1. gr.
Smáfiskaskilja er útbúnaður, sem komið er fyrir í togveiðarfærum í þeim tilgangi að flokka fisk eftir stærð í vörpunni, þannig að smærri fiskur skiljist lifandi úr vörpunni. Smáfiskaskilja skal ekki hafa áhrif á uppsetningu og eiginleika vörpunnar að öðru leyti.
2. gr.
Bil milli rimla í smáfiskaskiljum skal vera a.m.k. 55 mm. Þó getur ráðherra, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, heimilað notkun á skiljum með 50 mm rimlabili og meira við ýsuveiðar á tilteknum svæðum. Í viðaukum við reglugerð þessa skal birta hvaða gerðir smáfiskaskilja eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni.
3. gr.
Ef togveiðar á ákveðnum svæðum eru í skyndilokunum eða reglugerðum, sem gefnar eru út með stoð í lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin smáfiskaskilju, skal eingöngu nota þær gerðir skilja, sem ráðuneytið hefur viðurkennt og lýst er í viðauka með reglugerð þessari og með því rimlabili sem áskilið er.
4. gr.
Ef í skyndilokunum eða reglugerðum er áskilin notkun á smáfiskaskiljum, sbr. 3. gr., er þó heimilt, sé poki vörpunnar án pólskrar klæðningar og a.m.k. 8 metra langur og möskvastærð í honum að lágmarki 155 mm (að innanmáli), að stunda veiðar á viðkomandi svæði án smáfiskaskilju.
5. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk samkvæmt ákvæðum 20. gr. laga nr. 79/1997.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til að öðlast gildi 1. september 2006. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 805, 28. október 2003, um gerð og útbúnað smáfiskaskilju ásamt viðaukum.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 28. ágúst 2006.
F. h. r.
Árni Múli Jónasson.
Þórður Eyþórsson.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)