Samgönguráðuneyti

464/2006

Reglugerð um fjarskiptaráð. - Brottfallin

1. gr.
Hlutverk.

Samgönguráðherra skipar fjarskiptaráð til þriggja ára í senn og er hlutverk þess m.a.:

  1. að vera samráðsvettvangur hagsmunaaðila um bætt fjarskipti,
  2. að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um fjarskiptamál,
  3. að veita ráðuneyti fjarskiptamála umsagnir um fjarskiptamál, breytingar á löggjöf, stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda og fjarskiptaáætlun,
  4. að beita sér fyrir samvinnu við þá aðila, félög og samtök er um fjarskiptamál og öryggi fjalla,
  5. annað sem ráðherra felur því.

2. gr.
Skipun ráðsins.

Samgönguráðherra skipar tvo fulltrúa í fjarskiptaráð án tilnefningar. Skal annar vera formaður en hinn varaformaður. Skipunartími þeirra skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.

Samtök atvinnulífsins eiga rétt á að tilnefna þrjá fulltrúa í ráðið sem hefur þekkingu á fjarskiptamálum. Enn fremur eiga eftirgreindir aðilar rétt á að tilnefna einn fulltrúa í fjarskiptaráð sem hefur þekkingu á fjarskiptamálum:

      INTER - Samtök aðila er veita Internetþjónustu

      Neytendasamtökin

      Samband íslenskra sveitarfélaga

      Skýrslutæknifélag Íslands

Fulltrúi samgönguráðuneytisins sem fer með fjarskiptamál situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt, ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Ráðið getur fjallað um einstök mál sem stofnunin óskar eftir umfjöllun um.

3. gr.
Fundarboðun o.fl.

Formaður hefur með höndum yfirstjórn á starfsemi ráðsins, boðar til funda og undirbýr dagskrá. Boðað skal til funda eftir þörfum en þó ekki sjaldnar en á 6 mánaða fresti. Heimilt er að boða til funda með tölvupósti á tölvupóstfang sem ráðsmenn tiltaka. Fundi skal boða með þriggja daga fyrirvara sé þess kostur. Formaður stýrir fundum samkvæmt dagskrá og undirbýr þá ásamt starfsmanni sem ráðuneytið leggur til. Fundi skal ætíð halda ef fleiri en einn ráðsmaður óskar þess eða telji formaður þess þörf. Ef ósk berst frá ráðsmanni um fund skal boðað til hans innan viku frá því að ósk berst formanni og skal fundurinn haldinn svo fljótt sem verða má.

Fundir skulu að öllu jöfnu haldnir í samgönguráðuneytinu. Fundur er lögmætur ef réttilega er til hans boðað og meirihluti stjórnarmanna sækir hann. Hver stjórnarmaður fer með eitt atkvæði á fundum. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu máls. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Meiriháttar ákvarðanir má ekki taka nema allir ráðsmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið, ef þess er nokkur kostur. Óski ráðsmaður eftir frestun á afgreiðslu máls til annars fundar er rétt að verða við þeirri beiðni, enda þoli málið slíka bið.

Ráðið setur sér að öðru leyti nánari reglur um starfsemina.

Formaður kemur fram fyrir hönd stjórnar við kynningu ákvarðana hennar og mála sem hún hefur til meðferðar. Stjórnarmenn skulu vísa fyrirspurnum fjölmiðla til hans.

4. gr.
Fundargerðir.

Halda skal fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum sem skal staðfest í upphafi næsta fundar og undirrituð af formanni. Bóka skal hvaða stjórnarmenn eru mættir, hvað sé á dagskrá fundarins og hvaða ákvarðanir hafa verið teknar. Þeir sem greiða atkvæði gegn ákvörðunum eiga rétt á því að fá stutta lýsingu á afstöðu sinni bókaða í fundargerð og hana skal svo fljótt sem auðið er senda til nefndarmanna og samgönguráðherra. Stjórnarmenn eru bundnir þagnarskyldu um það sem fram fer á stjórnarfundum.

5. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 7. mgr. 2. gr. fjarskiptalaga, nr. 81 26. mars 2003, sbr. lög nr. 78 24. maí 2005, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu 10. maí 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica