. gr.

Efni sem geta valdið krabbameini,

stökkbreytingum eða haft skaðleg áhrif á æxlun.

Óheimilt er að dreifa á almennum markaði efnum skv. 1. tl. 2. gr. og vörutegundum sem í eru þessi efni í þeim styrk að varan flokkist sem ,,Eitur" (T) eða ,,Sterkt eitur" (Tx) skv. flokkunarreglum í reglugerð nr. 236/1990. Umbúðir viðkomandi efna og vörutegunda skulu, auk annarra lögbundinna merkinga, merktar eftirfarandi áletrun með skýru og óafmáanlegu letri: ,,Notist einungis af fagmönnum. Varúð - forðist snertingu eða innöndun - leitið sérstakra leiðbeininga fyrir notkun".

Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um lyf, sjá lög nr. 93/1994 og eldsneyti, sjá 8. gr reglugerðar nr. 137/1987.

4. gr.

Klórefnasambönd - lífræn leysiefni

og efni til nota í málmiðnaði.

Óheimilt er að dreifa á almennum markaði efnum eða vörutegundum sem í eru lífræn leysiefni sem talin eru upp í A- hluta 4. viðauka, í styrk sem er jafn eða meiri en 0,1%1). Einnig er óheimilt að nota viðkomandi efni í fyrirtækjum þar sem þau geta auðveldlega dreifst út í umhverfið, t.d. við yfirborðshreinsun eða efnahreinsun. Umbúðir viðkomandi efna og vörutegunda skulu, auk annarra lögbundinna merkinga, merktar eftirfarandi áletrun með skýru og óafmáanlegu letri: ,,Eingöngu til nota í iðnaði".

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota í málmiðnaði efni í B-hluta 5. viðauka.

Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um lyf, sjá lög nr. 93/1994. Jafnframt er vísað til reglugerðar nr. 615/1997 um varnir gegn mengun af völdum ósoneyðandi efna varðandi takmörkun á framleiðslu, innflutningi, sölu og notkun koltetraklóríðs (tetraklórmetans) og 1,1,1-tríklóretans.

5. gr.

Varnarefni.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota sem varnarefni í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, efni sem talin eru upp í A-hluta 5. viðauka.

6. gr.

Önnur hættuleg efni.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota efni eða vörutegundir sem innihalda 0,1% eða meira af efnum sem talin eru upp í 6. viðauka.

Bann skv. 1. mgr. tekur ekki til dí-µ-oxó-dí-n-bútýltinhýdroxýbóran (DBB), ef það er notað við framleiðslu annarrar vöru þannig að innihald DBB í fullunninni vöru verði minna en 0,1%.

Bannið skv. 1. mgr. varðandi pentaklórfenól (PCP) tekur ekki til meðhöndlunar viðar, sbr. þó 5. gr. reglugerðar nr. 176/1998 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn, né heldur um meðhöndlun trefja og slitþolinna textílefna í iðnaði, sbr. þó 4. gr. reglugerðar nr. 448/1996 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna við meðhöndlun á textílvörum, ásamt síðari breytingum.

7. gr.

Úðabrúsar.

Í úðabrúsum, sem ætlaðir eru til dreifingar á almennum markaði, mega ekki vera efni sem flokkast sem ,,Eitur" (T) eða ,,Sterkt eitur" (Tx), samkvæmt reglugerð nr. 236/1990, ef samanlagt magn þeirra er umfram 0,1%, nema það sé sérstaklega leyft samkvæmt öðrum reglugerðum eða lögum.

8. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar að öðru leyti en því sem fellur undir lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

9. gr.

Viðurlög.

Um refsingu fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 29. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum svo og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Einnig er höfð hliðsjón af ákvæðum 4. tl., XV. kafla, II. viðauka, samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, tilskipun 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna, ásamt breytingum í tilskipunum 89/677/EBE, 91/173/EBE, 94/60/EB, 96/55/EB, 97/10/EB, 97/16/EB, 97/56/EB og 1999/43/EB.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 177/1998 um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna og reglugerð nr. 466/1998 um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna, svo og 2. gr., 4. gr. og 10. gr. reglugerðar nr. 137/1987.

Umhverfisráðuneytinu, 10. desember 1999.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.

 

I. VIÐAUKI

Krabbameinsvaldandi efni.

 

Skýringar:

1. dálkur Heiti efna.

2. dálkur CAS-nr.: Chemical Abstracts Service Registry Number - Alþjóðleg númer efna og efnasambanda.1), 2)

3. dálkur EB-nr.: Númer sem gefin eru öllum efnum sem skráð eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Númerin eru sjö stafa talnaraðir, xxx-xxx-x og eru þau birt í annarri af eftirtöldum skrám:

- EINECS: European Inventory of Existing Commercial Chemical Substances - Evrópuskrá yfir markaðssett efni.

- ELINCS: European List of Notified Chemical Substances - Evrópuskrá yfir tilkynnt efni.

4. dálkur Raðnúmer: Númer sem efninu er gefið þegar það er tekið inn í Evrópulista yfir hættuleg efni (Viðauki I við tilskipun 67/548/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna).

Númerið er talnaröð af gerðinni ABC-RST-VW-Y, þar sem:

-- ABC er annað hvort sætistala þess frumefnis sem er mest einkennandi fyrir eiginleika efnisins (með einu eða tveimur núllum fyrir framan til uppfyllingar) eða

flokksnúmer lífrænna efna,

- RST er raðtala efnisins í röðinni ABC,

- VW gefur til kynna á hvaða formi efnið er framleitt eða markaðssett,

- Y er vartala í samræmi við ISBN (International Standard Book Number).

5. dálkur Athugasemdir:

J: Flokkun efnisins sem krabbameinsvaldandi á ekki við ef sýnt er fram á að efnið inniheldur minna en 0,1%3) af benzeni (CAS-nr. 71-43-2).

K: Flokkun efnisins sem krabbameinsvaldandi á ekki við ef sýnt er fram á að efnið inniheldur minna en 0,1% af 1,3-bútadíeni (CAS-nr. 106-99-0).

L: Flokkun efnisins sem krabbameinsvaldandi á ekki við ef sýnt er fram á að efnið inniheldur minna en 3% DMSO úrdrátt, mælt með IP 346.

M: Flokkun efnisins sem krabbameinsvaldandi á ekki við ef sýnt er fram á að efnið inniheldur minna en 0,005% af benzó[a]pýreni (CAS-nr. 50-32-8).

N: Flokkun efnisins sem krabbameinsvaldandi á ekki við ef framleiðsluferli þess er þekkt og hægt er að sýna fram á að hráefnið sé ekki krabbameinsvaldandi.

P: Flokkun efnisins sem krabbameinsvaldandi á ekki við ef sýnt er fram á að efnið inniheldur minna en 0,1% af benzeni (CAS-nr. 71-43-2).

 

Smella hér til að nálgast töflurnar sem á eftir koma á pdf-formi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica