1. gr.
Við 6. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Óheimilt er að setja á markað, selja hér á landi eða taka til eigin nota í atvinnuskyni, raf- og rafeindatæki sem falla undir þessa reglugerð, nema framleiðandi og innflytjandi þess sé aðili að skilakerfi.
Tollafgreiðsla raf- og rafeindatækis sem fellur undir þessa reglugerð er háð því að innflytjandi og framleiðandi þess sé aðili að skilakerfi. Framleiðendur og innflytjendur skulu við innflutning raf- og rafeindatækja tilgreina leyfisnúmer sitt, sbr. 3. mgr. 12. gr., í þar til gerðan reit á aðflutningsskýrslu. Sá, sem ekki er skylt að vera aðili að skilakerfi, skal við innflutning raf- og rafeindatækis tilgreina leyfistilvísun, sbr. 3. mgr. 12. gr., í þar til gerðan reit á aðflutningsskýrslu til að lýsa yfir að raf- og rafeindatækið sé ekki flutt inn í atvinnuskyni. Við innflutning vöru, sem fellur ekki undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki, skal tilgreina leyfistilvísun, sbr. 3. mgr. 12. gr., í þar til gerðan reit á aðflutningsskýrslu til að lýsa yfir að umrædd vara falli ekki undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki.
2. gr.
12. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja ber að skrá sig hjá Umhverfisstofnun a.m.k. 15 dögum áður en vara, sem tilgreind er í I. viðauka A, B og C, er sett á markað, seld eða tekin til eigin nota hér á landi. Skilakerfi er heimilt að skrá þá framleiðendur og innflytjendur sem aðilar eru að skilakerfinu hjá Umhverfisstofnun og skal í því skyni láta Umhverfisstofnun í té afrit af aðildarsamningi milli þess og framleiðanda og innflytjanda. Skilakerfi skal tilkynna Umhverfisstofnun án tafar þegar framleiðandi og innflytjandi er ekki lengur aðili að skilakerfinu.
Umhverfisstofnun ber ábyrgð á skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.
Umhverfisstofnun skal halda skrá með upplýsingum um alla framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja þar sem fyrir hvern einstakan framleiðanda og innflytjanda koma fram upplýsingar um heiti, aðsetur og kennitölu, ásamt upplýsingum um skilakerfi sem hann er aðili að. Auk þess skal skráin hafa upplýsingar um hvaða raf- og rafeindatæki hver framleiðandi og innflytjandi flytur inn í samræmi við flokkun í I. viðauka A. Umhverfisstofnun skal úthluta framleiðanda og innflytjanda leyfisnúmeri við skráningu í skráningarkerfið, sbr. 3. mgr. 6. gr. Framleiðendur og innflytjendur og sá, sem ekki er skylt að vera aðili að skilakerfi, skulu nota almennu leyfistilvísunina "EKKIRAF" til að lýsa yfir að vara sem verið er að flytja inn til landsins falli ekki undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki með því að tilgreina leyfistilvísunina í þar til gerðan reit á aðflutningsskýrslu. Sá, sem ekki er skylt að vera aðili að skilakerfi, skal nota almennu leyfistilvísunina "EINKANT" til að lýsa yfir að raf- og rafeindatækið sem verið er að flytja inn til landsins sé ekki flutt inn í atvinnuskyni með því að tilgreina leyfistilvísunina í þar til gerðan reit á aðflutningsskýrslu.
Skilakerfi skulu skila inn til stýrinefndar eftirfarandi gögnum til skráningarkerfis framleiðenda og innflytjenda fyrir 1. júní ár hvert fyrir árið á undan:
Stýrinefnd skilar samantekt sömu upplýsinga til Umhverfisstofnunar fyrir 1. nóvember ár hvert fyrir árið á undan.
3. gr.
Á eftir I. viðauka B við reglugerðina kemur nýr viðauki, I. viðauki C, sem birtur er með reglugerð þessari.
4. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 36. gr. og 39. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum.
Reglugerðin öðlast gildi 1. september 2013.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 24. apríl 2013.
Svandís Svavarsdóttir.
Stefán Thors.
VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)