I. KAFLI
Markmið, skilgreiningar og stjórn.
1. gr.
Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er markmið reglugerðarinnar að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og að koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerðin tekur til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, í lofthelgi, efnahagslögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána, sem hafa eða geta haft áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr., að svo miklu leyti sem önnur lög eða reglugerðir taka ekki til þeirra. Reglugerðin nær einnig til starfsemi og framkvæmda í efnahagslögsögunni vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis.
Reglugerðin gildir ekki um rannsóknarstarfsemi, þróunarstarf eða prófanir á nýjum vörum og vinnsluferlum sem falla undir I. viðauka.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
4. gr.
Stjórn mála.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar sem og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eftir því sem við á.
II. KAFLI
Starfsleyfi.
5. gr.
Starfsleyfi.
Allur atvinnurekstur, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, skal hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 7. gr. Starfsleyfi skal veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Óheimilt er að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út eða hann ekki verið skráður hjá Umhverfisstofnun.
Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir, eða ef breyting verður á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags, sbr. einnig 13. og 14. gr.
Leiði endurskoðun eða breyting á starfsleyfi til breytinga á starfsleyfisskilyrðum, sbr. 8. gr., skal útgefandi starfsleyfis auglýsa drög að slíkri breytingu að lágmarki í fjórar vikur.
Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi, sbr. 1. mgr., enda sé fram komin fullnægjandi starfsleyfisumsókn til útgefanda starfsleyfis og, ef við á, að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum eða niðurstaða um matskyldu starfseminnar. Afmarka skal undanþágu við þá þætti sem nauðsyn krefur í samræmi við þá meginreglu að allur atvinnurekstur skuli hafa gilt starfsleyfi. Við veitingu undanþágu skal kveða á um að rekstraraðili fylgi öðrum ákvæðum útgefins starfsleyfis eða starfsleyfistillögu og skýrslugjöf rekstraraðila til útgefanda starfsleyfis um framgang nauðsynlegra úrbóta sem tengjast forsendum undanþágu. Útgefandi starfsleyfis skal birta undanþágu ráðherra á vefsíðu sinni sem og eftirlitsskýrslur fyrirtækja sem starfa á undanþágu.
6. gr.
Útgáfa starfsleyfis.
Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. I., VII. og IX. viðauka, sbr. þó 7. gr. Heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. X. viðauka, sbr. þó 7. gr.
Rekstraraðilar skulu tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn um starfsleyfi. Umsóknum skal, eftir því sem við á hverju sinni, fylgja lýsing á eftirfarandi:
Einnig skal fylgja afrit af gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar.
Í umsókn um starfsleyfi skal einnig vera samantekt, sem ekki er á tæknimáli, um þau atriði sem getið er í 2. mgr.
Heimilt er að setja eftirfarandi upplýsingar í umsóknina eða láta þær fylgja henni ef þær uppfylla einhver skilyrða 2. mgr.:
Sé atvinnurekstur, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, háður mati á umhverfisáhrifum eða tilkynningarskyldur skal niðurstaða matsins eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst. Útgefandi starfsleyfis skal kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og skal taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar hvað varðar tengsl við verksvið útgefanda, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum.
Nýr atvinnurekstur skal vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Deiliskipulag þarf þó ekki að vera til staðar vegna atvinnurekstrar, sbr. VII., IX. og X. viðauka, enda samrýmist starfsemin gildandi aðalskipulagi hvað varðar landnotkun og byggðaþróun og sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Útgefandi starfsleyfis skal leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti. Deiliskipulag þarf auk þess ekki að vera til staðar vegna atvinnustarfsemi, sbr. viðauka I, sé um að ræða nýjan atvinnurekstur á stað þar sem áður var sambærilegur atvinnurekstur með starfsleyfi. Starfsemin skal þá samrýmast aðalskipulagi varðandi landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Útgefandi starfsleyfis skal leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti.
Útgefandi starfsleyfis skal vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega á vefsíðu sinni hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur útgefanda starfsleyfis innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
Útgefandi starfsleyfis skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir tilkynnt um afgreiðsluna.
Útgefandi starfsleyfis skal auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis telst vera opinber birting. Starfsleyfi skal fylgja greinargerð þar sem farið er yfir málsmeðferðina, tekin afstaða til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum ef við á og gerð grein fyrir afstöðu útgefanda starfsleyfis til athugasemda sem bárust.
Útgefandi starfsleyfis skal hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi, starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 7. gr., og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu, sbr. viðauka IV. Útgefandi starfsleyfis skal hafa aðgengilegar, þ.m.t. á vefsíðu sinni í tengslum við a-, b- og f-lið, eftirfarandi upplýsingar:
Útgefandi starfsleyfis skal einnig gera öllum aðgengilegar, þ.m.t. á vefsíðu sinni a.m.k. í tengslum við a-lið:
7. gr.
Skráningarskylda.
Ráðherra er heimilt, sbr. 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunvarvarnir, að kveða á um í reglugerð að atvinnurekstur, sbr. IX. og X. viðauka, sé háður skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfis. Um framvæmd skráningarskyldu fer samkvæmt reglugerð um skráningarskyldu sem ráðherra setur skv. 1. mgr. 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
8. gr.
Starfsleyfisskilyrði.
Umhverfisstofnun skal tryggja að í starfsleyfi, sbr. viðauka I og IX, séu öll skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að farið verði að kröfum 11. og 54. gr., sbr. þó 7. gr. Starfsleyfisskilyrði skulu að lágmarki fela í sér ákvæði um:
Útgefandi starfsleyfis skal taka mið af BAT-niðurstöðum við útfærslu starfsleyfisskilyrða og jafnframt hafa hliðsjón af BAT-niðurstöðum sem eru í vinnslu. Að því er varðar a-lið 1. mgr. má auka eða skipta út viðmiðunarmörkum fyrir losun með jafngildum breytum eða tæknilegum ráðstöfunum sem tryggja samsvarandi umhverfisverndarstig.
Umhverfisstofnun er heimilt að setja strangari starfsleyfisskilyrði en BAT-niðurstöður, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 1. ml. 3. mgr. 9. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, telji stofnunin það nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna og skal stofnunin rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega. Umhverfisstofnun er jafnframt heimilt að setja starfsleyfisskilyrði á grundvelli bestu aðgengilegu tækni sem ekki er lýst í BAT-niðurstöðum og skal í þeim tilvikum tryggja:
Þar sem niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni, sbr. a-lið, innihalda ekki losunargildi sem tengjast bestu aðgengilegu tækni skal Umhverfisstofnun tryggja að tæknin sem vísað er til í a-lið tryggi samsvarandi umhverfisverndarstig og besta aðgengilega tæknin sem lýst er í niðurstöðum um bestu aðgengilegu tækni.
Þegar starfsemi eða vinnsluferli sem fer fram innan stöðvar fellur ekki undir neinar af BAT-niðurstöðum eða þar sem þessar niðurstöður fjalla ekki um öll möguleg umhverfisáhrif starfseminnar eða ferlisins skal Umhverfisstofnun, að undangengnu samráði við rekstraraðila, setja leyfisskilyrðin á grundvelli bestu aðgengilegu tækni sem það hefur ákvarðað fyrir viðkomandi starfsemi eða ferli með því að taka sérstakt tillit til viðmiðananna sem taldar eru upp í III. viðauka.
Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun þegar rekstur er stöðvaður og til að koma rekstrarsvæði í viðundandi horf, að mati útgefanda starfsleyfis, þegar atvinnurekstur er endanlega stöðvaður eða lagður niður.
Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir skulu tilgreina í starfsleyfi, sbr. IX. og X. viðauka, rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, stærð og skilyrði, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Ákvæði um mengunarvarnir skulu taka mið af BAT-niðurstöðum þegar þær liggja fyrir.
9. gr.
Viðmiðunarmörk.
Viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna skulu gilda á losunarstað efnanna við stöðina. Þegar viðmiðunarmörk eru ákvörðuð skal ekki taka tillit til þynningar sem á sér stað áður en að losunarstað er komið. Að því er varðar óbeina losun mengandi efna í vatn er heimilt að taka tillit til áhrifa hreinsivirkis, sbr. lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þegar viðmiðunarmörk fyrir losun eru ákvörðuð fyrir viðkomandi stöð, að því tilskildu að samsvarandi umhverfisverndarstig fyrir umhverfið í heild sé tryggt og að því tilskildu að þetta leiði ekki til aukinnar mengunar í umhverfinu.
Viðmiðunarmörk skulu fyrir losun og jafngildar breytur og tæknilegar ráðstafanir byggjast á bestu aðgengilegu tækni, án þess að mælt sé fyrir um tilgreinda aðferð eða tækni.
Umhverfisstofnun skal í starfsleyfi ákvarða viðmiðunarmörk fyrir losun sem tryggja, við venjuleg rekstrarskilyrði, að losun fari ekki yfir losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni eins og mælt er fyrir um í BAT-niðurstöðum með öðru af eftirfarandi:
Beiti Umhverfisstofnun b-lið þessarar málsgreinar skal stofnunin meta minnst árlega niðurstöður vöktunar á losun til að tryggja að losun við venjulegar rekstraraðstæður fari ekki yfir losunargildin sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.
Þrátt fyrir 3. mgr. er Umhverfisstofnun heimilt í sérstökum tilvikum að ákvarða vægari viðmiðunarmörk fyrir losun. Slíkri undanþágu má aðeins beita þegar mat sýnir að það að ná losunargildum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni, eins og lýst er í BAT-niðurstöðum, myndi leiða til óeðlilega mikils kostnaðar í samanburði við umhverfislegan ávinning vegna:
Umhverfisstofnun skal skrá í viðauka við starfsleyfisskilyrðin ástæður fyrir beitingu undanþágu skv. 4. mgr., þ.m.t. niðurstöðu matsins og rökstuðning fyrir setningu skilyrðanna. Þau viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru á grundvelli þessarar heimildar skulu samt sem áður ekki vera yfir viðmiðunarmörkum fyrir losun sem sett eru fram í viðaukum við þessa reglugerð. Umhverfisstofnun skal í öllum tilvikum tryggja að ekki sé valdið umtalsverðri mengun og að háu umhverfisverndarstigi fyrir umhverfið í heild sé náð. Umhverfisstofnun skal endurmeta beitingu undanþágu skv. 4. mgr. sem hluta af hverri endurskoðun starfsleyfisskilyrða skv. 14. gr.
Umhverfisstofnun er heimilt í starfsleyfi að veita tímabundnar undanþágur frá viðmiðunarmörkum um losun og frá a- og b-lið 54. gr. vegna prófana og notkunar á tækninýjungum fyrir tímabil sem ekki má vera lengra en níu mánuðir samfleytt, að því tilskildu að eftir tilgreint tímabil sé notkun tækninnar hætt eða starfsemin nái a.m.k. losunargildum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.
10. gr.
Vöktun.
Umhverfisstofnun skal eftir atvikum byggja kröfur um vöktun á BAT-niðurstöðum.
Umhverfisstofnun skal ákvarða tíðni reglubundins viðhalds og eftirlits í starfsleyfi. Miða skal við að framkvæma reglubundið eftirlit a.m.k. fimmta hvert ár fyrir grunnvatn og tíunda hvert ár fyrir jarðveg nema slík vöktun byggist á kerfisbundnu mati á áhættu á mengun.
11. gr.
Umhverfisgæðakröfur.
Ef kveðið er á um strangari skilyrði um umhverfisgæði í reglugerð en hægt er að uppfylla með BAT-niðurstöðum skal Umhverfisstofnun, og eftir atvikum heilbrigðisnefnd, taka tillit til þess við útgáfu starfsleyfis.
12. gr.
Þróun á bestu aðgengilegu tækni.
Umhverfisstofnun skal hafa aðgengilegar á vefsvæði sínu upplýsingar um útgáfu nýrra eða uppfærðra BAT-niðurstaðna.
13. gr.
Breytingar á starfsemi.
Rekstraraðili skal upplýsa útgefanda starfsleyfis tímanlega um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar sem geta haft afleiðingar fyrir umhverfið. Við áform um slíkar breytingar skal útgefandi starfsleyfis endurskoða starfsleyfi eftir því sem við á.
Ef fyrirhuguð breyting sem rekstraraðili áformar, sbr. 1. mgr., er umtalsverð skal útgefandi starfsleyfis endurskoða starfsleyfið.
Sérhver breyting á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar skal teljast umtalsverð ef hún nær þeim viðmiðunargildum fyrir afkastagetu sem sett eru fram í I. viðauka.
14. gr.
Endurskoðun á starfsleyfisskilyrðum.
Útgefandi starfsleyfis skal endurskoða starfsleyfi reglulega og ekki sjaldnar en á 16 ára fresti. Hann skal uppfæra þau ef nauðsyn krefur.
Rekstraraðili skal, sé þess óskað af útgefanda starfsleyfis, leggja fram allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að endurskoða starfsleyfisskilyrðin, þ.m.t. einkum niðurstöður vöktunar á losun og önnur gögn sem gera mögulegan samanburð á starfsemi stöðvarinnar með bestu aðgengilegu tækni, sem lýst er í viðeigandi BAT-niðurstöðum og losunargildunum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.
Við endurskoðun starfsleyfis skal útgefandi starfsleyfis nota þær upplýsingar sem komið hafa fram við vöktun eða eftirlit.
Útgefandi starfsleyfis skal innan fjögurra ára frá birtingu BAT-niðurstaðna varðandi aðalstarfsemi stöðvar tryggja að:
Við endurskoðun starfsleyfis skal útgefandi starfsleyfis taka tillit til allra nýrra eða uppfærðra BAT-niðurstaðna sem við á fyrir stöðina og samþykktar hafa verið síðan starfsleyfið var veitt eða endurskoðað síðast. Þegar stöð fellur ekki undir BAT-niðurstöður skal endurskoða starfsleyfisskilyrðin og ef nauðsyn krefur uppfæra að svo miklu leyti sem þróun á bestu aðgengilegu tækni gerir mögulega umtalsverða minnkun á losun.
Starfsleyfisskilyrðin skal endurmeta og ef nauðsyn krefur uppfæra a.m.k. í eftirfarandi tilvikum:
15. gr.
Lokun svæðis.
Umhverfisstofnun skal setja ákvæði í starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. I. og IX. viðauka, um lokun iðnaðarsvæðis þegar starfsemi er stöðvuð endanlega.
Þegar starfsemi felur í sér notkun, framleiðslu eða losun tiltekinna hættulegra efna skal rekstraraðili, með hliðsjón af mögulegri jarðvegs- og grunnvatnsmengun á iðnaðarsvæði starfseminnar, taka saman og leggja fyrir Umhverfisstofnun skýrslu um grunnástand svæðisins áður en starfsemin hefst eða áður en starfsleyfi starfseminnar er uppfært.
Skýrsla um grunnástand skal innihalda upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að ákvarða stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar þannig að hægt sé að gera magnbundinn samanburð við stöðuna þegar starfsemi er endanlega stöðvuð. Í skýrslunni um grunnástand skulu koma fram a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
Umhverfisstofnun skal senda skýrslu um grunnástand til viðkomandi sveitarstjórnar.
Við endanlega stöðvun starfseminnar skal rekstraraðili meta stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar vegna hættulegra efna sem stöðin notar, framleiðir eða losar. Ef starfsemin hefur valdið umtalsverðri mengun í jarðvegi eða grunnvatni með hættulegum efnum samanborið við stöðuna sem staðfest er í skýrslu um grunnástand skal rekstraraðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að taka á þeirri mengun í þeim tilgangi að koma iðnaðarsvæðinu aftur í fyrra ástand. Í þeim tilgangi er heimilt að taka tillit til þess hvort slíkar ráðstafanir eru tæknilega framkvæmanlegar.
Við endanlega stöðvun starfseminnar og þegar heilsufari manna eða umhverfi stafar umtalsverð hætta af mengun jarðvegs og grunnvatns á iðnaðarsvæðinu, sem er afleiðing af leyfðri starfsemi rekstraraðilans áður en starfsleyfið er uppfært, skal rekstraraðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana með tilliti til ástands iðnaðarsvæðisins. Þær skulu miða að því að fjarlægja, koma í veg fyrir, afmarka eða draga úr hættulegum efnum þannig að af iðnaðarsvæðinu stafi ekki lengur slík hætta með tilliti til núverandi nota eða samþykktra nota í framtíðinni.
Þar sem þess er ekki krafist að rekstraraðili taki saman skýrslu um grunnástand skal rekstraraðili við endanlega stöðvun starfseminnar grípa til nauðsynlegra ráðstafana sem miða að því að fjarlægja, koma í veg fyrir, afmarka eða draga úr hættulegum efnum þannig að af iðnaðarsvæðinu, með tilliti til núverandi nota eða samþykktra nota í framtíðinni, stafi ekki lengur umtalsverð hætta fyrir heilsufar manna eða umhverfið vegna mengunar jarðvegs og grunnvatns sem leitt hefur af starfseminni og með tilliti til ástands iðnaðarsvæðisins.
16. gr.
Áhrif yfir landamæri.
Umhverfisstofnun skal, ef starfsemi er líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfi annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, senda upplýsingar um starfsemina til ríkisins á sama tíma og almenningi er veittur aðgangur að þeim.
Umhverfisstofnun skal tryggja að almenningur í ríki, sem líklegt má telja að verði fyrir umtalsverðum áhrifum, sbr. 1. mgr., hafi einnig aðgang að umsóknum um starfsleyfi þannig að hann öðlist rétt til að koma á framfæri athugasemdum um þær áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun.
Umhverfisstofnun skal upplýsa ríki, sbr. 1. mgr., um þá ákvörðun sem tekin er varðandi umsókn um starfsleyfi og skal framsenda því viðeigandi upplýsingar.
17. gr.
Tækninýjungar.
Stuðla skal að þróun og notkun tækninýjunga, eftir því sem við á, einkum að því er varðar þær tækninýjungar sem tilgreindar eru í tilvísunarskjölum um bestu aðgengilegu tækni.
III. KAFLI
Brennsluver.
18. gr.
Gildissvið.
Þessi kafli gildir um brennsluver með heildarnafnvarmaafl sem er jafnt og eða meira en 50 MW, óháð þeirri eldsneytistegund sem notuð er.
Þessi kafli gildir ekki um eftirfarandi brennsluver:
19. gr.
Samlegðarreglur.
Ef úrgangsloft tveggja eða fleiri brennsluvera er losað um sameiginlegan reykháf skal líta á þau sem eitt brennsluver og leggja afkastagetu þeirra saman við útreikning á heildarnafnvarmaafli.
Í þeim tilgangi að reikna út heildarnafnvarmaafl samsetningar brennsluvera skal ekki telja með einstök brennsluver með nafnvarmaafl undir 15 MW.
20. gr.
Viðmiðunarmörk fyrir losun.
Stjórna skal losun úrgangslofts frá brennsluverum með reykháfum með einni eða fleiri loftrásum. Við ákvörðun um hæð slíkra reykháfa skal markmiðið vera að vernda heilsufar manna og umhverfið.
Öll starfsleyfi fyrir brennsluver skulu bundin skilyrðum sem tryggja að losun frá þeim út í andrúmsloftið fari ekki yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta V. viðauka.
Viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í 1. og 2. hluta V. viðauka, sem og lágmarkshlutfall brennisteinshreinsunar, sem sett er fram í 5. hluta þess viðauka, skulu gilda um losun hvers sameiginlegs reykháfs með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins. Þar sem í V. viðauka er kveðið á um að beita megi viðmiðunarmörkum fyrir losun fyrir hluta brennsluvers með takmarkaðan fjölda rekstrarstunda skulu þessi viðmiðunarmörk gilda um losun þess hluta versins en þau skulu sett með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins.
Umhverfisstofnun getur veitt rekstraraðila brennsluvers, sem að öllu jöfnu notar eldsneyti með litlu magni af brennisteini, undanþágu í allt að sex mánuði frá kröfu um viðmiðunarmörk losunar á brennisteinsdíoxíði þegar rekstraraðilinn getur ekki uppfyllt viðmiðunarmörk vegna þess að aðföng á brennisteinslitlu eldsneyti hafa brugðist sökum alvarlegs skorts á því.
Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá kröfu um viðmiðunarmörk fyrir losun þegar rekstraraðili brennsluvers sem notar aðeins loftkennt eldsneyti verður í sérstöku undantekningartilviki að grípa til notkunar annars eldsneytis vegna skyndilegs rofs á framboði á gasi og brennsluverið þyrfti af þeim sökum að vera búið hreinsibúnaði fyrir úrgangsloft. Slík undanþága skal ekki veitt fyrir lengra tímabil en tíu daga nema brýn þörf sé á áframhaldandi orkuöflun. Rekstraraðilinn skal tafarlaust upplýsa eftirlitsaðila um hvert einstakt tilvik sem um getur í 1. málsl.
Þegar brennsluver er stækkað skulu viðmiðunarmörk fyrir losun, sem sett eru fram í 2. hluta V. viðauka, gilda fyrir stækkaðan hluta versins sem breytingin hefur áhrif á og skal setja viðmiðunarmörkin með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins. Ef um er að ræða breytingu á brennsluveri, sem getur haft afleiðingar fyrir umhverfið og hefur áhrif á hluta versins með 50 MW nafnvarmaafl eða meira, skulu viðmiðunarmörk fyrir losun gilda fyrir þann hluta versins sem hefur breyst með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins.
21. gr.
Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum.
Rekstraraðili brennsluvers, með rafmagnsaflgetu að nafngildi 300 MW eða meira, skal meta hvort eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
Ef skilyrði skv. 1. mgr. eru uppfyllt skal Umhverfisstofnun sjá til þess að hæfilegt svæði á stöðinni sé tekið frá fyrir nauðsynlegan búnað til föngunar og þjöppunar á koldíoxíði. Umhverfisstofnun skal ákvarða hvort skilyrði hafi verið uppfyllt, á grundvelli matsins skv. 1. mgr. og annarra fyrirliggjandi upplýsinga, sérstaklega varðandi verndun umhverfisins og heilsufars manna.
22. gr.
Gangtruflun eða bilun í hreinsibúnaði.
Umhverfisstofnun skal tryggja að ákvæði séu í starfsleyfum fyrir brennsluver um verklagsreglur varðandi truflun eða bilun í hreinsibúnaði.
Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun um gangtruflun eða bilun í hreinsibúnað innan 48 klukkustunda.
Ef kemur til bilunar skal Umhverfisstofnun krefjast þess að rekstraraðilinn dragi úr starfseminni eða stöðvi hana ef ekki reynist unnt að koma aftur á eðlilegri starfsemi innan 24 klukkustunda eða reka verið með eldsneyti sem mengar minna.
Samanlögð starfræksla án hreinsunar skal á hverju 12 mánaða tímabili aldrei fara yfir 120 klukkustundir.
Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá tímamörkunum í 3. og 4. mgr. í öðru eftirfarandi tilvika:
23. gr.
Vöktun losunar út í andrúmsloft.
Vöktun loftmengandi efna skal fara fram í samræmi við 3. hluta V. viðauka. Uppsetning og rekstur á sjálfvirkum vöktunarbúnaði skal vera háður eftirliti og árlegum eftirlitsprófunum eins og kveðið er á um í 3. hluta V. viðauka. Umhverfisstofnun ákvarðar staðsetningu sýnatöku- eða mælipunkta sem nota skal fyrir vöktun losunar.
Allar niðurstöður vöktunar skal skrá, vinna úr og setja fram með þeim hætti að Umhverfisstofnun geti sannreynt að farið sé að rekstrarskilyrðum og viðmiðunarmörkum fyrir losun sem eru í starfsleyfinu.
Viðmiðunarmörkum fyrir losun í andrúmsloftið er náð ef uppfyllt eru skilyrði sem sett eru fram í 4. hluta V. viðauka.
24. gr.
Brennsluver sem brenna margs konar eldsneytistegundum.
Ef brennsluver brennir margs konar eldsneytistegundum og notar samtímis tvær eða fleiri eldsneytistegundir skal Umhverfisstofnun setja viðmiðunarmörk fyrir losun í samræmi við eftirfarandi þrep:
IV. KAFLI
Brennslustöðvar.
25. gr.
Gildissvið.
Þessi kafli gildir um sorpbrennslustöðvar og sorpsambrennslustöðvar sem brenna eða sambrenna föstum eða fljótandi úrgangi.
Þessi kafli gildir ekki um gösunar- eða hitasundrunarstöðvar ef gasið frá þessari hitameðferð úrgangs er hreinsað að því marki að það sé ekki lengur úrgangur áður en það er brennt og það valdi ekki meiri losun en sem leiðir af brennslu náttúrulegs gass.
Að því er varðar þennan kafla skulu allar brennslulínur og sambrennslulínur, úrgangsmóttaka, geymsla, aðstaða til formeðhöndlunar á staðnum, kerfi sem veita úrgangi, eldsneyti og lofti til brennslustöðvarinnar, katlar, búnaður fyrir meðhöndlun á úrgangslofti, búnaður á staðnum fyrir meðhöndlun og geymslu á brennsluleifum og skólpi, reykháfar, tæki og búnaður til að stjórna brennslunni eða sambrennslunni, skráning og vöktun brennsluskilyrða eða sambrennsluskilyrða teljast til sorpbrennslustöðva eða sorpsambrennslustöðva.
Ef öðrum aðferðum en oxun, svo sem hitasundrun, gösun eða rafgasferlum, er beitt við hitameðhöndlun úrgangs skal sorpbrennslustöðin eða sorpsambrennslustöðin standa fyrir bæði hitameðhöndlunarferlinu og síðara brennsluferli.
Ef sorpsambrennsla fer þannig fram að megintilgangur stöðvarinnar er ekki orkuframleiðsla eða að framleiða vörur heldur fremur varmameðhöndlun úrgangs skal líta á stöðina sem sorpbrennslustöð.
Þessi kafli gildir ekki um eftirfarandi brennslustöðvar:
26. gr.
Skilgreining á brennsluleif.
Að því er varðar þennan kafla skal brennsluleif merkja allan fljótandi eða fastan úrgang sem sorpbrennslustöð eða sorpsambrennslustöð myndar.
27. gr.
Umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð.
Í umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð skal auk þess sem fram kemur í 6. gr. gera grein fyrir ráðstöfunum sem eru fyrirhugaðar til að tryggja að:
28. gr.
Skilyrði starfsleyfis fyrir brennslustöð.
Starfsleyfi fyrir brennslustöð skal innihalda:
Starfsleyfi fyrir brennslustöð sem notar hættulegan úrgang skal jafnframt innihalda:
Umhverfisstofnun skal reglulega endurskoða starfsleyfi brennslustöðva og uppfæra ef nauðsyn krefur, sbr. einnig 14. gr.
29. gr.
Stjórnun losunar.
Stýra skal losun úrgangslofts frá brennslustöðvum með reykháf. Hæð reykháfsins skal ákvörðuð með það í huga að vernda heilsufar manna og umhverfið. Losun út í andrúmsloftið frá brennslustöðvum skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk í reglugerð sem sett eru fram í 3. og 4. hluta VI. viðauka eða ákvörðuð í samræmi við 4. hluta þess viðauka. Ef meira en 40% varmalosunar í brennslustöð kemur frá brennslu hættulegs úrgangs eða stöðin sambrennir ómeðhöndlaðan, blandaðan heimilis- og rekstrarúrgang skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í 3. hluta VI. viðauka, gilda.
Takmarka skal, eftir því sem við verður komið, losun skólps, sem fellur til við hreinsun úrgangslofts, í vatnsumhverfi og styrkur mengunarefna skal ekki fara yfir viðmiðunarmörkin fyrir losun sem sett eru fram í 5. hluta VI. viðauka.
Viðmiðunarmörkin fyrir losun skulu gilda á staðnum þar sem skólpið frá hreinsun úrgangslofts er losað út úr brennslustöðinni. Ef skólp frá hreinsun úrgangslofts er meðhöndlað utan brennslustöðvarinnar í hreinsistöð sem er eingöngu ætluð fyrir meðhöndlun á þessari gerð skólps, skulu viðmiðunarmörkin fyrir losun, sem sett eru fram í 5. hluta VI. viðauka, gilda á þeim stað þar sem skólpið fer frá hreinsistöðinni. Þar sem skólp frá hreinsun úrgangslofts er meðhöndlað sameiginlega með skólpi af öðrum uppruna, annaðhvort í stöðinni eða utan hennar, skal rekstraraðilinn gera viðeigandi útreikninga á massajafnvægi. Til þess skal nota niðurstöður úr mælingunum, sem settar eru fram í 2. lið 6. hluta VI. viðauka, til að ákvarða losunargildin, þar sem skólpið er að lokum losað, sem er hægt að rekja til skólpsins sem kemur frá hreinsun á úrgangslofti. Ekki má þynna skólp til að uppfylla viðmiðunarmörk sem sett eru fram í 5. hluta VI. viðauka.
Svæði brennslustöðva skulu hönnuð og starfrækt þannig að komið verði í veg fyrir óheimila losun og losun sem verður fyrir slysni á hvers kyns mengandi efnum í jarðveg, yfirborðsvatn og grunnvatn. Geymslurými skal vera til staðar fyrir mengað afrennsli regnvatns frá svæði brennslustöðvar eða fyrir mengað vatn sem á rætur að rekja til leka eða slökkvistarfa. Þessi geymsluaðstaða skal nægja til að tryggja að hægt sé að prófa og hreinsa slíkt úrgangsvatn áður en það er losað ef þurfa þykir.
Í brennslustöð skal ekki brenna úrgang lengur en í fjórar klukkustundir óslitið þegar farið er yfir viðmiðunarmörk fyrir losun. Samanlögð tímalengd starfrækslu við slíkar aðstæður skal ekki fara yfir 60 klukkustundir á einu ári. Tímamörkin skulu gilda um þá brennsluofna sem eru tengdir einu og sama hreinsitækinu fyrir úrgangsloft.
30. gr.
Bilun.
Verði bilun skal rekstraraðili brennslustöðvar draga úr eða hætta starfsemi eins fljótt og auðið er þar til brennslustöðin getur hafið eðlilega starfsemi á ný.
31. gr.
Vöktun losunar.
Umhverfisstofnun skal tryggja að vöktun losunar fari fram í samræmi við 6. og 7. hluta VI. viðauka.
Í brennslustöðvum skal vera sjálfvirkur mælibúnaður sem er háður eftirliti og árlegum eftirlitsprófunum eins og kveðið er á um í 1. lið 6. hluta VI. viðauka.
Umhverfisstofnun ákveður staðsetningu sýnatöku- eða mælipunkta sem nota skal fyrir vöktun losunar.
Rekstraraðili brennslustöðvar skal skrá allar niðurstöður vöktunar, vinna úr og setja fram með þeim hætti að Umhverfisstofnun geti sannreynt að farið sé að rekstrarskilyrðum og viðmiðunarmörkum fyrir losun sem eru í starfsleyfinu.
32. gr.
Samræmi við viðmiðunarmörk.
Líta skal svo á að farið sé að viðmiðunarmörkum fyrir losun í andrúmsloft og vatn ef skilyrði í 8. hluta VI. viðauka, eru uppfyllt.
33. gr.
Rekstrarskilyrði.
Brennslustöðvar skulu starfræktar á þann hátt að það brennslustig náist að heildarmagn lífræns kolefnis í gjalli og botnösku sé minna en 3% eða að glæðitapið sé minna en 5% af þurrvigt efnisins. Ef nauðsyn krefur skal nota formeðhöndlunartækni fyrir úrgang.
Sorpbrennslustöðvar skulu hannaðar, útbúnar, byggðar og starfræktar með þeim hætti að lofttegundir frá brennslu úrgangs séu hitaðar eftir síðustu inndælingu brunalofts, á stýrðan og einsleitan hátt og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður, upp í a.m.k. 850°C í tvær sekúndur. Sorpsambrennslustöðvar skulu hannaðar, útbúnar, byggðar og starfræktar með þeim hætti að lofttegundir frá sambrennslu úrgangs séu hitaðar, á stýrðan og einsleitan hátt og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður, upp í a.m.k. 850°C í tvær sekúndur. Ef hættulegur úrgangur, sem inniheldur meira en 1% af halógenuðum lífrænum efnum, gefið upp sem klór, er brenndur eða sambrenndur skal hitastigið sem þarf til að fara að 1. og 2. málsl. vera a.m.k. 1.100°C. Í brennslustöðvum skal mæla hitastigið, sem sett er fram í 1. og 3. málsl., nærri innri vegg brunahólfsins. Umhverfisstofnun getur heimilað að mælingarnar séu gerðar á öðrum lýsandi stað brunahólfsins.
Hvert brunahólf brennslustöðvar skal búið a.m.k. einum aukabrennara. Þessi brennari skal ræsast sjálfvirkt þegar hitastig brunalofttegunda eftir síðustu inndælingu brunalofts fellur niður fyrir hitastigin sem sett eru fram í 2. mgr. Einnig skal nota hann við ræsingar- eða stöðvunaraðgerðir í stöðinni til að tryggja að þessi hitastig haldist ávallt meðan þessar aðgerðir fara fram og svo lengi sem óbrunninn úrgangur er í brunahólfinu. Ekki má láta aukabrennarann ganga fyrir eldsneyti sem getur haft í för með sér meiri losun en þá sem verður við brennslu gasolíu eins og skilgreint er í reglugerð um gæði eldsneytis.
Brennslustöðvar skulu starfrækja sjálfvirkt kerfi til að hindra aðfærslu úrgangs við eftirfarandi aðstæður:
Allur varmi sem brennslustöð myndar skal endurheimtur eftir því sem við verður komið.
Setja skal smitandi, klínískan úrgang beint í ofninn án þess að blanda honum áður við aðra flokka úrgangs og án beinnar meðhöndlunar.
Umhverfisstofnun skal tryggja að sorpbrennslustöð eða sorpsambrennslustöð sé starfrækt og stjórnað af einstaklingi sem er hæfur til að stjórna stöðinni og skal tilgreina það í starfsleyfisskilyrðum.
34. gr.
Afhending og móttaka úrgangs.
Rekstraraðili brennslustöðvar skal gera allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir varðandi afhendingu og móttöku úrgangs í því skyni að koma í veg fyrir eða takmarka, eftir því sem við verður komið, mengun andrúmslofts, jarðvegs, yfirborðsvatns og grunnvatns, sem og önnur neikvæð áhrif á umhverfið, lykt og hávaða og beina áhættu fyrir heilbrigði manna.
Rekstraraðilinn skal ákvarða massann fyrir hverja gerð úrgangs áður en tekið er við úrgangi í brennslustöð.
Áður en tekið er við hættulegum úrgangi í brennslustöð skal rekstraraðilinn safna tiltækum upplýsingum um úrganginn í því skyni að sannprófa að kröfurnar fyrir starfsleyfinu séu uppfylltar. Þær upplýsingar skulu taka til eftirfarandi:
Áður en tekið er við hættulegum úrgangi í brennslustöð skal rekstraraðilinn a.m.k. beita eftirfarandi málsmeðferðarreglum:
Umhverfisstofnun getur veitt brennslustöðvum undanþágur frá 2., 3. og 4. mgr. sem eru hluti af stöð sem fellur undir I. viðauka og brennir eða sambrennir aðeins úrgangi sem verður til innan þeirrar stöðvar.
35. gr.
Brennsluleifar.
Lágmarka skal magn og skaðsemi brennsluleifa. Brennsluleifar skal endurvinna, eftir því sem við á, beint í stöðinni eða utan hennar.
Flutningur og tímabundin geymsla á þurrum brennsluleifum í formi ryks skal fara þannig fram að komið sé í veg fyrir að brennsluleifarnar dreifist út í umhverfið.
Áður en ákvarðað er hvernig á að farga eða endurvinna brennsluleifarnar skal gera viðeigandi prófanir til að ákvarða eðlisfræðilega og efnafræðilega eiginleika og hugsanlega mengunarhættu af völdum brennsluleifanna. Þessar prófanir skulu taka til þess heildarhluta sem er uppleysanlegur og heildarhluta uppleysanlegra þungmálma.
36. gr.
Umtalsverð breyting.
Breyting á starfsemi brennslustöðvar sem meðhöndlar aðeins hættulausan úrgang í brennslustöð sem felur í sér brennslu eða sambrennslu á hættulegum úrgangi telst umtalsverð breyting.
37. gr.
Upplýsingar til almennings.
Rekstraraðili brennslustöðvar með nafnrúmtak 2 tonn eða meira á klukkustund skal upplýsa Umhverfisstofnun um rekstur og vöktun stöðvarinnar og gera grein fyrir keyrslu brennslu- eða sambrennsluferlisins og magni losunar út í andrúmsloft og vatn í samanburði við viðmiðunarmörkin fyrir losun. Umhverfisstofnun skal birta þessar upplýsingar á vefsvæði sínu.
V. KAFLI
Starfsemi sem notast við lífræna leysa.
38. gr.
Gildissvið.
Þessi kafli gildir um starfsemi sem tilgreind er í VII. viðauka og nær þeim viðmiðunargildum fyrir notkun sem sett eru fram í 2. hluta þess viðauka.
39. gr.
Skilgreiningar.
Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
40. gr.
Útskipti hættulegra efna.
Efnum eða efnablöndum, sem vegna innihalds þeirra af rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum flokkast sem krabbameinsvaldar, stökkbreytivaldar eða efni eða blöndur með eiturhrif á æxlun samkvæmt reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna og fá eða eiga að bera hættusetningarnar H340, H350, H350i, H360D eða H360F, skal skipta út hið fyrsta eftir því sem mögulegt er fyrir skaðminni efni eða efnablöndur.
41. gr.
Stjórnun losunar.
Umhverfisstofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að hver stöð hlíti öðru hvoru af eftirfarandi:
Umhverfisstofnun getur heimilað að losun fari yfir viðmiðunarmörk fyrir losun að því tilskildu að ekki sé búist við umtalsverðri áhættu fyrir heilsufar manna eða umhverfið og rekstraraðilinn sýni fram á að besta aðgengilega tækni sé notuð. Rekstraraðili skal sýna fram á að fyrir einstaka stöð séu viðmiðunarmörkin fyrir dreifða losun hvorki tæknilega né fjárhagslega framkvæmanleg.
Umhverfisstofnun getur heimilað að losun frá húðunarstarfsemi, sem fellur undir 8. lið töflunnar í 2. hluta VII. viðauka og sem ekki er möguleg við stýrðar aðstæður, uppfylli ekki kröfur sem settar eru fram í 2. hluta VII. viðauka, ef rekstraraðilinn hefur sýnt fram á að slíkt sé hvorki tæknilega né fjárhagslega framkvæmanlegt þrátt fyrir að besta aðgengilega tækni sé notuð.
Losun á annaðhvort rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum, sem fá eða eiga að bera hættusetningarnar H340, H350, H350i, H360D eða H360F, eða halógenuðum rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum, sem fá eða eiga að bera hættusetningarnar H341 eða H351, skal stjórna við stýrðar aðstæður að svo miklu leyti sem það er tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegt til að vernda lýðheilsu og umhverfið og skal ekki fara yfir viðkomandi viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 4. hluta VII. viðauka.
Stöðvar þar sem ein eða fleiri tegundir af starfsemi fer fram, sem hver um sig fer yfir viðmiðunargildin í 2. hluta VII. viðauka, skulu:
Gera skal allar viðeigandi varúðarráðstafanir til að lágmarka losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda við ræsingar- og stöðvunaraðgerðir.
42. gr.
Vöktun losunar.
Rekstraraðili skal sjá til þess að mælingar á losun séu framkvæmdar í samræmi við 6. hluta VII. viðauka.
43. gr.
Stjórnun losunar.
Viðmiðunarmörkum fyrir losun í úrgangslofti er náð ef uppfyllt eru skilyrði sem sett eru fram í 8. hluta VII. viðauka.
44. gr.
Skýrslugjöf.
Rekstraraðili skal, sé þess óskað, láta Umhverfisstofnun í té nauðsynlegar upplýsingar til að sýna fram á að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar:
Upplýsingar rekstraraðila skv. 1. mgr. geta falið í sér stjórnunaráætlun fyrir leysa sem útbúin er í samræmi við 7. hluta VII. viðauka.
45. gr.
Umtalsverð breyting á stöðvum í rekstri.
Breyting á hámarksmassaílagi af lífrænum leysum í stöð í rekstri, sem meðaltal yfir einn dag, þar sem stöðin er rekin við hönnunarfrálag við aðrar aðstæður en ræsingar- eða stöðvunaraðgerðir og viðhald búnaðar, skal teljast umtalsverð ef hún leiðir til aukningar á losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda um meira en:
Þar sem gerð er umtalsverð breyting á stöð í rekstri, eða hún fellur innan gildissviðs þessarar reglugerðar í fyrsta sinn eftir umtalsverða breytingu, skal fara með þann hluta stöðvarinnar, sem umtalsverð breyting er gerð á, annaðhvort sem nýja stöð eða sem stöð í rekstri, að því tilskildu að heildarlosun allrar stöðvarinnar fari ekki yfir það sem orðið hefði ef farið hefði verið með umtalsvert breytta hlutann sem nýja stöð.
Þegar um er að ræða umtalsverða breytingu skal Umhverfisstofnun kanna sérstaklega hvort starfsemi viðkomandi stöðvar uppfylli kröfur þessarar reglugerðar.
46. gr.
Upplýsingar til almennings.
Niðurstöðurnar úr þeirri vöktun losunar sem krafist er skv. 42. gr. og Umhverfisstofnun hefur undir höndum skulu gerðar aðgengilegar almenningi.
VI. KAFLI
Stöðvar sem framleiða títandíoxíð.
47. gr.
Gildissvið.
Þessi kafli gildir um stöðvar sem framleiða títandíoxíð.
48. gr.
Bann við förgun úrgangs.
Förgun á eftirfarandi úrgangi í öll vatnshlot, sjó eða höf er óheimil:
49. gr.
Losun í vatn.
Losun frá stöðvum í vatn skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 1. hluta VIII. viðauka.
50. gr.
Losun út í andrúmsloft.
Hindra skal losun sýrudropa frá stöðvum.
Losun frá stöðvum í andrúmsloft skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í 2. hluta VIII. viðauka.
51. gr.
Vöktun losunar.
Rekstraraðili skal tryggja vöktun losunar í vatn og í andrúmsloft til að gera Umhverfisstofnun kleift að sannreyna hvort farið sé að leyfisskilyrðum og 49. og 50. gr. Slík vöktun skal fela í sér a.m.k. vöktun losunar eins og sett er fram í 3. hluta VIII. viðauka.
Vöktun skal framkvæmd í samræmi við staðla Staðlasamtaka Evrópu eða, ef þeir eru ekki fáanlegir, staðla Alþjóðlegu staðlasamtakanna, ÍST staðla eða aðra alþjóðlega staðla sem tryggja að gögn séu af sambærilegum vísindalegum gæðum.
VII. KAFLI
Loftgæði.
52. gr.
Loftgæði.
Ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft skulu gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð um loftgæði og reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings.
VIII. KAFLI
Losun gróðurhúsalofttegunda.
53. gr.
Losun gróðurhúsalofttegunda.
Þegar um er að ræða losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem tilgreind er í lögum um loftslagsmál skal starfsleyfi fyrir viðkomandi starfsemi ekki fela í sér viðmiðunarmörk fyrir losun að því er varðar beina losun gróðurhúsalofttegunda, nema það sé nauðsynlegt til að tryggja að engin veruleg staðbundin mengun eigi sér stað.
Við starfsemi sem tilgreind er í lögum um loftslagsmál er það undir Umhverfisstofnun komið hvort stofnunin gerir kröfur um orkunýtni brennslueininga eða annarra eininga sem losa koldíoxíð á staðnum.
Ef nauðsyn krefur skal Umhverfisstofnun gera breytingar á starfsleyfi eftir því sem við á, sbr. 1. og 2. mgr. sem og 14. gr.
Ákvæði greinarinnar eiga ekki við um starfsemi sem tímabundið fellur ekki undir kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda, sbr. lög um loftslagsmál.
IX. KAFLI
Skyldur rekstraraðila.
54. gr.
Meginreglur um grundvallarskyldur rekstraraðila.
Rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. I. og IX. viðauka, skulu tryggja að starfsemi þeirra sé rekin í samræmi við eftirfarandi meginreglur:
55. gr.
Óhöpp og slys.
Við óhöpp eða slys sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið skal hlutaðeigandi rekstraraðili, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, í samræmi við ákvæði laga um umhverfisábyrgð:
Umhverfisstofnun, og eftir atvikum hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, skal krefjast þess að rekstraraðilinn grípi til viðeigandi viðbótarráðstafana sem stofnunin telur nauðsynlegar til að takmarka afleiðingar fyrir umhverfið og til að fyrirbyggja frekari möguleg óhöpp eða slys.
56. gr.
Skyldur rekstraraðila.
Rekstraraðilar, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, skulu tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsleyfisskilyrði og almennar kröfur, sbr. reglugerð um skráningarskyldu.
Ef frávik verða skal rekstraraðili upplýsa eftirlitsaðila tafarlaust um það og grípa tafarlaust til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að öllum kröfum vegna starfseminnar sé framfylgt eins fljótt og auðið er.
X. KAFLI
Eftirlit með atvinnurekstri.
57. gr.
Eftirlit.
Eftirlit skal vera með atvinnurekstri, sbr. I, VII., IX. og X. viðauka, sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta sem og hollustuhátta. Umhverfisstofnun annast eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII. og IX. viðauka, og heilbrigðisnefndir annast eftirlit með atvinnurekstri, sbr. X. viðauka.
Rekstraraðili skal aðstoða eftirlitsaðila eins og nauðsyn krefur til að gera eftirlitsaðilanum kleift að framkvæma hvers kyns eftirlit með starfseminni, taka sýni og afla allra upplýsinga sem eru þeim nauðsynlegar við framkvæmd eftirlitsins.
Umhverfisstofnun skal gera eftirlitsáætlun sem taki til atvinnurekstrar, sbr. I., VII., IX. og X viðauka, og skal áætlunin endurskoðuð reglulega og uppfærð eftir því sem við á. Eftirlitsáætlun skal innihalda eftirfarandi:
Á grundvelli eftirlitsáætlana gerir eftirlitsaðili reglulega áætlanir um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri samkvæmt I., VII., IX. og X. viðauka, þ.m.t. um tíðni vettvangsheimsókna fyrir mismunandi starfsemi. Tímabilið milli tveggja vettvangsheimsókna skal byggjast á kerfisbundnu mati á umhverfisáhættu viðkomandi starfsemi og skal, fyrir starfsemi samkvæmt viðaukum I og IX, ekki vera lengra en eitt ár fyrir starfsemi sem veldur mestri áhættu en þrjú ár fyrir starfsemi sem veldur minnstri áhættu. Ef eftirlit sýnir fram á verulegt brot á leyfisskilyrðum skal viðbótareftirlit fara fram innan sex mánaða frá því eftirliti. Kerfisbundið mat á umhverfisáhættu skal byggjast á a.m.k. eftirfarandi viðmiðunum:
Fyrirvaralaust eða annað óvenjubundið eftirlit skal fara fram til rannsóknar á alvarlegum ábendingum vegna umhverfisins, alvarlegum umhverfisslysum, óhöppum og tilvikum, þar sem reglum er ekki fylgt, eins fljótt og auðið er og eftir því sem við á, fyrir veitingu, endurskoðun eða uppfærslu leyfis.
Eftir hverja vettvangsheimsókn skal eftirlitsaðili taka saman skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og skiptir máli varðandi það hvort starfsemin sé í samræmi við starfsleyfisskilyrðin og niðurstöðum um hvort frekari aðgerðir eru nauðsynlegar. Skýrslan skal gerð aðgengileg á vefsvæði eftirlitsaðila eftir að rekstraraðili hefur fengið tækifæri til að koma að athugasemdum og brugðist hefur verið við þeim. Athugasemdirnar skulu eftir atvikum birtar með skýrslunni.
58. gr.
Frávik.
Eftirlitsaðili skal hafa eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi.
Komi fram frávik skal eftirlitsaðili krefja rekstraraðila um úrbætur sem eftirlitsaðilinn telur nauðsynlegar og fullnægjandi.
59. gr.
Þagnarskylda.
Þeir sem starfa samkvæmt reglugerð þessari eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
XI. KAFLI
Gjaldskrá.
60. gr.
Um gjaldtöku fyrir skráningu, starfsleyfi og eftirlit fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
XII. KAFLI
Valdsvið og þvingunarúrræði.
61. gr.
Valdsvið og þvingunarúrræði.
Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum getur eftirlitsaðili beitt ákvæðum XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
XIII. KAFLI
Málsmeðferð og úrskurðir.
62. gr.
Kærur.
Um ágreining sem rís um framkvæmd reglugerðarinnar eða um ákvarðanir yfirvalda fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunavarnir.
Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
XIV. KAFLI
Viðurlög.
63. gr.
Sektir eða fangelsi.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum samkvæmt reglugerð þessari eru refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
64. gr.
Sektir lögaðila.
Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
XV. KAFLI
Gildistaka o.fl.
65. gr.
Innleiðing.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði.
66. gr.
Lagastoð.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og efnalög nr. 61/2013. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði er varða skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
67. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi nema 15. gr. sem öðlast gildi 1. júlí 2018. Við gildistöku reglugerðarinnar falla úr gildi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit, reglugerð nr. 795/1999 um úrgang frá títandíoxíðiðnaði, reglugerð nr. 255/2002 um takmörkun á útstreymi rokgjarnra lífrænna efna vegna notkunar á lífrænum leysiefnum í tiltekinni starfsemi og reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs.
Ákvæði til bráðabirgða.
Auglýsing nr. 582/2000 um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar, með síðari breytingum, heldur gildi sínu og er heilbrigðisnefndum heimilt án ítarlegri starfsleyfisgerðar að gefa út starfsleyfi fyrir rekstur sem fellur undir fylgiskjal auglýsingarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 15. maí 2018.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)