Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

803/2023

Reglugerð um meðhöndlun úrgangs.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis og að tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að:

  1. ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða,
  2. ekki skapist óþægindi vegna hávaða eða ólyktar,
  3. ekki komi fram skaðleg áhrif á landslag eða staði sem hafa sérstakt gildi,
  4. úrgangsstjórnun sé markviss og hagkvæm og úrgangur sem til fellur fái viðeigandi með­höndlun,
  5. stuðlað sé að sjálfbærri auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu til að draga úr myndun úrgangs,
  6. nýting hráefna úr úrgangi sem fellur til sé aukin, og
  7. handhafar úrgangs greiði kostnað við meðhöndlun úrgangs.

 

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um meðhöndlun úrgangs, í samræmi við ákvæði 2. gr. laga um með­höndlun úrgangs.

Um tiltekna meðhöndlun úrgangs fer jafnframt, eftir því sem við á, samkvæmt reglugerð um urðun úrgangs, reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, reglugerð um heilbrigðis­reglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og lögum um geislavarnir nr. 44/2002. Um meðhöndlun úrgangs á sjó gilda lög um varnir gegn mengun hafs og stranda.

 

3. gr.

Skilgreiningar.

Atvinnurekstur: hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

Böggun: þjöppun úrgangs í bagga til að minnka rúmmál hans.

Eftirlitsaðilar: viðkomandi heilbrigðisnefnd, Umhverfisstofnun eða faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 58. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Grenndarstöð/grenndargámur: ómannaðurstaður í nærumhverfi íbúa þar sem eru ílát undir flokkaðan úrgang til endurnýtingar, svo sem pappa, pappír, plast, gler, málma, textíl og skilagjalds­skyldar umbúðir.

Heilbrigðisþjónusta og stofur sem stunda húðrof: stofnanir og starfsaðstaða sem læknar, tann­læknar, dýralæknar eða aðrir sem hafa sambærileg réttindi til að koma í veg fyrir og greina sjúkdóma í mönnum eða dýrum, gera að sárum og/eða hafa eftirlit með sjúkdómum. Hér er einnig átt við læknis- og líffræðilegar rannsóknastofur, hjúkrunar- og dvalarheimili og aðra umönn­unarstaði fyrir fólk, fóta­aðgerðarstofur og stofur sem stunda húðrof eins og nálarstungur, húðgat­anir og húðflúr.

Heimajarðgerð: jarðgerð úr lífúrgangi sem er aðskilinn og endurunninn á upprunastað, fram­kvæmd af þeim sem framleiða hann. Undanskilin er jarðgerð úr lífúrgangi sem á sér ekki stað við heimili fólks, s.s. í atvinnustarfsemi.

Matarúrgangur: öll matvæli, sem heyra undir lög um matvæli, sem eru orðin að úrgangi.

Mengunarvarnaeftirlit: eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

Nærumhverfi: nánasta umhverfi einhvers, t.d. hverfið sem hann býr í.

Pökkun: þegar úrgangur er settur í umbúðir til að gera hann flutningshæfan og/eða til að geyma í lengri eða skemmri tíma.

Rekstraraðili: einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri.

Ruslabiður: ílát sem komið er fyrir á almannafæri í því skyni að auðvelda fólki að losa sig við úrgang.

Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof: Úrgangur sem hefur í för með sér meiri sýkingarhættu og skaðlegri áhrif á fólk og umhverfi en annar úrgangur. Til þessa flokks heyrir smitandi úrgangur (sóttmengaður úrgangur), líkamshlutar og vefir, hvassir hlutir, lyfja­úrgangur, geislavirk efni og spilliefni.

Smitandi úrgangur (sóttmengaður úrgangur): úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof sem inniheldur lífvænlegar örverur eða eiturhrif þeirra sem vitað er eða má ætla að geti valdið sjúkdómum í mönnum eða öðrum lífverum.

Sorpgeymsla: aðstaða í eða við fasteign, fyrirtæki eða stofnun þar sem úrgangi er safnað áður en hann er fluttur til söfnunarstöðva eða móttökustöðva.

Sorpílát: ílát til að safna heimilisúrgangi, s.s. tunnur og gámar af ýmsum stærðum.

Umhverfi: samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verð­mæti.

Þýðingarmikil hráefni: hráefni sem eru á lista framkvæmdastjórnar ESB yfir þýðingarmikil hrá­efni.

Um aðrar skilgreiningar vísast til laga um meðhöndlun úrgangs.

 

II. KAFLI

Almenn ákvæði.

4. gr.

Fyrirkomulag við söfnun og meðhöndlun úrgangs.

Sveitarstjórn skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu, eftir atvikum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir.

Sveitarstjórn ber að sjá til þess að tiltækur sé farvegur fyrir allan úrgang, sbr. 2. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, sem fellur til hjá einstaklingum og lögaðilum innan sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn skal ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Fyrirkomulag söfnunarinnar skal stuðla að því að markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar þessarar verði náð í sveitarfélaginu, þ.m.t. töluleg markmið um endurvinnslu, endur­nýtingu og samdrátt í urðun.

Sveitarstjórn er ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum og lögaðilum á viðkomandi svæðum. Söfnun heimilisúrgangs í þéttbýli skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila nema aðliggjandi lóðir hafi sameinað söfnun úrgangs skv. heimild í 1. mgr. 10. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp sorpílát í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili og til lögaðila. Staðsetning sorpíláta skal vera þannig að aðgengi að þeim sé gott.

Þrátt fyrir ábyrgð sveitarstjórna, sbr. 4. mgr., takmarkar það ekki möguleika lögaðila til að gera beinan samning við þjónustuaðila um reglulega tæmingu sorpíláta og flutning heimilisúrgangs frá eigin starfsemi.

Sveitarstjórnir skulu sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm og úrgangi úr öðrum hreinsivirkjum þar sem til fellur lífrænn, mengandi eða sóttmengaður úrgangur, sbr. þó 4. mgr. 16. gr. og ákvæði einstakra starfsleyfa.

Sveitarstjórn skal í samráði við heilbrigðisnefnd setja upp sorpílát í nánd við sumarhúsahverfi. Séu fleiri en 20 sumarhús í hverfinu skal staðsetning sorpíláts vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það í leið frá hverfinu. Sorpílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu. Gæta skal að því að aðgangur sé greiður að sorpílátum, m.t.t. tegundar úrgangs.

 

5. gr.

Svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.

Sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, skal semja og staðfesta svæðisáætlun um með­höndlun úrgangs, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upp­lýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta undirbúning fyrir endurnotkun, endur­vinnslu, aðra endur­nýtingu, förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um með­­höndlun úrgangs, stefnu um úrgangsforvarnir og settum tölulegum markmiðum varðandi heimilis­úrgang og lífrænan úrgang.

Í áætluninni skal jafnframt fjalla um úrgangs­forvarnir, s.s. um leiðir til að auka endurnotkun á svæðinu. Í svæðisáætlun skal sveitarstjórn setja sér markmið hvað varðar samdrátt í myndun úrgangs og meðhöndlun úrgangs sem fellur til, einkum heimilisúrgangs sem fer til förgunar eða er nýttur til orkuvinnslu.

Við gerð svæðisáætlana skal nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til þeirrar forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs sem fram kemur í lögum um meðhöndlun úrgangs.

Eftir því sem við á og að teknu tilliti til landfræðilegra aðstæðna og umfangs svæðisins sem áætl­unin tekur til skal a.m.k. eftirfarandi koma fram í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs:

  1. yfirlit yfir tegund, magn og myndunarstaði alls þess úrgangs sem verður til innan svæðis­ins sem áætlunin tekur til, þ.m.t. úrgang frá lögaðilum, hvort sem hann fellur til með reglu­bundnum hætti eða sjaldnar, hvaða úrgangur er líklegt að verði fluttur frá svæð­inu eða til þess og mat á þróun á straumum úrgangs í framtíðinni,
  2. umfjöllun um stöðvar til endurnýtingar eða förgunar sem eru til staðar, þ.m.t. ef við á sérstakt fyrirkomulag vegna olíuúrgangs, spilliefna, úrgangs sem inniheldur verulegt magn af þýðingar­miklum hráefnum eða aðrar tegundir úrgangs sem fjallað er sérstaklega um í lögum og reglugerðum,
  3. mat á gildandi kerfi fyrir söfnun úrgangs, umfjöllun um sérstaka söfnun úrgangs þ.m.t. hvaða úrgangsflokkum er safnað í sérstakri söfnun og hvar innan svæðisins, ráðstafanir til að bæta virkni þess, hvort sveitarstjórn hafi fengið undanþágu frá skyldu til sérstakrar söfnunar og mat á þörfinni fyrir endurbætur á kerfinu,
  4. mat á nauðsyn þess að loka starfandi móttöku- og söfnunarstöðvum sem og þörf á nýjum móttöku- og söfnunarstöðvum, auk mats á fjárfestingaþörf vegna þeirrar innviðauppbygg­ingar,
  5. upplýsingar um hagkvæmt staðarval fyrir stöðvar til endurnýtingar eða förgunar í fram­tíðinni, sé þörf á þeim,
  6. almenn stefna varðandi meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. áætluð tækni og aðferðir til með­höndlunar úrgangs, eða stefna vegna úrgangs sem skapar sérstök vandamál við stjórnun, og
  7. ráðstafanir til að koma í veg fyrir rusl á víðavangi og til að tryggja fullnægjandi hreinsun þess.

Í svæðisáætlunum sveitarfélaga skal gera grein fyrir því hvort tölulegum markmiðum sem sett eru um endurvinnslu heimilisúrgangs og samdrátt í urðun heimilisúrgangs, sbr. 7. gr., sé náð á þeirra svæði. Þá skal gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem sveitarfélagið greip til í þeim tilgangi. Ef markmiðum hefur ekki verið náð skal í svæðisáætlun gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem sveitar­félag hyggst grípa til svo þeim verði náð.

Með tilliti til landfræðilegra aðstæðna og umfangs skipulagssvæðisins geta svæðis­áætl­anir um með­höndlun úrgangs tekið til eftirfarandi:

  1. skipulagsþátta, sem tengjast meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. lýsingu á því hvernig ábyrgð dreifist á opinbera aðila og einkaaðila sem fara með meðhöndlun úrgangs,
  2. beitingar herferða til vitundarvakningar og upplýsingamiðlunar til almennings, lögaðila og annarra handhafa úrgangs, og
  3. aflagðra, mengaðra förgunarstaða og ráðstafana til að lagfæra þá.

 

6. gr.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs.

Sveitarstjórn setur sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu, sbr, ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í samþykkt um meðhöndlun úrgangs skal sveitarstjórn útfæra fyrirkomulag sérstakrar söfnunar, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs. Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um fyrir­komu­lag sorphirðu að öðru leyti, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, heimildir sveitarfélaga til að hafna því að taka á móti úrgangi og hirða ílát, stærð, gerð, stað­setn­ingu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði. Jafnframt er heimilt í slíkri samþykkt að útfæra fyrirkomulag heima­jarðgerðar, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs skal taka mið af svæðisáætlun sveitarfélags um meðhöndlun úrgangs.

 

7. gr.

Töluleg markmið og viðmiðanir.

Endurvinnsla heimilisúrgangs skal að lágmarki vera 50%. Þá skal endurvinnsla heimilisúrgangs að lágmarki vera 55% miðað við þyngd árið 2025, að lágmarki 60% árið 2030 og að lágmarki 65% árið 2035. Við útreikning á hlutfalli endurvinnslu skal telja með úrgang sem fór til undirbúnings fyrir endurnotkun.

Árið 2035 er heimilt að urða að hámarki 10% af þeim heimilisúrgangi sem fellur til.

Lífrænn heimilisúrgangur sem berst til urðunarstaða má að hámarki vera 35% af heildarmagni þess lífræna heimilisúrgangs sem féll til árið 1995.

Lífrænn rekstrarúrgangur sem berst til urðunarstaða má að hámarki vera 35% af heildarmagni þess lífræna rekstrarúrgangs sem féll til árið 1995.

Undirbúningur fyrir endurnotkun, endurvinnsla og önnur efnisendurnýting úrgangs frá bygg­ingar- og niðurrifsstarfsemi, þ.m.t. fylling, en að undanskildum náttúrulegum efniviði, skal að lág­marki vera 70% miðað við þyngd.

Umhverfisstofnun heldur utan um og miðlar upplýsingum um töluleg markmið og viðmiðanir.

Um markmið um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu umbúða­úrgangs, úr sér genginna ökutækja og söfnunarhlutfall færanlegra rafhlaðna og rafgeyma og söfn­unarhlutfall raf- og rafeindatækja vísast til viðeigandi reglugerða þar um.

 

8. gr.

Undanþága frá sérstakri söfnun úrgangs.

Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að veita undanþágu frá ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs um sérstaka söfnun, að uppfylltum a.m.k. einum eftirfarandi stafliða:

  1. Blönduð söfnun tiltekinna tegunda úrgangs hafi ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar þeirra úrgangstegunda og slík söfnun tryggi sambærileg gæði úrgangsins og fæst með sér­stakri söfnun.
    A-lið telst því aðeins fullnægt að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt (að öðrum kosti þarf að safna úrgangstegundum sérstaklega):
    1. Blönduð söfnun hafi ekki neikvæð áhrif á gæði, verð og framboð vara, íhluta eða varahluta sem hægt er að undirbúa fyrir endurnotkun.
    2. Gæði og verð endurunninna hráefna sem hafa verið aðskilin og meðhöndluð í kjölfar blandaðrar söfnunar séu sambærileg eða meiri en þeirra sem koma úr sérstakri söfnun.
    3. Fyrirliggjandi séu staðfestingar, samningar eða áreiðanlegar beiðnir, fyrir kaupum og notum endurunninna hráefna.
    4. Blönduð söfnun rýri hvorki gæði úrgangsins sem hráefnis til endurnýtingar né leiði til aukinna affalla samanborið við sérstaka söfnun.
    5. Söfnunarhlutfall, endurvinnsluhlutfall og kostnaðarhagkvæmni blandaðrar söfnunar þarf að vera sambærileg eða betri, með hliðsjón af undirbúningi fyrir endurnotkun og endur­vinnslu, en hjá sveitarfélögum þar sem aðstæður eru svipaðar.
  2. Sérstök söfnun skili ekki bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, þegar tekið er tillit til heildarumhverfisáhrifa stjórnunar á viðkomandi úrgangsstraumum.
    B-lið telst því aðeins fullnægt að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt (að öðrum kosti þarf að safna úrgangstegundum sérstaklega):
    1. Undanþágu er óskað á öðrum grundvelli en þeim einum að svæði sé afskekkt, fjall­lent eða eyja.
    2. Greining sýni fram á að aðrar útfærslur sérstakrar söfnunar, s.s. grenndargámar eða söfnunarstöðvar, leiði ekki til umhverfisvænni lausnar en blönduð söfnun.
    3. Undanþágan nái eingöngu til afmarkaðs svæðis þar sem sérstök söfnun skilar ekki bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, en ekki til sveitarfélags í heild.
    4. Til grundvallar beiðni um undanþágu liggur viðurkennd lífsferilsgreining skv. staðl­inum ISO 14040 eða annað staðlað mat á umhverfisáhrifum. Matsþættir þeir sem lagðir eru til grundvallar greiningunni skulu vera viðeigandi og fela í sér hugsan­leg stefnuúrræði sem hvetja til breytinga á atferli fólks, s.s. kerfi sem felur í sér raun­álagningu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs ("borgaðu þegar þú hendir"). Þá þarf greiningin að sýna fram á að umhverfislegur ávinningur þess að víkja frá sérstakri söfnun sé umtalsvert meiri en með sérstakri söfnun.
  3. Sérstök söfnun sé ekki tæknilega möguleg.
    C-lið telst því aðeins fullnægt að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt (að öðrum kosti þarf að safna úrgangstegundum sérstaklega):
    1. Umsækjandi sýni fram á að nákvæm greining á mögulegum útfærslum sérstakrar söfnunar, sem rúmast innan laga um meðhöndlun úrgangs, hafi leitt í ljós að þær væru ekki fýsilegar. Slík greining skal innihalda mat á hugsanlegri notkun tækni­nýjunga.
    2. Undanþágan nái eingöngu til afmarkaðs svæðis þar sem sérstök söfnun er ekki tæknilega möguleg vegna aðstæðna, sbr. lið i og ii, en ekki til sveitarfélags í heild.
  4. Sérstök söfnun hafi í för með sér óhóflegan kostnað.
    D-lið telst því aðeins fullnægt að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt (að öðrum kosti þarf að safna úrgangstegundum sérstaklega):
    1. Grundvöllur mats á óhóflegum kostnaði er annar en sá að miðað sé við lág gjöld fyrir urðun eða brennslu úrgangs.
    2. Til grundvallar mati á því hvort sérstök söfnun hafi óhóflegan kostnað í för með sér skal liggja fyrir kostnaðar- og ábatagreining (CBA) sem tekur mið af öllum innri og ytri kostnaði og ábata þar sem m.a. er tekið tillit til allra eftirfarandi atriða:
      1. Rekstrarkostnaðar: s.s. vegna íláta, söfnunar, flutninga, vinnuafls, afskrifta o.fl.
      2. Tekna af endurnýttum úrgangi.
      3. Áhrifa á heilbrigði manna, dýra og umhverfið.
      4. Áhrifa á atvinnustig.
      5. Áhrifa á stjórnsýslu sveitarfélagsins.
      6. Áhrif á tækifæri til rannsókna og þróunar á svæðinu.
      7. Félagslegra áhrifa.
    3. Umsækjandi sýni fram á að nýttar eða kannaðar hafi verið til hlítar þær ráðstafanir sem kveðið er á um í lögum um meðhöndlun úrgangs og hafa áhrif á kostnað, a.m.k. fjár­mögnun framleiðenda og innflytjenda, innheimtu gjalds sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, færslu gjalda á milli úrgangsflokka og heimajarðgerð úr lífúrgangi. Ekki er hægt að sækja um undanþáguna á grundvelli þess að undanþágan nái eingöngu til afmarkaðs svæðis þar sem sérstök söfnun hefði í för með sér óhóflegan kostnað vegna aðstæðna, en ekki til sveitarfélags í heild.

Undanþága frá sérstakri söfnun er veitt að hámarki til sex ára í senn. Sótt skal um undanþágu á rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef Stjórnarráðsins.

 

III. KAFLI

Meðhöndlun úrgangs.

9. gr.

Meginreglur.

Draga skal eins og unnt er úr myndun úrgangs. Stefnt skal að endurnotkun og endurnýtingu hans svo sem kostur er. Beita skal bestu aðgengilegri tækni við meðhöndlun úrgangs.

Allur úrgangur skal færður til viðeigandi meðhöndlunar, annaðhvort beint til endurnýtingar eða á grenndar-, móttöku- eða söfnunarstöð, og þaðan til endurnýtingar eða förgunar eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð þessari, öðrum reglugerðum um úrgang eða samþykktum sveitar­félaga. Allur úrgangur skal meðhöndlaður á viðeigandi hátt áður en til förgunar kemur. Skyldur framleiðanda úrgangs eða handhafa úrgangs til að endurnýta eða farga úrgangi falla að jafnaði ekki niður þó að úrgangur hafi verið fluttur til opinberra aðila eða einkaaðila.

Meðhöndlun úrgangs skal vera með þeim hætti að óþrifnaður og óþægindi stafi ekki af. Við flutning og geymslu úrgangs skal handhafi úrgangs gæta þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi. Hafi úrgangur dreifst eða sé meðhöndlun úrgangs ábótavant að öðru leyti getur heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun, eftir atvikum, krafist þess að viðkomandi aðili hreinsi upp og geri viðeigandi ráðstafanir.

Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.

Óheimilt er að losa úrgang annars staðar en á grenndar-, móttöku- eða söfnunarstöð, eða í sorp­ílát. Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. er heimilt að losa lífúrgang í heimajarðgerð.

Opin brennsla úrgangs er óheimil. Þetta á þó ekki við um skipulagðar brennur, t.d. áramóta­brennur o.þ.h., sem starfsleyfi hefur verið veitt fyrir, sbr. ákvæði reglugerðar um losun frá atvinnu­rekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Úrgangshafa er óheimilt að þynna eða blanda úrgang í þeim eina tilgangi að hann fullnægi viðmiðunum um móttöku úrgangs.

 

10. gr.

Samræmdar merkingar úrgangstegunda.

Við meðhöndlun úrgangs skal, a.m.k. fyrir eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl, spilliefni og blandaðan úrgang, nota íslenska útfærslu á samnorrænum merkingum, sbr. III. viðauka, þar sem hver úrgangstegund hefur sitt merki og sinn einkennislit. Merkingarnar skal nota við alla meðhöndlun úrgangs óháð staðsetningu og án tillits til fjölda íláta, stærðar þeirra eða gerðar að öðru leyti og skal notkunin vera án endurgjalds.

 

11. gr.

Úrgangur frá hreinsun skólps.

Úrgang sem fellur til við hreinsun skólps, s.s. salernisúrgang, síu- eða ristarúrgang og seyru sem ekki verður nýtt, skal flytja til móttökustöðvar sem hefur starfsleyfi.

 

12. gr.

Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.

Tryggja skal að allur sérstakur úrgangur sem fellur til vegna heilbrigðisþjónustu eða vegna húðrofa sé meðhöndlaður á viðunandi hátt og að hann blandist ekki við heimilisúrgang og annan úrgang. Til að koma í veg fyrir smit, eitranir, ofnæmi, óþol, eld, íkveikju- og sprengihættu jónandi geislun og mengun umhverfis skal gæta ítrustu varkárni og nákvæmni við meðhöndlun á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.

Þeir sem hafa undir höndum sérstakan úrgang frá heilbrigðisþjónustu eða stofum sem stunda húðrof eða sjá um geymslu hans, pökkun og undirbúning á flutningi skulu tryggja að meðhöndlun hans sé eins og kveðið er á um í I. viðauka. Stjórnendum heilbrigðisþjónustu og framangreindra stofa ber að tryggja að starfsfólk þeirra sem meðhöndlar sérstakan úrgang frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof og/eða efni og hluti sem verða að slíkum úrgangi fái fræðslu um meðhöndlun hans og upplýsingar um þá ábyrgð sem það ber varðandi hann. Skrá skal þjálfun og fræðslu starfsfólks.

 

13. gr.

Smitandi úrgangur.

Meðhöndlun á úrgangi öðrum en aukaafurðum dýra sem fellur til við aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og öðrum smitandi úrgangi en þeim sem fjallað er um í 12. gr., skal vera á viðunandi hátt og þess gætt að hann blandist ekki við annan úrgang og valdi ekki smiti. Við meðhöndlun á aukaafurðum dýra sem kunna að valda smithættu fer eftir reglugerð um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

 

14. gr.

Um almennan þrifnað utanhúss.

Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.

Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í því skyni er heilbrigðis­nefnd heimilt að:

  1. krefjast lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið,
  2. fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu,
  3. láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni við­vörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum, og
  4. hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.

Sveitarstjórn skal sjá um að hreinsun fari fram á opinberum stöðum, t.d. görðum og torgum.

 

15. gr.

Sorpílát.

Fasteignareigandi skal sjá til þess að fasteign hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu endurnýjuð eftir þörfum.

Sorpílát sem geymd eru utanhúss skulu standa á fastri undirstöðu og vera þannig staðsett að aðgangur að þeim sé greiður og af þeim geti ekki stafað óþægindi eða óþrifnaður fyrir umhverfið.

Ganga skal þannig frá sorpílátum og sorpgeymslum að þær valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal þeim við eftir þörfum og þær hreinsaðar reglulega. Sorpgeymslur má eingöngu nota til geymslu heimilisúrgangs.

Heilbrigðisnefnd getur gefið fyrirmæli um fjölda, staðsetningu, gerð og þrif sorpíláta.

Um staðsetningu sorpíláta vísast til ákvæðis 6. gr. reglugerðar þessarar og að öðru leyti vísast til byggingarreglugerðar og skipulagsreglugerðar.

 

16. gr.

Sértækar skyldur rekstraraðila.

Rekstrarúrgangi sem fellur til við atvinnurekstur skal safna saman og flytja brott þegar í stað eða geyma með þeim hætti að óhollusta eða óþrifnaður stafi ekki af. Rekstrarúrgang skal geyma í hentugum og heilum ílátum þannig gerðum að auðvelt sé að tæma þau. Rekstraraðili ber einnig ábyrgð á nauðsynlegri hreinsun nálægs umhverfis.

Rekstraraðili skal sjá til þess að rekstri hans fylgi nægilega mörg ílát og að þau séu lagfærð og endurnýjuð eftir þörfum. Óheimilt er að veita atvinnurekstri starfsleyfi eða staðfesta skráningu nema fullnægjandi aðstaða sé fyrir hendi til þess að geyma og flokka úrgang.

Rekstraraðilar sem rekstrarúrgangur fellur til hjá skulu sjá um flutning og bera kostnað vegna meðhöndlunar.

Rekstraraðilar húsnæðis eða svæða þar sem salernisúrgangur, ristarúrgangur eða seyra fellur til sjá um alla meðferð og flutning úrgangsins, svo fremi ekki sé í gildi sérstök heilbrigðissamþykkt sem kveður á um annað.

 

IV. KAFLI

Starfsleyfi, skráning atvinnurekstrar, eftirlit og skoðanir.

17. gr.

Starfsleyfi og skráning atvinnurekstrar.

Um útgáfu starfsleyfa og staðfesta skráningu fer samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í starfsleyfi skulu vera ákvæði sem miða að því að vernda umhverfi og heilsu manna. Jafnframt skulu ákvæði starfsleyfis taka mið af aðstæðum á viðkomandi stað.

Til að vernda heilsu fólks skal við staðsetningu söfnunar- og flokkunarmiðstöðva fyrir úrgang taka mið af því að ekki hljótist af óþægindi fyrir íbúa og taka tillit til nálægðar við íbúðarhús, skóla, matvælaframleiðslu- og sölustaði, heilbrigðisþjónustu og aðra dvalarstaði fólks. Leita skal umsagnar starfsleyfisútgefanda eða móttakanda skráningar atvinnureksturs við ákvörðun stað­setn­ingar.

 

18. gr.

Eftirlit.

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar að öðru leyti en skv. ákvæðum 14. gr.

 

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

19. gr.

Aðgangur að upplýsingum.

Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 og lögum um hollustu­hætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

20. gr.

Þvingunarúrræði, málsmeðferð og viðurlög.

Um þvingunarúrræði, málsmeðferð og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

21. gr.

Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/727/ESB frá 6. desember 2013 um að ákvarða snið til að tilkynna upplýsingar varðandi samþykki og umtalsverðar breytingar á úrgangs­stjórnunaráætlunum og áætlunum um forvarnir gegn myndun úrgangs, sem vísað er til í tölulið 32ffe, XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 170/2015 frá 11. júní 2015. Framkvæmdarákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55 frá 17. september 2015, 2015/EES/63/75, bls. 356-360.

 

22. gr.

Innleiðing tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum Evrópusambandsins:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana, sem vísað er til í tölulið 32ff í V. kafla XX. viðauka samn­ingsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 85/2011 þann 1. júlí 2011.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang, sem vísað er til í tölulið 32ff í V. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eiginlegu EES-nefndarinnar nr. 318/2021 þann 29. október 2021.
  3. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/727/ESB frá 6. desember 2013 um að ákvarða snið til að tilkynna upplýsingar varðandi samþykki og umtalsverðar breytingar á úrgangsstjórnunaráætlunum og áætlunum um forvarnir gegn myndun úrgangs.
  4. D-lið 4. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2018/850 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs, sem vísað er til í tölulið 32d í V. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2022 þann 18. mars 2022.
  5. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2019/1004 frá 7. júní 2019 um reglur, reiknireglur, sann­prófun og skýrslugjöf um úrgang sem mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB um úrgang og niðurfelling ákvörðunar C(2012) 2384.

 

23. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í a-, b-, c-, e-, g-, k-, l-, n-, bb- og cc-liðum 43. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 4. og 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun og aðra hlutaðeigandi haghafa. Reglugerðin tekur þegar gildi og fellur reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, ásamt síðari breyt­ingum, þar með úr gildi.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 10. júlí 2023.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Halla Sigrún Sigurðardóttir.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica