Umhverfisráðuneyti

486/2003

Reglugerð um stjórn hreindýraveiða.

I. Yfirstjórn hreindýramála.
1. gr.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem um ræðir í reglugerð þessari.


2. gr.

Nú telur umhverfisráðherra, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að hreindýrastofninn sé það stór, að honum stafi ekki hætta af veiðum, getur ráðherra heimilað veiðar og skal þeim hagað með þeim hætti sem segir í reglugerð þessari.


3. gr.

Hlutverk Umhverfisstofnunar er að hafa fyrir hönd umhverfisráðherra eftirlit með því að reglugerð þessari sé fylgt.

Þá er og hlutverk Umhverfisstofnunar að:

1. sjá um sölu veiðileyfa,
2. sjá um eftirlit með hreindýraveiðum og ráða til þess eftirlitsmenn,
3. gera tillögu um árlegan veiðikvóta og skipta veiðiheimildum eftir ágangssvæðum,
4. skipta arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra í samræmi við reglugerð um skiptingu arðs af hreindýraveiðum, sem umhverfisráðherra setur.


4. gr.

Umhverfisráðherra skipar 4 menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn. Þeir skulu skipaðir með þessum hætti:

Umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar, og er hann formaður hreindýraráðs. Búnaðarsamband Austurlands og Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu tilnefna einn fulltrúa hvort og sveitarfélög á veiðisvæði hreindýra einn fulltrúa. Verði atkvæði jöfn á fundum ráðsins ræður atkvæði formanns.

Hlutverk hreindýraráðs er að:

1. vera umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins, þar á meðal um skiptingu arðs,
2. gera ár hvert tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða,
3. gera tillögu til umhverfisráðherra um reglugerð um skiptingu arðs, sbr. 4. tl. 3. gr.

Fulltrúum Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Um vanhæfi þeirra sem sitja í hreindýraráði gilda vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga, sbr. 19. gr. laga nr. 45/1998.

Umhverfisstofnun sér hreindýraráði fyrir aðstöðu og starfsmanni samkvæmt nánara samkomulagi.


5. gr.

Umhverfisstofnun ræður eftirlitsmenn með hreindýraveiðum. Hlutverk eftirlitsmanna er að fylgjast með framkvæmd veiða og hafa eftirlit með veiðimönnum og leiðsögumönnum og ganga úr skugga um að veiðar fari fram eftir reglum þessum. Starfa eftirlitsmenn í umboði stofnunarinnar og bera ábyrgð gagnvart stofnuninni á störfum sínum.

Verði Umhverfisstofnun vör við að brotið sé gegn ákvæðum laga og reglugerðum um hreindýraveiðar er heimilt að svipta viðkomandi veiðileyfi og leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.


II. Framkvæmd hreindýraveiða.
6. gr.

Umhverfisráðherra ákveður og auglýsir fyrir 1. desember ár hvert, hve mörg hreindýr megi veiða árið eftir og hvernig veiðum skuli skipt eftir svæðum, aldri og kyni dýra, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar. Ákvörðun ráðherra er háð því að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðitíma sem kalli á endurskoðun.

Umhverfisstofnun skiptir veiðiheimildum eftir ágangssvæðum með hliðsjón af ágangi hreindýra, að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands. Skal stofnunin í samráði við Náttúrustofu Austurlands leitast við að stýra veiðum þannig að veiðar á hverju ágangssvæði taki mið af skiptingu dýranna í hjarðir innan veiðisvæðis og sé í samræmi við úthlutaðan kvóta.

Veiðitími er frá 1. ágúst til 15. september ár hvert. Umhverfisstofnun getur þó heimilað veiðar á törfum frá 15. júlí að fenginni umsögn hreindýraráðs. Ef ekki tekst á veiðitímanum að veiða nægilega mörg dýr til þess að stofnstærð verði innan fyrirhugaðra marka getur umhverfisráðherra heimilað Umhverfisstofnun veiðar í nóvember. Arður af þeim veiðum rennur til Umhverfisstofnunar, að frádregnum kostnaði, og skal nýttur til rannsókna og verkefna sem tengjast hreindýraveiðum. Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar utan veiðitíma í vísindaskyni að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.

Ef nauðsyn krefur og aðrar aðferðir duga ekki getur Umhverfisstofnun að höfðu samráði og undir eftirliti Náttúrustofu Austurlands látið fella hreindýr sem sækja ítrekað í ræktað land í byggð og valda tjóni. Arður af veiðum að frádregnum kostnaði við þær skal vera í vörslu Umhverfisstofnunar og nýttur til rannsókna og verkefna sem tengjast hreindýrum.

Kálfar með felldum kúm skulu felldir ef kostur er. Felldir kálfar skulu tilkynntir og greitt fyrir þá í samræmi auglýsta gjaldskrá.

Umhverfisstofnun getur hvenær sem er látið fella sjúk eða særð dýr og dýr sem af einhverri annarri ástæðu eiga sér ekki lífs von. Lögreglustjórar geta einnig látið fella særð dýr sé þess talin þörf.


7. gr.

Eignarréttur eða afnotaréttur á landi, þar sem hreindýr halda sig, veitir ekki rétt til veiða á dýrunum.

Umráðamaður eða eigandi lands sem ekki heimilar veiðar á landi sínu nýtur ekki arðs af hreindýraveiðum.


8. gr.

Veiðar geta farið fram hvar sem hreindýr á viðkomandi svæði halda sig á veiðitímanum, utan friðlanda hreindýra. Þó getur Umhverfisstofnun takmarkað veiðisvæði frekar þyki ástæða til.


9. gr.

Umhverfisstofnun selur veiðileyfi gegn gjaldi sem ráðherra ákveður fyrir 1. desember ár hvert, að fengnum tillögum stofnunarinnar. Getur það verið breytilegt eftir svæðum, kyni og aldri dýra.

Gjaldið er þrískipt og skal standa undir kostnaði Umhverfistofnunar og hreindýraráðs við eftirlit og stjórn hreindýraveiða, vöktun á hreindýrum til að ákveða veiðiþol og til greiðslu hæfilegs arðs vegna ágangs hreindýra. Áður en ákvörðun er tekin um gjald skal liggja fyrir áætlun Umhverfisstofnunar og hreindýraráðs um kostnað vegna framkvæmdar og eftirlits og Náttúrustofu Austurlands við vöktun. Upphæð gjaldsins skal taka mið af framangreindu og skal ekki vera hærri en sem því nemur. Umhverfisstofnun afhendir Náttúrustofu Austurlands það fé sem ætlað er til vöktunar og úthlutar arðgreiðslum til landeigenda vegna ágangs í samræmi við reglugerð um greiðslu arðs.

Umhverfisstofnun er heimilt að gera ráðstafanir til þess að veiði dreifist sem jafnast á veiðitímann á hverju svæði.

Takist ekki að selja öll veiðileyfi getur Umhverfisstofnun veitt það sem á vantar upp í veiðikvóta, teljist það nauðsynlegt vegna stjórnunar á stærð stofnsins.

Umhverfisstofnun setur sér starfsreglur sem skulu vera almenningi aðgengilegar.

Umhverfisstofnun sér um árlegt uppgjör tekna og gjalda vegna reksturs, sölu veiðileyfa og hreindýraafurða og vegna leyfisgjalda og gerir ráðherra grein fyrir uppgjöri.


10. gr.

Sá einn getur fengið leyfi til þess að veiða hreindýr sem hefur veiðikort og heimild lögreglu til þess að nota skotvopn af réttri stærð, sbr. 11. gr.

Veiðileyfi skal gefið út á nafn veiðimanns og er það ekki framseljanlegt. Þeir sem fengið hafa úthlutað veiðileyfi skulu greiða staðfestingargjald fyrir 1. apríl en gjaldið að fullu fyrir 1. júlí. Hyggist veiðimaður ekki nýta veiðileyfi skal Umhverfisstofnun endurgreiða sem nemur 3/4 hlutum gjaldsins takist Umhverfisstofnun að endurselja leyfið. Mæli sérstakar ástæður með er stofnuninni heimilt að endurgreiða gjaldið að fullu jafnvel þótt ekki takist að endurselja það.

Veiðileyfishafa eru hreindýraveiðar óheimilar nema í fylgd leiðsögumanns sem hlotið hefur starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Fellt hreindýr er eign veiðileyfishafa og skal hann merkja það með merki sem Umhverfisstofnun lætur í té.

Umhverfisstofnun er heimilt að takmarka fjölda veiðileyfa sem seld eru hverjum veiðimanni.

Óheimilt er að selja hreindýrakjöt nema það hafi verið heilbrigðisskoðað og stimplað af dýralækni.


11. gr.

Til veiða á hreindýrum má einungis nota riffla með hlaupvídd 6 mm eða meira. Kúluþyngd skal ekki vera minni en 6,5 g (100 grains) og slagkraftur ekki minni en 180 kgm (1300 pundfet) á 200 metra færi. Veiðikúlur skulu vera gerðar til veiða á stærri dýrum, þ.e. þenjast hæfilega út í veiðibráð. Óheimilt er að nota sjálfvirka eða hálfsjálfvirka riffla við hreindýraveiðar. Fyrir upphaf veiðiferðar skal gengið úr skugga um að riffill sé rétt stilltur.

Óheimilt er veiðimanni að skjóta frá vélknúnu farartæki og ekki má smala hreindýrum á ákveðinn veiðistað.

Sært dýr ber að aflífa þegar í stað.


12. gr.

Hlutverk leiðsögumanns með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum til þess að þekkja þau dýr sem hann má veiða og sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar.

Enginn getur gerst leiðsögumaður með hreindýraveiðum, sbr. 3. mgr. 10. gr., nema hann hafi hlotið starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Starfsleyfi skal veitt að fenginni umsögn hreindýraráðs til allt að 4 ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði. Til að geta hlotið starfsleyfi sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Skotvopnaleyfi í samræmi við 10. gr.
2. Hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.
3. Staðfestingu á þátttöku í námskeiðum í (a) líffræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra, (b) náttúruverndarlögum, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta, (c) leiðsögn, (d) meðferð skotvopna, (e) meðferð og notkun áttavita og GPS staðsetningartækja, (f) veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna.
4. Umsækjandi skal sýna fram á hæfni sína í skyndihjálp.

Umhverfisstofnun, í samráði við hreindýraráð, heldur námskeið skv. 3. tl. Umhverfisstofnun skal að jafnaði á fjögurra ára fresti kanna þörf á að haldin verði slík námskeið.

Umhverfisstofnun getur svipt leiðsögumann starfsleyfi ef grunur leikur á að hann hafi brotið gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerðum skv. þeim. Sviptingu má kæra til umhverfisráðherra.

Leiðsögumaður með hreindýraveiðum skal aðstoða veiðileyfishafa, óski hann eftir því, við að gera að felldu dýri og koma því óskemmdu til byggða. Skylt er að urða allan úrgang sem til fellur við veiðarnar.

Leiðsögumanni með hreindýraveiðum ber að sjá til þess að sært dýr sé fellt þegar í stað.

Leiðsögumanni með hreindýraveiðum er skylt að gefa Umhverfisstofnun skýrslu um öll felld og særð dýr og skal skýrslan undirrituð af honum og veiðileyfishafa. Skýrslan skal send Umhverfisstofnun strax að lokinni veiðiferð.

Leiðsögumaður með hreindýraveiðum getur mest fylgt þremur veiðimönnum í veiðiferð.


III. Ýmis ákvæði.
13. gr.

Umhverfisstofnun er heimilt að synja um veiðileyfi hafi umsækjandi ítrekað eða með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerðum skv. þeim. Synjun má kæra til umhverfisráðherra.


14. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Tilraun til brota gegn reglugerð þessari varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum. Mál út af slíkum brotum sæta meðferð opinberra mála.


15. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 452/2000, með síðari breytingum.


Umhverfisráðuneytinu, 2. júlí 2003.

F. h. r.
Ingimar Sigurðsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica