Umhverfisráðuneyti

618/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 176/1998 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn. - Brottfallin

618/2000

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 176/1998 um notkun og bann
við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn.

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota viðarvarnarefni sem í er meira en 0,1%1) af pentaklórfenóli, söltum þess eða esterum.


2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Óheimilt er að flytja inn, selja eða dreifa trjáviði sem meðhöndlaður hefur verið með efnum sem bönnuð eru samkvæmt ákvæðum 5. gr.

Óheimilt er að flytja inn, selja eða dreifa trjáviði sem meðhöndlaður hefur verið með efnum sem bönnuð eru samkvæmt ákvæðum 6. gr. nema til nota í samræmi við ákvæði 8. gr.


3. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Nýjan trjávið sem meðhöndlaður hefur verið með viðarvarnarefnum, sbr. ákvæði 6. gr., má einungis nota í faglegum tilgangi og í iðnaði, t.d. í tengslum við samgöngur, raforkuflutninga og fjarskiptatækni, í girðingar og mannvirki við hafnir og siglingaleiðir. Heimilt er að setja á endursölumarkað eldri trjávið sem meðhöndlaður hefur verið með slíkri viðarvörn.

Óheimilt er að nota trjávið sem meðhöndlaður hefur verið með viðarvarnarefnum, sbr. 6. gr., inni í byggingum hvort sem um er að ræða íbúðarhús, orlofshús eða vinnustaði. Slíkan við er einnig óheimilt að nota til endurvinnslu eða í ílát sem ætluð eru til ræktunar, svo og við framleiðslu á umbúðum sem geta komist í snertingu við hráefni eða vörur sem ætlaðar eru til neyslu.

Óheimilt er að nota nýjan og eldri við, sem meðhöndlaður hefur verið samkvæmt ákvæðum 6. gr., á leikvöllum, skemmtisvæðum fyrir almenning og á öðrum stöðum utanhúss þar sem hætta er á að viðurinn komist í snertingu við húð.


4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum.

Einnig er höfð hliðsjón af ákvæðum 4. tl. XV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, tilskipun 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna, ásamt breytingum í tilskipun 1999/51/EB.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 413/2000 um breytingu á reglugerð nr. 176/1998 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn.


Umhverfisráðuneytinu, 30. ágúst 2000.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

1) Hlutfall miðað við þyngd.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica