REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 390/1995 um ölkelduvatn.
1. gr.
1. málsl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Leyfi samkvæmt 1. mgr. gildir að hámarki í fimm ár. Ef leyfi er endurnýjað áður en gildistími þess er liðinn þarf ekki að leggja fram að nýju gögn sem krafa er gerð um samkvæmt reglugerð þessari.
2. gr.
6. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Óheimilt er að meðhöndla ölkelduvatn í upprunalegu ástandi nema á eftirtalinn hátt og að því tilskildu að meðhöndlun samkvæmt 1., 2. og 3. tl. hafi ekki áhrif á samsetningu vatnsins hvað varðar þau undirstöðuefni sem gefa því séreiginleika:
1. Með síun eða fellingu til að fjarlægja óstöðug efni þess svo sem járn og brennisteinssambönd, mögulega að undangenginni súrefnisbindingu.
2. Með ósoni til að fjarlægja járn-, mangan- og súlfúrsambönd og arsen.
3. Með því að fjarlægja óæskileg efni og efnasambönd önnur en þau sem tilgreind eru í 1. og 2. tl.
4. Með eðlisfræðilegum aðferðum til eyðingar óbundins koltvísýrings, algjörlega eða að hluta.
5. Með því að bæta koltvísýringi í vatnið, ef það er gert í samræmi við skilgreiningar á freyðandi ölkelduvatni, sbr. 9. gr.
Þegar ákvörðun er tekin um meðhöndlun samkvæmt 2. og 3. tl. skal hún tilkynnt Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og skal lúta sérstöku eftirliti þess.
Ákvæði þessarar greinar koma ekki í veg fyrir notkun ölkelduvatns við framleiðslu svaladrykkja.
3. gr.
10. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á umbúðamerkingum:
1. Upplýsingar um samsetningu vatnsins samkvæmt efnagreiningu þar sem einkennandi efnisþættir eru tilgreindir.
2. Heiti svæðis þar sem vatnið er tekið og heiti upptökustaðar. Heiti svæðis getur verið hluti af heiti vörunnar eða nánari vörulýsing, sbr. 9. gr., ef heitið er ekki á nokkurn hátt villandi um uppruna vörunnar.
3. Upplýsingar um hvort vatnið hefur verið meðhöndlað eins og um getur í 2. eða 3. tl. 6. gr.
Heimilt er að sérmerkja umbúðir ölkelduvatns með þeim upplýsingum sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari, þegar tryggt er að viðeigandi skilyrðum um þær er fullnægt.
4. gr.
Við 14. gr. bætist ný málsgrein sem orðast svo:
Hafi eftirlitsaðili gilda ástæðu til að ætla að ölkelduvatn, sem þegar er komið á markað, fullnægi ekki ákvæðum þessarar reglugerðar eða að neysla þess geti stofnað heilsu almennings í hættu, er honum heimilt að banna eða takmarka sölu vatnsins tímabundið.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í 26. tl., XII. kafla, II. viðauka, tilskipun nr. 96/70/EB. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Heimilt er að selja birgðir af vöru sem framleidd hefur verið og merkt fyrir gildistöku reglugerðar þessarar samkvæmt áður gildandi ákvæðum reglugerðar nr. 390/1995 um ölkelduvatn.
Umhverfisráðuneytinu, 27. nóvember 1998.
Guðmundur Bjarnason.
Magnús Jóhannesson.