Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Umhverfisráðuneyti

359/1993

Reglugerð um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum.

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum í Kelduhreppi sem stofnaður var með ákvörðun Náttúruverndarráðs þann 2. júní 1973, sbr. reglugerð nr. 216/1973, og stækkaður með ákvörðunum Náttúruverndarráðs þann 6. nóvember 1973 og 8. júní 1978.

Um þjóðgarðinn gilda jafnframt ákvæði laga um náttúruvernd nr. 47/1971, ásamt síðari breytingum, og reglugerðar nr. 205/1973, ásamt síðari breytingum, eins og við geta átt.

Stjórn þjóðgarðsins.

2. gr.

Náttúruverndarráð fer með stjórn þjóðgarðsins. Náttúruverndarráð getur stofnað sérstaka ráðgjafarnefnd til þess að fjalla um málefni sem varða rekstur og mannvirkjagerð innan þjóðgarðsins.

3. gr.

Náttúruverndarráð ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglega stjórn í þjóðgarðinum eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Náttúruverndarráð setur þjóðgarðsverði erindisbréf og skal hann búsettur í þjóðgarðinum nema önnur skipan verði talin heppilegri.

Mörk þ jóðgarðsins.

4. gr.

Mörk þjóðgarðsins eru: Frá Dettifossi að sunnan og austan, beina stefnu vestur í hátind Eilífs. Frá Eilífi til norðurs í Lönguhlíð og ræður hlíðin merkjum út á móts við syðsta og vestasta horn Langavatnshöfða. Þaðan beina línu í Botnslæk við suðurbotn Ásbyrgis, þá með efri brún bjarga Ásbyrgis að vestan að skógræktargirðingu, með henni að austurbrún Eyjunnar og björgum út að þjóðvegi. Í austurátt með þjóðvegi að girðingu austan Ásbyrgisvegar og með henni að skógræktargirðingu og austur á björg Ásbyrgis. Þaðan með björgum svo sem þau taka, norður að þjóðvegi og með honum að Jökulsá. Austurmörk þjóðgarðsins fylgja miðlínu Jökulsár á Fjöllum.

Umgengni í þjóðgarðinum.

5. gr.

Skylt er að ganga vel og snyrtilega um þjóðgarðinn. Gestir garðsins skulu sýna hver öðrum tillitssemi. Öll óþarfa háreysti er bönnuð í þjóðgarðinum.

Bannað er að fleygja sorpi á víðavangi eða grafa það niður. Allt sorp skal flytja í sorpgeymslur.

Óheimilt er að vinna náttúruspjöll, t. d. spjöll á gróðri, trufla dýralíf að óþörfu, hrófla við jarðmyndunum, kveikja opinn eld í eða utan hlóða, eða aðhafast nokkuð það sem valdið getur spjöllum í þjóðgarðinum. Sérstök aðgát skal viðhöfð þegar eldunartæki eru notuð.

Notkun skotvopna er óheimil í þjóðgarðinum.

6. gr.

Gangandi fólki er heimil för um þjóðgarðinn enda sé merktum gönguleiðum eða hefðbundnum leiðum fylgt. Umferð reiðhjóla er óheimil utan akvega og reiðhjólaleiða.

7. gr.

Bannað er að beita hestum innan þjóðgarðsins.

Öll umferð hesta um þjóðgarðinn er óheimil nema á merktum reiðslóðum og afmörkuðum áningarstöðum enda liggi leyfi þjóðgarðsvarðar (landvarðar) fyrir.

8. gr.

Umferð vélknúinna farartækja er einungis heimil á akvegum og í samræmi við merkingar enda séu vegir ekki ófærir vegna aurbleytu eða snjóa.

Allur óþarfa akstur vélsleða og fjórhjóla er bannaður í þjóðgarðinum.

9. gr.

Óheimilt er að tjalda, leggja tjaldvögnum eða gista í bifreiðum nema á merktum tjaldsvæðum. Þó getur þjóðgarðsvörður (landvörður) heimilað aðra tilhögun ef sérstaklega stendur á.

10. gr.

Ef óskað er eftir að dveljast í þjóðgarðinum utan hefðbundins ferðamannatíma skal gera þjóðgarðsverði (landverði) sérstaklega aðvart og hlíta fyrirmælum hans um allt sem lítur að dvöl í garðinum.

11. gr.

Ef sérstaklega stendur á er Náttúruverndarráði heimilt að loka þjóðgarðinum eða einstökum akvegum í honum að öllu leyti eða hluta fyrir umferð almennings.

12. gr.

Óheimilt er að flytja plöntur, fræ og dýr í þjóðgarðinn.

Gestum þjóðgarðsins er óheimil dvöl í garðinum með hunda og önnur gæludýr án samráðs við starfsmenn þjóðgarðsins. Óheimilt er að láta dýrin ganga laus í þjóðgarðinum.

13. gr.

Gestum þjóðgarðsins er skylt að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar, annarra starfsmanna þjóðgarðsins og lögreglu um umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.

Nú er brotið í veigamiklum atriðum gegn reglugerð þessari og er þá heimilt að vísa viðkomandi úr þjóðgarðinum.

Starfsemi í þjóðgarðinum o. fl.

14. gr.

Öll atvinnustarfsemi, samkomuhald, kvikmyndagerð og rannsóknir í þjóðgarðinum er háð leyfi Náttúruverndarráðs. Mannvirkjagerð, efnistaka og annað jarðrask er óheimilt í þjóðgarðinum án leyfis Náttúruverndarráðs.

Búskapur og húsdýrahald í þjóðgarðinum er háð samþykki Náttúruverndarráðs.

Gildistaka o. fl.

15. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum eða varðhaldi.

16. gr.

Reglugerð þessi sem er samin og samþykkt af Náttúruverndarráði og sett samkvæmt lögum nr. 47/1971, ásamt síðari breytingum, staðfestist hér með og öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 216/1973.

Umhverfisráðuneytið, 27. ágúst 1993.

Össur Skarphéðinsson.

Magnús Jóhannesson.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica