Sjávarútvegsráðuneyti

805/2003

Reglugerð um gerð og útbúnað smáfiskaskilju. - Brottfallin

805/2003

REGLUGERÐ
um gerð og útbúnað smáfiskaskilju.

1. gr.

Smáfiskaskilja er útbúnaður, sem komið er fyrir í togveiðarfærum í þeim tilgangi að flokka fisk eftir stærð í vörpunni, þannig að smærri fiskur skiljist lifandi úr vörpunni. Smáfiskaskilja skal ekki hafa áhrif á uppsetningu og eiginleika vörpunnar að öðru leyti.


2. gr.

Bil milli rimla í smáfiskaskiljum skal vera a.m.k. 55 mm. Þó getur ráðherra, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, heimilað notkun á skiljum með 50 mm rimlabili og meira við ýsuveiðar á tilteknum svæðum. Í viðaukum við reglugerð þessa skal birta hvaða gerðir smáfiskaskilja eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni.


3. gr.

Ef togveiðar á ákveðnum svæðum eru í skyndilokunum eða reglugerðum, sem gefnar eru út með stoð í lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin smáfiskaskilju, skal eingöngu nota þær gerðir skilja, sem ráðuneytið hefur viðurkennt og lýst er í viðauka með reglugerð þessari og með því rimlabili sem áskilið er.


4. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk samkvæmt ákvæðum 20. gr. laga nr. 79/1997.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til að öðlast gildi 1. nóvember 2003. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 278, 4. apríl 2001, um gerð og útbúnað smáfiskaskilju ásamt viðaukum.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 28. október 2003.

Árni M. Mathiesen.
Þórður Eyþórsson.


VIÐAUKI 1


Tegund skilju

SORT-X.


Lýsing á skilju.
SORT-X skilja er gerð úr þremur stálgrindum, tveimur með áskildu rimlabili sbr. 2. gr. og einni svokallaðri stoppgrind, sem er klædd með segldúk (PVC-dúk). Grindunum er komið fyrir í nethólki þar sem grindurnar eru saumaðar í hver á eftir annarri og koma í staðinn fyrir efra byrði nethólksins. Í nethólknum er grindunum komið fyrir aftast, þannig að framan við grindurnar er framlenging. SORT-X skiljan er sett í vörpuna milli belgs og poka.

Grindurnar eru úr ryðfríu stáli. Rimlar grindanna liggja samsíða belg vörpunnar. Aftasta grindin er klædd segldúk. Fremri jaðar miðgrindarinnar er festur við afturjaðar fremstu grindarinnar, og aftasta grindin síðan við miðgrindina. Við jaðra grindanna eru festar flotkúlur til að vega á móti þyngd skiljunnar í sjó. Til að tryggja að skiljan dragist klár eru keðjur frá fremra horni í aftara horn grindanna báðum megin. Á efra byrði belgsins er allt net ofan við grindurnar fjarlægt til að hleypa fiski út.


Ísetning skilju.
Ísetning ef notuð er SORT-X skilja þar sem stærð grindanna er eftirfarandi:

Fremsta grind: 1500 x 1167 mm
Miðgrind: 1200 x 1167 mm
Aftasta grind: 1800 x 1167 mm

Mesta lengd stagkeðja skal vera: efri 436 cm (2 stk.), neðri 278 cm (2 stk.).

Sá hluti nethólksins, sem grindurnar eru festar í, er úr tvöföldu neti og er 114 upptökur að ummáli og 39,5 síður að lengd. Lágmarksmöskvastærð, miðað við innanmál, skal vera 135 mm.

Framan við þann hluta, sem grindurnar eru saumaðar í, skal vera 9,5 metra langur nethólkur úr tvöföldu neti. Þessi nethólkur er víðastur fremst og mjókkar síðan aftur að þeim hluta, sem grindurnar eru saumaðar í. Fremst er ummál nethólksins 154 upptökur en fer niður í 114 upptökur á 41,5 síðum. Síðan kemur 20,5 síðna hluti þar sem ummálið er 114 upptökur.

Ísetning ef notuð er SORT-X skilja þar sem stærð grindanna er eftirfarandi:

Fremsta grind: 1000 x 1167 mm
Miðgrind: 750 x 1167 mm
Aftasta grind: 1000 x 1167 mm

Mesta lengd stagkeðja skal vera: efri 269,5 cm (2 stk.), neðri 170 cm (2 stk.).

Notað er net með 135 mm möskvastærð að innanmáli.

Sá hluti nethólksins, sem grindurnar eru festar í, er úr tvöföldu neti og er 112 upptökur að ummáli og 26 síður að lengd.

Framan við þann hluta, sem grindurnar eru saumaðar í, skal vera 7,5 metra langur nethólkur úr einföldu neti. Þessi nethólkur er víðastur fremst og mjókkar síðan aftur að þeim hluta, sem grindurnar eru saumaðar í. Fremst er ummál nethólksins 144 upptökur en fer niður í 116 upptökur á 53,5 síðum.



VIÐAUKI 2


Tegund skilju

SORT-V.


Lýsing á skilju.
SORT-V skilja er gerð úr einni stálgrind ("einskiljukerfi") með áskildu rimlabili sbr. 2. gr. Grindinni er komið fyrir í nethólki með lyftineti framan við grind og leiðarneti fyrir aftan. Framlenging er á milli belgs vörpunnar og nethólksins, þ.e. mátstykki sem skorið er að hólknum. SORT-V skiljan er sett í vörpuna milli belgs og poka.

Grindin er gerð úr ryðfríu stáli og eru rimlar hennar samsíða belg vörpunnar. Til þess að vega upp á móti þyngd skiljunnar í sjó eru festar 200 mm flotkúlur (17 stk.) á efri grindarbrún og netið umhverfis.


Ísetning skilju.
Grindin er 1750 x 1234 mm að stærð. Ytri mál eru stöðluð þannig að einfalt er að skipta um grindur með mismunandi rimlabili.

Nethólkurinn sem lyftinet, grind og leiðarnet er fest í er úr tvöföldu garni (6 mm). Hann er 60 möskva langur, með yfir- og undirbyrði sem eru 52 möskvar á upptökum. Möskvastærð er 135 mm að innanmáli.

Lyftinetið framan við grind er sniðið úr 3 mm garni með hámarksmöskvastærð 60 mm og undir fremri hluta þess eru 200 mm flotkúlur (5 stk.).

Leiðarnet aftan við grindina er 2800 mm langt úr 3 mm garni með sömu möskvastærð og lyftinetið en að hámarki 60 mm.

Til þess að viðhalda sama halla á skiljunni allan togtímann eða 28°- 29° skal festa stagkeðjur við skiljuna. Stagkeðjurnar skulu ekki vera lengri en 415 cm langar og eiga að liggja frá fremri hornum grindarinnar aftur að enda hliðarleysa nethólks skiljunnar.



VIÐAUKI 3


Tegund skilju

Mjúkskilja (Flexirist).


Lýsing á skilju.
Skiljan er gerð úr tveimur grindum og tveimur leiðurum (leiðinet), sem komið er fyrir í sívölu skiljuneti á milli poka og belgs. Framhlið leiðinets er fest við afturenda á grindum (myndir 3 og 4). Afturendi leiðinets er festur við afturhluta á útskornu opi á viðkomandi byrði (mynd 4). Hliðar leiðinets eru festar við skiljunetið eins og sýnt er á mynd 3. Grindurnar eru gerðar úr svörtum nælonrimlum (polyamíð) og gúmmíi. Framhluti grinda er festur í framenda á útskornu opi á hvoru byrði og í leiðinet að aftan. Miðja á hvorri grind skal fest í leisi. Grindur festast í hólk með bensli, dragböndum eða svipuðum hætti (mynd 3).

Setja má allt að þrjár flotkúlur, 8" (200 mm) í þvermál, á leisi á hvorri hlið skiljunetsins til að jafna flot skiljunnar í sjó.

Ekki er leyfilegt að festa slitmottu eða annað efni við undirbyrði á skiljunetið þar sem grindurnar eru staðsettar.


Uppsetning skilju.

a) Grindurnar skulu vera settar upp eins og sýnt er á mynd 2. Lágmarkslengd grinda skal vera 1.500 mm (mælt á rimli) og lágmarksbreidd 955 mm (mælt á þverbandi). Þvermál á hverjum einstökum rimli skal vera að hámarki 20,5 mm. Bil milli rimla skal vera samkvæmt 2. gr.
b) Skiljunetið sem grindur og leiðinet eru fest í skal vera með 135 mm möskvastærð að innanmáli og sett upp eins og sýnt er á mynd 1. Skiljunetið er sett saman af sívölum hluta sem er skorinn á síðu. Séu tengingar við vörpuna fleiri en 50 upptökur er skáskorinn hluti á báðum endum. Lengd skáskorna hlutans ræðst af skurði sem skal vera 1 síða og 1 leggur (1S1L) upp að þeim upptökufjölda sem óskað er. Þetta gerir lengd upp á 15 síður fyrir skáskorna hlutann miðað við 60 upptökur í byrði. Skiljunetið skal hafa ummálið 100 upptökur (2 x 50 upptökur/byrði) og lágmarkslengd upp á 75 síður.
c) Leiðinetið skal sett upp eins og sýnt er á mynd 3. Möskvastærð í leiðineti skal vera að hámarki 60 mm. Breidd netsins skal vera 60 upptökur í strekktu neti, alls 3.600 mm. Í fram- og afturhluta leiðinetsins má setja lengingu til festingar við grind/skiljunet. Lengingin má vera upp að 2 síðum að lengd og upptökufjöldi sem hentar best (möskvastærðin má ekki fara yfir 140 mm). Lengd á leiðineti, að meðtöldum lengingum, skal vera jöfn lengdar á strekktu neti á uppsetnum stað með 10% slaka. Netskurður á langhliðum leiðinets skal falla sem best að skiljunetinu.
d) Skera skal stykki úr skiljunetinu í hvoru byrði eins og sýnt er á mynd 1. Allt net skal fjarlægt. Loks skal gert leisi með 2 upptökum á langhlið gluggans.


Skýringarmyndir við viðauka 3.
Mynd 1.

Skýringarmynd á samsetningu skiljunets við belg og poka. Heimilt er að breyta skáskornum endum skiljunetsins í síðuskurð, ef viðkomandi belgur og poki eru með 50 upptökur í yfir- og undirbyrði.

Mynd 2.

Stöðluð grind sem sett skal í skiljunet (með réttu rimlabili miðað við veiðisvæði).

Mynd 3.

Staðsetning grinda og leiðineta í skiljuneti.

Mynd 4.

Afstöðumynd sem sýnir útlit skiljunnar í notkun.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica