1. gr.
Fiskveiðiárin 2006/2007 til og með 2009/2010 hefur sjávarútvegsráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema árlega 500 lestum af óslægðum þorski sem skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilraununum og birtir niðurstöður um gang þeirra. Úthlutun fer fram einu sinni á ári og gildir til eins fiskveiðiárs í senn. Aflaheimildirnar eru ekki framseljanlegar, hvorki til annarra eldisfyrirtækja né til almennra veiða.
2. gr.
Hafrannsóknastofnunin leggur mat á fræðilegt framlag eldistilraunanna og tekur tillit til gildis þeirra sem þáttar í víðtækum rannsóknum á áframeldi á þorski sem miða m.a. að því að kanna möguleika á þorskeldi við mismunandi umhverfisaðstæður við landið. Einnig skal miðað við að tilraunirnar taki til þátta sem dragi úr afföllum við föngun fisks og flutning hans í eldiskvíar og við eldi, svo og að auka vöxt og holdgæði eldisfisks.
3. gr.
Sjávarútvegsráðherra úthlutar aflaheimildunum að fengnum tillögum frá AVS - rannsóknasjóði í sjávarútvegi og skal við ákvörðun um úthlutun taka tillit til aðstöðu umsækjenda til að stunda áframeldi, þ.e. stærð og gerð kvía, frágang þeirra og staðsetningu, ásamt fyrri eldisreynslu, vísindalegs framlags og framtíðaráætlana umsækjenda. Ráðherra getur óskað upplýsinga um aðrar aflaheimildir sem umsækjandi hefur til ráðstöfunar vegna áframeldisins og tekið tillit til þess við úthlutunina þegar hann leggur mat á hæfni umsækjenda til að takast á við viðfangsefnið.
4. gr.
Handhöfum aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt reglugerðinni er heimilt að flytja þær einu sinni á milli fiskveiðiára en eldri heimildir skulu innkallaðar af ráðuneytinu og þeim endurúthlutað í samræmi við þá reglu að þau fyrirtæki sem lokið hafa að fullu að fanga upp í eldisaflaheimildir sínar fái, samkvæmt umsókn þar um, viðbótarheimildir sem nema að hámarki einum þriðja af upphaflegri úthlutun til fyrirtækisins fyrir það fiskveiðiár. Heimilt skal að úthluta fyrirtækjum oftar en einu sinni slíkum viðbótarheimildum innan hvers fiskveiðiárs. Jafnframt er heimilt að úthluta af téðum aflaheimildum til aðila sem áður hafa sótt um aflaheimildir við reglulega úthlutun en uppfylltu þá ekki sett skilyrði en hafa nú bætt þar úr og uppfylla nú allar almennar kröfur, s.s. um starfs- og rekstrarleyfi til þorskeldis, samanber og ákvæði 3. gr. reglugerðar þessarar. Geta þessir aðilar hver um sig fengið að hámarki tíu tonna úthlutun og í framhaldi af því einn þriðja af því magni. Allar úthlutanir á aflaheimildum til áframeldis skulu vera í heilum tonnum.
5. gr.
Fiskistofa sér um framkvæmd úthlutunar aflaheimilda til fiskeldisfyrirtækja sem við úthlutun skulu greiða veiðigjald í samræmi við ákvæði V. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Fiskistofa veitir jafnframt leyfi til áframeldisins og hefur eftirlit með framkvæmd þess, skv. ákvæðum laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar með síðari breytingum og reglugerð 238/2003, um eldi nytjastofna sjávar með síðari breytingum og setur nánari skilyrði um framkvæmd eldisins. Fiskiskip sem eldisfyrirtæki notar til að fanga fisk skal hafa almennt leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni og skal við það verk og aðra þætti starfseminnar hlíta ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett skv. ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum og öðlast þegar gildi og fellur þá um leið reglugerð nr. 464/2002 um sama efni úr gildi. Brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar varðar refsingum samkvæmt ákvæðum téðra laga eða laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar með síðari breytingum.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 30. mars 2007.
Einar K. Guðfinnsson.
Kristinn Helgason.