Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

321/2008

Reglugerð um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til íslenskra skipa sem veiðar stunda á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), utan lögsögu ríkja. Þá tekur reglugerðin til veiða innan lögsögu ríkja, lúti veiðar á viðkomandi tegundum stjórn NEAFC um leyfilegan hámarksafla. Loks gildir reglugerðin um tilkynningarskyldu íslenskra skipa til hafnríkja, hafi þau stundað veiðar innan eða utan lögsögu og fryst afla eða tekið við frystum afla sem veiddur er á samningssvæði NEAFC og landi aflanum í erlendri höfn. Reglugerð þessi lýtur að framkvæmd samkomulags milli aðildarríkjanna frá 20. nóvember 1998, um eftirlit með veiðum á samningssvæðinu.

2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að stunda veiðar á samningssvæði NEAFC, sbr. 1. gr., án sérstaks leyfis Fiskistofu.

3. gr.

Auk þess að halda afladagbók samkvæmt almennum reglum skal halda sérstaka afladagbók um veiðar á NEAFC-svæðinu, sem Fiskistofa leggur til. Afladagbókin skal innbundin með númeruðum síðum. Skal Fiskistofa hafa yfirlit yfir hvaða síðunúmer eru í bókum sem ætlaðar eru til notkunar í hverju skipi. Óheimilt er að fjarlægja síður úr bókum.

Í afladagbókina skal færa eftirfarandi atriði:

  1. Kallmerki.
  2. Nafn skips.
  3. Skipaskrárnúmer.
  4. Umdæmisnúmer.

Við hverja komu inn á samningssvæði skal skrá:

  1. Dagsetningu.
  2. Tíma.
  3. Staðsetningu í lengd og breidd.
  4. Heildarafla upp úr sjó um borð eftir magni og tegundum.

Daglega skal skrá:

  1. Dagsetningu.
  2. Veiðarfæri.
  3. Fjölda toga eða kasta.
  4. Veiðisvæði samkvæmt reitakerfi ICES.
  5. Dagsafla upp úr sjó eftir magni og tegundum.
  6. Heildarafla upp úr sjó um borð eftir magni og tegundum.

Við hverja brottför af samningssvæðinu skal skrá:

  1. Dagsetningu.
  2. Tíma.
  3. Staðsetningu í lengd og breidd.
  4. Heildarafla upp úr sjó um borð eftir magni og tegundum.

Ef afli er unninn um borð, skal skrá daglega:

  1. Magn unninna afurða eftir tegundum og vinnsluaðferð/pakkningum.
  2. Heildarmagn unninna afurða eftir tegundum og vinnsluaðferð/pakkningum. Þegar tilkynningar eru sendar sbr. 6. gr. skal skrá dagsetningu og tíma þegar sent er og strandstöð sem sent er um, sé tilkynningin ekki send með öðrum hætti.

Allar færslur skv. þessari grein skulu vera í samræmi við leiðbeiningar í bókinni.

4. gr.

Allar tilkynningar sem skylt er að senda samkvæmt reglugerð þessari skal senda á tölvutæku formi sameiginlegri eftirlitsstöð Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu sem miðlar gögnum til þeirra stofnana sem við á. Í reglugerð þessari er hún nefnd "eftirlitsstöð".

Tilkynningar skulu sendar með þeim hætti sem lýst er í viðauka I (uppbygging skeyta).

5. gr.

Öll skip sem stunda veiðar á samningssvæðinu skulu búin fjarskiptabúnaði, sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til eftirlitsstöðvarinnar um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að hefja veiðiferð fyrr en eftirlitsstöðin sem staðfesti eftir því sem við á hverju sinni um virkni búnaðarins. Skulu sendingar samkvæmt ofangreindu hefjast þegar viðkomandi skip lætur úr höfn og skal þeim ekki ljúka fyrr en skipið kemur til hafnar að nýju til löndunar afla.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga skv. 1. mgr. bilar, skal gert við hann svo fljótt sem mögulegt er, þó eigi síðar en að 30 dögum liðnum. Þar til búnaðurinn verður kominn í lag skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á 6 klukkustunda fresti til eftirlitsstöðvarinnar. Ennfremur skal tilkynna þegar skipið hefur veiðar og lýkur þeim.

6. gr.

Öll skip sem veiðar stunda á samningssvæðinu skulu senda eftirgreindar tilkynningar til eftirlitsstöðvarinnar:

Komutilkynning: Skylt er skipstjóra skips að tilkynna til eftirlitsstöðvarinnar með ekki meira en 12 klukkustunda og að minnsta kosti 2 klukkustunda fyrirvara að það fari inn á viðkomandi samningssvæði til veiða.

Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COE" sem komutilkynning.
  4. Kóði fyrir það veiðisvæði sem fara á inn á: "NEA" fyrir NEAFC-samningssvæðið.
  5. Kallmerki skipsins.
  6. Númer veiðiferðar.
  7. Nafn skipsins.
  8. Skipaskrárnúmer.
  9. Umdæmisnúmer.
  10. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum.
  11. Áætlað aflamagn um borð í kg, fært að næstu 100 kg miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
  12. Dagsetning og tími.

Um leið og skipið fer inn á samningssvæðið skal senda til eftirlitsstöðvarinnar:

Tilkynningu um staðsetning: Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "POS" sem tilkynning um staðsetningu.
  4. Kóði fyrir það veiðisvæði sem fara á inn á: "NEA" fyrir NEAFC-samningssvæðið.
  5. Kallmerki skipsins.
  6. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum.
  7. Dagsetning og tími.

Aflatilkynning: Hvern mánudag skal tilkynna eftirlitsstöðinni um heildarafla síðustu viku, þ.e. frá upphafi síðasta mánudags til loka síðasta sunnudags, miðað við afla upp úr sjó, sundurgreindan eftir tegundum. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "CAT" sem aflatilkynning.
  4. Kóði fyrir það veiðisvæði sem aflatilkynningin á við: "NEA" fyrir NEAFC-samnings­svæðið.
  5. Kallmerki skipsins.
  6. Númer veiðiferðar.
  7. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum (þarf ekki ef skipið er í sjálf­virku gervihnattaeftirliti).
  8. Vikuaflamagn í kg, fært að næstu 100 kg miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
  9. Fjöldi veiðidaga frá upphafi veiða eða frá síðustu aflatilkynningu.
  10. Dagsetning og tími.

Lokatilkynning: Þegar veiðiskip yfirgefur samningssvæðið skal það tilkynnt eftirlitsstöðinni með ekki meiri en 8 klukkustunda og að minnsta kosti 2 klukkustunda fyrirvara. Jafnframt skal í tilkynningu tilgreindur áætlaður heildarafli frá því að veiðar hófust, eða frá síðustu viku aflatilkynningu miðað við afla úr sjó, aðgreindan eftir tegundum og einnig löndunarhöfn. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COX" sem lokatilkynning.
  4. Kóði fyrir það veiðisvæði sem aflatilkynningin á við: "NEA" fyrir NEAFC-samnings­svæðið.
  5. Kallmerki skipsins.
  6. Númer veiðiferðar.
  7. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum (þarf ekki ef skipið er í sjálf­virku gervihnattaeftirliti).
  8. Vikuaflamagn í kg, fært að næstu 100 kg miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
  9. Fjöldi veiðidaga frá upphafi veiða eða frá síðustu aflatilkynningu.
  10. Löndunarhöfn.
  11. Dagsetning og tími.

Um leið og skipið fer út af samningssvæðinu skal senda til eftirlitsstöðvarinnar:

Tilkynningu um staðsetningu: Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "POS" sem tilkynning um staðsetningu.
  4. Kóði fyrir það veiðisvæði sem skipið fer af: "NEA" fyrir NEAFC-samningssvæðið.
  5. Kallmerki skipsins.
  6. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum.
  7. Dagsetning og tími.

Varðandi nánari skráningu upplýsinga og tilkynninga samkvæmt þessari grein vísast til viðauka II við reglugerð þessa.

7. gr.

Um vigtun afla gilda ákvæði reglugerðar nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingu. Óheimilt er að flytja óvigtaðan afla um borð í flutningaskip eða önnur veiðiskip. Heimilt er þó skipum sem stunda veiðar á uppsjávar­tegundum, að miðla afla úr veiðarfærum milli veiðiskipa í því skyni að koma í veg fyrir að fiski sé sleppt dauðum úr veiðarfærum.

8. gr.

Skylt er skipstjórum íslenskra skipa, sem heimild hafa til löndunar erlendis og ætla að landa frystum afla eða afurðum í erlendri höfn að tilkynna þar til bæru yfirvaldi hafnríkis með minnst 3 virkra daga fyrirvara um komu sína til hafnar. Tilkynningar skulu sendar á eyðublöðum NEAFC fyrir hafnríkiseftirlit (Port State Control Forms), PSC1 eða PSC2, eftir því sem við á sem fást á heimasíðu NEAFC: www.neafc.org.

9. gr.

Skylt er skipstjórum skipa sem stunda veiðar á samningssvæðinu eða hafa stundað veiðar þar, að veita aðstoð sína til þess að eftirlitsmenn samningsríkja NEAFC, sem sýnt geta fram á með skilríkjum að þeir séu til þess bærir, geti komist um borð í veiðiskip sé eftir því leitað.

Er skipstjóra viðkomandi skips skylt að sjá til þess að eftirlitsmönnum sé gert kleift að komast um borð með skjótum og öruggum hætti og skal vera til staðar nauðsynlegur búnaður sem tryggir það.

Skipstjórum er skylt að veita eftirlitsmönnum endurgjaldslaust aðbúnað, starfsaðstöðu og aðstoð sem þeim er nauðsynleg í starfi sínu, m.a. greiðan aðgang að fjarskiptatækjum, staðsetningartækjum og kortum.

Eftirlitsmönnum skal leyft að skoða og mæla veiðarfæri skipsins og afla til að ganga úr skugga um að farið sé eftir reglum þeim er NEAFC hefur sett. Þá skal eftirlitsmönnum gert kleift að skoða skjöl skipsins, skrifa í þau athugasemdir sínar, m.a. um meint brot og gera skýrslu um skoðunina.

10. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út á grundvelli hennar, skulu varða viðurlögum samkvæmt III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum og VI. kafla laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum og lögum nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 447, 30. júní 1999, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), með síðari breytingum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 3. apríl 2008.

F. h. r.

Steinar Ingi Matthíasson.

Þórður Eyþórsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica